Aðalráðstefna
Bræður og systur í Kristi
Aðalráðstefna október 2023


Bræður og systur í Kristi

Megum við njóta betur hins andlega skyldleika sem á milli okkar er og meta meira þá mismunandi eiginleika og fjölbreyttu gjafir sem við öll höfum.

Kæru vinir, við höfum átt frábæra ráðstefnuhluta í dag. Við höfum öll fundið fyrir anda og kærleika Drottins gegnum dásamlegan boðskap leiðtoga okkar. Mér finnst það forréttindi að tala til ykkar í kvöld sem lokaræðumaður þessa hluta. Ég bið þess að andi Drottins verði áfram með okkur er við gleðjumst saman sem sannir bræður og systur í Kristi.

Okkar ástkæri spámaður, Russell M. Nelson forseti, sagði: „Í dag býð ég meðlimum okkar hvarvetna að vera leiðandi í því að láta af fordómafullri afstöðu og athöfnum. Ég sárbið ykkur að stuðla að virðingu fyrir öllum börnum Guðs.“1 Við erum alþjóðleg og sívaxandi kirkja og því er mikilvægt að fylgja þessu boði spámanns okkar til að mögulegt sé að byggja upp ríki frelsarans meðal hverrar þjóðar heims.

Fagnaðarerindi Jesú Krists kennir að öll séum við getin andasyndir og andadætur okkar himnesku foreldra, sem sannlega elska okkur2 og að við lifðum sem fjölskylda í návist Guðs áður en við fæddumst á þessari jörðu. Fagnaðarerindið kennir líka að öll vorum við sköpuð í mynd og líkingu Guðs.3 Við erum við jöfn frammi fyrir honum,4 því hann „skóp og af einum allar þjóðir manna [og kvenna].“5 Við búum því öll að guðlegu eðli, arfleifð og möguleikum, því það er „einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í [okkur] öllum.“6

Sem lærisveinum Krists er okkur boðið að hafa aukna trú á bræðrum okkar og systrum og elska þau innilegar, með því að tengjast böndum einingar og kærleika, óháð ágreiningi okkar og sýna á þann hátt að við virðum reisn allra sona og dætra Guðs.7

Var það ekki einmitt ástandið sem fólk Nefís upplifði í næstum tvær aldir eftir að Kristur þjónaði því?

„Og vissulega gat ekki hamingjusamara fólk á meðal allra þeirra, sem Guð hafði skapað. …

Engir … voru þar Lamanítar eða yfirleitt nokkrir -ítar, heldur voru allir eitt, börn Krists og erfingjar að Guðsríki.

Og hversu blessuð þau voru.“8

Nelson forseti lagði enn fremur áherslu á mikilvægi þess að útbreiða reisn og virðingu fyrir samferðafólki okkar er hann sagði: „Skapari okkar allra býður sérhverju okkar að láta af fordómum í garð hvaða hóps barna Guðs sem er. Hafi eitthvert okkar fordóma gagnvart öðrum kynþætti er nauðsynlegt að iðrast! … Við þurfum öll að gera allt sem við getum á okkar áhrifasviði til að varðveita þá reisn og virðingu sem hver sonur og dóttir Guðs verðskuldar.“9 Í raun felst mannleg reisn í því að bera virðingu fyrir því sem skilur okkur að.10

Með hliðsjón af hinu helga sambandi sem tengir okkur Guði sem börn hans, er þessi spádómlega leiðsögn Nelsons forseta án efa grundvallarskref í átt að því að byggja brýr skilnings, fremur en að reisa múra fordóma og aðskilnaðar á meðal okkar.11 Hins vegar, eins og Páll varaði Efesusbúa við, verðum við að skilja að til þess að ná þessu markmiði, er nauðsynlegt að við vinnum að því einstaklingsbundið og sameiginlega með því að sýna hvert öðru lítillæti, hógværð og langlyndi.12

Til er saga um ákveðinn gyðingarabbína sem naut sólarupprásar með tveimur vinum. Hann spurði þá: „Hvernig vitið þið hvenær nóttin er liðin og nýr dagur hafinn?“

Einn þeirra svaraði: „Þegar þú getur horft í austur og greint kind frá geit.“

Hinn svaraði þá: „Þegar þú getur horft út í sjóndeildarhringinn og greint ólífutré frá fíkjutré.“

Þeir sneru sér þá til hins vitra rabbína og spurðu hann sömu spurningar. Eftir langa umhugsun svaraði hann: „Þegar þú getur horft í austur og séð andlit konu eða karls og sagt: ‚Hún er systir mín; hann er bróðir minn.‘“13

Kæru vinir mínir, ég fullvissa ykkur um að ljós nýs dags skín bjartara í lífi okkar þegar við sjáum og komum fram við samferðafólk okkar af virðingu og reisn og eins og sanna bræður og systur í Kristi.

