„28. júlí–3. ágúst: ‚Kraftur guðleikans‘: Kenning og sáttmálar 84,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Kenning og sáttmálar 2025 (2025)
„Kenning og sáttmálar 84,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2025
Hluti úr Endurreisn Melkísedeksprestdæmisins, eftir Liz Lemon Swindle
28. júlí–3. ágúst: „Kraftur guðleikans“
Kenning og sáttmálar 84
Allt frá því að prestdæmið var endurreist árið 1829, höfðu hinir fyrri heilögu notið blessana hins helga kraftar Drottins. Þeir voru skírðir, staðfestir og kallaðir til að þjóna með prestdæmisvaldinu, á líkan hátt og við á okkar tíma. Að hafa aðgang að krafti prestdæmisins, er þó ekki það sama og að skilja hann til hlítar og Guð ætlaði sínum heilögu meira, sem hann vildi að þeir skildu – einkum þar sem endurreisn helgiathafna musterisins var í sjónmáli. Opinberunin sem gefin var um prestdæmið árið 1832, nú Kenning og sáttmálar 84, veitti hinum heilögu frekari skilning á eðli prestdæmisins. Við getum notið þess sama á okkar tíma. Hvað sem öllu líður, þá er margt sem læra má um hinn guðlega kraft, sem heldur „ lyklinum að þekkingu Guðs,“ sem opinberar „[kraft] guðleikans“ og býr okkur undir að „[sjá] ásjónu Guðs, já, föðurins, og [halda] lífi“ (vers 19–22).
Hugmyndir fyrir nám á heimili eða í kirkju
Ég hef aðgang að krafti og blessunum prestdæmisins.
Hvað kemur í hugann þegar þið hugsið um hugtakið prestdæmi? Hvaða áhrif hefur kraftur prestdæmisins á líf ykkar?
Lærið Kenningu og sáttmála 84:17–32 eftir að þið hafið ígrundað þessar spurningar og íhugið hvað Drottinn vill að þið vitið um prestdæmiskraft hans. Hugleiðið hvernig þið gætuð notað þessi vers til að lýsa prestdæminu og tilgangi þess fyrir einhverjum.
Eitt sem þið munið finna er að í gegnum helgiathafnir prestdæmisins „opinberast … kraftur guðleikans“ (sjá vers 19–21). Kannski gætuð þið talið upp helgiathafnir prestdæmisins sem þið hafið tekið þátt í (sjá listann í Almenn handbók, 18.1, 18.2, sem gæti hjálpað). Hvernig hafa þessar helgiathafnir – og samsvarandi sáttmálar – fært kraft Guðs í líf ykkar? Hvernig væri líf ykkar án þeirra?
Russell M. Nelson forseti kenndi: „Hver kona og karl sem gerir sáttmála við Guð og heldur þá sáttmála og tekur verðuglega þátt í helgiathöfnum prestdæmisins, hefur beinan aðgang að krafti Guðs“ („Andlegir fjársjóðir,“ aðalráðstefna, október 2019). Hugleiðið að lesa boðskap Nelsons forseta og leitið leiða til að „nota … kraft frelsarans í lífi [ykkar].“
Sjá einnig Kenning og sáttmálar 25:10, 13, 15; 121:34–37, 41–46; Topics and Questions, „Priesthood,” „Joseph Smith’s Teachings about Priesthood, Temples, and Women,“ Gospel Library; Almenn handbók, 3.6, Gospel Library.
Prestdæmið er meðtekið með eiði og sáttmála.
Eiður og sáttmáli prestdæmisins (sjá Kenning og sáttmálar 84:31–44) hefur sérstaka merkingu fyrir syni himnesks föður sem eru vígðir til prestdæmisembættis, en mörg af þeim loforðum í þessum versum standa öllum börnum Guðs til boða. Hver eru þessi loforð og hvað biður Guð okkur um að gera til að hljóta þau?
Öldungur Paul B. Pieper kenndi: „Áhugavert er að í eiði og sáttmála prestdæmisins [sjá Kenning og sáttmálar 84:31–44], notar Drottinn sagnirnar og orðtakið hlýtur og taka á móti. Hann notar ekki sagnorðið vígja. Það er í musterinu sem karlar og konur – saman – hljóta og taka á móti blessunum og krafti bæði Aronsprestdæmisins og Melkísedeksprestdæmisins“ („Revealed Realities of Mortality,“ Ensign, jan. 2016, 21).
Þegar þið lesið Kenningu og sáttmála 84:31–44, ígrundið þá mögulega merkingu þess að „hljóta“ og „taka á móti“ prestdæminu. Hvernig er þetta öðruvísi en að vera vígður til prestdæmisembættis? Hvað annað býður Drottinn ykkur að meðtaka í þessum versum? Hvernig eruð þið að gera það?
Hvað finnið þið sem innblæs ykkur til að vera trúfastari í því að taka á móti frelsaranum, föður hans, þjónum hans og prestdæmiskrafti hans?
Sjá einnig Kenning og sáttmálar 121:36–46.
Það færir ljós og sannleika í líf mitt að lifa eftir orði Guðs.
