2010–2019
Veldu ljósið
Október 2015


Veldu ljósið

Við verðum að hlíta hinni spámannlegu leiðsögn, þekkja hið andlega boð og bregðast við því, vera hlýðin boðorðum Guðs og leita persónulegrar opinberunar.

Fyrir nokkru ákváðum ég og eiginkona mína að njóta betur fallegs svæðis sem var nærri heimili okkar í norðvestuhluta Montana. Við ákváðum að fara með reiðhjólin okkar til Hiawatha-slóðarinnar, sem áður var járnbrautarleið yfir hin fallegu Klettafjöll á milli Montana og Idaho. Við hlökkuðum til skemmtilegs dags með góðum vinum, að njóta fallegrar náttúrunnar á svæðinu.

Okkur var ljóst að á leið okkar eftir hinni 24 km stórbrotnu slóð yfir hin skorðóttu Klettafjöll yrðu mörg djúp gil og löng göng. Við höfum því ljós áföst hjálmunum og hjólunum.

Ljósmynd
Utan við muna Taft-ganganna

Þau sem áður höfðu farið þessa leið sögðu okkur frá því að göngin væru dimm og því þyrftu ljósin að gefa sterka birtu. Þegar við stoppuðum framan við hinn gríðarstóra gangamuna Taft-ganganna, benti umsjónamaður á hættur slóðarinnar, þar með talið djúpa skurði meðfram slóðinni, hrufótta veggina og niðamyrkrið. Við héldum óþreyjufull áfram inn í göngin. Aðeins að nokkrum mínútum liðnum umlukti niðamyrkrið okkur. Ljósin sem ég hafði meðferðis reyndust ófullnægjandi og myrkrið grúfði yfir okkur. Allt í einu varð ég kvíðinn, ringlaður og áttavilltur.

Ljósmynd
Reiðhjól í göngum
Ljósmynd
Reiðhjól í göngum með endurskinsmerki

Ég fyrirvarð mig fyrir að játa hræðslu mína fyrir vinum mínum og fjölskyldu. Þótt ég væri reyndur hjólamaður, leið mér nú eins og ég hefði aldrei áður á hjól stigið. Ég reyndi að sýnast keikur, þótt kvíðinn yxi. Loks, eftir að ég hafði sagt þeim sem voru með mér frá óþægindum mínum, tókst mér að komast nær sterkara ljósi vinar. Í raun þá tóku allir í hópnum að mynda þéttan hring umhverfis hann. Með því að halda okkur þétt við hann og reiða okkur um stund á ljósið hans, og ljós allra í hópnum, héldum við lengra inn í niðdimm göngin.

Ljósmynd
Ljós við gangenda

Eftir að því er virtist margar klukkustundir, sá ég ljóstýru framundan. Næstum um leið varð ég viss um að allt færi vel. Ég hélt áfram og reiddi mig bæði á ljós vina minna og vaxandi ljóstýruna framundan. Sjálfstraustið óx smám saman eftir því sem ljósið varð meira og sterkara. Löngu áður en við náðum hinum enda ganganna, þurfti ég ekki lengur á aðstoð vina minna að halda. Kvíðinn hvarf svo algjörlega er við hjóluðum hratt í átt að ljósinu. Ég fylltist rósemd og öryggi, jafnvel áður en við hjóluðum út í hlýja og dýrlega morgunbirtuna.

Við búum í heimi þar sem reynt verður á trú okkar. Okkur kann að finnast við tilbúin fyrir slíkar áskoranir – en komumst síðan að því að við erum ekki nægilega undirbúin. Á sama hátt og vinur minn varaði mig við myrkrinu, þá erum við aðvöruð í dag. Postular brýna fyrir okkur að tileinka okkur hið máttuga ljós andlegs kraftar.

Við getum líka á sama hátt upplifað vanmátt og óþægindi eða orðið andlega ráðvillt þegar reynir á trú okkar. Hversu miklar og varanlegar slíkar tilfinningar verða, er almennt háð því hvernig við bregðumst við þeim. Ef við gerum ekkert, mun efi, dramb og loks fráhvarf hrekja okkur frá ljósinu.

Mér lærðist mikilvæg lexía af upplifun minni í göngunum. Ég ætla að segja frá nokkru því sem ég lærði.

Í fyrsta lagi þá veljum við hversu lengi og mikið við leyfum myrkri efasemda að hafa áhrif á okkur, óháð því hversu dimmt það er. Við verðum að muna eftir því hversu heitt faðir okkar á himnum og ástkær sonur hans elska okkur. Þeir munu aldrei yfirgefa okkur eða leyfa að við örmögnumst ef við leitum hjálpar þeirra. Minnist reynslu Péturs á ógnaröldum Galelíuvatns. Þegar Pétur fann kalt myrkrið umlykja sig, skildi hann þegar aðstæður sínar og kaus um leið að kalla á hjálp. Hann dró ekki björgunarmátt frelsarans í efa, heldur hrópaði hann einfaldlega: „Herra, bjarga þú mér.“1

Í lífi okkar getur útrétt hönd frelsarans verið í formi hjálpar frá traustum vini, leiðtoga eða ástúðlegu foreldri. Þegar við heyjum baráttu við myrkrið, er ekkert athugavert við það að reiða sig tímabundið á ljós þeirra sem elska okkur og bera hag okkar fyrir brjósti.

