„Þörf er fyrir alla í líkama Krists,“ Líahóna, jan. 2025.
Sáttmálskonur
Þörf er fyrir alla í líkama Krists
Við getum hjálpað til við að byggja upp heimssystralag sem er heilbrigðara, sveigjanlegra og tengdara, sökum sáttmálssambands okkar við Guð.
Öll viljum við finna að við eigum stað og að við tilheyrum og að þörf sé fyrir okkur í hinni endurreistu kirkju Jesú Krists. Við getum hjálpað öllum systrum okkar og bræðrum, sama hver aldur þeirra er eða aðstæður, að finna að þau eigi samastað og tilheyri og að líka sé þörf fyrir þau. Við erum öll börn himneskra foreldra og því andleg systkini, systur og bræður. Þessar tengingar við hvert annað eru afar mikilvægar.
Þegar við göngum í sáttmálssamband við Guð, mun það ekki aðeins dýpka og bæta samband okkar við hann, heldur hefur það líka áhrif á samband okkar við önnur börn hans – andleg systkini okkar. Hluti af sáttmálunum sem við gerum við Guð, allt frá skírn, er ábyrgðin að elska og annast hvert annað.
Vandamál einmanaleika
Landlæknir Bandaríkjanna, yfirheilbrigðissérfræðingur Bandaríkjanna, deildi þessari yfirlýsingu um mikilvægi sambanda: „Faraldur einmanaleika og einangrunar hefur verið vanmetin lýðheilsukreppa sem hefur skaðað heilsu einstaklinga og samfélagsins. Sambönd okkar eru uppspretta lækningar og vellíðunar sem leynast fyrir allra augum. … Í ljósi verulegra heilsufarslegra afleiðinga einmanaleika og einangrunar verðum við að forgangsraða uppbyggingu félagslegra tengsla á sama hátt og við höfum forgangsraðað öðrum mikilvægum lýðheilsumálum. … Saman getum við byggt upp [samfélag] sem er heilbrigðara, þrautseigara, síður einmana og tengdara.“
Saman getum við hjálpast að við að byggja upp alþjóðlegt systralag systra á öllum aldri sem er heilbrigðara, þrautseigara, síður einmana og tengdara, sökum sáttmálssambands okkar við Guð og ábyrgð okkar gagnvart hver annarri sem lærisveinar Jesú Krists.
Eins og frelsarinn sagði: „Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars“ (Jóhannes 13:35).
Tengsl við hvert annað
Við getum gert okkar besta til að hægja á faraldri einmanaleika með því að skapa þægilegar og öruggar aðstæður í söfnuðum okkar og sér í lagi í Líknarfélaginu, þar sem allir geta skynjað elsku Drottins, því þau eru umvafin elsku okkar.
Upplifun okkar í kirkjunni er ætlað að framkalla þessi mikilvægu tengsl við Drottin og hvert annað, sem eru svo nauðsynleg fyrir líkamlega, tilfinningalega og andlega velferð okkar. Það er mikill styrkur einingar og fegurðar í fjölbreytileika; þörf er fyrir alla í líkama Krists (sjá 1. Korintubréf 12:12–27). Rétt eins og risavaxin furutré festa rætur sínar saman og geta staðist náttúruöflin vegna þess að þau standa saman, þá þurfum við að taka höndum saman, standa saman og styrkja hvert annað í gegnum storma lífsins.
Þegar við virkilega kynnumst þeim sem okkur finnst vera öðruvísi en við erum, verður okkur ljóst að þau eiga meira sameiginlegt með okkur en við töldum. Hver einstaklingur hefur svo margt fram að leggja, svo margar fallegar og fjölbreyttar lífsupplifanir sem geta blessað líf okkar. Að hlusta á sögur annarra og leitast við að skilja þau, mun breyta hjörtum okkar og í stað dómhörku og ótta sem við höfum haft gagnvart sumum getur komið þakklæti fyrir að hafa þau í lífi okkar.
Drottinn getur hjálpað okkur að sjá aðra eins og hann sér þau og hann getur fyllt hjörtu okkar með kærleika og gert okkur mögulegt að lyfta, hugga, hlæja með, gráta með og hlúa að þeim sem í kringum okkur eru. Hann mun hjálpa okkur að vita hvað er nauðsynlegt og hvernig á að vera öðrum blessun á ferðalagi þeirra.
Auðvitað er það aðeins hann sem getur skilið að fullu og sýnt fullkomna samkennd. Sem hluti af friðþægingarfórn sinni, upplifði hann „alls kyns sársauka, þrengingar og freistingar … [er hann tók á sig] sársauka og sjúkdóma fólks síns“ (Alma 7:11), svo við getum verið viss um að við erum aldrei raunverulega ein.
Sérhvert okkar er kallað til að elska og þjóna börnum himnesks föður eins og frelsarinn myndi gera. Við tökum höndum saman með honum við að blessa aðra, svo bæði þau og við getum betur fundið elsku frelsara okkar. Tökum höndum saman og fylgjum hvert öðru heim í gleði. Ég ber vitni um að þetta er heilagt verk sem við öll erum kölluð til að vinna.