Aðalráðstefna
Vera hinir friðsömu fylgjendur Krists
Aðalráðstefna október 2023


Vera hinir friðsömu fylgjendur Krists

Ég ber vitni um að „hinir friðsömu fylgjendur Krists“ munu upplifa persónulegan frið í þessu lífi og dýrðlegan himneskan endurfund.

Við lifum á tímum þegar „hinir friðsömu fylgjendur Krists“1 upplifa einstakar áskoranir. Þeir sem trúa á, tilbiðja í auðmýkt og bera vitni um Jesú Krist, hafa alltaf upplifað raunir, þrengingar og mótlæti.2 Ég og eiginkonan mín, Mary, erum ekkert öðruvísi. Á síðustu fáu árum höfum við séð marga nána menntaskólavini okkar, trúboðsfélaga, sumar eiginkonur þeirra, og fyrrverandi vinnufélaga deyja eða, eins og Russell M. Nelson forseti hefur sagt, útskrifast til að fara hinum megin hulunnar. Við höfum séð suma sem ólust upp í trú fara út af sáttmálsveginum.

Því miður misstum við 23 ára barnabarn sem lést í hörmulegu eins bíls bílslysi. Sumir kærir vinir, fjölskyldumeðlimir og samstarfsmenn hafa líka tekist á við verulega heilsubresti.

Hvenær sem raunir eiga sér stað, syrgjum við og reynum að bera hver annars byrðar.3 Við hörmum það sem ekki verður áorkað og lög sem ekki verða sungin.4 Slæmir hlutir gerast fyrir gott fólk í þessu jarðneska ferðalagi. Hinir hrikalegu eldar á Maui á Havaí, í Suður-Síle og Kanada eru dæmi um skelfilega atburði sem gott fólk stendur stundum frammi fyrir.

Við lesum í Hinni dýrmætu perlu að Drottinn hafi opinberað Abraham hið eilífa eðli andanna. Abraham lærði um líf okkar fyrir jarðlífið, forvígslu, sköpunina, val á lausnara og um þetta jarðneska lífi, sem er annað stig mannsins.5 Frelsarinn kunngjörði:

„Við munum gjöra jörð, sem þessir geta dvalið á –

Og með þessu munum við reyna þá og sjá hvort þeir gjöra allt, sem Drottinn Guð þeirra býður þeim.“6

Nú erum við öll hér á öðru stigi ferðar okkar til framþróunar í átt að dýrðarríki sem er hluti af hinni miklu áætlun Guð til sáluhjálpar og upphafningar. Við erum blessuð með sjálfræði og erum háð prófraunum jarðlífsins. Þetta er tíminn sem okkur er ætlaður til að búa okkur undir að mæta Guði.7 Við erum blessuð að vita af Jesú Kristi og hlutverki hans í áætluninni. Við höfum þau forréttindi að verða meðlimir endurreistrar kirkju hans – Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Sem friðelskandi fylgjendur Krists, leitumst við eftir að lifa eftir boðorðum hans. Það hefur aldrei verið auðvelt fyrir fylgjendur hans. Það var heldur ekki auðvelt fyrir frelsarann að uppfylla jarðneskt hlutverk sitt af trúmennsku.

Ritningarnar eru skýrar, margir munu falla fyrir viðhorfinu:„Etið, drekkið og verið kát, því á morgun deyjum vér.“8 Aðrir vantrúaðir hörfa í dapurlegar sveitir samhuga þátttakenda sem tala fyrir næsta „nýjabrumi“9 og heimspeki manna.10 Þeir vita ekki hvar sannleikann er að finna.11

Hinir friðsömu fylgjendur Krists fara hvoruga leið. Við erum ljúfir, virkir meðlimir þess samfélags sem við búum í. Við elskum, miðlum og bjóðum öllum börnum Guðs að fylgja kenningum Krists.12 Við fylgjum leiðsögn okkar ástkæra spámanns, Nelsons forseta; við veljum hlutverk friðflytjandans, nú og alltaf.13 Þessi innblásna nálgun er í samræmi við bæði ritninguna og spádómlega leiðsögn.

Árið 1829 hafði hin endurreista kirkja ekki enn verið skipulögð, né hafði Mormónsbók verið gefin út. Lítill hópur baráttufólks, knúinn af anda Guðs, fylgdi spámanninum Joseph Smith. Drottinn opinberaði Joseph leiðsögn fyrir erfiða tíma: „Óttast þess vegna ekki, litla hjörð. Gjörið gott, leyfið jörð og helju að sameinast gegn yður, því að ef þér byggið á bjargi mínu, fá þær eigi á yður sigrast.“14 Hann veitti þeim líka þessa leiðsögn:

„Beinið öllum hugsunum yðar til mín. Efist ekki, óttist ekki.

