Aðalráðstefna
Dýrðarríkin
Aðalráðstefna október 2023


Dýrðarríkin

Við eigum kærleiksríkan himneskan föður sem mun sjá til þess að við hljótum hverja þá blessun og hvern þann ávinning sem þrár okkar og val leyfa.

Meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu eru oft spurðir: „Hvernig er kirkjan þín frábrugðin öðrum kristnum kirkjum?“ Meðal þeirra svara sem við gefum er fylling kenningarinnar um Jesú Krist. Fremst meðal þeirrar kenningar er sú staðreynd að faðir okkar á himnum elskar öll börn sín svo heitt að hann vill að við lifum öll í dýrðarríki til eilífðarnóns. Þar að auki vill hann að við lifum með honum og syni hans, Jesú Kristi, að eilífu. Áætlun hans hefur gefið okkur kenningarnar og tækifærið til að taka þær ákvarðanir sem munu tryggja okkur þau örlög og lífið sem við veljum.

I.

Af nútíma opinberun vitum við að endanleg örlög allra sem lifa á jörðinni eru ekki ófullnægjandi hugmynd um himnaríki fyrir hina réttlátu og eilífar þjáningar helvítis fyrir alla hina. Kærleiksáætlun Guðs fyrir börn sín felur í sér þennan veruleika sem frelsari okkar, Jesús Kristur, kenndi: „Í húsi föður míns eru margar vistarverur.“1

Hin opinberaða kenning hinnar endurreistu Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, kennir að öll börn Guðs – með of fáum undantekningum til að fjalla um hér – muni að lokum erfa eitt af þremur dýrðarríkjum, jafnvel það minnsta sem er „ofar öllum skilningi.“2 Eftir tímabil þar sem hinir óhlýðnu þjást fyrir syndir sínar, og sú þjáning býr þá undir það sem koma skal, munu allir rísa upp og ganga fram til lokadóms Drottins Jesú Krists. Þar mun kærleiksríkur frelsari okkar, sem okkur er kennt að „[gjöri] föðurinn dýrðlegan og [frelsi] öll handaverk hans,“3 senda öll börn Guðs til eins af þessum dýrðarríkjum í samræmi við þær þrár sem þau hafa staðfest með eigin vali.

Önnur sérstök kenning og trúariðkun hinnar endurreistu kirkju eru hin opinberuðu boðorð og sáttmálar sem bjóða öllum börnum Guðs hin helgu forréttindi að verða hæf fyrir æðsta dýrðarstigið í himneska ríkinu. Sá æðsti ákvörðunarstaður – upphafning í himneska ríkinu – er í brennidepli Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

Með nútíma opinberun, hafa Síðari daga heilagir þennan einstaka skilning á áætlun Guðs um hamingju fyrir börn sín. Sú áætlun hefst með lífi okkar sem andar, áður en við fæddumst, og hún sýnir tilgang og skilyrði ferðalagsins sem við völdum í jarðlífinu og þráðan ákvörðunarstað okkar eftir það.

II.

Við vitum af nútíma opinberun að „öllum ríkjum er gefið lögmál“4 og að dýrðarríkið sem við hljótum í lokadóminum ræðst af þeim lögmálum sem við völdum að fylgja í jarðnesku ferðalagi okkar. Í þeirri kærleiksríku áætlun eru mörg ríki – mörg híbýli – svo að öll börn Guðs munu erfa dýrðarríki þess lögmáls sem þau geta þægilega „fylgt.“

Þegar við lýsum eðli og skilyrðum hvers hinna þriggja ríkja í áætlun föðurins, byrjum við á hinu æðsta, sem er þungamiðja þeirra guðlegu boðorða og helgiathafna sem Guð hefur opinberað gegnum Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Í hinni „himnesku“ dýrð5 eru þrjú stig6 og það æðsta er upphafning í himneska ríkinu. Þetta er dvalarstaður þeirra „sem meðtekið hafa af fyllingu hans og af dýrð hans,“ þess vegna „eru þeir guðir, … já, synir [og dætur] Guðs“7 og „dvelja í návist Guðs og Krists hans alltaf og að eilífu.“8 Með opinberun hefur Guð afhjúpað eilíf lögmál, helgiathafnir og sáttmála sem þarf að virða til að þróa þá guðlegu eiginleika sem nauðsynlegir eru til að raungera þessa guðlegu möguleika. Þetta er áhersla Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, vegna þess að tilgangur hinnar endurreistu kirkju er að búa börn Guðs undir sáluhjálp í himneskri dýrð og einkum undir upphafningu í æðstu gráðu hennar.