Hvaða sannleika finnið þið í Kenningu og sáttmálum 84:43–61 sem hjálpar ykkur að skilja af hverju þið þurfið stöðugt að læra orð Guðs? Gætið að andstæðum ljóss og myrkurs í þessum versum; hvernig hefur sú „kostgæfni [ykkar] að gefa gaum að orðum eilífs lífs,“ vakið ljós, sannleika og „[anda] Jesú Krists“ í líf ykkar? (vers 43, 45).
Sjá einnig 2. Nefí 32:3.
Líkið reglum fagnaðarerindisins saman við kunnuglega hluti. Getið þið hugsað um samlíkingu sem gæti sýnt fram á sannleikann í versum 43–44? Dæmi: Hvernig líkist það að fylgja öllum skrefunum í uppskrift að lifa „samkvæmt sérhverju orði …Guðs“?
„Af kostgæfni [skulum við] gefa gaum að orðum eilífs lífs.“
Drottinn verður með mér þegar ég er í þjónustu hans.
Þegar þið lesið þessi vers gætuð þið gætt að því hvernig Drottinn segir sig styðja þjóna sína. Hvernig gætu þessi loforð átt við um verkið sem hann hefur beðið ykkur að vinna? Hvernig hafa t.d loforðin í versi 88 uppfyllst í lífi ykkar?
Kenning og sáttmálar 84:106–110
Allir geta lagt sitt fram í verki Guðs.
Hvað lærið þið af þessum versum um það hvernig frelsarinn framkvæmir ætlunarverk sitt? Hvaða leiðsögn og blessanir finnið þið? Þið gætuð einnig hugsað um það hvernig þið hafið „[uppbyggst] í fullri hógværð“ vegna þess að þið þjónuðuð með einhverjum sem var „sterkur í andanum,“ þar með talið eigin fjölskyldumeðlimum.
Sjá þessa mánaðar útgáfur tímaritanna Líahóna og Til styrktar ungmennum til að fá fleiri hugmyndir.
Hugmyndir fyrir kennslu barna
Helgiathafnir musterisins hjálpa mér að búa mig undir að dvelja aftur hjá himneskum föður.
-
Til að vekja tilhlökkun hjá börnum ykkar að fara til musterisins, gætuð þið búið til púsluspil úr mynd af musteri. Aftan á hvert stykki gætuð þið skrifað eitthvað sem við gerum í musterinu, eins og að skírast fyrir áa okkar, innsiglast fjölskyldum okkar og gera sáttmála við Guð. Lesið Kenningu og sáttmála 84:45 með börnum ykkar og biðjið þau að hlusta eftir því hvað það var sem Drottinn bauð hinum heilögu að byggja. Þegar þið og börn ykkar setjið púsluspilið saman, miðlið þá hvert öðru því sem við getum gert til að búa okkur undir að fara í musterið.
Ég get meðtekið kraft himnesks föður gegnum helgiathafnir musterisins.
-
Til að hjálpa börnum ykkar að skilja hvað helgiathöfn er, hugleiðið þá að skoða með þeim myndir af nokkrum helgiathöfnum prestdæmisins, eins og Trúarmyndabók, nr. 103–8 eða á verkefnasíðu þessarar viku. Biðjið þau um að lýsa því sem er að gerast á hverri mynd. Þið gætuð lesið saman í Kenningu og sáttmálum 84:19–22. Hvers vegna vill himneskur faðir að við meðtökum þessar helgiathafnir? Segið börnum ykkar frá því hvernig þið hafið upplifað kraft Guðs vegna helgiathafna sem þið hafið meðtekið og sáttmála sem þið hafið gert. (Sjá einnig „Prestdæmiskraftur, vald og lyklar“ í Viðauka A eða Viðauka B.)
Ég er vinur Jesú er ég fylgi honum.
-
Eftir að hafa lesið saman Kenningu og sáttmála 84:77 spyrjið þá börn ykkar að merkingu þess að vera vinur. Þið gætuð talað um góða vini sem þið hafið átt. Hvernig sýnir Jesús að hann vill að við séum vinir hans? Hvernig getum við sýnt að við viljum það líka? Söngur eins og „Mig langar að líkjast Jesú“ (Barnasöngbókin, 40) gæti hjálpað við þessar umræður.
Himneskur faðir hjálpar þjónum sínum.
-
Börn ykkar gætu notið þess að hlýða á það hvernig trúboðar hjálpuðu ykkur, fjölskyldu ykkar eða áum ykkar að meðtaka fagnaðarerindið. Þessu næst gætuð þið lesið um sérstakt loforð sem Drottinn gaf trúboðum í Kenningu og sáttmálum 84:88. Kannski gætu börn ykkar látið sér detta í hug einhverjar hreyfingar sem gætu fylgt þessu versi. Hugleiðið að miðla því þegar þið voruð að þjóna Drottni og skynjuðuð að hann var með ykkur eins og lýst er í versi 88. Þið gætuð einnig hjálpað börnum ykkar að hugsa um það hvernig þau gætu verið trúboðar núna. Berið vitni um að himneskur faðir hjálpi okkur að vita hvað segja skal þegar við tölum við aðra um Jesú Krist.
Sjá þessa mánaðar útgáfu tímaritsins Barnavinar til að fá fleiri hugmyndir.