Aðalráðstefna
Tíundargreiðslur: Opna flóðgáttir himins
Aðalráðstefna október 2023


Tíundargreiðslur: Opna flóðgáttir himins

Flóðgáttir himins opnast á marga vegu. Treystið á tímasetningu Drottins, blessanirnar munu ávallt skila sér.

Þegar ég var í Suður-Ameríku nýlega miðlaði bróðir Roger Parra mér eftirfarandi upplifun:

„Árið 2019 komu upp vandamál í Venesúela sem ollu því að það var rafmagnslaust í fimm daga.

Óreiða og lögleysa ríkti á götunum og mikið af örvæntingarfullu fólki átti ekki nægilegt viðurværi.

Sumir fóru að ræna matvinnslufyrirtæki og eyðulögðu allt sem fyrir þeim varð.

Sem eigandi lítils bakarís, hafði ég miklar áhyggjur af fyrirtæki okkar. Sem fjölskylda ákváðum við að gefa allan matinn í bakaríinu okkar til nauðstaddra.

Eitt myrkt kvöld voru óeirðir alls staðar. Einu áhyggjur mínar voru gagnvart öryggi ástkærrar eiginkonu minnar og barnanna.

Í dögun fór ég í bakaríið okkar. Því miður höfðu ræningjar eyðilegt nærri öll matvinnslufyrirtæki í nágrenninu en mér til mikillar undrunar var bakaríið okkar heilt. Ekkert hafði verið eyðilagt. Í auðmýkt þakkaði ég föður mínum á himnum.

Þegar ég kom heim sagði ég fjölskyldu minni frá blessunum og vernd Guðs.

Þau voru öll svo þakklát.

Elsti sonur okkar Rogelio, einungis 12 ára gamall, sagði: ‚Pabbi! Ég veit af hverju verslunin okkar var vernduð. Þú og mamma greiðið alltaf tíundina ykkar.‘“

Bróðir Parra sagði síðan: „Orð Malakí komu í huga minn. ‚Ég mun reka burt átvarginn fyrir ykkur svo að hann eyði ekki afrakstri jarðar‘ [Malakí 3:11]. Við krupum niður og þökkuðum himneskum föður okkar fyrir kraftaverk hans.“1

Ljósmynd
Parra fjölskyldan.

Reynið mig með þessu

Allt sem við höfum og allt sem við erum kemur frá Guði. Sem lærisveinar Guðs deilum við þessu fúslega með þeim sem í kringum okkur eru.

Eftir allt sem Drottinn gefur okkur, hefur hann beðið okkur að skila honum og ríki hans tíu prósent af öllum hagnaði okkar. Hann hefur lofað okkur að ef við erum heiðarleg í tíund okkar mun hann „[ljúka] … upp flóðgáttum himins og [úthella] … óþrjótandi blessun“.2 Hann hefur lofað okkur því að hann muni vernda okkur frá illu.3 Þessi loforð eru svo áreiðanleg4 að Drottinn segir: „Reynið mig með þessu,“5 orðasamsetning sem er hvergi annars staðar að finna í ritningunum nema þegar vitnað er í Malakí.

Flóðgáttir himins opnast á marga vegu. Sumar eru veraldlegar en margar andlegar. Sumar eru lúmskar og auðvelt að líta fram hjá þeim. Treystið á tímasetningu Drottins, blessanirnar munu ávallt skila sér.

Við syrgjum með þeim sem skortir lífsnauðsynjar. Kirkjan gaf nýlega 54 milljónir Bandaríkjadollara til að veita börnum og mæðrum um allan heim neyðaraðstoð.6 Og með mánaðarlegum framlögum ykkar aðstoða hinir góðu biskupar okkar þúsundir vikulega sem eru tímabundið í þörf fyrir mat á borðið, föt til að klæðast og þak yfir höfuðið. Eina varanlega lausnin við fátækt þessa heims er fagnaðarerindi Jesú Krists.7

Það varðar trú

Páll postuli varaði við því að vísdómur manna skilur það sem mannsins er en á erfitt með að skilja það sem Guðs er.8 Heimurinn talar um tíund í tengslum við peninga okkar, en hið heilaga lögmál tíundar er í grunninn málefni trúar. Heiðarleiki í tíundargreiðslum er ein leið til að sýna vilja okkar við að setja Drottin fyrstan í lífi okkar, ofar okkar eigin hugðarefnum og hagsmunum. Ég lofa ykkur að er þið treystið á Drottin munu blessanir himna fylgja.

