2023
Slepptu og hlustaðu
September 2023


„Slepptu og hlustaðu,“ Til styrktar ungmennum, sept. 2023

Slepptu og hlustaðu

Ég var með áætlun um að láta drauma mína rætast. En þegar ég sleppti takinu og leyfði Drottni að vera lampi fóta minna, var ég blessuð á dásamlegan hátt.

Ljósmynd
landslag

Myndskreyting: Michael Mullan

Þegar ég var nýorðin 17 ára flutti ég til San Francisco í Kaliforníu í Bandaríkjunum til að fara í listháskóla. Mig dreymdi um að verða teiknari fyrir Disney.

Í háskólanum lærði ég miklu meira en list. Ég lærði um hver ég var fyrir himneskum föður mínum. Ég var ekki heima lengur. Foreldrar mínir voru ekki að vekja mig til að fara með mig í kirkju á hverjum sunnudegi. Enginn myndi vita hvort ég lifði eftir fagnaðarerindinu eða ekki. En ég vissi að ég þurfti á honum að halda. Ég fletti upp á Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu í símaskránni. Þegar ég gekk inn í kirkjubygginguna og heyrði sálminn „Ég veit minn lifir lausnarinn“ (Sálmar, nr. 36) sunginn, fannst mér ég vera komin heim. Ég tók að átta mig á hvað fagnaðarerindið þýddi fyrir mig og hvað ég vildi í raun og veru.

Setjið Drottin í fyrsta sæti í lífi ykkar

Á þeim tímapunkti vildi ég hafa himneskan föður minn með í öllu sem ég gerði. Ég tók til að mynda að spyrja hann hvað honum fyndist um starfsáætlanir mínar og hvar ég ætti að vera. Þegar ég baðst fyrir og spurði þessara spurninga, fór mér að finnast sem ég þyrfti að vera einhvers staðar annars staðar.

Ég var dálítið miður mín. Ég hafði lagað alla mína drauma og einbeitingu að áætluninni minni. Ég hélt að ég vissi nákvæmlega hvert ég myndi fara og hvað ég myndi gera. En núna vissi ég að ég vildi að Drottinn yrði í fyrsta sæti í lífi mínu og það varð mér mikilvægara en nokkuð annað. Þótt ég vissi að vegur minn gæti verið annar en sá sem ég hafði ímyndað mér, hafði ég fundið elsku hans til mín og ég treysti á visku hans.

Ég var leidd til Brigham Young háskólans í Idaho og Brigham Young háskólans í Provo, Utah, til að ljúka gráðu minni í teikningu. Rétt áður en ég útskrifaðist bauðst mér starfsnám hjá leikjastofu á staðnum. Um ári síðar, eftir að ég var ráðin í fullt starf, var leikjastofan óvænt keypt af Disney, sem leiddi til nýrra tækifæra og vaxtar.

Þegar þið sleppið tökum á því sem þið haldið að þið þurfið að fá, mun Drottinn blessa ykkur á réttum tíma með því sem sannlega mun veita ykkur gleði. Þið vitið aldrei hvert Drottinn mun leiða ykkur. Sleppið bara og hlustið.

Forgangsraðið rétt

Meðan á skólanáminu stóð, þurfti ég að hagræða tíma fyrir kennslustundir og heimanám og skyldur kirkjunnar. Ég varð að átta mig á eigin forgangsröðun. Fer ég í heimsóknir til fólks til að þjóna því eða læri ég fyrir þetta próf? Les ég ritningarnar núna eða lýk við þetta verkefni?

Í hvert sinn sem ég setti Drottin í fyrsta sæti og vann verkið sem hann kallaði mig til að gera, gekk alltaf allt upp, og meira til. Hann efnir alltaf loforðin sín. Þegar við setjum Drottin í fyrsta sæti fellur allt annað á sinn rétta stað.

Þegar ég fór í framhaldsnám stóð ég frammi fyrir svipuðum valkostum. Ég var forseti Stúlknafélagsins á þeim tíma. Dag einn þurfti ég að velja á milli þess að læra fyrir próf og hjálpa stúlkunum að skipuleggja viðburð. Ég fór með stúlkunum. Á þeim frítíma sem ég hafði, baðst ég fyrir og lærði eins og ég gat. Einhvern veginn náði ég prófinu og með miklu betri einkunnum en ég hafði búist við.

Látið hann leiða ykkur

Himneskur faðir mun leiða ykkur. Hann elskar ykkur og veit nákvæmlega hvar þið eruð stödd. Hann veit nákvæmlega hvað mun blessa ykkur mest og hvenær.

Í lífi mínu hafa hlutirnir breyst og umbyltst töluvert. En hann hefur allan tímann verið í því. Þegar ég hef fylgt leiðsögn hans fyrir mig, hafa hlutirnir þróast dásamlega. Ekki eins og ég bjóst við, en dásamlega.

Hann vill vera hluti af lífi okkar. Ef við bara viljum hleypa honum í líf okkar, þá bíða sérhverju okkar dásamlegar óvæntar uppákomur. Hvað annað gæti hann geymt ykkur sem þið fáið ekki einu sinni séð?