„Ann og Newel Whitney og sáttmálsvegurinn,“ Líahóna, jan. 2025.
Ann og Newel Whitney og sáttmálsvegurinn
Eins og Ann og Newel Whitney, þá förum við líka sáttmálsveginn með því að iðrast, þjóna, fórna og fagna á leið okkar.
Verslun Whitney-hjónanna í Kirtland (sýnd hér 1907) fjármagnaði stóran hluta af vexti kirkjunnar í Ohio og Missouri á fjórða áratug 19. aldar.
Ljósmynd: George Edward Anderson, 1907
Þegar hin 18 ára Elizabeth Ann Smith flutti til Ohio, hitti hún myndarlegan kaupsýslumann að nafni Newel K. Whitney. Hún lýsti honum sem „ungum manni [sem] hafði farið vestur til að ‚leita gæfu sinnar‘. Hann var sparsamur og þróttmikill og safnaði eignum hraðar en flestir … samstarfsaðilar hans.“ Þau giftu sig í október 1822 og voru „hamingjusöm hjón sem horfðu bjartar framtíðarhorfur“.
Þau settust að í Kirtland, Ohio, þar sem Newel rak farsælt verslunarfyrirtæki.
Við getum séð mynstrið í samskiptum Drottins við börn hans með því að skoða reynslu Whitney-hjónanna og svo margra annarra. Við getum til að mynda séð hvernig þau kynntust frelsaranum og hvernig hann hjálpaði þeim að sjá sjálf sig sem börn sáttmálans. Að þekkja til þeirra, veitir dýpri skilning á opinberunum Drottins í Kenningu og sáttmálum.
Búa sig undir að taka á móti orði Drottins
Foreldrar Ann völdu að ala hana upp án trúarbragða. Newel var viðskiptalega sinnaður. Þegar þau hins vegar byggðu hús í Kirtland, skynjaði Ann að eitthvað vantaði í lífi þeirra. Þau tóku að leita að kirkju sem fylgdi fagnaðarerindinu, eins og Jesús Kristur kenndi það í Nýja testamentinu. Um tíma tilbáðu þau með Lærisveinum Krists að hætti Alexanders Campbell.
„Kvöld eitt,“ rifjaði Ann upp, „… þegar ég og eiginmaður minn vorum í húsinu okkar í Kirtland að biðja til föðurins um að hann sýndi okkur leiðina, hvíldi andinn yfir okkur og ský yfirskyggði húsið. … Helg lotning gagntók okkur. … Við heyrðum rödd … segja: ‚Búið yður undir að taka á móti orði Drottins, því að það kemur.‘“
Í New York, hundruð kílómetra í burtu, bauð Drottinn Joseph Smith að senda út trúboða til að prédika fagnaðarerindið. Þegar þessir trúboðar – leiddir af Oliver Cowdery og Parley P. Pratt – prédikuðu í Kirtland, hlustaði Ann og skrifaði síðar: „Ég vissi að þar var rödd góða hirðisins.“ Vitni trúboðanna, annarra trúaðra, eins og Lucy og Isaac Morley, og það sem mikilvægast var, heilags anda, leiddi þau til að gera helga sáttmála. Ann og Newel voru skírð inn í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu í nóvember 1830.
Þegar Joseph Smith kom til Kirtland árið 1831, kynnti hann sig fyrir Newel og sagði: „Ég er spámaðurinn Joseph. … Þú hefur beðið fyrir því að ég komi hingað.“
Myndskreyting: Paul Mann
Kynni við spámanninn Joseph
Önnur opinberun bauð hinum heilögu að „fara til Ohio“, þar sem þeir myndu hljóta „slíka blessun, sem ekki hefur þekkst meðal mannanna barna“ (Kenning og sáttmálar 39:14–15; sjá einnig 37:1).
Joseph og Emma Smith komu til Kirtland í febrúar 1831 og Newel og Ann tóku þau inn á heimili sitt í mánuð. Átján mánuðum síðar sáu þau Joseph og Emmu aftur fyrir heimili í uppgerðri verslun þeirra.
Whitney-hjónin fóru að sjá skýrari mynd af eilífri sjálfsmynd sinni. Síðar sama ár opinberaði Drottinn spámanninum Joseph að Newel ætti að þjóna sem biskup í Kirtland. Newel sagði: „Ég get ekki séð biskup í sjálfum mér, bróðir Joseph. En ef þú segir að það sé vilji Drottins, þá mun ég reyna.
Joseph svaraði: „Þú þarft ekki að taka orð mín eingöngu. Farðu og spurðu föðurinn fyrir þig sjálfan.“
Eftir að hafa beðist fyrir, heyrði Newel rödd frá himni segja: „Styrkur þinn er í mér.“
Þetta var tímabil vaxtar fyrir Newel og Ann, er þau unnu saman að því að halda sáttmála sína. Ann skrifaði um eina leið til að þjóna öðrum:
„Að hætti frelsarans … ákváðum við að halda fátækum veislu …; fyrir lamaða, halta, daufa, blinda, aldraða og veikburða.
