2010–2019
Styrkt af friðþægingu Jesú Krists
Október 2015


Styrkt af friðþægingu Jesú Krists

Sökum friðþægingar hans, þá hefur frelsarinn mátt til að liðsinna – hjálpa – við allar þrautir og þjáningar.

Í jarðlífinu eru dauðinn og byrði syndar vís. Friðþæging Jesú Krists vegur upp á móti þessum tveimur vísu gildisþáttum jarðlífsins. Auk dauða og syndar, þá tökumst við á við margar aðrar áskoranir í jarðlífinu. Sökum friðþægingar sinnar megnar frelsarinn að veita okkur þann styrk sem við þurfum, til að sigrast á þessum áskorunum jarðlífsins. Það er umræðuefni mitt í dag.

I.

Flestar frásagnir um friðþæginguna eru um að frelsarinn hafi rofið bönd dauðans og þjáðst sökum synda okkar. Alma kenni þennan grundvallarsannleika í prédikun sinni í Mormónsbók. En hann veitti okkur líka skýrustu ritningarlegu fullvissuna um að frelsarinn hafi upplifað sársauka og sjúkdóma og breyskleika fólks síns.

Alma segir frá þessum þætti friðþægingar frelsarans: „Og hann mun ganga fram og þola alls kyns sársauka, þrengingar og freistingar. Og svo mun verða, til að orðið megi rætast, sem segir, að hann muni taka á sig sársauka og sjúkdóma fólks síns“ (Alma 7:11; sjá einnig 2 Ne 9:21).

Hugleiðið þetta! Í friðþægingu sinni þjáðist frelsarinn sökum „alls kyns sársauka, þrenginga og freistinga.“ Boyd K. Packer forseti útskýrði: „Hann var skuldlaus! Hann hafði ekkert rangt gert! Hann upplifði engu að síður alla samanlagða sekt manna, sorg þeirra og sársauka og auðmýkingu; allar hugrænar, tilfinningalegar og líkamlegar þjáningar sem menn fá þekkt – hann upplifði þetta allt.“1

Af hverju þoldi hann slíkar „alls kyns“ þjáningar? Alma sagði: „Hann kynntist „vanmætti þess, svo að hjarta hans fyllist miskunn samkvæmt holdinu, svo að hann megi vita í holdinu, hvernig fólki hans verður best liðsinnt í vanmætti þess“ (Alma 7:12).

Páll postuli staðhæfði t.d. að sökum þess að frelsarinn hefur „þjáðst og hans verið freistað … er hann fær um að hjálpa þeim, er verða fyrir freistingu“ (Hebr 2:18). James E. Faust forseti, sagði: „Þar sem frelsarinn hefur þolað allt sem við gætum hugsanleg upplifað, megnar hann að styrkja hinn veika.“2

Frelsari okkar upplifði og þoldi allar jarðneskar áskoranir „samkvæmt holdinu,“ svo hann mætti vita „samkvæmt holdinu“ hvernig „fólki hans verður best liðsinnt [sem merkir að líkna eða hjálpa] í vanmætti þess.“ Hann þekkir því baráttu okkar, sorgir, freistingar og þjáningar, því hann upplifði það af eigin raun, sem nauðsynlegan hluta af friðþægingu sinni. Sökum þessa, þá veitir friðþægingin honum kraft til að liðsinna okkur – til að veita okkur styrk til að bera þetta allt.

II.

Þótt kennsla Alma í sjöunda kapítula sé skýrasta einstakasta umfjöllun ritninganna um þennan nauðsynlega þátt friðþæingarinnar, þá er hann líka kenndur víða annarsstaðar í hinum helgu ritningum.

Í upphafi þjónustu sinnar sagðist Jesús hafa verið sendur til að „láta þjáða lausa“ (Lúk 4:18). Bíblían greinir oft frá því að hann hafi læknað fólk „af meinum sínum“ (Lúk 5:15; 7:21). Mormónsbók greinir frá því að hann hafi læknað þá „sem þjáðir voru á einhvern hátt“ (3 Ne 17:9). Matteusarguðspjall greinir frá því að Jesús hafi læknað fólkið svo það mætti „rætast, sem sagt er fyrir munn Jesaja spámanns: ‚Hann tók á sig mein vor og bar sjúkdóma vora.‘“ (Matt 8:17).

Jesaja kenndi að Messías myndi bera „þjáningar“ okkar og „harmkvæli“ (Jes 53:4). Jesaja kenndi líka að hann myndi styrkja okkur: „Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Lát eigi hugfallast, því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér“ (Jes 41:10).

Við syngjum því:

Ei hræðstu, ég Guð þinn mun gefa þér mátt,

á göngunnar leið, sem þú fyrir þér átt.

Þó reynist í heiminum vegferðin vönd,

þig verndar og leiðir mín almáttug hönd.3

Páll ritaði um sínar eigin jarðnesku áskoranir: „Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir“ (Fil 4:13).

