Ritningar
Helaman 2


2. Kapítuli

Helaman, sonur Helamans, verður yfirdómari — Gadíanton verður leiðtogi flokks Kiskúmens — Þjónn Helamans drepur Kiskúmen og flokkur Gadíantons flýr út í óbyggðirnar. Um 50–49 f.Kr.

1 Og á fertugasta og öðru stjórnarári dómaranna, eftir að Morónía hafði komið aftur á friði milli Nefíta og Lamaníta, bar svo við, sjá, að þá var enginn til að skipa dómarasætið. Upphófust þess vegna að nýju deilur meðal þjóðarinnar um það, hver skyldi skipa dómarasætið.

2 Og svo bar við, að Helaman, sem var sonur Helamans, var tilnefndur í dómarasætið með rödd þjóðarinnar.

3 En sjá. aKiskúmen, sem myrt hafði Pahóran, beið færis eftir að tortíma einnig Helaman. Og flokkur hans, sem gjört hafði sáttmála við hann þess efnis, að engum skyldi kunnugt um ranglæti hans, studdi hann.

4 En maður var nefndur aGadíanton, sem var mikill mælskumaður og einnig leikinn í þeirri iðju að vinna myrkraverk, morð og rán. Hann varð því leiðtogi flokks Kiskúmens.

5 Hann smjaðraði þess vegna fyrir þeim og einnig fyrir Kiskúmen, og sagði, að ef þeir vildu koma honum í dómarasætið, þá mundi hann tryggja þeim, sem tilheyrðu flokki hans, valdaaðstöðu meðal þjóðarinnar. Þess vegna leitaðist Kiskúmen við að tortíma Helaman.

6 Og svo bar við, að þegar hann hélt í átt að dómarasætinu til að tortíma Helaman, sjá, þá hafði einn af þjónum Helamans, sem verið hafði úti um nóttina, komist vegna dulargervis að áformi þessa flokks um að tortíma Helaman —

7 Og svo bar við, að hann mætti Kiskúmen og gaf honum merki, og fræddi Kiskúmen hann þá um ósk sína og takmark og bað hann leiða sig að dómarasætinu, svo að hann gæti myrt Helaman.

8 Og þegar þjónn Helamans vissi um öll áform Kiskúmens og að takmarkið var að myrða, og að það var einnig takmark allra þeirra, sem tilheyrðu flokki hans, að myrða og ræna og ná völdum (og þetta voru aleyniáform þeirra og samsæri), þá sagði þjónn Helamans við Kiskúmen: Förum til dómarasætisins.

9 En þetta gladdi Kiskúmen mjög, því að hann taldi, að áform sitt næði fram að ganga. En sjá. Þegar þeir gengu í átt að dómarasætinu, stakk þjónn Helamans Kiskúmen beint í hjartað, svo að hann féll dauður niður án þess að gefa frá sér hljóð. Og hann hljóp og sagði Helaman frá öllu því, sem hann hafði séð, heyrt og gjört.

10 Og svo bar við, að Helaman sendi lið til að taka ræningjaflokkinn og þessa launmorðingja fasta, svo að hægt væri að lífláta þá að lögum.

11 En sjá. Þegar Gadíanton komst að því, að Kiskúmen sneri ekki aftur, óttaðist hann um líf sitt og bauð því flokki sínum að fylgja sér. Og þeir flúðu úr landinu eftir leynistigum út í óbyggðirnar. Og þegar því Helaman sendi menn út til að taka þá fasta, fundust þeir hvergi.

12 En meira verður rætt um Gadíanton þennan síðar. En þannig lauk fertugasta og öðru stjórnarári dómaranna yfir Nefíþjóðinni.

13 Og sjá. Í lok þessarar bókar munuð þið sjá, að aGadíanton þessi átti sök á falli Nefíþjóðarinnar, já, næstum algjörri tortímingu hennar.

14 Sjá. Ég á ekki við lok bókar Helamans, heldur á ég við bók Nefís, en úr henni eru allar þær frásagnir, sem ég hef fært í letur.