Þessi veisla stóð í þrjá daga og á þeim tíma var öllum í nágrenni Kirtland, sem vildu koma, boðið. … Fyrir mig var þetta ‚veisla með krásum‘ [Jesaja 25:6], gleðitími sem gleymist aldrei.“
Newel þjónaði síðar sem trúboði með Joseph Smith og sem meðeigandi í Sameinaða fyrirtækinu, samvinnufélagi sem hugði að þörfum hinna heilögu. Verslun hans fjármagnaði að miklu leyti vöxt kirkjunnar í Kirtland og Missouri og hann þjónaði kirkjunni á margan annan hátt. Mikilvægast er kannski að Ann og Newel eignuðust 14 börn og ólu upp 10 til fullorðinsára.
Aðrir söfnuðust saman til að byggja upp stikur Síonar. Kimball-fjölskyldan, Young-fjölskyldan, Crosby-fjölskyldan, Tippet-fjölskyldan og margir fleiri reyndu að helga líf sitt fagnaðarerindi Jesú Krists. Allir komu með þrótt og sérstaka hæfileika. Fyrstu opinberanir voru til að leiða, áminna og fullvissa þau og veita þeim leiðsögn varðandi hina vaxandi kirkju.
Byggja hús Drottins
Þungamiðja stundlegrar og andlegrar viðleitni fyrstu meðlima kirkjunnar, sameiginlega og einstaklingsbundið, var þungamiðja stundlegrar og andlegrar viðleitni þeirra (sjá Kenning og sáttmálar 38:32).
Drottinn hafði ítrekað boðið byggingu mustera í Kirtland og Missouri. Í Kirtland tókst hinum heilögu af hetjudáð að reisa tignarlega byggingu. Það var besta viðleitni þeirra til að byggja eitthvað sem var samboðið Drottni Jesú Kristi. Musterið stendur enn á okkar tíma. Verslun Newel, ásamt verksmiðju hans, voru nauðsynlegir þættir efnahagslífsins í Kirtland sem studdi við musterisverkefnið.
Frelsarinn birtist í musterinu árið 1836 og meðtók verkið þeirra. Hann lofaði að fólk hans „[myndi] fagna ákaft yfir þeim blessunum, sem úthellt verður, og þeirri gjöf, sem þjónum mínum hefur verið veitt í þessu húsi“ (Kenning og sáttmálar 110:9). Móse, Elías og Elía komu síðan og veittu nauðsynlega lykla fyrir síðustu ráðstöfunina (sjá Kenning og sáttmálar 110:11–16).
Ódagsett teikning af Newel K. Whitney sem ungum manni
Ofsóknir og áhyggjur heimsins
Á komandi dögum yrði reynt á hina heilögu, þar á meðal Whitney-fjölskylduna. Í efnahagskreppu á landsvísu og bankakrísu sneru margir sér gegn kirkjunni og spámanninum. Newel var boðið að flytja til Missouri en hikaði. Hann hafði helgað líf sitt versluninni sinni í Kirtland. Mikill hluti fjármagns hennar efldi kirkjuna. Hvernig gat hann bara gengið í burtu?
Drottinn ávítaði hann fyrir að huga of mikið að veraldlegum hlutum og fyrir „lítilmennsku sálar [hans]“ (Kenning og sáttmálar 117:11). Newel iðraðist og hlýddi. Hann settist að í Nauvoo, Illinois, þar sem hann þjónaði áfram sem biskup og síðar sem Yfirbiskup.
Musterishelgiathafnir
Í Nauvoo var musterið aftur miðstöð stundlegra og andlegra athafna. Þegar veggir musterisins tóku að rísa, skipulagði Drottinn Líknarfélagið með spámanni sínum. Emma Smith varð fyrsti forsetinn og Sarah Cleveland og Ann Whitney voru ráðgjafar hennar. Emma úthlutaði Ann mikilvægum skyldum og bað hana að leiða samtökin þegar hún var ekki á staðnum.
Drottinn hélt áfram að opinbera spámanninum helgiathafnir musterisins. Árið 1842, þegar Nauvoo-musterið var enn ófullgert, safnaði Joseph Smith saman kirkjuleiðtogum, þar á meðal Newel, á efri hæð Rauðsteinsverslunar sinnar og framkvæmdi helgiathöfn musterisgjafarinnar. Þegar hluti musterisins – háaloftsins – var vígður, veittu bæði Ann og Newel öðrum heilögum musterisgjöfina áður en þau héldu til Saltvatnsdalsins.
Á sáttmálsveginum leituðu Ann og Newel frelsarans, iðruðust, þjónuðu af öllu hjarta, helguðu, fórnuðu og glöddust. Þau kynntust Jesú Kristi og litu á sig sem börn sáttmálans. Milljónir hafa í kjölfar þeirra fylgt þessari sömu fyrirmynd, til að gera og lifa eftir helgum sáttmálum og byggja upp ríki Drottins. Sú viðleitni að þekkja sögur þeirra, hjálpar okkur á tímabilum velsældar og rauna.
Ódagsett ljósmynd af Ann Whitney síðar á ævinni
Þegar dró að lokum lífs Ann, skrifaði hún: „Að finna að maður hefur öðlast örlitla innsýn í tilgang Guðs með sköpun hans … getur maður skilið að þessir hlutir eru þess virði að lifa fyrir, þess virði að þjást fyrir? Gæti nokkur fórn verið of mikil … ef við myndum feta í fótspor meistara okkar?“