„28. apríl–4. maí: ,Lögmál mitt til stjórnunar kirkju minni‘: Kenning og sáttmálar 41–44,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Kenning og sáttmálar 2025 (2025)
„Kenning og sáttmálar 41–44,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2025
28. apríl–4. maí: „Lögmál mitt til stjórnunar kirkju minni“
Kenning og sáttmálar 41–44
Kirkjan stækkaði hratt á árunum 1830 og 1831, einkum með aðstreymi nýrra meðlima í Kirtland, Ohio. Þessi vöxtur var spennandi og hvetjandi fyrir hina heilögu, en hann hafði líka nokkrar áskoranir. Hvernig átti að sameina hinn ört stækkandi hóp trúaðra? Sér í lagi, hvað átti að gera þegar fólkið kom með kenningar og iðkanir frá fyrri trú sinni? Þegar Joseph Smith kom til Kirtland, snemma í febrúar 1831, uppgötvaði hann t.d. að nýir meðlimir deildu með sér sameiginlegum eigum í einlægri tilraun til að líkja eftir hinum kristnu á tímum Nýja testamentisins (sjá Postulasagan 4:32–37). Drottinn gerði nokkrar mikilvægar leiðréttingar og setti fram útskýringar á þessu og öðrum málum. Hann gerði það að mestu gegnum opinberun sem skráð var í Kenningu og sáttmálum 42 og hann kallaði „lögmál mitt til stjórnunar kirkju minni“ (vers 59). Í þessari opinberun lærum við grundvallar sannleika varðandi stofnun kirkju Drottins á síðari dögum. Við lærum líka að við eigum afar margt ólært: „Ef þú munt spyrja,“ lofaði Drottinn, „munt þú hljóta opinberun á opinberun ofan, þekking á þekking ofan“ (Kenning og sáttmálar 42:61).
Sjá einnig Heilagir, 1:114–19.
Hugmyndir fyrir nám á heimili eða í kirkju
„Sá, sem tekur á móti lögmáli mínu og heldur það, hann er lærisveinn minn.“
Snemma árs 1831 voru hinir heilögu teknir að safnast saman í Ohio. Þeir vildu óðfúsir meðtaka það lögmál sem Guð hafði lofað að opinbera þar (sjá Kenning og sáttmálar 38:32). Drottinn kenndi þó fyrst hvernig lærisveinar hans ættu að búa sig undir að meðtaka lögmál hans. Hvaða reglur finnið þið í Kenningu og sáttmálum 41:1–6 sem hefðu hjálpað hinum heilögu að meðtaka lögmál Guðs? Hvernig gætu þessar reglur hjálpað ykkur við að meðtaka leiðsögn frá honum?
Sjá einnig „A Biskup unto the Church,“ í Revelations in Context, 77–83.
Drottinn gefur mér boðorð af því að hann elskar mig.
Hinir heilögu álitu opinberunina sem finna má í Kenningu og sáttmálum 42:1–72 vera eina þá mikilvægustu sem spámaðurinn hafði meðtekið. Þetta var ein af fyrstu opinberununum sem birtar voru. Í mörg ár kölluðu hinir heilögu hana einfaldlega „lögmálið.“ Þó að ekki megi finna öll boðorð eða lögmál Drottins í þessum kafla, þá er þess virði að hugleiða hvers vegna þessar reglur voru mikilvægar fyrir hina nýlega endurreistu kirkju. Hvers vegna eru þær mikilvægar fyrir okkur í dag?
Þar sem kafli 42 er tiltölulega langur, gætuð þið íhugað að læra hann í smærri hlutum, eins og eftirfarandi. Berið kennsl á reglurnar sem kenndar eru í hverjum hluta og hugleiðið hvernig þessi lögmál standa fyrir elsku Drottins til fólks síns.
Af hverju gefur Guð okkur lögmál og boðorð? Hvernig hafið þið verið blessuð af því að þekkja og fylgja boðorðunum?
„Minnast hinna fátæku.“
Sem hluta af lögmálinu sem opinberað var í kafla 42, kenndi Drottinn sínum heilögu hvernig þeir gátu haft „allt sameiginlegt“ eins og fylgjendur Krists til forna (Postulasagan 2:44; 4. Nefí 1:3), með „[engan fátækan] meðal“ þeirra (HDP Móse 7:18). Hvað lærið þið af Kenningu og sáttmálum 42:30–42 um hvernig hinir heilögu lifðu eftir helgunarlögmálinu? (Að helga merkir að leggja eitthvað til hliðar í helgum tilgangi.)
Þótt við höfum ekki „allt sameiginlegt“ í dag, gera Síðari daga heilagir í musterum sáttmála um að lifa eftir helgunarlögmálinu. Hvernig getið þið helgað það sem Guð hefur gefið ykkur til að blessa fólk í neyð? Þið gætuð ef til vill fengið hugmyndir með því að syngja sálm eins og „Til endurgjalds“ (Sálmar, nr. 90).
Sjá einnig Sharon Eubank, „Ég bið þess að hann noti okkur,“ aðalráðstefna, október 2021; „The Law,“ í Revelations in Context, 93–95.
Kristur og ríki, ungi höfðinginn, eftir Heinrich Hofmann
Kenning og sáttmálar 42:61, 65–68; 43:1–16
Guð veitir opinberun til leiðsagnar kirkju sinni – og mér til leiðsagnar.
