„Verk Guðs gerð opinber,“ Líahóna, jan. 2025.
Fyrirmyndir trúar
Verk Guðs gerð opinber
Ég vissi ekki hvort ég myndi læknast eða vera áfram blind. Ég vissi bara að vilji Guðs yrði gerður og að hann myndi bera mig gegnum þrengingar mínar.
Ljósmyndir: Christina Smith
Þann 7. janúar 2023 vaknaði ég við algjöra blindu á hægra auga og aðeins um 10% sjón á vinstra auga. Heimurinn hafði skyndilega dofnað og orðið grár – bókstaflega. Litir og ljós voru horfin. Ég var skilin eftir í myrkri, ótta og efa.
Það eina sem mig langaði að gera sem listamaður, var að auka við fegurð heimsins með list – ástríða sem ég hef haft næstum allt mitt líf. Hvað myndi ég gera ef ég gæti ekki lengur séð, tekið þátt í eða metið fegurð heimsins?
Nokkrum dögum áður urðu augu mín viðkvæm fyrir ljósi og skarpar línur tóku að flökta í sjón minni. Ég hafði áhyggjur og fór til augnlæknis. Eftir að hafa skoðað mig sagði hann að uppsöfnun heila- og mænuvökva ylli þrýstingi í höfuðkúpunni á mér og skapaði einkenni sem líkja eftir heilaæxli, þar á meðal sjónskerðingu.
Hann sagði mér að sjón mín myndi dofna hægt á næstu mánuðum ef hún yrði ekki meðhöndluð. Hann fullvissaði mig hins vegar um að ég hefði nægan tíma til að finna taugasérfræðing, sem gæti meðhöndlað vökvasöfnunina.
Ég var áhyggjufull og bað um blessun lækningar og huggunar frá föður mínum, sem þjónaði sem biskup. Þegar hann og einn ráðgjafi hans blessuðu mig, kom eftirlætis biblíusagan mín upp í huga minn:
„Lærisveinar hans spurðu hann: Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans fyrst hann fæddist blindur?
Jesús svaraði: Hvorki er það af því að hann hafi syndgað eða foreldrar hans heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum“ (Jóhannes 9:2–3).
Aftur og aftur í huga mínum hugsaði ég: „Kraftur Guðs mun opinberast með þessu.“ Ég vissi ekki hvort það þýddi að ég myndi læknast eða vera áfram blind. Ég vissi bara að vilji hans yrði gerður og að hann myndi bera mig gegnum þrengingar mínar.
„Hversu marga fingur sérðu?“
Nokkrum dögum síðar átti ég pantaðan tíma hjá taugasérfræðingi, en þennan janúarmorgun fann Kylie, eldri systir mín, hvatningu um að fjölskylda mín ætti að fara með mig á bráðamóttökuna á nærliggjandi sjúkrahúsi. Læknar pöntuðu tölvusneiðmyndatöku í snatri og fyrstu af nokkrum mænustungum til að draga úr þrýstingi heila-og mænuvökva. Daginn eftir fór ég í tvær segulómanir. Síðan skoðaði augnlæknir mig.
„Hvað sérðu marga fingur?“ spurði hann og hélt nokkrum fingrum beint fyrir framan andlitið mitt. Ég sá ekki neitt.
Eftir skoðunina komst hann að þeirri niðurstöðu að ég hefði einkenni bæði þrýstings á höfuðkúpu og sjóntaugarbólgu. Hvorugt ástandið eitt og sér virtist fullkomlega rökrétt. Hann útskýrði að vegna alvarleika sjónskerðingarinnar, gæti bati tekið rúmt ár og verið gæti að sjón mín kæmi ekki aftur að fullu. Hann mælti með stórum skammti af sterum í æð og öðrum lyfjum.
Eftir að hann fór, byrjaði ég að gráta. Móðir mín fullvissaði mig: „Ef þú átt erfitt með að halda í trú þína núna, geturðu reitt þig á okkar.“
„Viltu hugga mig“
Á þriðja degi mínum á sjúkrahúsinu, bað taugasérfræðingurinn minn um mænu- og heilasegulómun til að leita að æxli eða stíflu. Klukkan 4:00 að morgni, tveimur dögum eftir að ég vaknaði blind, fór ég í fimm klukkustunda segulómskoðun. Til undirbúnings, ákvað fjölskylda mín að biðja og fasta í mína þágu um morguninn. Faðir minn, sem svaf við hlið mér á bekk á sjúkrastofunni hverja nótt, veitti mér aðra blessun – aðra blessun af mörgum sem ég hlaut.
