„Viðauki A: Fyrir foreldra – Búið börn ykkar undir ævilanga veru á sáttmálsvegi Guðs,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Mormónsbók 2025 (2025)
„Viðauki A,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2025
Viðauki A
Viðauki A: Fyrir foreldra – Búið börn ykkar undir ævilanga veru á sáttmálsvegi Guðs
Vegna þess að himneskur faðir elskar ykkur, treystir ykkur og þekkir möguleika ykkar, hefur hann séð ykkur fyrir tækifæri til að hjálpa börnum ykkar að komast inn á og þróast á sáttmálsvegi hans, veginum til eilífs lífs (sjá Kenning og sáttmálar 68:25–28). Þetta felur í sér að hjálpa þeim að búa sig undir að gera og halda helga sáttmála, eins og skírnarsáttmálann og sáttmálana sem gerðir eru í musterinu. Með þessum sáttmálum munu börn ykkar glaðlega bindast frelsaranum, Jesú Kristi.
Það eru margar leiðir til að undirbúa börn ykkar fyrir þessa ferð á sáttmálsveginum og himneskur faðir mun hjálpa ykkur að finna bestu leiðina þeim til hjálpar. Þegar þið leitið innblásturs, hafið þá í huga að ekki á allt nám sér stað í tímasettum kennslustundum. Reyndar er tækifærið til að læra af fordæmi og á stuttum, einföldum kennslustundum – sem koma á eðlilegan hátt í daglegu lífi – hluti af því sem gerir heimanám svo áhrifaríkt. Að fylgja sáttmálsveginum er stöðugt, ævilangt ferli og það á líka við um að læra um sáttmálsveginn. (Sjá „Heimili og fjölskylda,“ Kenna að hætti frelsarans [2022], 30–31.)
Hér að neðan eru nokkrar hugmyndir sem gætu leitt til frekari innblásturs. Þið getið fundið fleiri hugmyndir til að kenna börnum á Barnafélagsaldri í „Viðauki B: Fyrir Barnafélagið – Búa börn undir ævilanga veru á sáttmálsvegi Guðs.“
Skírn og staðfesting
Nefí kenndi að „hliðið, sem [okkur] er ætlað að fara inn um“ á sáttmálsveginn „er iðrun og skírn í vatni“ (2. Nefí 31:17). Viðleitni ykkar til að hjálpa börnum ykkar að búa sig undir skírn og staðfestingu getur veitt þeim góða spyrnu á þeim vegi. Sú viðleitni hefst með kennslu um trú á Jesú Krist og iðrun. Hún felur líka í sér kennslu um það hvernig við endurnýjum skírnarsáttmála okkar með því að meðtaka sakramentið í hverri viku.
Nefí kenndi að „hliðið, sem [okkur] er ætlað að fara inn um“ á sáttmálsveginn „er iðrun og skírn í vatni“ (2. Nefí 31:17).
Hér eru nokkrar heimildir sem geta hjálpað ykkur: 2. Nefí 31; sérstök útgáfa tímaritsins Barnavinar um skírn; Topics and Questions, „Baptism,“ Gospel Library.
-
Hvenær sem þið upplifið eitthvað sem styrkir trú ykkar á himneskan föður og Jesú Krist, skuluð þið miðla því barni ykkar. Hjálpið þeim að skilja að trú er nokkuð sem hægt er að efla og styrkja í gegnum lífið. Hvað getur barn ykkar gert til að þróa með sér sterkari trú á Krist, áður en það meðtekur skírn?
-
Þegar barn ykkar gerir eitthvað rangt, skuluð þið ræða af gleði um gjöf iðrunar. Þegar þið síðan gerið eitthvað rangt, miðlið þá gleðinni sem vaknar þegar þið iðrist. Berið vitni um að vegna þess að Jesús Kristur þjáðist og dó fyrir syndir okkar, getum við iðrast daglega, öðlast fyrirgefningu og meðtekið kraftinn til að breytast. Þegar barn ykkar leitar fyrirgefningar, fyrirgefið þá fúslega og af gleði.
-
Segið barni ykkar frá skírninni ykkar. Sýnið myndir og miðlið minningum. Ræðið um það hvernig ykkur leið, hvernig það hefur hjálpað ykkur að kynnast Jesú Kristi betur að halda skírnarsáttmála ykkar og hvernig hann blessar líf ykkar áfram. Hvetjið barn ykkar til að spyrja spurninga.