Ímyndið ykkur að þið séuð að ræða við nýjan meðlim kirkjunnar sem hrífst af því að vita að kirkjunni sé stjórnað með opinberun. Hvernig gætuð þið notað Kenningu og sáttmála 43:1–16 til að útskýra fyrir honum eða henni þá aðferð sem Drottinn notar til að stjórna kirkju sinni með spámanni sínum? Hvernig gætuð þið notað Kenningu og sáttmála 42:61, 65–68 til að kenna hvernig persónuleg opinberun hlýst?
Hvað er sumt af því „friðsæla“ og gleðilega sem þið hafið hlotið frá Drottni fyrir anda hans?
Til að læra hvernig leiðtogar kirkjunnar hafa hlýtt á rödd Drottins, gætuð þið horft á eitt af myndböndunum í flokknum „Hlýð þú á hann“ í Gospel Library. Íhugið að búa til ykkar eigið myndband og útskýra hvernig Drottinn á samskipti við ykkur.
Sjá einnig Russell M. Nelson, „Opinberun fyrir kirkjuna, opinberun fyrir eigið líf,“ aðalráðstefna, apríl 2018; „All Things Must Be Done in Order,“ í Revelations in Context, 50–53.
Hafið sýnikennslu. Sýnikennsla eða sjónræn hjálpartæki geta hjálpað fólkinu sem þið kennið að skilja betur sannleika fagnaðarerindisins og hafa hann fastar í minni. Þið gætuð til að mynda notað púsl og raðað því saman stykki fyrir stykki, til að kenna um „opinberun á opinberun ofan, þekking á þekking ofan“ (Kenning og sáttmálar 42:61).
Hugmyndir fyrir kennslu barna
Lærisveinn er sá sem meðtekur lögmál Guðs og hlýðir því.
-
Til að hjálpa börnum ykkar að skilja merkingu þess að vera lærisveinn Jesú Krists, gætuð þið skrifað Kenningu og sáttmála 41:5 á blað og haft eyðu þar sem orðið lærisveinn kemur fyrir. Þau gætu síðan lesið vers 5 til að finna orðið sem vantar. Hver er merking þess að vera lærisveinn Jesú Krists, samkvæmt þessu versi? Hvernig reynum við að verða betri lærisveinar Krists?
Ég finn gleði þegar ég hlýði Drottni.
-
Börn ykkar gætu haft gaman af því að fara í leik sem krefst þess að þau hlusti vandlega og fylgi fyrirmælum. Þið gætuð notað þennan leik til að ræða merkingu þess að „hlýða á og heyra og fara eftir því“ sem Drottinn býður (sjá Kenning og sáttmálar 42:2). Hvaða fyrirmæli hefur hann gefið okkur? Hvernig erum við blessuð af því að hlýða lögmálum og boðorðum hans?
-
Þið gætuð fullgert verkefnasíðu þessarar viku með börnum ykkar. Þið gætuð líka sungið söng um að hlýða lögmálum Guðs, eins og „Boðorðin haldið“ (Barnasöngbókin, 68). Íhugið að miðla hvert öðru hvernig hlýðni við lögmál Guðs hefur fært ykkur hamingju.
Ég þjóna Jesú Kristi þegar ég þjóna öðrum.
-
Eftir að þið hafið lesið Kenningu og sáttmála 42:38, hjálpið þá börnum ykkar að hugsa um það hvernig þau geta þjónað Jesú með því að þjóna öðrum. Þau geta fengið einhverjar hugmyndir úr myndbandinu „Pass It On“ (ChurchofJesusChrist.org). Þau gætu líka haft fyrir augum sér mynd af frelsaranum hjálpa öðrum, lækna sjúka eða sýna börnum kærleika (sjá Trúarmyndabók, nr. 42, 47).
2:18Pass It On
-
Þið gætuð sýnt börnum ykkar gjafaseðil fyrir Tíund og aðrar fórnir og rætt hvernig á að nota hann til að gefa það sem við eigum til að blessa aðra (sjá einnig „Tíund og aðrar fórnir á netinu“).
Aðeins spámaðurinn meðtekur opinberun fyrir alla kirkjuna.
-
Bjóðið börnum ykkar að ímynda sér að einhver standi upp á vitnisburðarsamkomu og segi sig hafa hlotið opinberun fyrir alla kirkjuna (til dæmis opinberun um að við ættum ekki lengur að borða gulrætur eða að við ættum að þvo hendur okkar með mjólk í stað vatns.) Hann segði að við ættum að hlusta á það sem hann segir í stað spámannsins. Hvað væri athugavert við það? Þið gætuð síðan lært saman Kenningu og sáttmála 43:1–7 til að komast að því hvernig Drottinn gefur kirkju sinni boðorð.
-
Þið gætuð líka sýnt mynd af hinum lifandi spámanni og boðið börnum ykkar að miðla einhverju sem hann kenndi nýlega. Ef þau þurfa aðstoð, miðlið þá myndskeiði eða hluta úr nýlegum aðalráðstefnuboðskap. Af hverju er það blessun að hafa lifandi spámann á okkar tíma?
Sjá útgáfu þessa mánaðar af tímaritinu Barnavinur til að fá fleiri hugmyndir.