„Blessanir endurreisnarinnar,“ Líahóna, jan. 2025.
Kom, fylg mér
Kenning og sáttmálar 1; Joseph Smith – Saga 1:1–26
Blessanir endurreisnarinnar
Hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists hefur blessað mig og fjölskyldu mína og það mun halda áfram að blessa allan heiminn.
Ljósmynd af innsiglunarherbergi í Suva-musterinu á Fídjíeyjum
Vorið 1820 fór 14 ára piltur sem þarfnaðist svara út í trjálund. Hann þráði að vita hvaða kirkju hann ætti að ganga í meðal hinna margra kirkna umhverfis. Þar sem pilturinn hafði lært í ritningunum að „ef einhvern mann í ykkar hópi brestur visku, þá biðji hann Guð“ (Jakobsbréfið 1:5), þá fór hann út í lundinn og lauk upp hjarta sínu fyrir Guði. Þegar hann baðst fyrir, lukust himnarnir upp.
Guð faðirinn og sonur hans, Jesús Kristur, birtust Joseph Smith og svöruðu bænum hans (sjá Joseph Smith – Saga 1:16–20). Þessi helgi atburður var upphaf endurreisnar fyllingar hins eilífa fagnaðarerindis Jesú Krists. Þessi vitneskja hefur blessað líf mitt gríðarlega, en það tók mig nokkurn tíma að öðlast sjálfur vitnisburð.
Jesús Kristur lifir og endurreisti kirkju sína
Fyrir mörgum árum leið mér eins og hinum unga Joseph. Ég var ráðvilltur vegna „orrahríðar orða og deilna“ (Joseph Smith – Saga 1:10) sem barst frá mörgum mismunandi kirkjum á Fídjíeyjum. Þegar ég hitti trúboðana í fyrsta skipti hafði ég svo margar spurningar. Sumir hafa sagt mér að ég sé seinn að læra vegna þess að ég varði átta árum í að rannsaka kirkjuna. Trúarumbreyting mín hófst á því að öðlast skilning á nafni kirkjunnar.
Jesús Kristur stofnaði kirkju sína í jarðneskri þjónustu sinni. Með tímanum glataðist kenning og prestdæmisvald kirkju hans. Á okkar tíma endurreisti Jesús Kristur með spámanninum Joseph Smith sömu kirkju og hann stofnaði þegar hann lifði á jörðunni (sjá Trúaratriðin 1:6). Hann bauð líka með opinberun: „Því að svo mun kirkja mín nefnd á síðustu dögum, já, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu“ (Kenning og sáttmálar 115:4).
Kirkjan ber nafn Jesú Krists vegna þess að þetta er hans kirkja! Eftir átta ár endurómaði þessi sannleikur í huga mínum og hjarta. Ég skírðist 27 ára gamall og var fljótlega kallaður sem ráðgjafi í forsætisráði Piltafélagsins og kennari árla morguns í trúarskólanum. Yfir árin hélt vitnisburður minn áfram að styrkjast.
Endurreisnin heldur áfram
Líf mitt breyttist þegar ég kenndi í trúarskólanum, sótti sakramentissamkomur og hlustaði á aðalráðstefnur. Ég fann líka fyrir sefandi, hughreystandi og innblásnum áhrifum andans þegar ég las Mormónsbók – áþreifanlegri sönnun og staðfestingu um endurreisnina og spámannlega köllun Josephs Smith.
Þegar Drottinn kallaði Joseph „og talaði til hans frá himni og gaf honum fyrirmæli“ (Kenning og sáttmálar 1:17), sýndi hann að hann „innblæs menn og kallar þá til sinna heilögu starfa á þessari öld og með þessari kynslóð, jafnt og með kynslóðum til forna“ og að „hann er hinn sami Guð í gær, í dag og að eilífu“ (Kenning og sáttmálar 20:11–12).
Endurreisnin, sem hófst með Joseph, heldur áfram á okkar tíma. Sem Síðari daga heilagir, erum við kölluð til að mæla í nafni frelsarans, svo „að trú megi eflast á jörðu“, „ævarandi sáttmála [hans] verði á komið“ og „hinir veiku og einföldu fái boðað fyllingu fagnaðarerindisins til endimarka heims“ (Kenning og sáttmálar 1:21–23). Við erum blessuð að geta tekið þátt í að byggja upp kirkjuna og búa heiminn undir þann dag þegar Jesús Kristur kemur aftur.
