Aðalráðstefna
Elska náunga þinn
Aðalráðstefna október 2023


Elska náunga þinn

Samúð er kristilegur eiginleiki. Hún kemur til vegna elsku til annarra og á sér engin takmörk.

Ég býð ykkur á þessum morgni að ganga til liðs við mig í ferð um Afríku. Þið komið ekki til með að sjá nein ljón, sebrahesta eða fíla, en mögulega, í lok ferðar, munið þið sjá hvernig þúsundir meðlima Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu bregðast við öðru æðsta boðorði Krists um að „elska náunga þinn“ (Markús 12:31).

Ímyndið ykkur eitt augnablik rauða jarðveginn í dreifbýli Afríku. Þið sjáið á skraufþurri og ófrjórri jörðinni að ekki hefur fallið regn að neinu ráði í allt of mörg ár. Þeir fáu nautgripir sem verða á vegi ykkar eru meira af beinum en holdi og eru reknir áfram af Karamojong hirði, huldum ábreiðu, sem arkar um í sandölum og vonast eftir því að finna gróður og vatn.

Þegar þið farið leið ykkar um grófan og grýttan veginn, sjáið þið nokkra hópa af fallegum börnum og veltið fyrir ykkur hvers vegna þau eru ekki í skólanum. Börnin brosa og veifa og þið veifið til baka með tár á hvarmi og brosið. Níutíu og tvo prósent yngstu barnanna sem þið sjáið í þessari ferð búa við matarskort og hjarta ykkar kvelst af angist.

Fram undan sjáið þið móður sem ber vel skorðað nítján lítra vatnsílát á höfði sér og annað í höndunum. Hún táknar annað hvert heimili á þessu svæði þar sem konur, ungar sem aldnar, ganga meira en 30 mínútur í hvora átt á hverjum degi að vatnsuppsprettu fyrir fjölskyldu sína. Sorgarbylgja flæðir yfir ykkur.

Ljósmynd
Afrísk kona ber vatn.

Tvær klukkustundir líða hjá og þið komið að afskekktu, skuggsælu rjóðri. Samkomustaðurinn er ekki salur eða einu sinni tjald, heldur undir nokkrum stórum trjám sem veita skjól frá brennheitri sólinni. Þið takið eftir að á þessum stað er hvergi rennandi vatn, ekkert rafmagn, engin sturtanleg salerni. Þið lítið umhverfis ykkur og vitið að þið eruð meðal fólks sem elskar Guð og um leið finnið þið elsku Guðs til þess. Það hefur safnast saman til að hljóta hjálp og von og þið eruð komin til að miðla henni.

Svona var ferð mín og systur Ardern, í félagsskap systur Camille Johnson aðalforseta Líknarfélagsins og eiginmanns hennar Doug, og systur Sharon Eubank, yfirmanns mannúðarstarfs kirkjunnar, er við ferðuðumst um Úganda, lands með 47 milljónir íbúa á Mið-Afríkusvæði kirkjunnar. Þennan dag, í skugga trjánna, kynntum við okkur heilsufarslegt samfélagsverkefni sem er í sameiningu fjármagnað af mannúðarstarfi kirkjunnar, UNICEF og heilbrigðisráðuneyti ríkisstjórnar Úganda. Þetta eru traustsins verð samtök, vandlega útvalin til að tryggja að peningagjafir meðlima kirkjunnar til mannúðarstarfsins séu notaðar af skynsemi.

Ljósmynd
Afrísk börn hljóta umönnun.

Eins sársaukafullt og það var að sjá vannærð börn og afleiðingar berkla, malaríu og látlausar niðurgangspestir, þá hlaut hvert og eitt okkar aukna von um betri framtíð fyrir þá sem við hittum.

Ljósmynd
Móðir matar barn sitt.

Þessi von kom að hluta til vegna góðvildar meðlima kirkjunnar sem gefa tíma og peninga til mannúðarstarfs kirkjunnar. Þegar ég sá hina sjúku og aðþrengdu hljóta hjálp og upplyftingu, laut ég höfði í þakklæti. Ég skildi betur á því augnabliki hvað konungur konunganna átti við, sem sagði:

„Komið þér, sem faðir minn á og blessar, og takið við ríkinu sem yður var ætlað …

Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig“ (Matteus 25:34–35).

Tilmæli frelsara okkar eru að „[láta] ljós yðar [lýsa] meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum“ (Matteus 5:16; sjá einnig vers 14–15). Á þessum fjarlæga stað á jörðinni gerðu góðverk ykkar líf fólks í brýnni þörf bjartara og léttu byrðina með því og Guð var vegsamaður.

Á þessum heita og skraufþurra degi vildi ég að þið hefðuð getað heyrt þakkar- og lofgjörðarbænir þeirra til Guðs. Þau vildu að ég segði ykkur, á Karamojong-máli þeirra: „Alakara.“ Þakka ykkur fyrir.

Ferð okkar minnti mig á dæmisöguna um miskunnsama Samverjann, en á ferð hans fór hann um skraufþurran veg, ekki ólíkan þeim sem ég lýsti, veg sem lá frá Jerúsalem til Jeríkó. Þessi þjónandi Samverji kennir okkur merkingu þess að „elska náungann“.

Hann sá „[mann nokkurn] … [sem] féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona“ (Lúkas 10:30). Samverjinn „kenndi … í brjósti um hann“ (Lúkas 10:33).