„Verið trúir, haldið boðorð mín og þér skuluð erfa himnaríki.“15

Ljóst er að himnesk örlög okkar breytast ekki þegar við þjáumst af mótlæti. Í Hebreabréfinu er þessi leiðsögn: „Göngum því með djörfung að hásæti náðarinnar, til þess að vér öðlumst miskunn og hljótum náð til hjálpar á hagkvæmum tíma.“16 Jesús Kristur er „höfundur eilífs hjálpræðis.“17

Ég elska orð Mormóns, sem Moróní sonur hans vitnar í, þar sem hann lofar „hina friðsömu fylgjendur Krists … vegna friðsamlegrar göngu [þeirra] meðal mannanna barna.“18

Okkar, í kirkjunni sem leitumst við að vera „hinir friðsömu fylgjendur Krists,“ bíður bjartari dagur er við einblínum á Drottin okkar og frelsara, Jesú Kristi. Þrengingar eru hluti af jarðlífinu og eru þáttur í lífi allra um allan heim. Í þeim felast mikil átök milli ríkja og einstaklinga.

Kirkjuleiðtogar eru oft spurðir: „Hvers vegna leyfir réttlátur Guð slæmum hlutum að gerast, einkum fyrir gott fólk?“ og „Hvers vegna eru þeir sem eru réttlátir og í þjónustu Drottins ekki ónæmir fyrir slíkum hörmungum?“

Við vitum ekki öll svörin; hins vegar þekkjum við mikilvægar reglur sem gera okkur kleift að takast á við raunir, þrengingar og mótlæti í trú og trausti á bjartri framtíð sem bíður okkar allra. Ekkert betra dæmi finnst í ritningunni um að takast á við þrengingar en orð Drottins til spámannsins Josephs Smith, meðan hann var fangi í Liberty fangelsinu.

Drottinn sagði meðal annars:

„Opni skoltar heljar gin sitt upp á gátt fyrir þér, vita skaltu þá, sonur minn, að allt mun þetta veita þér reynslu og verða þér til góðs.

Mannssonurinn hefur beygt sig undir allt þetta. Ert þú meiri en hann?

„… Óttast … ekki hvað maðurinn kann að gjöra, því að Guð verður með þér alltaf og að eilífu.“19

Það er ljóst að við eigum föður á himnum sem þekkir og elskar okkur persónulega og skilur þjáningar okkar fullkomlega. Sonur hans, Jesús Kristur, er frelsari okkar og lausnari.

Í morgun lögðu bæði Russell M. Nelson forseti og M. Russell Ballard forseti mikla áherslu á mikilvægi nýrrar annarrar útgáfu ritsins Boða fagnaðarerindi mitt.20 Ég miðla eldmóði þeirra. Þessi nýja útgáfa, sem undirstrikar hina heilögu ritningu, boðar kröftuglega:

„Í friðþægingarfórn sinni tók Jesús Kristur á sig sársauka okkar, þrengingar og vanmátt. Vegna þessa, veit hann ‚í holdinu, hvernig fólki hans verður best liðsinnt í vanmætti‘ (Alma 7:12; sjá einnig vers 11). Hann býður: ‚Komið til mín.‘ Þegar við gerum það mun hann veita okkur hvíld, von, styrk, yfirsýn og lækningu (Matteus 11:28; sjá einnig vers 29–30).

Þegar við treystum á Jesú Krist og friðþægingu hans getur hann hjálpað okkur að takast á við prófraunir okkar, sjúkdóma og sársauka. Við getum fyllst gleði, friði og huggun. Hvaðeina sem ósanngjarnt er í lífinu er hægt að færa í réttar skorður fyrir friðþægingu Jesú Krists.“21

Við getum gleðilega verið hinir friðsömu fylgjendur Krists.

Hamingjuáætlun föður okkar fyrir börn sín felur ekki aðeins í sér líf í fortilveru og jarðneskt líf, heldur líka möguleika á eilífu lífi, þar á meðal mikla og dýrðlega endurfundi við þau sem við höfum misst. Allt hið ranga verður leiðrétt og við munum sjá af fullkomnum skýrleika og yfirsýn og skilningi.