-
Þegar það er skírn í fjölskyldu ykkar eða deild, skuluð þið fara með barnið ykkar til að sjá hana. Ræðið saman um það sem þið og barnið ykkar sáuð og funduð. Ef mögulegt er, skuluð þið ræða við þann sem er skírður og spyrja spurninga eins og eftirfarandi: „Hvernig tókstu þessa ákvörðun? Hvernig undirbjóstu þig?“
-
Þegar þið takið eftir því að barn ykkar gerir eitthvað sem þau lofuðu að gera, skulið þið hrósa þeim einlæglega. Bendið á að það að standa við skuldbindingar hjálpar okkur að búa okkur undir að halda þá sáttmála sem við gerum þegar við erum skírð. Hverju lofum við Guði þegar við erum skírð? Hverju lofar hann okkur? (Sjá Mósía 18:8–10, 13.)
-
Ræðið um það hvernig það hefur blessað ykkur að vera staðfest og gerast meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Hvernig hafið þið til dæmis komist nær himneskum föður og Jesú Kristi þegar þið hafið þjónað öðrum og þegar aðrir hafa þjónað ykkur? Hjálpið barni ykkar að hugsa um leiðir til að þjóna og styrkja aðra sem meðlimur kirkjunnar. Hjálpið þeim líka að upplifa og bera kennsl á þá gleði sem kemur við þjónustu.
-
Þegar þið og barnið ykkar upplifið saman helga reynslu (svo sem í kirkju, að lesa ritningarnar eða á meðan þið þjónið einhverjum), segið því þá frá þeim andlegu tilfinningum eða hughrifum sem þið upplifið. Bjóðið barni ykkar að miðla tilfinningum sínum. Gætið að þeim mörgu leiðum sem andinn getur talað til fólks, þar á meðal hvernig hann talar til ykkar persónulega. Hjálpið barni ykkar að bera kennsl á og miðla ykkur stundum þegar það gæti verið að upplifa áhrif heilags anda.
-
Horfið saman á nokkur myndbandanna í safninu Gospel Library, sem bera titilinn „Hlýð þú á hann!“ Ræðið saman um þær mismunandi leiðir sem þjónar Drottins heyra rödd hans. Bjóðið barni ykkar að teikna mynd eða búa til myndband um það hvernig það heyrir rödd frelsarans.
-
Gerið sakramentið að helgum og gleðiríkum atburði í fjölskyldu ykkar. Miðlið barni ykkar því hvernig þið einblínið á Jesú Krist á meðan á sakramentinu stendur. Hjálpið barni ykkar að gera áætlun til að sýna að sakramentið sé því heilagt. Það getur til dæmis minnt okkur á skírnarsáttmála okkar er við hlustum á orð sakramentisbænanna.
-
Í mörgum útgáfu tímaritsins Barnavinur eru greinar, sögur og verkefni til að hjálpa börnum að búa sig undir skírn og staðfestingu. Fáið barn ykkar til að velja sér lestrarefni þar og njóta þess með ykkur. (Sjá einnig safnið „Preparing for Baptism“ í barnahluta Gospel Library.)
Kraftur, vald og lyklar prestdæmisins
Prestdæmið er vald og kraftur Guðs sem hann notar til að blessa börn sín. Prestdæmi Guðs er á jörðinni í dag í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Allir kirkjumeðlimir sem halda sáttmála sína – konur, karlar og börn – eru blessaðir með prestdæmiskrafti Guðs á heimilum sínum til að styrkja sjálfa sig og fjölskyldur sínar (Almenn handbók: Þjónusta í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, 3.6, Gospel Library). Þessi kraftur mun gera meðlimum mögulegt að vinna að sáluhjálpar- og upphafningarstarfi Guðs í eigin lífi og í fjölskyldum þeirra (sjá Almenn handbók, 2.2).
Þegar karlar og konur þjóna í kirkjuköllunum, gera þau það með prestdæmisvaldi, undir leiðsögn þeirra sem hafa prestdæmislykla. Öll börn himnesks föður – synir hans og dætur – munu hljóta blessun þegar þau skilja prestdæmið betur.
Við tökum á móti helgiathöfnum með valdsumboði prestdæmisins. Verðugum karlmeðlimum kirkjunnar er veitt prestdæmisvald gegnum veitingu prestdæmisins og vígslu í prestdæmisembætti (sjá Almenn handbók, 3,4). Þeir sem gegna prestdæmisembætti geta fengið umboð frá einhverjum sem heldur prestdæmislykla til að framkvæma helgiathafnir prestdæmisins.
