2023
Frelsarinn veit hvernig á að hjálpa mér að takast á við krabbamein
Mars 2023


„Frelsarinn veit hvernig á að hjálpa mér að takast á við krabbamein,“ Til styrktar ungmennum, mars 2023.

Allt megna ég fyrir hjálp Krists

Ungmenni segja frá því hvernig Kristur hefur styrkt þau til að takast á við erfiða hluti (sjá Filippíbréfið 4:13).

Frelsarinn veit hvernig á að hjálpa mér að takast á við krabbamein

Ljósmynd
stúlka

Líf mitt var frekar venjulegt þar til veturinn 2020. Ég var veik af því sem við héldum að væri sýking, svo ég tók skammt af ávísuðum sýklalyfjum. Seinna fór ég að finna fyrir höfuðverkjum, þreytu og yfirliði. Stuttu síðar vaknaði ég um 10 að kvöldi, hélt að það væri morgunn og tók að gera mig klára fyrir skólann.

Þegar systir mín sagði mér að það væri enn kvöld, hljóp ég upp í herbergi foreldra minna í móðursýki. Mamma snerti höfuðið á mér og ég var með mjög háan hita. Við fórum til læknis daginn eftir sem gerði fullt af prufum.

Um kvöldið komu foreldrar mínir grátandi inn í herbergið mitt. Þau sögðu mér að ég væri með hvítblæði og að við yrðum að fara á sjúkrahús til að fá fleiri svör. Ég var á bráðamóttökunni alla nóttina og hóf lyfjameðferðina aðeins nokkrum dögum síðar.

Meðferð mín mun halda áfram í eitt eða tvö ár í viðbót, en hún hefur orðið aðeins viðráðanlegri. Mér hefur liðið aðeins betur undanfarið og vonast til að geta farið í skólann aftur fljótlega. Það er þó ekki auðvelt. Lyfið hefur margar aukaverkanir, þar á meðal beinsjúkdóm sem kallast æðadrep sem gerir mér erfitt fyrir um gang.

Ljósmynd
ung kona á spítala

Þrátt fyrir allt – kannski jafnvel af þessum sökum – hef ég vaxið svo miklu nær himneskum föður mínum. Nú hef ég dýpri skilning á friðþægingu Jesú Krists. Ég var vön að hugsa um friðþægingu hans sem eitthvað sem við þörfnumst aðeins þegar við gerum mistök. Það er hluti af henni, en að treysta á frelsarann er líka eitthvað sem hefur hjálpað mér að vera síður einmana.

Jesús Kristur hefur tekið á sig allar þrengingar okkar og syndir, sem þýðir að hann veit nákvæmlega hvernig á að hjálpa mér þegar ég tekst á við hvítblæði. Það getur verið mjög einangrandi að ganga í gegnum hvaða prófraun sem er, en með friðþægingu Krists getum við huggað okkur við að vita að hann skilur sannlega hvað við erum að ganga í gegnum.

Ruby H., Utah, Bandaríkjunum