Jesús sagði: „Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.“9 Hinn upprisni frelsari bað Nefítana að skrá í heimildir sínar loforð hans sem finna má í Malakí.10 Á okkar tímum staðfesti Drottinn hið guðlega tíundarlögmál er hann sagði: „Og þetta skal verða upphaf tíundargreiðslu fólks míns. Og … skulu þeir … greiða einn tíunda hluta alls ábata síns árlega, og þetta skal vera þeim gildandi lögmál að eilífu.“11

Drottinn lagði það skýrt fram hvernig útdeila ætti tíundinni er hann sagði: „Færið tíundina alla í forðabúrið“12 eða með öðrum orðum, færið tíundina inn í endurreist ríki hans, Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.13 Hann sagði að notkun þessara heilögu sjóða yrði ígrunduð með bænarhug Æðsta forsætisráðsins, Tólfpostulasveitarinnar og Biskupsráðsins, ásamt „[raddar minnar] til þeirra, segir Drottinn“.14

Helgir sjóðir Drottins

Þessir helgu sjóðir tilheyra ekki leiðtogum kirkjunnar. Þeir tilheyra Drottni. Þjónar hans eru einstaklega meðvitaðir um hið heilaga eðli ráðsmennsku þeirra.

Gordon B. Hinckley forseti sagði frá þessari æskuminningu: „Þegar ég var drengur spurði ég föður minn spurningu … varðandi útgjöld kirkjusjóða. Hann minnti mig á að það er guðsgefin skylda mín að greiða tíund mína og fórnargjafir. Faðir minn sagði síðan að þegar ég gerði svo, þá væri þessi gjöf ekki lengur mín. Hún tilheyrði Drottni, sem ég helga gjöfina.“ Faðir hans bætti við: „[Þú Gordon] þarft síðan ekki að hafa áhyggjur af því sem yfirvöld kirkjunnar gera með hana. Þeir eru ábyrgir fyrir Drottni, sem mun krefja þá reikningsskila.“15

Við finnum mjög fyrir þeirri ábyrgð að vera „ábyrgir fyrir Drottni“.

Örlát tíund ykkar og fórnargjafir

Á síðasta ári var meira en milljarður Bandaríkjadollara af örlátum tíundar- og fórnargjöfum þeim sem þið helguðuð Drottni, notaður til að blessa hina þurfandi.16

Í hinu gríðarmikla ábyrgðarhlutverki sem við höfum að flytja fagnaðarerindið um allan heim, erum við með rúmlega 71.000 trúboða í þjónustu í 414 trúboðum.17 Vegna tíundar ykkar og fórnargjafa geta trúboðar þjónað, óháð fjárhagslegri stöðu fjölskyldna þeirra.

Verið er að reisa fordæmalausan fjölda mustera um heim allan. Eins og er eru 177 starfandi musteri, 59 í byggingu eða endurgerð og 79 önnur eru á áætlun og teikniborðinu.18 Tíund ykkar gerir blessanir mustera mögulegar á stöðum sem einungis Drottinn gæti séð fyrir.

Það eru meira en 30.000 söfnuðir hýstir í þúsunda samkomuhúsa og öðru húsnæði í 195 löndum og landsvæðum.2 Vegna trúfastra tíundagreiðslna ykkar er verið að setja kirkjuna á stofn á fjarlægum svæðum sem þið kunnið aldrei að heimsækja, meðal réttlátra heilagra sem þið kunnið aldrei að kynnast.

Kirkjan styður nú fimm æðri menntastofnanir.20 Þær þjóna meira en 145.000 nemendum. Vikulega er verið að kenna eitt hundrað og tíu þúsund kennslubekki í trúarskóla yngri og eldri deilda.21

Þessar blessanir og svo margar fleiri koma að miklu leiti frá hinum ungu og öldnu úr öllum efnahagsaðstæðum sem greiða heiðarlega tíund.

