2010–2019
Ver fyrirmynd og ljós
Október 2015


Ver fyrirmynd og ljós

Þegar við fylgjum fordæmi frelsarans, getum við orðið ljós í lífi annarra.

Bræður og systur, hve dásamlegt það er að vera meðal ykkar aftur. Eins og þið vitið þá gerðust þeir sorglegu atburðir, síðan við komum síðast saman í apríl, að við misstum þrjá af okkar ástkæru postulum: Boyd K. Packer forseta, öldung L. Tom Perry og öldung Richard G. Scott. Þeir eru farnir til sinna himnesku heimkynna. Þeirra er saknað. Hve þakklát við erum fyrir hið kristilega kærleiksfordæmi þeirra og þær innblásnu kenningar sem þeir færðu okkur.

Við bjóðum hjartanlega velkomna okkar nýjustu postula, þá öldung Ronald A. Rasband, öldung Gary E. Stevenson og öldung Dale G. Renlund. Þetta eru menn sem hafa helgaði sig verki Drottins. Þeir eru afar hæfir til að fylla þær stöður sem þeir hafa verið kallaðir í.

Nýverið, er ég hef lesið og ígrundað ritningarnar, hafa einkum tvö vers dvalið í huga mínum. Bæði eru þau okkur kunnug. Hið fyrra er úr fjallræðunni. „Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum.“1 Síðara versið kom upp í hug minn þegar ég ígrundaði merkingu hins fyrra. Það er í bréfi Páls til Tímoteusar: „Ver fyrirmynd trúaðra, í orði, í hegðun, í kærleika, [í anda], í trú, í hreinleika.“2

Ég held að síðara versið kenni að miklu leyti hvernig við getum uppfyllt hið fyrra. Við verðum fyrirmynd trúaðra með því að lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists, í orði, í hegðun, í kærleika, í anda, í trú og í hreinleika. Þegar við gerum það, mun ljósið okkar lýsa svo aðrir fái séð það.

Sérhvert okkar kom til jarðar með ljós Krists að gjöf. Þegar við fylgjum fordæmi frelsarans og lifum líkt og hann gerði og kenndi, mun það ljós loga hið innra og lýsa öðrum veginn.

Páll postuli tilgreinir [sex] eiginleika hins trúaða, sem gerir ljósi okkar kleift að skína. Við skulum skoða hvern þeirra.

Ég ræði um fyrstu tvo eiginleikana saman – að vera fyrirmynd í orði og í hegðun. Orðin sem við notum geta uppörvað og innblásið eða skaðað og vanvirt. Nú á dögum er svo mikið af guðlasti, að við heyrum það næstum hvert sem við snúum okkur. Það er erfitt að komast undan því að heyra nöfn Guðdómsins notuð af léttúð og kæruleysi. Grófyrði virðast nú einkenna sjónvarpsþætti, kvikmyndir, bækur og tónlist. Fólk lætur ærumeiðandi og reiðilegar athugasemdir falla um hvert annað. Við skulum tala af kærleika og virðingu við aðra, nota fágað mál og forðast orð og ábendingar sem særa eða móðga. Megum við fylgja fordæmi frelsarans, sem talaði af umburðarlyndi og góðvild í allri sinni þjónustu.

Næst bendir Páll á kærleikann, sem skilgreindur hefur verið sem „hin hreina ást Krists.“3 Ég er viss um að innan okkar áhrifasvæðis má finna einhverja sem eru einmana, sjúkir eða fylltir vonleysi. Við getum liðsinnt þeim og lyft anda þeirra. Frelsarinn vakti vonlitlum von og veitti veikburða styrk. Hann læknaði sjúka, veitti lömuðum mátt, blindum sýn og daufum heyrn. Hann reisti jafnvel hina dánu aftur til lífsins. Í þjónustutíð sinni liðsinnti hann nauðstöddum af kærleika. Ef við fylgjum fordæmi hans, munum við blessa aðra og líka okkur sjálf.

Næst ber okkur að vera fyrirmynd í anda. Fyrir mig hefur það þá merkingu að við fyllum líf okkar af góðvild, þakklæti, fyrirgefningu og gæsku. Þessir eiginleikar munu veita okkur anda sem mun snerta þá sem umhverfis eru. Mér hefur gefist það tækifæri í áranna rás að eiga samskipti við ótal einstaklinga, sem búa yfir slíkum anda. Við upplifum sérstakar tilfinningar þegar við erum í návist þeirra, sem laða okkur að þeim og vekja okkur löngun til að fylgja fordæmi þeirra. Þeir skína ljósi Krists og hjálpa okkur að finna elsku hans til okkar.

Ég ætla að segja ykkur frá atviki sem gerðist fyrir mörgum árum, til að útskýra hvernig aðrir fá séð ljós hreins og kærleiksríks anda.

Á þessum tíma áttu leiðtogar kirkjunnar fund með embættismönnum í Jerúsalem, við gerð lóðarsamnings, þar sem til stóð að byggja Jerúsalemmiðstöð kirkjunnar. Til að fá leyfið, þá varð kirkjan að samþykkja að ekki yrði staðið að neinu trúboði af hendi þeirra meðlima sem yrðu í miðstöðinni. Eftir samningsgerðina, sagði einn hinna ísraelsku embættismanna, sem var vel kunnugur kirkjunni og meðlimum hennar, að hann væri viss um að kirkjan mundi virða ákvæðið um að standa ekki að trúboði. „En,“ sagði hann, og vísaði til nemendanna sem þar yrðu, „hvað getum við gert varðandi ljósið sem frá þeim ljómar?“4 Megi það ljós ætíð ljóma innra með okkur, svo aðrir sjái og meti það.