Til að læra meira um prestdæmið, sjá Russell M. Nelson, „Andlegir fjársjóðir,“ aðalráðstefna, okt. 2019; Russell M. Nelson, „Gjaldið fyrir prestdæmiskraftinn,“ aðalráðstefna, apríl 2016; „Prestdæmisreglur,“ kafli 3 í Almenn handbók.
-
Gerið helgiathafnir prestdæmisins að stöðugum hluta af fjölskyldulífi ykkar. Hjálpið barninu ykkar til dæmis að búa sig andlega undir sakramentið í hverri viku. Hvetjið barnið ykkar til að leita sér prestdæmisblessunar þegar það er veikt eða þarfnast huggunar eða leiðsagnar. Gerið það að venju að benda á hvernig Drottinn blessar fjölskyldu ykkar með prestdæmiskrafti.
-
Þegar þið lesið ritningarnar saman, skulið þið vera vakandi fyrir tækifærum til að ræða það hvernig Guð blessar fólk með krafti sínum. Segið frá eigin reynslu um það hvernig Guð hefur blessað ykkur með prestdæmiskrafti sínum. Svo sem um blessanir sem við hljótum frá Guði fyrir tilstilli prestdæmisins, sjá General Handbook, 3.2, 3.5.
-
Kennið barninu ykkar að eftir skírn geti það hlotið prestdæmiskraft með því að halda skírnarsáttmálann. Kynnið ykkur saman boðskapinn „Andlegir fjársjóðir,“ eftir Russell M. Nelson forseta (aðalráðstefna, október 2019). Segið barni ykkar hvernig helgiathafnir prestdæmisins hafa fært kraft Guðs í líf ykkar. Til að kynna sér nokkuð af því hvernig prestdæmiskraftur blessar okkur, sjá þá General Handbook, 3.5.
-
Ræðið spurninguna: „Hvernig er þjónn Drottins?“ Lesið saman Kenningu og sáttmála 121:36–42 og leitið svara. Alltaf þegar þið takið eftir því að barnið ykkar (eða einhver annar) tileinkar sér eina af reglunum eða eiginleikunum í þessum versum, skulið þið benda á það.
-
Þegar þið eða barnið ykkar notið lykla til að aflæsa hurð eða ræsa bíl, takið þá smá stund til að bera lyklana saman við lyklana sem prestdæmisleiðtogar hafa. (Skilgreiningu á prestdæmislyklum má sjá í Almenn handbók, 3.4.1). Hverju „aflæsa“ prestdæmislyklar eða „ræsa“ fyrir okkur? Sjá einnig Gary E. Stevenson, „Hvar eru lyklar og vald prestdæmisins?,“ aðalráðstefna, apríl 2016; „Where Are the Keys?“ (myndband), Gospel Library.
2:51Where Are the Keys?
-
Þegar þið eruð sett í embætti fyrir köllun skuluð þið bjóða barninu ykkar að vera viðstatt, ef mögulegt er. Leyfið barninu ykkar að sjá ykkur uppfylla köllun ykkar. Þið gætuð jafnvel fundið viðeigandi leiðir til að fá þau til að hjálpa ykkur. Lýsið því hvernig þið finnið fyrir krafti Drottins í köllun ykkar.
Vera skírð og staðfest fyrir áa
Musteri eru hluti af áætlun himnesks föður fyrir börn hans. Í húsi Drottins gerum við helga sáttmála við himneskan föður er við tökum þátt í helgiathöfnum, sem allar vísa til Jesú Krists. Himneskur faðir hefur séð öllum börnum sínum fyrir leið til að gera sáttmála og taka þátt í helgiathöfnum, þar með talið fólk sem ekki tók á móti þeim í þessu lífi. Í upphafi þess árs sem barnið ykkar verður 12 ára er það nógu gamalt til að láta skírast og staðfestast í musterinu fyrir dána áa (sjá einnig 1. Korintubréf 15:29).
-
Farið í hús Drottins eins oft og aðstæður ykkar leyfa. Ræðið við barn ykkar um hvers vegna þið farið í musterið og hvernig það hjálpar ykkur að finnast þið vera nær himneskum föður og Jesú Kristi.
-
Kynnið ykkur og ræðið saman um spurningarnar fyrir musterismeðmæli. Þið getið fundið þær á síðum 36–37 í Til styrktar ungmennum: Leiðarvísir að ákvarðanatökum (2022). Ræðið við barn ykkar um það sem gerist í musterismeðmælaviðtali. Segið frá því hvers vegna það er mikilvægt fyrir ykkur að hafa musterismeðmæli.
