2010–2019
Leitið til hans og svör munu berast
Október 2015


Leitið til hans og svör munu berast

Verið hlýðin, minnist þeirra stunda er þið hafið skynjað andann og biðjið í trú. Þið munuð hljóta svör.

Þegar ég var ungur gengu foreldrar mínir í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Við vissum að trúboðar hefðu verið að kenna þeim, en þau höfðu gert það án okkar barnanna.

Eftir þessa óvæntu tilkynningu, tóku ég og bræður mínir líka að hlusta á kennslu trúboðanna og þeir meðtóku allir fúslega boðskap endurreisnarinnar Þótt ég hefði verið forvitinn, þá var ég ekki tilbúinn til að breyta lífi mínu. Ég tók þó á móti því boði að biðjast fyrir um sannleiksgildi Mormónsbókar, en ég hlaut ekkert svar.

Þið gætuð spurt ykkur af hverju himneskur faðir svaraði ekki þeirri bæn, því ég gerði það vissulega. Frá því að þetta gerðist hefur mér lærst að loforð Morónís er áreiðanlegt. Guð svarar vissulega bænum okkar um sannleiksgildi fagnaðarerindisins, en það gerir hann þegar við spyrjum „í hjartans einlægni, með einbeittum huga.“1 Hann svarar ekki bara til að svala forvitni okkar.

Kannski er eitthvað í ykkar lífi sem þurfið að fá svar við. Kannski eigið þið í erfiðleikum og þurfið svör. Í dag ætla ég að miðla ykkur hugsunum mínum, sem gætu hjálpað ykkur að hljóta svör eða liðsinni. Ferlið hefst á því að snúist er til trúar á fagnaðarerindi Jesú Krists.

Að hljóta opinberun er háð ástandi og ásetningi hjarta okkar

Ég hef íhugað frásagnir nokkurra einstaklinga í ritningunum. Tökum til að mynda Laman og Lemúel. Þeir voru, líkt og Nefí, „af góðum foreldrum [komnir]“ og hlutu „tilsögn í öllum fræðum föður [þeirra].“2 Samt mögluðu þeir yfir því að faðir þeirra væri hugsjónamaður. Frá þeirra sjónarhorni, var þessi ákvörðun rökrétt, því þeir þekktu ekki vegi Guðs og vildu því ekki trúa.3

Athyglisvert er að ákvarðanir þeirra gerðu þeim mögulega kleift að hljóta trúarstyrkjandi reynslu. Þeir yfirgáfu heimili sitt og auðæfi. Þeir þoldu þrengingar á ferð sinni um óbyggðirnar. Þeir hjálpuðu að endingu við skipsmíðina og samþykktu að sigla til ókunnugs lands.

Nefí gekk í gegnum þessa sömu reynslu. Varð allt þetta til að efla trú þeirra? Trú Nefís styrktist, en Laman og Lemúel urður sífellt reiðari og beiskari. Þessir bræður sáu jafnvel engil, en samt mögluðu þeir og efuðust.4

Jarðlífið er engu okkar auðvelt. Við erum hér til að takast á við prófraunir. Viðbrögð okkar við lífsins reynslu, hafa oft mikil áhrif á vitnisburði okkar. Íhugið hvernig Laman og Lemúel brugðust oft við: Þeir mögluðu þegar faðir þeirra bað þá að gera erfiða hluti.5 Þeir reyndu að ná í látúnstöflurnar og gáfust upp þegar það gekk ekki sem skildi. Viðhorf þeirra var: „Við reyndum; hvað meira er hægt að ætlast til af okkur?“6

Þeir tímar komu jafnvel að þeir sáu eftir rangri breytni og báðust fyrirgefningar.7 Þeir báðust fyrir og þeim var fyrirgefið. Ritningarnar segja að samt hafi þeir síðar byrjað að mögla aftur og neitað að biðjast fyrir. Þeir komu til Nefís og sögðu: „Við fáum ekki skilið orðin, sem faðir okkar viðhafði.“8 Nefí spurði á móti: „Hafið þið spurt Drottin.“9 Takið eftir svari þeirra: „Það höfum við ekki gjört, því að Drottinn kunngjörir okkur ekkert þess háttar.“10

Stöðug hlýðni gerir okkur kleift að hljóta svör

Svar Nefís til bræðra sinna er lykilatriði þess að hljóta stöðug bænasvör:

„Hvernig má það vera, að þið hafið ekki farið að orðum Drottins? Hvernig má það vera, að þið farist vegna hörkunnar í hjörtum ykkar?

Rekur ykkur ekki minni til þess, sem Drottinn hefur sagt? – Ef þið herðið ekki hjörtu yðar og biðjið til mín í trú og í vissu um bænheyrslu og haldið auk þess boðorð mín af kostgæfni, mun þetta vissulega kunngjört yður.“11

Ég þekki nokkra fyrrverandi trúboða sem hafa hlotið óyggjandi andlega reynslu, en hafa ekki viðhaldið ákveðnum andlegum venjum, sem hefur leitt til þess að þeir hafa gleymt þeim tilvikum sem Guð hefur talað til þeirra. Við þá trúboða og okkur öll segi ég: „Hafi yður langað til að syngja söng hinnar endurleysandi elsku, þá spyr ég: Finnið þér slíkt nú?“12 Ef þið finnið hana ekki nú, þá getið þið fundið hana aftur, en íhugið leiðsögn Nefís. Verið hlýðin, minnist þeirra stunda er þið hafið skynjað andann og biðjið í trú. Svörin munu berast og þið munið finna kærleika og frið frelsarans. Ekki er víst að þau berist jafn skjótt eða á sama hátt og þið óskið, en þau munu berast. Gefist ekki upp! Gefist aldrei upp!