Að vera fyrirmynd trúaðra, merkir að við verðum að setja traust okkar á Drottin og orð hans. Það merkir að við eigum og ræktum þá trú sem mun leiða hugsanir okkar og verk. Trú okkar á Drottin Jesú Krist og okkar himneska föður, mun hafa áhrif á allar okkar athafnir. Staðföst trú verður okkar lífsins akkeri, mitt í ringulreið okkar tíma, er við heyjum baráttu við samviskuna og tökumst á við væringar hins daglega lífs. Hafið í huga að trú og efasemdir geta ekki verið samtímis í huga okkar, því annað hvort mun leysa hitt af hendi. Ég undirstrika það sem stöðugt hefur verið endurtekið – að okkur er nauðsynlegt að lesa og ígrunda ritningarnar, til að viðhalda nægilegri trú. Að eiga samskipti við himneskan föður í bæn er nauðsynlegt. Við megum ekki vanrækja þetta, því óvinurinn og fylgjendur hans reyna linnulaust að finna bresti í alvæpni okkar, veikleika í trúfesti okkar. Drottinn sagði: „Biðjið ávallt og trúið, og allt mun vinna saman að velfarnaði yðar.“5

Loks ber okkur að vera hrein, hvað varðar líkama, anda og huga. Við vitum að líkami okkar er musteri, sem meðhöndla ætti af lotningu og virðingu. Hugur okkar ætti að vera fullur af upplyftandi og göfugum hugsunum og fjarri því sem mengar hann. Við verðum að vera verðug til þess að njóta stöðugs samfélags við heilagan anda. Bræður og systur, hreinleiki mun færa okkur hugarró og gera okkur hæf til að hljóta fyrirheit frelsarans. Hann sagði: „Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá.“6

Þegar við sannreynum að við erum fyrirmynd trúaðra, í orði, í hegðun, í kærleika, í anda, í trú og í hreinleika, munum við verða hæf til að vera heiminum ljós.

Ég segi við ykkur öll, einkum þó unga fólkið, að því lengra sem heimurinn hverfur frá þeim reglum og leiðbeiningum sem okkar kærleiksríki himneski faðir hefur gefið okkur, því hærra munum við standa upp úr mannþrönginni, því við erum öðruvísi. Við munum standa upp úr, því við klæðum okkur siðsamlega. Við verðum öðruvísi, því við guðlöstum ekki og neytum ekki efna sem eru skaðleg líkama okkar. Við verðum öðruvísi, því við forðumst óviðeigandi kímni og vansæmandi athugasemdir. Við verðum öðruvísi, því við veljum að fylla ekki huga okkar af fjölmiðlaefni sem er lítilmótlegt, niðurlægjandi og hrekur andann frá sjálfum okkur og heimilum okkar. Við munum vissulega standa upp úr í siðferðisvali okkar – vali sem byggir á reglum og stöðlum fagnaðarerindisins. Það sem gerir okkur öðruvísi en flesta aðra í heiminum, veitir okkur líka ljósið og andann sem lýsa í stöðugt myrkari heimi.

Oft er erfitt að vera öðruvísi og standa einn upp úr í mannfjölda. Það er eðlilegt að hafa áhyggjur af því hvað aðrir kunna að hugsa eða segja. Þessi orð í Sálmunum eru hughreystandi: „Drottinn er ljós mitt og fulltingi, hvern ætti ég að óttast? Drottinn er vígi lífs míns, hvern ætti ég að hræðast?“7 Þegar við höfum Krist að leiðtoga lífs okkar, munu hugrekki og fullvissa koma í stað ótta.

Lífið er engu okkar fullkomið og stundum verða raunir okkar og erfiðleikar svo yfirþyrmandi að ljós okkar dofnar. Við getum þó, með hjálp frá himneskum föður, ásamt stuðningi annarra, tendrað ljósið aftur, svo það lýsi okkur og öðrum í neyð.

Til frekari skýringar miðla ég ykkur hjartnæmum texta eftirlætis ljóðs, sem ég las fyrir mörgum árum:

Ókunnugum mætti um nótt.

Á lampa hans logaði lítil týra.

Ég brást við skjótt og honum veitti

af ljósloga míns lampa.

Stormur síðar skall þar á

og skók þá jörðu til og frá.

Er vindinn lægði eftir stund,

loginn minn var brunninn út.

Hinn ókunnuga að þá bar–

með loga undur skæran.

Þráða ljósið ljáði mér

og tendraði minn lampa!8

Bræður mínir og systur, við höfum tækifæri til að lýsa hvert öðru dag hvern, hverjar sem aðstæður okkar eru. Þegar við fylgjum fordæmi frelsarans, getum við orðið ljós í lífi annarra, hvort heldur það er eigin fjölskylda og vinir, samstarfsfólk, aðeins kunningjar eða algjörlega ókunnugir.

Við sérhvert ykkar segi ég að þú ert sonur eða dóttir okkar himneska föður. Þið komuð úr návist hans, til að lifa á jörðu um hríð, til að endurspegla kærleika og kenningar frelsarans og láta, hugrökk, ljós ykkar skína meðal allra. Þegar sá tími á jörðu á enda er, og þið hafið gert ykkar hlut, munuð þið hljóta hina dýrðlegu blessun að dvelja um eilífð hjá honum.

Hve hughreystandi eru þessi orð frelsarans: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.“9 Um hann vitna ég. Hann er frelsari og lausnari okkar og málsvari hjá föðurnum. Hann er fyrirmynd okkar styrkur. Hann er „ljósið sem skín í myrkrinu.“10 Ég bið þess að sérhvert ykkar, sem til mín heyrir, megi einsetja sér að fylgja honum, og verða þannig heiminum ljós, í hans heilaga nafni, já, Drottins Jesú Krists, amen.