Í jarðneskri þjónustu sinni sýndi Jesús fullkomlega þessa reglu er hann „gekk um, gerði gott“14 og bauð öllum að koma til sín og meðtaka af gæsku sinni, óháð uppruna, þjóðfélagsstétt eða menningareinkennum. Hann þjónaði, læknaði og hugaði alltaf að þörfum sérhvers, einkum þeirra sem á hans tíma voru taldir öðruvísi, voru smánaðir eða útilokaðir. Hann neitaði engum, en kom fram við menn af réttsýni og kærleika, því hann leit á þau sem bræður sína og systur, syni og dætur sama föður.15

Eitt af mest sláandi atvikunum þegar þetta gerðist, var þegar frelsarinn ferðaðist til Galíleu og fór viljandi leiðina sem lá í gegnum Samaríu.16 Jesús ákvað síðan að setjast við Jakobsbrunn til að hvíla sig. Þar kom samversk kona að til að fylla könnuna sína af vatni. Í alvisku sinni ávarpaði Jesús hana og sagði: „Gef mér að drekka.“17

Kona þessi undraðist að Gyðingur bæði samverska konu um aðstoð og tjáði hana með því að segja: „Hverju sætir að þú, sem ert Gyðingur, biður mig um að drekka, samverska konu?“18

En Jesús, sem sagði ekkert um hina lífseigu óvináttu á milli Samverja og Gyðinga, þjónaði þessari konu af kærleika og hjálpaði henni að skilja hver hann í raun var – Messías, sem myndi kunngjöra allt og sá sem hún beið eftir að kæmi.19 Áhrifin af þessari ljúfu þjónustu urðu til þess að konan hraðaði sér í borgina til að gera fólkinu ljóst hvað hafði gerst og sagði: „Skyldi hann vera Kristur?“20

Ég hef djúpa samúð með þeim sem hefur verið misþyrmt, smánaðir eða ofsóttir af kaldranalegu og hugsunarlausu fólki, vegna þess að sjálfur hef ég á lífsleið minni séð fólk þjást af sársauka fyrir að vera dæmt eða útskúfað fyrir það eitt að tala, líta út, eða lifa öðruvísi. Ég finn líka fyrir einlægri sorg í hjarta yfir þeim sem enn eru myrkvaðir í huga, hafa takmarkaða sýn og hörð hjörtu, vegna þeirrar trúar að þau sem eru öðruvísi séu þeim óæðri. Takmörkuð sýn þeirra á annað fólk kemur í raun í veg fyrir að þau sjái hver þau eru sem barn Guðs.

Eins og spámennirnir spáðu fyrir um, þá lifum við á örðugum tíðum fram að síðari komu frelsarans.21 Almennt er heimurinn klofinn í sterkar sundraðar fylkingar, þar sem dregnar eru línur varðandi kynþætti, stjórnmál og félagshagfræði. Slík klofning hefur stundum áhrif á hugsunarhátt og framkomu fólks gagnvart samferðafólki sínu. Af þessari ástæðu er ekki óalgengt að sjá fólk sýna með eigin viðhorfi, framkomu og málfari að önnur menning, kynþáttur og þjóðerni séu óæðri og tileinka sér fyrir fram gefnar, rangar og oft kaldranalegar hugmyndir, sem vekja fyrirlitningu, afskiptaleysi, virðingarleysi og jafnvel fordóma í garð fólks. Slíkt viðhorf á rætur í drambi, hroka, öfund og afbrýði, sem eru lýsandi fyrir holdlegt eðli,22 sem eru algerlega á skjön við kristilega eiginleika. Þetta atferli er þeim óviðeigandi sem reyna að vera sannir lærisveinar hans.23 Í raun, kæru bræður og systur, er enginn staður fyrir fordómafulla hugsun eða hegðun í samfélagi heilagra.