Að vel athuguðu máli, afhverju ættum við að hlusta á óþekktar og beiskar raddir þeirra sem eru í hinni miklu og rúmgóðu byggingu okkar tíma og leiða hjá okkur ákall þeirra sem sannlega elska okkur? Slíkir æverandi nafnleysingjar kjósa fremur að rífa niður og rægja, en að hvetja og uppörva. Hæðandi orð þeirra geta grafið um sig í hjörtum okkar og þeim er oft varpað eldsnöggt fram af vandlega athuguðu máli til að eyðileggja trú okkar. Er það skynsamlegt að setja eilífa velferð okkar í ókunnar hendur? Er einhver skynsemi í því að vænta fræðslu frá þeim sem ekkert ljós hafa til að gefa eða leyna okkur eigin ásetningi? Slíkt nafnlaust andlegt niðurrifsfólk næði aldrei athygli okkar, ef það kynnti sig heiðarlega, en þar sem það notar samfélagsmiðlana, falið á bak við tjöldin, nýtur það óverðskuldaða athygli.

Ef við veljum að hlusta á þá sem hæðast að því sem heilagt er, munum við fjarlægjast hið lífgefandi ljósi frelsarans. Jóhannes ritaði: „Nú talaði Jesús aftur til þeirra og sagði: Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.“2 Hafið í huga að þeir sem sannlega elska okkur geta hjálpað okkur að grundvalla trú okkar.

Á sama hátt og ég fyrirvarð mig í göngunum, þá getum við líka fyrirvarið okkur fyrir að biðja um hjálp þegar við efumst. Kannski hafa aðrir leitað til okkar áður eftir styrk og nú þörfnumst við hjálpar. Þegar okkur verður ljóst að ljósið og huggunin sem frelsarinn getur veitt okkur er allt of dýrmætt til að láta frá sér fyrir drambsemi, þá geta kirkjuleiðtogar, foreldrar og traustir vinir komið til hjálpar. Slíkir eru reiðubúnir að aðstoða okkur við að hljóta andlega fullvissu, sem mun vígbúa okkur gegn áskorunum trúar.

Í öðru lagi þá verðum við að setja traust okkar á Drottin til að geta þróað með okkur innri andlegan styrk. Við getum ekki reitt okkur varanlega á ljós annarra. Ég vissi að myrkrið í göngunum yrði ekki varanlegt, ef ég hjólaði við hlið vinar míns og naut öryggis af hópnum. Ég vænti þess þó að geta haldið áfram á eigin spýtur eftir að ég fór að sjá ljósið. Drottinn kennir okkur: „Nálgist mig og ég mun nálgast yður. Leitið mín af kostgæfni og þér munuð finna mig. Biðjið og yður mun gefast, knýið á og fyrir yður mun upplokið verða.“3 Við verðum að taka skrefið og vænta þess að Drottinn uppfylli loforð sitt um að lyfta af okkur myrkrinu, þegar við nálgumst hann. Óvinurinn mun hins vegar reyna að sannfæra okkur um að við höfum aldrei upplifað áhrif andans og betra væri að við hættum að reyna.

Dieter F. Uchtdorf forseti hvetur okkur til að „efa efasemdir okkar áður en við efum trú okkar.“4 Í heimadeild minni sagði ungur maður nýlega: „Það er nokkuð sem ég hef skynjað sem ég get ekki útskýrt á neinn annan hátt en að það sé frá Guði.“ Þetta er andleg ráðvendni.

Þegar efi og vafaatriði sækja á okkur, ættum við að minnast þeirra andlegu blessana sem við höfum áður upplifað í hjörtum okkar og setja traust okkar á himneskan föður og son hans, Jesú Krist. Upp í huga minn kemur boðskapur vel þekkts sálms: „Vér efum ei umhyggju Drottins, því áður fyrr reyndum vér hann.“5 Við fjarlægjumst Guð, ef við leiðum hjá okkur eða vanmetum okkar andlegu upplifanir.

Leit okkar að ljósi mun ganga betur, ef við göngumst fúslega við því þegar það skín í lífi okkar. Í nútíma ritningum er ljósið skilgreint og þeim gefið loforð sem taka á móti því: „Það, sem er frá Guði, er ljós. Og sá, sem veitir ljósinu viðtöku og er staðfastur í Guði, öðlast meira ljós. Og það ljós verður skærara og skærara þar til hinn fullkomna dag.“6 Ljósið verður skærara og áhrif Guðs verða meiri í lífi okkar, á sama hátt og ljósið varð skærara er við hjóluðum af stöðugt meiri áræðni í átt að því. Líkt og ljósið við gangendann gerði, þá munu áhrif Guðs veita okkur sjálfstraust, staðfestu, huggun og – það sem mikilvægt er – kraft til að vita að hann lifir.

Í þriðja lagi þá er ekkert myrkur svo dimmt og ógnvekjandi að ljósið fái ekki sigrað það. Öldungur Neil L. Andersen sagði nýverið: „Andlegur máttur hinna réttlátu mun vaxa samhliða aukinni illsku í heiminum. Drottinn býr þeim leið sem leita hans, samhliða því að heimurinn missir sína andlegu fótfestu, og færir þeim aukna fullvissu, staðfestingu og tiltrú á þeim andlega vegi sem þeir ferðast á. Gjöf heilags anda verður að sterku ljósi í hálfrökkri ljósaskiptanna.“7

Bræður og systur, við erum ekki skilin ein eftir í áhrifum hverskyns duttlunga og viðhorfsbreytinga heimsins, því við höfum mátt til að taka trú fram yfir efasemdir. Við verðum að hlíta hinni spámannlegu leiðsögn, til að þekkja hið andlega boð og bregðast við því, vera hlýðin boðorðum Guðs og leita persónulegrar opinberunar. Við verðum að velja. Megum við velja ljós frelsarans. Í nafni Jesú Krists, amen.