Aðalráðstefna
Týndi sonurinn og vegurinn sem liggur heim
Aðalráðstefna október 2023


Týndi sonurinn og vegurinn sem liggur heim

Erfiðar ákvarðanir gætu hafa fjarlægt ykkur langt frá frelsaranum og kirkju hans, hinn mikli læknir stendur við veginn sem liggur heim og býður ykkur velkomin.

Maður nokkur átti tvo sonu

Sumir hafa kallað þetta merkustu smásögu sem nokkru sinni hefur verið sögð.1 Þar sem hún hefur verið þýdd yfir á þúsundir tungumála þá er mjög líklegt að sá dagur hafi ekki liðið síðustu tvö þúsund ár að sólin hafi sest án þess að vitnað hafi verið í hana einhvers staðar í heiminum.

Frelsari okkar og lausnari Jesús Kristur, sem kom til jarðar til að „leita að hinu týnda og frelsa það“,2sagði þessa sögu. Hann byrjar með þessum einföldu orðum: „Maður nokkur átti tvo sonu.“3

Strax heyrum við af átakanlegum ágreiningi. Annar sonurinn4 segir föður sínum að hann sé búinn að fá nóg af lífinu heima við. Hann vill frelsi sitt. Hann vill segja skilið við menningu þá og kennslu sem foreldrar hans veittu honum. Hann biður um erfðahluta sinn – núna.5

Getið þið ímyndað ykkur hvernig föðurnum hefur liðið þegar hann heyrði þetta? Þegar hann gerði sér grein fyrir því að sonur hans óskaði sér þess umfram allt að yfirgefa fjölskyldu sína og snúa jafnvel aldrei til baka?

Hið mikla ævintýri

Sonurinn hlýtur að hafa upplifað eftirvæntingu og spennu ævintýrisins. Loksins var hann upp á sig sjálfan kominn. Laus við lög og reglur æskumenningar sinnar gat hann loksins tekið sínar eigin ákvarðanir án þess að verða fyrir áhrifum frá foreldum sínum. Engin sektarkennd lengur. Hann gæti notið samþykkis álíka hugsandi samfélags og lifað lífinu á eigin forsendum.

Þegar hann kom til fjarlægs lands eignaðist hann fljótlega nýja vini og hóf að lifa lífinu sem hann hafði alltaf dreymt um. Hann hlýtur að hafa verið eftirlæti margra, því hann eyddi peningum frjálslega. Nýju vinir hans – þiggjendur örlætis hans – dæmdu hann ekki. Þeir fögnuðu, glöddust yfir og hvöttu hann áfram í ákvörðunum hans.6

Hefðu samfélagsmiðlar verið til staðar, hefði hann eflaust fyllt heilu síðurnar af leiftrandi ljósmyndum af hlæjandi vinum: #Lifamínubestalífi! #Aldreiánægðari! #Hefðiáttaðgeraþettafyrirlöngu!

Hungursneyðin

Veislan varði ekki lengi – hún gerir það sjaldnast. Tvennt gerðist: Fyrir það fyrsta, þá kláruðust peningarnir og í öðru lagi, kom hungursneyð yfir landið.7

Þegar vandamálin versnuðu varð hann skelfingu lostinn. Þessi óstöðvandi, fagnandi stórlax hafði nú ekki efni á stakri máltíð, hvað þá dvalarstað. Hvernig myndi hann lifa af?

Hann hafði verið örlátur vinum sínum – myndu þeir hjálpa honum núna? Ég get séð hann fyrir mér að biðja um smávegis stuðning – bara núna í smá stund – þar til hann kæmist aftur á réttan kjöl.

Ritningarnar segja okkur: „Enginn gaf honum.“8

Örvæntingarfullur um að halda lífi fann hann bónda á svæðinu sem réð hann til að annast svínin.9

Ótrúlega hungraður, yfirgefinn og aleinn, hlýtur ungi maðurinn að hafa velt því fyrir sér hvernig allt gat farið svona hræðilega úrskeiðis.

Það var ekki bara tómur maginn sem olli honum áhyggjum. Það var tóm sál. Hann hafði verið svo sannfærður um að það myndi gera hann hamingjusaman að láta eftir veraldlegri þrá sinni, að siðferðisleg lögmál hindruðu þá hamingju. Nú vissi hann betur. Þvílíkt gjald að greiða fyrir þá þekkingu!10

Er líkamlegt og andlegt hungur hans óx, reikaði hugurinn til föður hans. Myndi hann hjálpa honum eftir allt sem gerðist? Jafnvel hinir lægstu þjónar föður hans höfðu mat að borða og skjól undan stormunum.

En að snúa aftur til föður síns?

Aldrei.

Viðurkenna fyrir þorpinu sínu að hann hefði sóað arfi sínum?

Ómögulegt.

Horfast í augu við nágrannana sem sannarlega höfðu varað hann við því að hann væri að vanvirða fjölskyldu hans og valda foreldrum hans hjartasári? Snúa aftur til gömlu vinanna eftir að monta sig af því að hann væri að slíta böndin?