Sem synir og dætur sáttmálans, getum við hjálpað við að útrýma slíku atferli með því að sjá það sem augljóslega skilur okkur að með augum frelsarans24 og byggja á því sem okkur er sameiginlegt – guðlegri sjálfsmynd okkar og skyldleika. Að auki getum við reynt að sjá okkur sjálf í draumum, vonum, sorgum og sársauka náunga okkar. Sem börn Guðs erum við öll samferðafólk, jöfn í ófullkomleika okkar og getu okkar til að vaxa. Okkur er boðið að ganga saman, friðsamlega, full af kærleika í hjarta til Guðs og allra manna – eða, eins og Abraham Lincoln sagði, „að sýna engum illvilja, en öllum kærleika.“25

Hafið þið einhvern tíma hugleitt hvernig reglan um virðingu fyrir mannlegri reisn og jafnræði er sýnd með einföldum klæðnaði í húsi Drottins? Við komum öll til musterisins sameinuð í einum tilgangi og af djúpri þrá til að vera hrein og heilög í hans heilögu návist. Drottinn tekur sjálfur á móti okkur hvítklæddum, öllum sínum ástkæru börnum, körlum og konum Guðs, afsprengi Krists.26 Við njótum þeirra forréttinda að framkvæma sömu helgiathafnir, gera sömu sáttmála, skuldbinda okkur að lifa æðra og helgara lífi og hljóta sömu eilífu fyrirheitin. Sameinuð í tilgangi lítum við hvert annað nýjum augum og í einingu fögnum við margbreytileika okkar sem börn Guðs.

Ég hjálpaði nýverið við að leiðbeina hefðarfólki og embættismönnum stjórnvalda í gegnum opið hús musterisins í Brasilíu. Ég staldraði við í búningsklefanum með varaforseta Brasilíu og við ræddum um hvítu fötin sem allir klæðast í musterinu. Ég útskýrði fyrir honum að þessi almenna notkun hvítra klæða táknaði að við værum öll eins í augum Guðs og að í musterinu værum við ekki ávörpuð sem varaforseti einhvers lands eða kirkjuleiðtogi, heldur bærum við hið eilífa auðkenni að vera synir kærleiksríks himnesks föður.

Ljósmynd
Iguaçú-fossar

Iguaçú-áin rennur í gegnum suðurhluta Brasilíu og fellur fram af hásléttu og myndar fossakerfi sem um allan heim er kallað Iguaçú-fossar – sem er eitt fallegasta og stórbrotnasta sköpunarverk Guðs á jörðu og talið eitt af sjö undrum veraldar. Gríðarlegt vatnsmagn rennur í eina á sem síðan klofnar og myndar hundruð óviðjafnanlegra fossa. Myndrænt gæti þetta stórkostlega fossakerfi verið spegilmynd af fjölskyldu Guðs á jörðu, því andlegi og efnislegi uppruni okkar er sá sami, sprottinn af guðlegri arfleifð okkar og skyldleika. Hvert okkar á uppruna í mismunandi menningu, þjóðerni og við höfum mismunandi skoðanir, reynslu og tilfinningar. Þrátt fyrir það sækjum við fram sem börn Guðs og sem bræður og systur í Kristi, án þess að glata okkar guðlegu tengslum, sem gera okkur að einstöku fólki og ástkæru samfélagi.27

Kæru bræður og systur, megum við samræma hjarta okkar og huga með þekkingunni og vitnisburðinum um að við erum öll jöfn fyrir Guði, að við séum öll að fullu gædd sömu eilífu möguleikunum og arfleifðinni. Megum við njóta betur hins andlega skyldleika sem á milli okkar er og meta meira þá mismunandi eiginleika og fjölbreyttu gjafir sem við öll höfum. Ef við gerum það, lofa ég ykkur að við munum renna á okkar sérstaka hátt, eins og vatnið í Iguaçú-fossunum, án þess að glata hinni guðlegu tengingu sem auðkennir okkur sem sérstakt fólk, „börn Krists og erfingjar að Guðsríki.“28

Ég ber ykkur vitni um að þegar við höldum áfram að renna á þennan hátt í jarðlífi okkar, mun nýr dagur hefjast með nýju ljósi sem mun lýsa upp líf okkar og veita okkur dásamleg tækifæri til að meta betur fjölbreytileikann sem skapaður er af Guði meðal barna hans.29 Við munum vissulega verða verkfæri í höndum hans við að stuðla að virðingu og reisn meðal allra sona hans og dætra. Guð lifir. Jesús er frelsari heimsins. Nelson forseti er spámaður Guðs á okkar tíma. Ég ber vitni um þennan sannleika í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.