Öldungur og systir Wakolo (lengst til hægri) fengu musterisgjöf og innsigluðust í Nuku‘alofa-musterinu á Tonga í ágúst 1995, ári eftir að öldungur Wakolo gekk í kirkjuna. Þau eru hér með musterisforsætisráðinu.
Þakklæti fyrir spámanninn Joseph
Ári eftir skírn mína, ferðuðumst ég og eiginkona mín, Anita, til Nuku‘alofa-musterisins á Tonga til að innsiglast um tíma og alla eilífð. Vitnisburður minn um endurreisnina gerði það afar þýðingarmikið að fara í musterið. Hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists skiptir sannlega öllu máli! Hjarta mitt er fullt þakklætis fyrir þær blessanir sem það hefur fært mér og fjölskyldu minni.
Þessar dýrmætu blessanir hafa komið til heimsins fyrir tilverknað „Josephs Smith, [sem er] spámaður og sjáandi Drottins, [sem] að Jesú einum undanskildum, [hefur] gjört meira manninum til sáluhjálpar í þessum heimi en nokkur annar, sem lifað hefur í honum“ (Kenning og sáttmálar 135:3). Við ættum ætíð að vera þakklát fyrir það – og aldrei missa sjónar á því – sem okkur hefur verið gefið fyrir tilstilli spámanns þessarar síðustu ráðstöfunar.
Fyrir milligöngu Josephs skiljum við sáttmálssamband okkar við himneskan föður og Jesú Krist. Við höfum hið endurreista prestdæmi og helgiathafnir og sáttmála. Af upplifun Josephs í Lundinum helga lærum við að jafnvel áður en faðirinn kynnti son sinn, Jesú Krist, þá nefndi hann Joseph með nafni (sjá Joseph Smith – Saga 1:17). Hann þekkir okkur líka með nafni. Á sama hátt og hann lauk upp himnunum og svaraði einföldum, hjartnæmum bænum 14 ára drengs, mun hann líka svara bænum okkar að eigin vilja, á sinn hátt og á sínum tíma, hver sem aldur okkar er. Þessi sannleikur endurómar djúpt í sálu minni. Ég ber vitni um að þetta er sannleikur.
Ég vona að ég sé einn af þeim sem er að gera gott í heiminum. Ef svo er, þá hefur Joseph Smith lagt mikið af mörkum til þess. Líf mitt væri ekki það sem það er í dag, ég væri ekki sá eiginmaður og faðir sem ég er og ég væri ekki eins hamingjusamur og ég er án hins endurreista fagnaðarerindis sem spámaðurinn Joseph fórnaði lífi sínu fyrir til að færa heiminum. Fagnaðarerindið veitir mér birtu og von. Fyrir þetta verð ég ævinlega þakklátur spámanninum Joseph.
Hvenær og hvar sem er
Ég hef eintak af Mormónsbók með mér hvert sem ég fer í von um að geta gefið hana einhverjum og kynnt hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists. Ég hef dreift hundruðum eintaka um allan heim. Ég elska að miðla boðskap endurreisnarinnar – hvenær og hvar sem er.
Það hefur einkum átt við þegar ég kenni og vitna fyrir börnum mínum, ásamt Anitu, innan veggja heimilis okkar. Dóttir okkar er nú að þjóna í trúboði í New York-borg, Bandaríkjunum. Við höfum sagt henni: „Farðu út og vitnaðu um frelsarann í þínum hluta heimsins. Móðir þín og faðir munu gera það sama í þeirra hluta heimsins.“ Við elskum að uppfræða hvert annað um þjónustu okkar. Nú eigum við fjögurra ára barnabarn. Von mín og ósk hjartans er að hún muni oft heyra og minnast afa síns bera vitni um frelsarann og fagnaðarerindi hans.
Við getum öll vitnað um blessanir hins endurreista fagnaðarerindis – hvenær og hvar sem er – er við lifum fyrirmyndarlífi sem lærisveinar Jesú Krists. Við getum miðlað Mormónsbók: Öðru vitni um Jesú Krist. Við getum líka borið vitni um að Jesús Kristur hefur endurreist fyllingu fagnaðarerindis síns og leiðir kirkjuna í dag. Russell M. Nelson forseti kenndi: „Opinberanir streyma áfram frá Drottni í viðvarandi ferli endurreisnar.“ Ég ber vitni um að þetta heldur áfram með óslitinni röð prestdæmislykla sem spámenn, sjáendur og opinberarar hafa og innblása, leiða og hjálpa okkur að bindast frelsaranum Jesú Kristi.
Þetta er vitni mitt og vitnisburður. Ég mun alltaf miðla öðrum honum og aldrei draga hann í efa.