-
Lesið saman Malakí 3:24. Ræðið um það hvernig hjörtu ykkar gætu snúið að áum ykkar. Lærið meira um áa ykkar með því að kynna ykkur saman ættarsögu ykkar á FamilySearch.org. Gætið að áum sem þarfnast skírnar og staðfestingar. Leiðbeinandi musteris- og ættarsögustarfs getur veitt liðsinni.
-
Kynnið ykkur saman nokkuð af efninu í barnahlutanum sem heitir „Temple“ í Gospel Library. (Sjá einnig „Preparing Your Child for Temple Baptisms and Confirmations“ á ChurchofJesusChrist.org.)
Taka á móti patríarkablessun
Patríarkablessun getur verið uppspretta leiðsagnar, huggunar og innblásturs. Hún hefur að geyma persónulega leiðsögn til okkar frá himneskum föður og hjálpar okkur að skilja eilífa sjálfsmynd okkar og tilgang. Hjálpið barninu ykkar að búa sig undir að hljóta patríarkablessun með því að kenna því um mikilvægi og heilagt eðli patríarkablessunar.
Til að læra meira, sjá Topics and Questions, „Patriarchal Blessings,“ Gospel Library; Julie B. Beck, „Þið búið að göfugum fæðingarrétti,“ aðalráðstefna, apríl 2006.
-
Segið barni ykkar frá upplifun ykkar af því að hljóta patríarkablessun. Þið gætuð til að mynda sagt frá því hvernig þið bjugguð ykkur undir að taka á móti henni, hvernig hún hefur hjálpað ykkur að komast nær Guði og hvernig hann heldur áfram að leiða ykkur með þessari blessun. Þið gætuð líka boðið barninu ykkar að ræða við aðra fjölskyldumeðlimi sem hafa fengið patríarkablessun sína.
-
Lesið saman boðskap öldungs Randall K. Bennett „Patríarkablessunin ykkar – innblásin leiðsögn frá himneskum föður“ og öldungs Kazuhiko Yamashita „Hvenær skal meðtaka eigin patríarkarblessun“ (aðalráðstefna, apríl 2023). Miðlið hverju öðru því sem þið lærið af þessum ræðum um ástæðu þess að himneskur faðir vill að við hljótum patríarkablessun. Til að læra meira um ferlið til að hljóta patríarkablessun, sjá þá General Handbook, 18.17.
-
Ef þið eigið áa sem hafa hlotið patríarkablessanir, gæti verið hvetjandi að lesa sumar þeirra með barninu ykkar. Til að biðja um blessanir áa sem hafa látist, skráið ykkur þá inn á ChurchofJesusChrist.org, smellið á Verkfæri efst í hægra horninu á skjánum og veljið Patríarkablessun.
-
Eftir að barn ykkar hefur fengið patríarkablessun, skuluð þið bjóða öllum fjölskyldumeðlimum sem voru viðstaddir að skrá tilfinningar sínar og deila þeim með barninu ykkar.
Meðtaka musterisgjöf
Guð vill veita eða blessa öll börn sín með „krafti frá upphæðum“ (Kenning og sáttmálar 95:8). Við förum einungis einu sinni í musterið til að fá okkar eigin musterisgjöf, en sáttmálarnir sem við gerum við Guð og andlegi krafturinn sem hann gefur okkur sem hluta af gjöfinni, geta blessað okkur alla daga lífs okkar.
-
Setjið upp mynd af musterinu á heimili ykkar. Segið barni ykkar frá þeim tilfinningum sem þið upplifið í húsi Drottins. Ræðið oft um elsku ykkar til Drottins og húss hans og sáttmálanna sem þið hafið gert þar. Leitið tækifæra til að fara með barni ykkar í musterið til að framkvæma skírnir og staðfestingar fyrir áa þess.
-
Kannið saman temples.ChurchofJesusChrist.org. Lesið saman greinar eins og „About the Temple Endowment“ og „Prepare for the House of the Lord.“ Fáið barn ykkar til að spyrja allra þeirra spurninga sem þau hafa um musterið. Til leiðbeiningar um það sem þið getið rætt um utan musterisins, sjá þá boðskap öldungs Davids A. Bednar, „Undir það búin að öðlast allt sem gagnlegt er“ (aðalráðstefna, apríl 2019; sjá einkum hlutann með heitinu „Heimilismiðað og kirkjustyrkt nám og musterisundirbúningur“).
-
Þegar þið og barn ykkar takið þátt í eða eruð vitni að öðrum helgiathöfnum (svo sem sakramentinu eða lækningablessun), ræðið þá örlítið um táknmálið sem felst í helgiathöfninni. Hvað standa táknin fyrir? Hvernig vitna þau um Jesú Krist? Þetta getur hjálpað barni ykkar að búa sig undir að íhuga táknræna merkingu helgiathafna musterisins, sem líka bera vitni um Jesú Krist.