Við vitum því að sökum friðþægingar hans, þá hefur frelsarinn mátt til að liðsinna – hjálpa – við allar þrautir og þjáningar. Stundum læknast brestur fyrir kraft hans, en ritningarnar og reynsla okkar kenna að stundum liðsinnir hann eða hjálpar með því að veita okkur styrk eða þolinmæði til að lifa við ófullkomleikann.4

III.

Hverjar eru þessar jarðnesku þjáningar, þrautir og misbrestir sem frelsarinn upplifði og þoldi?

Ljósmynd
Kona þjáist

Við upplifum öll einhvern tíma þjáningar og þrautir. Jarðlífið er fullt af baráttu, sorgum og þjáningum, burt séð frá því sem við upplifum sökum eigin synda.

Ljósmynd
Heimsókn á sjúkrahús

Við og ástvinir okkar veikjast af sjúkdómum. Öll upplifum við stundum sársauka sökum áfalla eða líkamlegra eða andlegra erfiðleika. Öll þjáumst við og syrgjum við dauða ástvinar. Öll gerum við mistök hvað varðar persónulega ábyrgð, fjölskyldusambönd eða atvinnu.

Ljósmynd
Áhyggjufullir foreldrar

Þegar maki eða barn hafnar því sem við vitum að er sannleikur, og villist af vegi réttlætis, upplifum við einkar streituvaldandi sársauka, líkt og faðir glataða sonarins gerði í hinni minnistæðu dæmisögu Jesú. (sjá Lúk 15:11–32).

Líkt og sálmahöfundurinn segir: „Margar eru raunir réttláts manns, en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum“ (Sálm 34:19).

Í sálmum okkar er þessi sanna hughreysting: „Á jörðu er engin sorg sem himininn fær ekki læknað.“5 Frelsarinn og friðþæging hans er okkar lækning.

Ljósmynd
Óvinsamlegur unglingur

Höfnunartilfinning er einkar erfið unglingum, er þeir eru vísvitandi hafðir útundan af jafnöldrum sem virðast búa við góða vináttu og gera margt saman. Kynþátta- og menningarfordómar leiða líka af sér sárar höfnunartilfinningar, fyrir bæði unga og aldna. Lífið býður upp á margar aðrar áskoranir, svo sem atvinnuleysi eða aðrar óvæntar breytingar.

Ljósmynd
Faðir með fötluðum syni

Ég er enn að fjalla um jarðneska misbresti sem ekki eru afleiðing synda okkar. Sumir fæðast með líkamlega eða andlega fötlun, sem veldur þeim þjáningum, og erfiðleikum fyrir þá sem elska og annast slíka. Hvað marga varðar, þá er þunglyndi þjáningafullt eða varanlega hamlandi. Önnur erfið raun er að lifa við einhleypi. Þeir sem lifa við slíkar aðstæður ættu að hafa í huga að frelsarinn upplifði líka þessar þjáningar og að fyrir friðþægingu sína, veitir hann styrk til að umbera þær.

Fáir misbrestir eru jafn stundlega og andlega bæklandi og ánetjanir. Sum ánetjun, líkt og ánetjun kláms og eiturlyfja, eru að öllum líkindum af völdum syndugrar breytni. Slík ánetjun getur viðhaldist, jafnvel þótt iðrast hafi verið fyrir slíka breytni. Slíkt ógnartak er líka hægt að leysa með afgerandi mætti frá frelsara okkar. Það á líka við um alvarlegar áskoranir þeirra sem sendir hafa verið í fangelsi fyrir að fremja glæpi. Í nýlegu bréfi er vitnað um þann styrk sem sá getur hlotið jafnvel í slíkum aðstæðum: „Ég veit að frelsari okkar gengur um þessa ganga, því ég hef margsinnis fundið elsku Krists innan veggja þessa fangelsis.“6

Ljósmynd
Maður í fangelsi

Ég ann vitnisburði skáldkonunnar og vinar okkar Emmu Lou Thayne. Hún ritaði texta við sálm sem við syngjum nú:

„Hvar finn ég sannan frið?

Hvar er huggun að fá,

er engin lækning virðist til?

Þegar sorg og reiði í hjarta ríkir,

ég dreg mig í skel

og leita hið innra?

Hvar, þegar þjáningin þjakar?

Hvar, þegar örmagna er?

Hvert fæ ég flúið í sárri neyð?

Hver er sú hönd sem huggar og hrærir?

Hver fær mig skilið?

Hann, aðeins hann. 7

Ljósmynd
Höggmynd af Kristi

IV.

Hverjir geta vænst liðsinnis og hjálpar fyrir friðþægingu Jesú Krists? Alma kenndi að frelsarinn myndi taka á sig „sársauka og sjúkdóma fólks síns og „[liðsinna fólki sínu] ” (Alma 7:11-12; skáletrað hér). Hvert er „fólkið hans“ sem loforðið á við um? Eru það allir jarðarbúar – allir sem njóta raunveruleika upprisu fyrir friðþæginguna? Eru það kannski aðeins útvaldir þjónar sem helgiathafnir og sáttmálar gera hæfa til þess?