Áætlun Guðs, byggð á eilífum sannleika, gerir kröfu um að upphafningu verði aðeins náð með trúfesti við sáttmála eilífs hjónabands milli karls og konu í hinu heilaga musteri,9 en slíkt hjónaband verður að lokum í boði fyrir alla trúaða. Þessi dýrðlega kenning er ástæða þess að við kennum að „kynferði er nauðsynlegur eiginleiki einstaklingsins … og samræmist tilgangi hans í fortilveru, jarðneskri tilveru og um eilífð.“10

Einstaklega dýrmæt kennsla til að hjálpa okkur að búa okkur undir upphafningu, er yfirlýsingin um fjölskylduna frá 1995.11 Yfirlýsingar hennar útskýra hin himnesku skilyrði til að búa okkur undir að lifa með Guði föðurnum og syni hans, Jesú Kristi. Þeir sem ekki skilja fyllilega kærleiksáætlun föðurins fyrir börn hans, gætu talið fjölskylduyfirlýsinguna einungis stefnuyfirlýsingu sem er breytanleg. Við staðfestum hins vegar að fjölskylduyfirlýsingin, grundvölluð á óumbreytanlegri kenningu, sé skilgreinandi fyrir fjölskyldusambönd, þar sem mikilvægasti hluti okkar eilífu framþróunar getur farið fram.

Páll postuli lýsir dýrðargráðunum þremur og líkir þeim við dýrð sólar, tungls og stjarna.12 Hann nefnir það æðsta „himneskt“ og það næstæðsta „yfirjarðneskt.“13 Hann nefnir ekki það lægsta, en í opinberun til Josephs Smith var nafni þess bætti við: „jarðneskt.“14 Önnur opinberun lýsir líka eðli þeirra einstaklinga sem tilnefndir eru hverju þessara dýrðarríkja. Þau sem kjósa að „[standast ekki] lögmál himneska ríkisins,“15 munu erfa annað dýrðarríki, lægra en hið himneska, sniðið að þeim lögmálum sem þau hafa valið, sem þeim er þægilegt að „dvelja“ í. Orðið dvelja, sem svo oft kemur fyrir í ritningunum, þýðir öruggur staður.16 Þau sem til að mynda eru í yfirjarðneska ríkinu – sem er jafngildi hins almenna hugtaks um himnaríki – „eru [þau], sem meðtaka af návist sonarins, en ekki af fyllingu föðurins.“17 Þau voru „hinir heiðvirðu menn jarðarinnar, sem blindaðir voru af slægð mannanna,“18 en „ekki [hugdjörf] í vitnisburðinum um Jesú.“19

Hin upplýsandi lýsing þeirra sem tilnefndir eru lægsta dýrðarríkinu, hinu jarðneska, er „sá sem fær ekki staðist yfirjarðneska dýrð.“20 Þetta lýsir þeim sem hafna frelsaranum og hafa ekki gætt neinna guðlegra takmarkana með hegðun sinni. Þetta er ríkið þar sem hinir óguðlegu dvelja, eftir að þeir hafa þjáðst fyrir syndir sínar. Í nútíma opinberun er þeim lýst: „Þetta eru þeir, sem hvorki meðtóku fagnaðarerindi Krists né vitnisburð um Jesú. …

Þetta eru þeir, sem eru lygarar og töframenn og frillulífsmenn og hórkarlar, og allir þeir, sem elska lygi og iðka.“21

Russell M. Nelson forseti fjallaði nýlega um dýrðarríkin þrjú með spádómlegri innsýn sinni og skrifaði: „Líf jarðlífsins er varla nanósekúnda miðað við eilífðina. En hve það er mikilvæg nanósekúnda! Íhugið vandlega hvernig það virkar: Í þessu jarðneska lífi fáið þið að velja hvaða lögmálum þið eru fús að hlýða – þeim sem eru af himneska ríkinu, eða hinu yfirjarðneska eða hinu jarðneska – og þar af leiðandi í hvaða dýrðarríki þið munuð ævarandi lifa. Hvílík áætlun! Þetta er áætlun sem algjörlega virðir sjálfræði ykkar.“22

III.