Samúð er kristilegur eiginleiki. Hún kemur til vegna elsku til annarra og á sér engin takmörk. Jesús, frelsari heimsins, er fullkomið dæmi um samúð. Þegar við lesum að Jesús hafi grátið (sjá Jóhannes 11:35), erum við vitni, líkt og María og Marta voru, um samúð hans, sem varð áður til þess að hann komst við og varð djúpt hrærður (sjá Jóhannes 11:33). Sem dæmi um meðaumkun Krists í Mormónsbók, birtist Jesús fjöldanum og sagði:

„Eru einhverjir lamaðir, blindir, haltir, … daufir eða þjáðir á einhvern hátt? Færið þá hingað, og ég mun gjöra þá heila, því að ég hef samúð með yður. …

Og hann læknaði þá, hvern og einn“ (3. Nefí 17:7, 9).

Þrátt fyrir allar okkar tilraunir, læknum ég og þú ekki alla, en hvert okkar getur verið sá eða sú sem orsakar jákvæða breytingu í lífi einhvers. Það var aðeins einn piltur, einungis drengur, sem bauð fram brauðin fimm og fiskana tvo sem mettuðu fimm þúsundin. Varðandi fórn okkar spyrjum við mögulega, eins og lærisveinninn Andrés spurði varðandi brauðin og fiskana: „Hvað er það handa svo mörgum?“ (Jóhannes 6:9). Ég fullvissa ykkur: Það er nóg að gefa eða að gera það sem þið getið og síðan að leyfa Kristi að efla framlag ykkar.

Varðandi þetta, þá bauð öldungur Jeffrey R. Holland okkur, „[ríkum eða fátækum], … að ‚gera allt í okkar valdi‘ þegar aðrir búa við neyð“. Hann bar síðan vitni, það geri ég einnig, um að Guð muni hjálpa ykkur og „leiða ykkur í miskunnarverki lærisveinsins“ („Erum vér ekki öll beiningamenn?aðalráðstefna, okt. 2014).

Í þessu fjarlæga landi, á þessum ógleymanlega degi, stóð ég þá og stend nú sem vitni um hina áhrifamiklu og lífsbreytandi samúð meðlima kirkjunnar, bæði ríkra og fátækra.

Dæmisagan um miskunnsama Samverjann heldur áfram er hann „batt um sár [mannsins] … og lét sér annt um hann“ (Lúkas 10:34). Mannúðarstarf kirkju okkar bregst skjótt við náttúruhamförum og bindur um stækkandi sár heimsins hvað varðar sjúkdóma, hungur, ungbarnadauða, vannæringu, heimilisleysi og hin lítt séðu sár vanmáttar, vonbrigða og örvæntingar.

Samverjinn „tók [þá] upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: Lát þér annt um hann“ (Lúkas 10:35). Við sem kirkja erum þakklát fyrir samvinnu við aðra „gestgjafa“ eða samtök eins og kaþólsku líknarþjónustuna, UNICEF og Rauða krossinn/Rauða hálfmánann til hjálpar í mannúðarstarfi okkar. Við erum jafn þakklát fyrir „tvo denara“ ykkar eða tvær evrur, tvo pesóa eða tvo skildinga, sem létta á þeirri byrði sem of margir um heim allan þurfa að bera. Það er ólíklegt að þið munið þekkja þau sem njóta góðs af tíma ykkar, krónum ykkar og aurum, en samúð krefst þess ekki að við þekkjum þau: hún krefst þess aðeins að við elskum þau.

Þakka þér Russell M. Nelson forseti, fyrir að minna okkur á að „þegar við elskum Guð af öllu okkar hjarta, beinir hann hjarta okkar að velferð annarra“ („Annað æðsta boðorðið,“ aðalráðstefna, okt. 2019). Ég ber vitni um að hvert okkar mun hljóta aukna gleði, frið, auðmýkt og elsku er við bregðumst við ákalli Nelsons forseta um að beina hjörtum okkar að velferð annarra og tilmælum Josephs Smith um að „fæða hina hungruðu, klæða hina klæðalausu, sjá ekkjunni farborða, þerra tár munaðarleysingjans [og] hugga hina aðþrengdu, hvort sem það er í þessari eða annarri kirkju, eða yfirhöfuð ekki í neinni kirkju, hvar sem [við finnum] þau“ („Editor’s Reply to a Letter from Richard Savary,“ Times and Seasons, 15. mar. 1842, 732).

Ljósmynd
Öldungur Ardern og Camille<nb/>N. Johnson forseti með afrískum börnum.

Fyrir öllum þessum mánuðum, fundum við hina hungruðu og þjáðu á skraufþurri sléttunni og vorum vitni að sárbiðjandi augnaráði þeirra um hjálp. Á eigin hátt komumst [við] við og urðum djúpt hrærð (sjá Jóhannes 11:33), en þó milduðust þær tilfinningar þegar við sáum samúð meðlima kirkjunnar í verki við að fæða hina hungruðu, sjá ekkjunum farborða og hugga og þerra tár hinn aðþrengdu.

Megum við ævinlega gæta að velferð annarra og sýna í orði og verki að við séum „fús að bera hver annars byrðar“ (Mósía 18:8), að „græða sundurkramin hjörtu“ (Kenning og sáttmálar 138:42) og að halda annað æðsta boðorð Krists um að „elska náunga [okkar]“ (Markús 12:31). Í nafni Jesú Krists, amen.