Hugtakið fólk hefur ýmsar merkingar í ritningunum. Sú merking sem best á við um kenninguna um að frelsarinn liðsinni „fólki sínu,“ felst í þessum orðum sem Ammon notaði síðar við kennslu sína: „Guð man sérhverja mannveru, í hvaða landi sem hún er.“ (Alma 26:37). Það var líka boðskapur englana sem gerðu ljósa fæðingu Krists-barnsins: „Ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum“ (Lúk 2:10).

Sökum þess sem hann upplifði í friðþægingu sinni í jarðlífinu, þá megnar frelsarinn að hugga, lækna og styrkja alla karla og kornur, hvarvetna, en ég trúi að hann geri það aðeins fyrir þá sem leita hans og biðja hann um hjálp. Jakob postuli kenndi: „Auðmýkið yður fyrir Drottni og hann mun upphefja yður“ (Jakbr 4:10). Við verðum hæf fyrir þessar blessanir þegar við trúum á hann og biðjum um hjálp hans.

Það eru milljónir guðhræddra einstaklinga sem biðja Guð að létta þjáningar sínar. Frelsari okkar hefur opinberað að hann „sté neðar öllu“ (K&S 88:6). Líkt og öldungur Neal A. Maxwell kenndi: „Þar sem hann ‚sté neðar öllu,‘ þá skilur hann fullkomlega af eigin raun allar þjáningar mannanna.“8 Við getum því sagt, að þar sem hann sté neðar öllu, þá sé hann í fullkominni aðstöðu til að lyfta okkur upp og veita okkur nauðsynlegan styrk til að standast raunir okkar. Við þurfum aðeins að spyrja.

Ljósmynd
Fjölskylda við borð

Drottinn segir oft í nútíma opinberun: „ Ef þér þess vegna biðjið mig, mun yður gefast. Ef þér knýið á, mun fyrir yður upplokið verða“ (K&S 6:5; 11:5; sjá einnig Matt 7:7). Sökum sinnar allt umlykjandi elsku, þá heyra himneskur faðir og hans ástkæri sonur, Jesús Kristur, bænir allra sem leita þeirra í trú og svara þeim eins og við á. Líkt og Páll postuli ritaði: „Vér höfum fest von vora á lifanda Guði, sem er frelsari allra manna, einkum trúaðra“ (1 Tím 4:10).

Ég veit að þetta er sannleikur. Friðþæging frelsarans gerir meira en að tryggja okkur ódauðleika með altækri upprisu og opna okkur leið til að hreinsast af synd með iðrun og skírn. Friðþæging hans gerir okkur líka kleift að ákalla hann, sem hefur upplifað allan okkar jarðneska breyskleika, til að veitta okkur styrk til að bera byrðar jarðlífsins. Hann þekkir sálarkvöl okkar og er til staðar fyrir okkur. Þegar við erum lemstruð við vegbrúnina, líkt og í frásögninni um miskunnsama Samverjan, bindur hann um sár okkar og lætur sér annt um okkur (Sjá Lúk 10:34). Máttur Jesú Krists og friðþægingar hans til að lækna og styrkja er fyrir alla þá sem spyrja. Ég vitna um það og um frelsara okkar, sem gerir þetta allt mögulegt.

Einn daginn mun öllum þessum jarðnesku byrðum af okkur létt og öllum sársauka linna (sjá Op 21:4). Ég bið þess að við munum öll skilja vonina og styrkinn sem felast í friðþægingu frelsarans: Fullvissuna um ódauðleika, tækifæri eilífs lífs og styrkinn sem aðeins fæst ef við biðjum um hann. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Boyd K. Packer, „The Savior’s Selfless and Sacred Sacrifice,“ Ensign, apríl 2015, 40; Liahona, apríl 2015, 38.

  2. James E. Faust, „The Atonement: Our Greatest Hope,“ Ensign, nóv. 2001, 20; Liahona, jan. 2002, 22.

  3. „Vor Guð hefur spámönnum gefið sitt mál,“Sálmar, nr. 21

  4. Sjá almennt, Jeffrey R. Holland, Christ and the New Covenant: The Messianic Message of the Book of Mormon (1997), 223–34; David A. Bednar, „The Atonement and the Journey of Mortality,“ Ensign, apríl 2012, 40–47; Liahona, apríl 2012, 12–19; Bruce C. Hafen og Marie K. Hafen, „‚Fear Not, I Am with Thee‘: The Redeeming, Strengthening, and Perfecting Blessings of Christ’s Atonement“Religious Educator, bindi 16, nr. 1, (2015), 11–31, einkum 18–25; Tad R. Callister, The Infinite Atonement (2000), 206–10.

  5. „Come, Ye Disconsolate,“Hymns, nr. 115.

  6. Úr bréfi 2014, sem barst Bobby O. Hales biskup, sem hefur umsjón með Henry-grein í Central Utah Correctional Facility.

  7. „Where Can I Turn for Peace?“Hymns, nr. 129.

  8. Neal A. Maxwell, „Applying the Atoning Blood of Christ,“Ensign, nóv. 1997, 23.