Óbærilegt.

En hungrið, einmannaleikinn og eftirsjáin vildu bara ekki láta hann vera – þar til hann „kom … til sjálfs sín“.11

Hann vissi hvað hann þurfti að gera.

Endurkoman

Förum nú aftur til föðurins, hins niðurbrotna húsbónda. Hve mörg hundruð klukkustundum, ef til vill þúsundum, hafði hann varið í að hafa áhyggjur af syni sínum?

Hve oft hafði hann horft niður veginn sem sonur hans hafði farið eftir og endurupplifað hinn stingandi missi sem hann fann fyrir þegar sonur hans gekk í burtu? Hve margar bænir hafði hann farið með í myrkri nætur, sárbænandi Guð um að sonur hans væri öruggur og að hann myndi uppgötva sannleikann og snúa aftur heim?

Dag einn horfir faðirinn svo niður hinn einmannalega veg – veginn sem liggur heim – og sér fjarlæga persónu ganga í átt til hans.

Er það mögulegt?

Þó að einstaklingurinn sé langt í burtu, þá veit faðirinn strax að þetta er sonur hans.

Hann hleypur til hans, faðmar hann og kyssir.12

„Faðir,“ hrópar sonurinn með orðum sem hann hlýtur að hafa æft þúsund sinnum: „Ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.“13

En faðirinn leyfir honum varla að ljúka orðum sínum. Með tár í augunum skipar hann þjónum sínum: „Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í. Dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Við skulum eta og gera okkur glaðan dag. Sonur minn var týndur og er fundinn!“14

Fagnaðurinn

Á skrifstofu minni hangir málverk eftir þýska listamanninn Richard Burde. Harriet og ég unnum þessu málverki. Það sýnir ljúft brot úr dæmisögu frelsarans frá dýpra sjónarhorni.

Ljósmynd
Heimkoma glataða sonarins, eftir Richard Burde.

Á meðan næstum allir fagna endurkomu sonarins, er einn ekki að því – eldri bróðir hans.15

Hann ber tilfinningalegan bagga.

Hann var á staðnum þegar bróðir hans hafði heimtað arf sinn. Hann sá frá fyrstu hendi hvernig hin mikla sorg lagðist á föður hans.

Alveg frá brottför bróður hans hefur hann reynt að lyfta byrði föður síns. Hann vann að því hvern dag að endurheimta brostið hjarta föður síns.

Nú er hið skeytingalausa barn komið aftur og fólkið getur ekki hætt að ausa athygli yfir hinn uppreisnagjarna bróður hans.

„Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár,“ sagði hann við föður sinn, „og hef aldrei breytt út af boðum þínum. Og mér hefur þú aldrei gefið kiðling að ég gæti glatt mig með vinum mínum.“16

Ástríkur faðirinn svarar: „Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér og allt mitt er þitt! Þetta snýst ekki um að bera saman laun og fögnuð. Þetta snýst um lækningu. Þetta er það sem við höfum verið að vonast eftir öll þessi ár. Bróðir þinn var dauður og er lifnaður aftur! Hann var týndur og er hann fundinn!“17

Dæmisaga okkar tíma

Ástkæru bræður mínir og systur, kæru vinir, eins og allar dæmisögur frelsarans, þá er þessi ekki einungis um fólkið sem var uppi fyrir löngu síðan. Hún eru um ykkur og mig í dag.

Hver okkar á meðal hefur ekki farið af vegi heilagleika, með þá kjánalegu hugsun að við gætum fundið meiri hamingju með því að fara okkar eigin, sjálfselsku leið?

Hver meðal okkar hefur ekki upplifað auðmýkt, hjartasár og verið örvæntingarfullur í von um fyrirgefningu og miskunn?

Kannski hafa sumir jafnvel hugsað: „Er í raun mögulegt að fara til baka? Mun ég vera stimplaður/stimpluð að eilífu, mér hafnað og ég hunsaður/hunsuð af fyrrverandi vinum mínum? Er það betra að vera bara týndur? Hvernig mun Guð bregðast við ef ég sný aftur?“

Þessi dæmisaga veitir okkur svarið.

Himneskur faðir mun hlaupa á móti okkur, hjarta hans uppfullt af kærleika og hlýju. Hann mun faðma okkur, setja skikkju á axlir okkar og hring á fingur okkar og sandala á fætur okkar og lýsa yfir: „Við skulum … gera okkur glaðan dag! Því að barn mitt var dautt og er lifnað aftur!“

Himnarnir munu fagna yfir endurkomu okkar.

Fagnið með óumræðilegri og dýrðlegri gleði

Má ég taka smástund núna og tala við ykkur persónulega?

Sama hvað gæti hafa gerst í lífi ykkar, þá enduróma ég og lýsi yfir orðum ástkærs vinar míns og sampostula, öldungs Jeffreys R. Holland: „Þið getið ekki sokkið svo djúpt að geislar hins óendanlegs ljóss friðþægingar Krists nái ekki til ykkar.“18

Erfiðar ákvarðanir gætu hafa fjarlægt ykkur langt frá frelsaranum og kirkju hans, hinn mikli læknir stendur við veginn sem liggur heim og býður ykkur velkomin. Og við, sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, leitumst við að fylgja fordæmi hans og umfaðma ykkur sem bræður og systur, sem vini okkar. Við fögnum og gleðjumst með ykkur.