Andlegur kraftur hins guðlega tíundarlögmáls er ekki mældur í þeim upphæðum sem gefnar eru, því bæði hinum vel stæðu og hinum fátæku er boðið af Drottni að gefa tíu prósent af tekjum þeirra.22 Krafturinn kemur frá því að setja traust okkar á Drottin.23

Viðbótargnægð Drottins, sem sýnir sig í örlátum tíundargreiðslum ykkar, hefur styrkt sjóði kirkjunnar og boðið upp á tækifæri til að efla starf Drottins framar nokkru sem við höfum upplifað. Drottinn veit alla hluti og við munum sjá heilagan tilgang hans uppfylltan.24

Blessanir koma á margvíslegan hátt

Blessanir tíundar skila sér á margan hátt. Árið 1998 fylgdi ég þáverandi öldungi Henry B. Eyring á stóra kirkjusamkomu á Utah-svæðinu, sem nú þekkist sem Silicon Slopes, samfélag mikillar framþróunar í tæknimálum. Það var á tímum vaxandi velmegunar og öldungur Eyring varaði hina heilögu við því að bera saman það sem þeir hefðu, við það sem aðrir hefðu og vilja meira. Ég man alltaf loforð hans, að er þeir greiddu heiðarlega tíund myndi þrá þeirra fyrir meiri veraldlegum eigum minnka. Innan tveggja ára hafði tæknibólan sprungið. Margir misstu vinnu sína og fyrirtæki áttu í basli á þessum tíma fjárhagslegrar aðlögunar. Þeir sem fylgdu ráði öldungs Eyrings voru blessaðir.

Loforð hans minnti mig á aðra reynslu. Ég hitti hina 12 ára gömlu Charlotte Hlimi nærri Carcassone, Frakklandi, árið 1990, á meðan ég starfaði sem trúboðsforseti. Hlimi fjölskyldan var trúföst fjölskylda sem bjó í íbúð með átta börn. Þau voru með mynd af frelsaranum og af spámanninum á veggnum. Í viðalinu fyrir patríarkablessun sína, spurði ég Charlotte hvort hún greiddi heiðarlega tíund. Hún svaraði: „Já Andersen forseti. Móðir mín hefur kennt mér að það séu veraldlegar blessanir og andlegar blessanir sem hlotnist af því að greiða tíund okkar. Móðir mín kenndi mér að ef við greiðum alltaf tíundina þá mun okkur ekki skorta neitt. Anderson forseti, okkur skortir ekki neitt.“

Ljósmynd
Hlimi fjölskyldan.

Þegar Charlotte, nú 45 ára gömul og búin að innsiglast í musterinu, gaf mér leyfi til að miðla sögu hennar, sagði hún: „Vitnisburður minn um tíund var mjög raunverulegur á þeim tíma og er jafnvel enn sterkari í dag. Ég er mjög þakklát fyrir þetta borðorð. Er ég lifi eftir því held ég áfram að vera ríkulega blessuð.“25

Sá dagur kemur að við munum öll ljúka jarðnesku ferðalagi okkar. Fyrir tuttugu og fimm árum síðan, nokkrum dögum áður en að tengdamóðir mín Martha Williams dó úr krabbameini, fékk hún ávísun í pósti sem hljóðaði upp á litla upphæð. Hún bað eiginkonu mína Kathy samstundis að ná í ávísunarhefti hennar til að greiða tíundina. Þar sem móðir hennar var svo veikburða að hún átti erfitt með að skrifa, spurði Kathy hana hvort hún gæti skrifað ávísunina fyrir hana. Móðir hennar svaraði: „Nei Kathy. Ég vil gera það sjálf.“ Síðan bætti hún hljóðlega við: „Ég vil vera með allt á hreinu frammi fyrir Drottni.“ Eitt af því síðasta sem Kathy gerði fyrir móður sína var að rétta biskupnum tíundarumslag hennar.

Mikilvægt verk Guðs

Bræður mínir og systur, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er komin „fram úr móðu og úr myrkri“,26 og færir einstakar blessanir yfir jörðina. Það verða alltaf einhverjir sem hvetja okkur áfram og aðrir sem gera það ekki. Ég hef hugsað um orð hins vitra Gamalíels sem varaði ráðið í Jerúsalem við þegar hann heyrði af kraftaverkum postulanna Péturs og Jóhannesar.

