„Ég hefði átt að leggja við hlustir,“ Líahóna, jan. 2025.
Frá Síðari daga heilögum
Ég hefði átt að leggja við hlustir
Ég lærði mikilvægi þess að fylgja andanum eftir að hafa valið að leiða hjá mér síendurtekinn innblástur.
Fyrir nokkrum árum hóf ég nýtt starf við að stjórna söluteymi. Þetta var erfitt starf en ég náði árangri.
Eftir að hafa unnið hjá fyrirtækinu í rúmt ár, fann ég þessi sterku hughrif frá andanum þrisvar sinnum á einum mánuði: „Farðu úr þessu starfi.“ Ég þurfti hins vegar á starfinu að halda, svo ég hunsaði hugboðið.
Ekki löngu síðar kom eigandi fyrirtækisins til mín og sagði: „Þú ert þjófur! Þú þarft að skila öllum peningunum sem þú hefur fengið greitt í þóknun.“ Síðan fór hann án þess að gefa mér tækifæri til að spyrja hvers vegna hann hefði sakað mig um óheiðarleika.
Þessi reynsla olli mér miklum persónulegum efasemdum. Ég hafði alltaf reynt að halda boðorðin og halda í heiðri þau gildi sem foreldrar mínir og fagnaðarerindið höfðu kennt mér, þar á meðal heiðarleika. Ég varð samt að spyrja sjálfan mig: „Gerði ég í raun eitthvað rangt? Er ég virkilega þjófur?“
Efasemdir mínar ollu andlegu álagi, svo ég fór að velta fyrir mér hvort ég ætti að meðtaka sakramentið á sunnudögum. Eftir föstu, fann ég þó róandi áhrif heilags anda, sem sögðu mér að ég væri verðugur og að allt færi vel – og minnti mig einnig á að ég hefði hlotið aðvörun um að hætta í vinnunni.
Fyrirtækið vildi að ég undirritaði skjal þar sem ég játaði sekt mína og samþykkti að endurgreiða háa peningaupphæð. Ég neitaði því. Ég vissi að þessi ásökun var ekki sönn.
Með tímanum komst ég að því að einn af yfirmönnum mínum hafði verið sá sem féfletti fyrirtækið. Þetta létti af mér sjálfsefanum. Já, ég var heiðarlegur. Já, ég var ráðvandur. Já, ég var trúr því sem mér hafði verið kennt.
Þessi reynsla kenndi mér að fylgja alltaf innblæstri andans, sama hvað gerist í lífi mínu. Öldungur Dieter F. Uchtdorf í Tólfpostulasveitinni hefur kennt: „Ef við hlustum eftir og fylgjum innblæstri andans, munu orðin þjóna sem Líahóna og leiða okkur um óþekkta og erfiða dali og fjallstinda sem bíða okkar (sjá 1. Nefí 1:16).“
Ég veit að Drottinn er alltaf meðvitaður um okkur, jafnvel í hinu smæsta í lífi okkar, og mun aldrei leiða okkur afvega.