2023
Friður til að takast á við storma lífsins
Mars 2023


„Friður til að takast á við storma lífsins?“ Til styrktar ungmennum, mars 2023.

Friður til að takast á við storma lífsins

Drottinn Jesús Kristur segir í lífsstormum ykkar: „Haf hljótt um þig.“

Ljósmynd
Dieter F. Uchtdorf

Öldungur Uchtdorf með ungu fólki við tilkynningu um BYU–Pathway Worldwide, þann 7. febrúar 2017.

Eftir að Drottinn Jesús Kristur hafði kennt allan daginn við ströndina, lagði hann til við lærisveina sína að þeir færu yfir hinum megin við Galíleuvatn. Eftir að þeir fóru, fann Jesús stað til að hvíla sig á í bátnum og sofnaði.

Brátt urðu skýin þungbúin og „þá brast á stormhrina mikil og féllu öldurnar inn í bátinn svo við lá að hann fyllti“ (sjá Markús 4:37).

Nokkrir lærisveina Jesú voru reyndir fiskimenn og vissu hvernig sigla átti báti. Stormurinn geisaði þó og þeir fóru að örvænta. Báturinn virtist vera á barmi þess að sökkva.

Meðan á öllu þessu stóð svaf Jesús.

Við vitum ekki hversu lengi lærisveinarnir tókust á við storminn, en loks gátu þeir ekki beðið lengur. Þeir vöktu Jesú og hrópuðu: „Meistari, hirðir þú ekki um að við förumst?“ (Markús 4:38).

Ljósmynd
skip á sjó

Myndskreyting: Adam Howling

Stormar lífsins

Öll stöndum við frammi fyrir skyndilegum stormum í lífinu. Þið gætuð horft á hin víðtæku vandamál heimsins eða ykkar eigin aðstæður og upplifað vanlíðan, kjarkleysi og vonbrigði. Hjarta ykkar gæti verið brostið vegna ykkar sjálfra eða einhvers sem þið elskið. Þið gætuð verið áhyggjufull eða óttaslegin og fundist sem vonin hafi yfirgefið ykkur að eilífu.

Á þessum tímum gætuð þið hrópað eins og lærisveinar Jesú: „Meistari, hirðir þú ekki um að ég farist?“

Þegar ég var á ykkar aldri var einn af uppáhalds sálmunum mínum: „Herra, sjá bylgjurnar brotna.“1 Ég gat séð mig fyrir mér í bátnum þegar „bylgjurnar brotna, og beljandi stormur hvín.“ Mikilvægasti og fallegasti hluti sálmsins er þessi: „Sjá, ég hef vald yfir vindi’ og sjó! Verði hér ró!“ Síðan koma mikilvæg skilaboð: „Ei magnþrunginn hafsjór með öldufald, fær grandað því skipi, er geymir’ í sér þann Guð sem frá upphafi var og er.“

Eftir að lærisveinarnir höfðu hrópað á hjálp, stóð Jesús upp „hastaði á vindinn og sagði við vatnið: „Þegi þú, haf hljótt um þig! Þá lægði vindinn og gerði stillilogn“ (Markús 4:39).

Ef þið takið á móti Jesú Kristi, „Friðarhöfðingjanum“ (Jesaja 9:6), í bát ykkar, getið þið fundið frið mitt í ólgusömum og ógnvekjandi stormum sem geysa hið innra og ytra.

Jesús segir við ykkur sömu orðin sem hann mælti við Galíleuvatn, óveðursnóttina fyrir löngu, í ykkar lífsins stormum: „Haf hljótt um þig.“

Ljósmynd
skip í stormi og stillu

Treystið á róandi mátt hans

Getið þið ímyndað ykkur hvernig lærisveinunum hlýtur að hafa liðið þegar þeir sáu vind, regn og sjó hlíta orðum meistara síns? Allt sem þeir gátu sagt var: „Hver er þessi? Jafnvel vindur og vatn hlýða honum“ (Markús 4:41).

Jesús Kristur er ólíkur öllum þeim sem nokkru sinni hafa gengið á þessari jörðu. Hann kom til að frelsa okkur. Í Getsemanegarðinum greiddi hann gjaldið fyrir allar syndir okkar. Hann þoldi líka allan okkar sársauka og sorg. Þessi mikla og óendanlega þjáning varð til þess að honum blæddi úr hverri svitaholu (sjá Lúkas 22:44; Kenning og sáttmálar 19:18).

Það sem Drottinn gerði af fullkomnum kærleika er ofar skilningi mínum. Ég veit þó að hann gerði það fyrir mig, fyrir þig og fyrir hverja sál sem hefur lifað eða mun lifa. Hann gaf allt til að við gætum hlotið allt.

Enginn mun nokkru sinni upplifa það að þjást eins og Jesús þjáðist, en þú og ég munum eiga okkar eigin myrku og bitru storma að takast á við. Ef þið lyftið hjarta ykkar til Drottins, mun hann lægja storma ykkar, því hann hefur upplifað þá alla. Hann þjáðist á svo óeigingjarnan hátt fyrir ykkur og hefur mátt til að styrkja, hvetja og blessa ykkur.

Hann lofar: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist“ (Jóhannes 14:27).

Friðarleiðir

Drottinn Jesús Kristur hefur séð ykkur fyrir leiðum til að finna frið sinn. Hann sagði: „Lær af mér og hlusta á orð mín. Gakk í hógværð anda míns og þú munt eiga frið í mér“ (Kenning og sáttmálar 19:23).

Lærið af honum með því að rannsaka líf og kenningar hans í ritningunum. Hefjið upp sál ykkar í bæn. Standið … á heilögum stöðum,“ þar á meðal í musterinu (Kenning og sáttmálar 87:8; sjá einnig 45:32).

Hlustið á orð hans frá lifandi spámönnum. Fylgið leiðsögn heilags anda. Notið guðlega gjöf iðrunar. Komið til kirkju hans til samfélags og lærdóms og að vera nærð hinu góða orði Guðs.

Gangið í hógværð anda hans með því að gera heimili ykkar að stað þar sem finna má anda hans. Hjálpið öðrum og þjónið honum af gleði. Hafið hugfast: „Veldu rétt, þar er sannan frið að finna.“2 Reynið að vera trúföst og „hinir friðsömu fylgjendur Krists“ (Moróní 7:3).

Ef þið viljið læra, hlusta og ganga með Drottni, þá virkjast hið mikla fyrirheit hans: Þú munt njóta friðar hans.

Trú til að sýna ró

Með trú á Drottin Jesú Krist, getið þið sýnt „ró“ þegar stormar lífsins skella á ykkur. Friður hlýst kannski ekki eins skjótt og lærisveinarnir á Galíleuvatni hlutu hann, en Drottinn mun styrkja ykkur til að komast gegnum stormana sem þið takist á við.

Kæru vinir, ég ber vitni um að Jesús Kristur lifir.

Hann elskar ykkur.

Hann þekkir ykkur.

Hann skilur ykkur.

Hann mun ekki skilja ykkur eftir munaðarlaus á neyðarstundu.

Sannan frið er aðeins að finna í og hjá honum. Friður hans er fyrir alla sem vilja snúa sér til hans.

Heimildir

  1. „Herra, sjá bylgjurnar brotna,“ Sálmar, nr. 38.

  2. „Veldu rétt,“ Sálmar, nr. 98.