„Látið þessa menn eiga sig. … Sé þetta … verk frá mönnum verður það að engu:

En sé það frá Guði, þá megnið þér ekki að yfirbuga þá. Eigi má það verða, að þér berjist við sjálfan Guð.“27

Þið og ég erum hluti að mikilvægu verki Guðs hér á jörðu. Það verður ekki að engu en mun halda áfram að færast yfir jörðina, að undirbúa leiðina fyrir endurkomu frelsarans. Ég ber vitni um orð Russells M. Nelson forseta: „Á komandi tíð, munum við sjá stærstu birtingarmyndir um kraft frelsarans, sem heimurinn hefur nokkru sinni séð. Frá þessum tíma, fram að endurkomu hans … mun hann úthella yfir hina heilögu óteljandi forréttindum, blessunum og kraftaverkum.“28

Þetta er vitnisburður minn. Jesús er Kristur. Þetta er hans heilaga verk. Hann mun koma aftur. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Persónuleg bréfaskipti frá Roger Parra, 4. ágúst 2023.

  2. Malakí 3:10.

  3. Sjá Malakí 3:11. Öldungur Jeffrey R. Holland sagði: „Í mínu eigin lífi hef ég til dæmis séð loforð Guðs uppfyllast, um að hann ‚[reki] burt átvarginn [mín vegna]‘ [Malakí 3:11]. Þeirri blessun að vera vernduð gegn hinu illa hefur verið úthellt yfir mig og ástvini mína, í meiri mæli en ég hef getu til að tjá á fullnægjandi hátt. En ég trúi því að slíkt guðlegt öryggi veittist að hluta til vegna þess að við höfum verið ákveðin í að greiða tíund, sem einstaklingar og sem fjölskylda“ („Like a Watered Garden,“ Liahona, jan. 2002, 38).

  4. Drottinn mun ljúka upp flóðgáttum himins í samræmi við þörf okkar, en ekki í samræmi við græðgi okkar. Ef við greiðum tíund til þess að verða rík, þá erum við að gera það á röngum forsendum. … Blessanir gefandans … eru ekki alltaf í formi peningalegs eða efnislegs ávinnings“ (Teachings of Gordon B. Hinckley [1997], 657).

  5. Malakí 3:10; 3. Nefí 24:10.

  6. Sjá „The Church of Jesus Christ Is Helping Alleviate Global Malnutrition,“ 11. ágú. 2023, newsroom.ChurchofJesusChrist.org; sjá einnig „How the Church of Jesus Christ and UNICEF Are Keeping Mothers and Children Healthy and Safe,“ 17. ágú. 2023, newsroom.ChurchofJesusChrist.org.

  7. „Og Drottinn nefndi þjóð sína Síon, vegna þess að hugur hennar og hjarta voru eitt, og hún lifði í réttlæti og enginn fátækur var á meðal hennar“ (HDP Móse 7:18).

  8. Sjá 1. Korintubréf 2:14. Rökhugsun mannsins samræmist ekki alltaf visku Guðs. Á tímum Malakí höfðu margir fjarlægst Drottin. Drottinn sárbændi sáttmálsþjóð sína: „Snúið aftur til mín, þá sný ég aftur til ykkar.“ Það sem fylgdi þessu ljúfa boði er mikilvæg spurning fyrir okkur öll: „Hvernig getum við snúið aftur?“ (Malakí 3:7). Með öðrum orðum, hverju þarf ég að breyta? Hvernig kemst ég nærri þér? Drottinn svarar með því að kenna mikilvægi tíundarinnar, ekki einungis sem fjárhagslegt lögmál heldur sem áþreifanlega leið til að snúa þrá hjarta okkar til hans.