Kirkjuleiðtogar hafa líkt þessari yfirsýn við einhvern sem gengur inn í miðju þriggja þátta leikriti.22 Þeir sem ekki þekkja áætlun föðurins skilja ekki hvað gerðist í fyrsta þætti (eða í fortilverunni) og tilganginn sem þar var settur; né skilja þeir skýringuna og ályktunina sem koma í þriðja þætti, sem er hin dýrðlega uppfylling á áætlun föðurins.

Margir gera sér ekki grein fyrir því að samkvæmt ástríkri og yfirgripsmikilli áætlun hans verða þeir sem virðast vera illa staddir, án eigin sakar, ekki endanlega fyrir áhrifum.23

Ritningarnar eru skýrar: Hinir friðsömu fylgjendur Krists sem eru réttlátir, fylgja frelsaranum og halda boðorð hans, munu blessaðir. Ein mikilvægasta ritningin fyrir þá sem eru réttlátir, óháð aðstæðum þeirra í lífinu, er hluti af ræðu Benjamíns konungs til þjóðar sinnar. Hann lofar að þeir sem trúfastlega haldi boðorðin séu blessaðir í öllu í þessu lífi og að „tekið [er] á móti þeim á himni, og þeir fá dvalið með Guði í óendanlegri sælu.“24

Við gerum okkur grein fyrir því að næstum öll höfum við upplifað líkamlega og andlega storma í lífi okkar, suma hrikalega. Kærleiksríkur faðir á himnum og sonur hans, Jesús Kristur, sem er höfuð hinnar endurreistu kirkju hans, hafa séð okkur fyrir ritningum og spámönnum til að vara okkur við hættum og veita okkur leiðsögn til að undirbúa okkur og vernda. Sumar leiðbeiningar krefjast tafarlausra aðgerða og sumar veita vernd í mörg ár í framtíðinni. Í formála Drottins að Kenningu og sáttmálum í 1. kafla, hvetur hann okkur til að „gefa gaum að orðum spámannanna.“25

Í kafla 1 erum við líka aðvöruð: „Búið yður, búið yður undir það sem koma skal.“26 Drottinn veitir fólki sínu tækifæri til að búa sig undir þær áskoranir sem munu koma.

Drottinn gaf Brigham Young forseta öfluga opinberun þann 14. janúar 1847 í Winter Quarters.27 Þessi opinberun er sígilt dæmi um að Drottinn undirbýr fólk fyrir það sem koma skal. Hinir trúföstu heilögu höfðu hafið brottflutning sinn til griðastaða fjallanna í Saltvatnsdalnum. Þeir höfðu með góðum árangri byggt Nauvoo musterið og hlotið heilagar frelsandi helgiathafnir. Þeir höfðu verið hraktir frá Missouri og ofsækjendur þeirra höfðu hrakið þá burt frá Nauvoo á hræðilegum vetrartíma. Opinberunin til Brighams veitti hagnýta leiðsögn um það hvernig ætti að búa sig undir fólksflutninginn. Drottinn lagði sérstaka áherslu á umönnun fátækra, ekkna, föðurlausra og fjölskyldna þeirra sem þjónuðu í herfylkingu mormóna þegar aðalhópur hinna heilögu hélt út í sína hættulegu ferð.

Auk annarra leiðsagna um að lifa réttlátlega, lagði Drottinn áherslu á tvær aðrar reglur sem enn gilda í dag.

Í fyrsta lagi hvatti hann fólkið til að „lofa Drottin með söng, tónlist, dansi og með lofgjörðarbæn og þakkargjörð.“28

Í öðru lagi bauð Drottinn því: „Sért þú hryggur, þá ákallaðu Drottin Guð þinn í heitri bæn, svo að sál þín megi gleðjast.“29

Þessar tvær áminningar er góð leiðsögn fyrir okkar tíma. Líf fyllt lofsöng, tónlist og þakkargjörð er einkar blessað. Að vera glaður og reiða sig á himneska hjálp með bæn er öflug leið til að vera hinir friðsömu fylgjendur Krists. Að leitast við að vera alltaf glaður er góð leið til að forðast að vera niðurdreginn í anda.

Síðasta línan í næmum sálmi flytur hið endanlega svar á fallegan hátt: „Á jörðu er engin sorg sem himinn fær ei læknað.“30

Sem postuli Drottins Jesú Krists, ber ég vitni um að „hinir friðsömu fylgjendur Krists“ munu upplifa persónulegan frið í þessu lífi og dýrðlegan himneskan endurfund. Ég ber öruggt vitni um guðleika frelsarans og raunveruleika friðþægingar hans. Hann er frelsari okkar og lausnari. Í nafni Jesú Krists, amen.