Við skulum gera samanburð á Laman og Lemúel og sonum Mósía. Báðir þessir karlhópar ólust upp í réttlátum fjölskyldum, en báðir villtust frá. Báðir voru kallaðir til iðrunar af engli, en hvað gerðu synir Mósía öðruvísi?

Erfiðleikar eru trúarstyrkjandi

Árangur þeirra í trúboði er ógleymanlegur. Þúsundir snérust til trúar á Drottin. Við gleymum hins vegar stundum að í upphafi trúboðsins, voru þeir „niðurbeygðir í hjarta og að því komnir að snúa við, [en] þá hughreysti Drottinn [þá].“ Drottinn bauð þeim: „Berið með þolinmæði þrengingar yðar.“13

Ritningarnám gerir okkur kleift að þekkja vilja Guðs

Af hverju urðu þrengingar þessara sona Mósía til þess að þeir efldust að trú og staðfestu, í stað þess að mögla, efast og kvarta? Lykilatriðið er að „þeir höfðu styrkst í þekkingu sinni á sannleikanum, því að þeir voru menn gæddir heilbrigðum skilningi og höfðu kynnt sér ritningarnar af kostgæfni til þess að öðlast þekkingu á orði Guðs.“14 Við munum öll upplifa þrengingar og hafa spurningar, en minnist þess að við verðum að „[halda] stöðugt fast í járnstöngina.“15 „Orð Krists munu segja [okkur] að fullu, hvað [okkur] ber að gjöra.“16 Við þurfum að gera ritninganám að daglegri venju, því það lýkur upp dyrum opinberunar.

Bæn, samhliða föstu, lýkur upp dyrum opinberunar

Hvað varðar syni Mósía, þá segir: „En þetta var ekki allt. Þeir höfðu beðið mikið og fastað, og höfðu þar af leiðandi anda spádóms og anda opinberunar.“17 Bæn og fasta gera okkur kleift að vera móttækileg fyrir hugboðum andans. Þegar við neytum hvorki matar né drykkjar og eigum innihaldsrík samskipti við himeskan föður, gerir það okkur kleift að „leysa fjötra rangsleitninnar [og] láta rakna bönd oksins.“18 Bæn með föstu, gerir okkur kleift að „kalla á Drottin, og hann mun svara, … [þegar við hópum mun] … hann segja: Hér er ég!“19

Leita til hans

Þessar trúarvenjur – hlýðni, ritningarnám, bæn og fasta – styrkti syni Mósía. Þar sem slíkar réttlætis venjur voru ekki í lífi Lamans og Lemúels, var það megin ástæða þess að þeir voru óvarðir gegn freistingum, mögli og efasemdum.

Ef ykkur hefur verið freistað til að mögla, ef þið hafið haft efasemdir, sem leiddu til vantrúar, ef þrengingarnar virðast meiri en þið fáið borið, leitið þá til hans. Ef þið hafið snúið frá eða réttlætt breytni ykkar, leitið þá til hans. Munið þið eftir því þegar hann „veitti [ykkur] hugarró varðandi þetta? Hvaða stærri vitnisburð getur þú fengið en þann, sem frá Guði kemur?“20 Spyrjið ykkur: „Er líf mitt jafn kristilegt og það var áður?“ Leitið til hans.

Ég ætla að snúa aftur að frásögninni um sjálfan mig. Loks kom að því að ég varð einlægur. Ég minnist þess að trúboðinn sem kenndi mér spurði hvort ég væri tilbúinn til að láta skírast. Ég sagðist enn hafa einhverjar spurningar. Þessi skynsami trúboði sagðist geta svarað þeim, en ég yrði fyrst að svara honum. Hann spurði mig hvort Mormónsbók væri sönn og Joseph Smith væri spámaður. Ég sagði honum að ég vissi það ekki, en vildi vita það.

Spurningar mínar leiddu til aukinnar trúar. Svarið barst mér smám saman, en ekki í einu vettvangi. Ég tók eftir því að „með því að gjöra tilraun með [orðið]“ og „sýna örlitla trú,“ tók Mormónsbók að „verða mér unun“ og sannlega „að víkka sálarsvið mitt.“ Ég upplifði að endingu það sem ritningarnar segja um að orðið fari að þenjast út í brjóstum okkar.21 Á þeim tímapunkti ákvað ég að láta skírast og helga mig Jesú Kristi.

Ég veit sannlega að Mormónsbók er orð Guðs. Ég veit að Joseph Smith var spámaður. Það er enn ýmislegt sem ég fæ ekki skilið, en vitnisburður minn um sannleikann færir mig nær frelsaranum og eflir trú mína.

Bræður og systur, minnist Nefís og sona Mósía, sem hlutu andlega reynslu og iðkuðu trú sína, svo þeir hlytu svör og urðu trúfastari. Öfugt við Laman og Lemúel, sem mögluðu og efuðust. Þótt þeir hafi stundum sýnt góða hegðun, þá er trúin dauð án verkanna. Trú okkar verður að byggjast á verkum, til að svör berist.

Ég vona, er þið hafið hlustað í dag, að andinn hafi haft áhrif á hug ykkar og hjarta varðandi það sem þið getið gert til að hljóta svörin ykkar eða uppgötva lausn á vandamáli ykkar. Ég ber hátíðlega vitni um að Jesús er Kristur. Leitið hans og bænum ykkar verður svarað. Í nafni Jesú Krists, amen.