Páll postuli kenndi að kenningar og boðorð Drottins væru gefin til þess að við gætum öll „[náð] vaxtartakmarki Krists fyllingar.“23 Það ferli krefst miklu meira en að afla sér þekkingar. Það nægir meira að segja ekki að láta sannfærast um fagnaðarerindið; við verðum að breyta svo við umbreytumst af því. Öfugt við aðra prédikun, sem kennir okkur að vita eitthvað, þá skorar fagnaðarerindi Jesú Krists á okkur að verða að einhverju.

Af slíkum kenningum ráðum við að lokadómurinn verði ekki bara samantekt á öllum okkar góðu og slæmu verkum – því sem við höfum gert. Hann er byggir á endanlegum áhrifum verka og hugsana okkar – á því sem við höfum orðið. Við verðum hæf fyrir eilíft líf gegnum ferli umbreytingar. Eins og þetta merkingarríka orð er notað hér, táknar það djúpstæða eðlisbreytingu. Það nægi ekki að menn séu bara með látbragð. Boðorð, helgiathafnir og sáttmálar fagnaðarerindisins eru ekki innborganir sem greiða þarf inn á einhvers konar himneskan reikning. Fagnaðarerindi Jesú Krists er áætlun sem sýnir hvernig við getum orðið að því sem himneskur faðir vill að við verðum.24

IV.

Vegna Jesú Krists og friðþægingar hans, getum við iðrast þegar okkur mistekst í þessu lífi og farið aftur á sáttmálsveginn sem leiðir til þess sem himneskur faðir okkar þráir fyrir okkur.

Í Mormónsbók er kennt: „Þetta líf er tími [okkar] til að búa [okkur] undir að mæta Guði.“25 En þessi krefjandi takmörkun á „þessu lífi“ fékk vonandi samhengi (að minnsta kosti að einhverju leyti fyrir suma einstaklinga) með því sem Drottinn opinberaði Joseph F. Smith forseta, sem nú er skráð í Kenningu og sáttmálum, kafla 138. „Ég sá,“ ritaði spámaðurinn, „að staðfastir öldungar þessa ráðstöfunartíma halda áfram starfi sínu við prédikun fagnaðarerindis iðrunar og endurlausnar fyrir fórn hins eingetna sonar Guðs, eftir að þeir hafa yfirgefið hið dauðlega líf, meðal þeirra sem eru í myrkri og syndafjötrum í hinum mikla andaheimi hinna dánu.

Hinir dánu, sem iðrast, munu endurleystir fyrir hlýðni við helgiathafnir Guðs húss.

Og eftir að þeir hafa tekið út refsingu fyrir brot sín og eru laugaðir hreinir, munu þeir hljóta laun samkvæmt verkum sínum, því að þeir eru erfingjar að sáluhjálp.“26

Þar að auki vitum við að í þúsund ára ríkinu, sem fylgir í kjölfar síðari komu frelsarans, verða nauðsynlegar helgiathafnir framkvæmdar fyrir þau sem hafa ekki meðtekið þær í jarðnesku lífi sínu.27

Það er margt sem við vitum ekki um þrjú helstu tímabil sáluhjálparáætlunarinnar og innbyrðis samband þeirra: (1) andaheim fortilverunnar, (2) jarðlífið og (3) eftirlífið. En við þekkjum þennan eilífa sannleika: „Sáluhjálp er einstaklingsbundin, en upphafning er fjölskyldumál.“28 Við eigum kærleiksríkan himneskan föður sem mun sjá til þess að við hljótum hverja þá blessun og hvern þann ávinning sem þrár okkar og val leyfa. Við vitum líka að hann mun engan neyða til innsiglunarsambands gegn vilja sínum. Blessanir innsiglaðs sambands eru tryggðar öllum sem halda sáttmála sína en aldrei með því að þvinga innsiglað samband upp á aðra manneskju sem er óverðug eða ófús.

Kæru bræður og systur, ég ber vitni um sannleika alls þessa. Ég ber vitni um Drottin okkar Jesú Krist, „höfund og fullkomnara trúar [okkar]“29 sem með friðþægingu sinni, samkvæmt áætlun föður okkar á himnum, gerir allt mögulegt, í nafni Jesú Krists, amen.