Þegar tæknimaður á sjúkrahúsinu spurði hvort ég vildi hlusta á tónlist í skoðuninni, bað ég um lög eftirlætis söngkonunnar minnar. Tæknimaðurinn setti gúmmíheyrnartól í eyrun á mér og festi höfuðið niður með andlitsneti til að halda mér kyrri. Í því ferli rak hann sig í heyrnartólin svo þau duttu næstum úr eyrunum á mér. Ég heyrði varla tónlistina þegar ómskoðunin byrjaði.
Því lengur sem aðgerðin tók, því heitara fannst mér inni í pípulaga tækinu. Eftir það sem virtist vera heil eilífð, var mér sagt að ég stæði mig frábærlega og smá stund væri eftir. En ég var hrædd og miður mín vegna hitans, háværra hljóða og ólanna sem héldu mér kyrri.
Í hljóðri bæn hrópaði ég: „Himneskur faðir, viltu hugga mig. Ég er svo ein. Ég þarf hjálp þína. Ég þarfnast fjölskyldu minnar.“
Samstundis bergmálaði ljúfur píanóhljómur í eyrum mér. Það var úr einu af eftirlætis lögunum mínum – lagi sem yngri systir mín, Morgan, spilar á píanó. Ég hefði ekki átt von á að heyra það úr lausu heyrnartólunum fyrir hávaðanum í tækinu. Svo virtist sem Morgan væri með mér og að ég væri ekki ein. Hávaðinn hvarf. Hitinn hvarf. Innilokunarkenndin hvarf.
Mér fannst ég svífa utan líkamans á hafi í geimnum. Mér fannst ég umkringd kærleika Guðs og fjölskyldu minnar. Rétt sisona varð ég róleg. Klukkan var 7:30 að morgni, þegar fjölskylda mín tók að fasta fyrir mér. Það sem eftir var af fimm klukkustunda ómskoðuninni leið á augabragði og þá heyrði ég: „Þú ert búin.“
Kærleikurinn sem ég upplifði af þessari reynslu fyllti mig tárum og létti líðan mína það sem eftir var af dvöl minni á sjúkrahúsinu. Ég vissi ekki hvort sjónin myndi koma aftur, en ég vissi að Guð var þarna og hafði heyrt bæn mína. Eftir fjóra daga á sjúkrahúsinu, útskrifaðist ég.
„Þetta er kraftaverk!“
Á hverjum degi næstu tvær vikurnar fór ég aftur á sjúkrahúsið til lyfjatöku og á hverjum degi gætti ég að breytingu á sjón minni – dökkgrár litur dofnaði og varð ljósgrár, skuggamyndir birtust umhverfis fingur mína fyrir framan andlitið og appelsínugul móða í sjónvarpinu breyttist í blóm. Sérhver lítil framför var sigur.
Tveimur vikum eftir að ég var útskrifuð, sýndi rannsókn að sjón mín hafði farið frá núlli í næstum fullkomna sjón á báðum augum.
„Bronwyn, hvað hefur gerst?“ spurði augnlæknirinn minn.
„Við höfum verið að biðjast fyrir og ég hef hlotið blessanir,“ svaraði ég.
„Þetta er kraftaverk!“ sagði hann. „Ég hef aldrei séð þetta gerast. Við ættum ekki að hafa þessa útkomu fyrr en hið minnsta eftir sex mánuði.“
Hann sagði mér síðar að sjúklingar með núllsjón fái sjaldan eðlilega sjón. Á nokkrum vikum hafði ég farið frá því að vera eitt hans versta tilfelli í það að vera hans besta tilfelli.
„Fylgið ljósi Krists“
Í lok árs 2022 völdu leiðtogar í deild föður míns deildarþema fyrir árið 2023. Það var innblásið af kenningu frá Russell M. Nelson forseta, sem fyrr á þessu sama ári hafði sagt: „Leitið og væntið kraftaverka.“
Á þeim tíma taldi faðir minn að þemað gæti hjálpað þeim deildarmeðlimum sem tækjust á við erfiðleika. Hann hafði ekki hugmynd um að þetta gæti orðið fjölskyldu okkar svona persónulegt.
„Fylgið ljósi Krists,“ var þemað. „Væntið kraftaverka! Væntið gleði!“
Nú, tveimur árum síðar, er sjón mín betri en áður en ég missti hana. Ég þakka himneskum föður dag hvern fyrir kraftaverkið mitt og óhagganlega trú fjölskyldu minnar. Með þessari prófraun opinberaði verk Guðs sig. Ég öðlaðist sterkari vitnisburð, dýpra þakklæti fyrir lífið og meiri elsku til hans, fjölskyldu og vina.
Í dag geri ég allt sem ég get, þar á meðal sem listamaður, til að nýta sem best þær blessanir, gjafir og gleði sem Guð hefur gefið mér – að vegsama hann og blessa aðra.
Í dag notar Bronwyn list sína, eins og þessa myndlíkingu um frelsarann, til að vegsama Guð og blessa aðra.