Endurkoma ykkar mun ekki gera lítið úr blessunum annarra. Því að gnægð föðurins er óendanleg og það sem er einum gefið minnkar á engan hátt frumburðarrétt annarra.19

Ég ætla ekki að þykjast halda að það sé auðvelt að koma aftur. Ég get vitnað um það. Í raun kann það að vera erfiðasta ákvörðun sem þið hafið nokkru sinni tekið.

En ég ber vitni um að á því augnabliki sem þið ákveðið að koma aftur og ganga leið frelsara okkar og lausnara, mun kraftur hans koma í líf ykkar og breyta því.20

Englar himna munu fagna.

Svo einnig við, fjölskylda ykkar í Kristi. Þegar allt kemur til alls, þá vitum við hvernig það er að vera týnd. Við treystum öll daglega á sama friðþægingarkraft Krists. Við þekkjum þennan veg og við skulum ganga með ykkur.

Nei, leið okkar verður heldur ekki laus við harm, sorg eða leiða. Því að svo langt höfum við aðeins náð „fyrir orð Krists og óbifanlega trú á hann og með því að treysta í einu og öllu á verðleika hans, sem máttinn hefur til að frelsa“. Saman munum við „sækja fram, staðfastir í Kristi, í fullkomnu vonarljósi og ást til Guðs og [alls fólks]“.21 Saman munum við „[fagna] með óumræðilegri og dýrlegri gleði“,22 því Jesús Kristur er styrkur okkar!23

Það er bæn mín að hvert okkar megi heyra, í þessari djúpstæðu dæmisögu, rödd föðurins kalla okkur að fara á veginn sem liggur heim – að við megum hafa hugrekki til að iðrast, meðtaka fyrirgefningu og fylgja veginum sem leiðir aftur til samúðarfulls og miskunnsams Guðs. Um það ber ég vitni og skil eftir hjá ykkur blessun mína, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Má sjá í Lúkas 15, dæmisagan er ein af þremur (hinn týndi sauður, týnda drakman og týndi sonurinn) sem sýna virði týndra hluta og fögnuðinn sem verður þegar það sem týnt var, finnst.

  2. Lúkas 19:10.

  3. Lúkas 15:11.

  4. Sonurinn var eflaust ungur. Hann var ógiftur, sem gæti verið tilvísun í æsku hans, en ekki svo ungur að hann gæti ekki krafist arfs síns og farið að heiman þegar hann fékk hann.

  5. Eftir lögum og hefðum Gyðinga áttu tveir elstu bræðurnir tilkall til 2/3-hluta föðurarfsins. Yngri sonurinn átti því tilkall til 1/3-hluta. (Sjá 5. Mósebók 21:17.)

  6. Sjá Lúkas 15:13.

  7. Sjá Lúkas 15:14.

  8. Lúkas 15:16.

  9. Hvað Gyðinga varðaði voru svín „óhrein“ (sjá 5. Mósebók 14:8) og voru andstyggileg. Iðkandi Gyðingar hefðu aldrei ræktað svín, sem gefur í skyn að umsjónarmaðurinn hafi verið af Þjóðunum. Það gæti einnig gefið í skyn hve langt hinn ungi sonur hafði ferðast til að vera í burtu frá iðkandi Gyðingum.

  10. Öldungur Neal A. Maxwell kenndi: „Auðvitað er það betra að við séum neydd til auðmýktar ‚orðsins vegna‘ frekar en að vera neydd til auðmýktar vegna aðstæðna, en það síðara dugar! (sjá Alma 32:13–14). Hungursneyð getur kallað fram andlegt hungur“ („The Tugs and Pulls of the World,“ Liahona, Jan. 2001, 45).

  11. Lúkas 15:17.

  12. Sjá Lúkas 15:20.

  13. Sjá Lúkas 15:18–19, 21.

  14. Sjá Lúkas 15:22–24.

  15. Munið að yngri sonurinn hafði þegar fengið arf sinn. Fyrir eldri soninn þýddi það að allt annað tilheyrði honum. Það að veita yngri bróðurnum eitthvað, þýddi að það var tekið frá eldri bróðurnum sem var eftir.

  16. Sjá Lúkas 15:29.

  17. Sjá Lúkas 15:31–32.

  18. Jeffrey R. Holland, „Verkamenn í víngarðinum,“ aðalráðstefna, apríl 2012.

  19. Það sem er einum gefið minnkar á engan hátt frumburðarrétt annarra. Frelsarinn kenndi þessa kenningu þegar hann flutti dæmisögu verkamannanna í Matteusi 20:1–16.

  20. Sjá Alma 34:31.

  21. 2 Nefí 31:19–20

  22. 1. Pétursbréf 1:8.

  23. Sjá Sálmar 28:7.