    Við sjáum þetta í okkar eigin fjölskyldu. Móðir Kathy gekk í kirkjuna 22 ára. Martha og Bernard Williams voru virk í kirkjunni í stuttan tíma en eftir að þau fluttu í annað ríki urðu þau minna virk. Bernard var sendur í herþjónustu erlendis og Martha flutti heim til Tampa, Flórída, þar sem hún þáði örlátt boð frænku sinnar um að búa með henni og manni hennar, sem voru andvíg kirkjunni. Þar sem hún bjó við mjög fátæklegar aðstæður, barnshafandi af fyrsta barni hennar og ekki að mæta í kirkju, tók Martha Williams þá ákvörðun að senda tíundarávísun sína til biskupsins. Aðspurð, seinna í lífi hennar, sagði hún að hún hefði minnst nokkurs sem trúboðarnir hefðu kennt henni um tíund og blessanir Guðs: „Okkur bráðvantaði blessanir Guðs í líf okkar svo ég hóf að senda tíundarávísun okkar til biskupsins.“ Martha og Bernard Williams snéru aftur til kirkjunnar. Stærsta blessun þeirra – sex ættliðir hafa hlotið blessanir vegna ákvörðunar hennar um að greiða tíund sína þegar hún átti ekkert nema trú á Guð og von um loforð hans.

  9. Matteus 22:21.

  10. Sjá 3. Nefí 24.

  11. Kenning og sáttmálar 119:3–4. „Tíund eru framlög eins tíunda af tekjum einstaklings til kirkju Guðs (sjá Kenning og sáttmálar 119:3–4; ábati er skilgreint sem tekjur). Allir meðlimir sem hafa tekjur ættu að greiða tíund“ (Almenn handbók: Þjónusta í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, 34.3.1, Gospel Library).

  12. Malakí 3:10.

  13. „Við greiðum tíund eins og frelsarinn kenndi með því að færa tíundina ‚í forðabúrið‘ [Malakí 3:10; 3. Nefí 24:10]. Við gerum svo með því að greiða tíund okkar til biskups okkar eða greinarforeta. Við greiðum ekki tíund með því að gefa pening í eftirlætisgóðgerðarsamtök okkar. Framlögin sem ættum að greiða til góðgerðarsamtaka koma úr eigin sjóðum, ekki úr tíundinni sem okkur er boðið að greiða inn í forðabúr Drottins“ (Dallin H. Oaks, „Tithing,“ Ensign, maí 1994, 35).

  14. Kenning og sáttmálar 120:1.

  15. Gordon B. Hinckley, „Rise to a Larger Vision of the Work,“ Ensign, May 1990.

  16. Sjá „The 2022 Report on How the Church of Jesus Christ Cared for Those in Need,“ 22. mars 2023, newsroom.churchofjesuschrist.org

  17. Netpóstur frá Trúboðsdeildinni, 14. sept. 2023.

  18. Sjá „Temple List,“ ChurchofJesusChrist.org/temples/list.

  19. Netpóstur frá Meðlima og tölfræðiskrá, 28. júlí 2023.

  20. Þar með talin Brigham Young University, Brigham Young University–Idaho, Brigham Young University–Hawaii, Ensign College og BYU Pathway Worldwide.

  21. Netpóstur frá trúarskóladeild eldri og yngri deilda, 28. júlí 2023.

  22. Sjá Almenn handbók, 34.3.1.

  23. Dallin H. Oaks forseti miðlaði þessari sögu um að treysta á Drottinn: „Ekkjan móðir mín annaðist þrjú ung börn á [lágum] launum. … Ég spurði móður mína hvers vegna hún greiddi svo mikið af laununum sínum í tíund. Ég hef aldrei gleymt svari hennar: ‚Dallin, sumir kunna að komast af án þess að greiða tíund, en við getum það ekki. Drottinn kaus að taka föður ykkar og láta mig eina um að ala upp ykkur börnin. Það get ég ekki gert án blessana Drottins og þær hlýt ég með því að greiða heiðarlega tíund‘“ („Tithing,“ 33).

  24. „Svo að fyrir mína forsjá fái kirkjan staðið óháð, ofar öllum öðrum skepnum undir hinum himneska heimi, þrátt fyrir það andstreymi sem þér munuð mæta“ (Kenning og sáttmálar 78:14).

  25. Persónuleg bréfaskipti frá Charlotte Hlimi Martin, 30. ágúst 2023.

  26. Kenning og sáttmálar 1:30.

  27. Postulasagan 5:38–39.

  28. Russell M. Nelson, „Sigrast á heiminum og finna hvíld,“ aðalráðstefna, okt. 2022.