-
Hjálpið barni ykkar að gæta að því hvernig það heldur skírnarsáttmálann sem lýst er í Mósía 18:8–10, 13. Hjálpið barni ykkar líka að gæta að því hvernig Drottinn blessar það. Byggið upp sjálfstraust barnsins ykkar á getu þeirra að halda sáttmála.
-
Ræðið opinskátt og oft um það hvernig musterissáttmálar ykkar eru leiðandi í vali ykkar og hjálpa ykkur að vaxa nær Jesú Kristi. Þið gætuð notað Almenn handbók, 27.2, til að kynna ykkur sáttmálana sem við gerum í musterinu. Ef þið hafið meðtekið musterisgjöf, segið börnum ykkar frá því hvernig musterisklæðin hjálpa ykkur að minnast sáttmála ykkar við Jesú Krist (sjá „Sacred Temple Clothing“ [myndband], Gospel Library).
Sacred Temple Clothing
Þjóna í trúboði
Öldungur David A. Bednar kenndi: „Það besta og mikilvægasta sem þið gerið til að búa ykkur undir að þjóna í trúboðsköllun er að verða trúboði löngu áður en þið farið í trúboð. … Mergur málsins er ekki sá að fara í trúboð; mergur málsins er sá að verða trúboði og þjóna alla okkar ævi, af öllu hjarta og öllum mætti og huga. … Þið eruð að búa ykkur undir ævilangt trúboðsstarf“ („Að verða trúboði,“ aðalráðstefna, október 2005). Sú reynsla sem barn ykkar hlýtur af því að verða trúboði, mun blessa það að eilífu, ekki bara í þann tíma sem það þjónar sem trúboði.
Til að læra meira, sjá þá Russell M. Nelson, „Prédika fagnaðarboðskap friðarins,“ aðalráðstefna, apríl 2022; M. Russell Ballard, „Trúboðsþjónusta hefur blessað líf mitt eilíflega,“ aðalráðstefna, apríl 2022; „Missionary Preparation: Adjusting to Missionary Life,“ Gospel Library.
-
Verið fyrirmynd að því hvernig miðla á fagnaðarerindinu á eðlilegan hátt. Verið alltaf vakandi fyrir tækifærum til að miðla öðrum tilfinningum ykkar varðandi himneskan föður og frelsarann og blessanirnar sem þið hljótið frá hinu endurreista fagnaðarerindi frelsarans og sem meðlimir kirkju hans. Bjóðið öðrum að vera með fjölskyldu ykkar í kirkju- og fjölskyldutengdu starfi.
-
Leitið að tækifærum fyrir fjölskyldu ykkar til að eiga samskipti við trúboða. Bjóðið þeim að kenna vinum ykkar eða að kenna fólki heima hjá ykkur. Spyrjið trúboðana um reynsluna sem þeir hljóta og hvernig trúboðsþjónusta hjálpar þeim að nálgast Jesú Krist. Spyrjið líka hvað þeir gerðu (eða óskuðu að þeir hefðu gert) til að búa sig undir að verða trúboðar.
-
Ef þið hafið þjónað í trúboði, skulið þið ræða opinskátt og oft um reynslu ykkar. Þið gætuð líka þess í stað boðið vinum eða fjölskyldumeðlimum sem þjónuðu í trúboði að ræða um það. Þið gætuð líka rætt um það hvernig þið hafið miðlað öðrum fagnaðarerindinu í gegnum lífið. Hjálpið barni ykkar að hugsa um það hvernig þau geta miðlað fagnaðarerindinu.
-
Veitið barninu ykkar tækifæri til að kenna fjölskyldu ykkar reglur fagnaðarerindisins. Barn ykkar gæti líka æft sig í því að miðla öðrum trú sinni. Þið gætuð t.d. rætt spurningar eins og „hvernig myndum við kynna Mormónsbók fyrir einhverjum sem hefur aldrei heyrt um hana?“ eða „hvernig myndum við lýsa þörfinni fyrir frelsarann fyrir einhverjum sem er ekki kristinn?“
-
Hjálpið barninu ykkar að njóta viðræðna við fólk. Nefnið nokkrar góðar leiðir til að hefja samtal. Hvetjið barnið ykkar til að læra að hlusta á það sem aðrir segja, skilja það sem býr í hjörtum þeirra og miðla sannleika fagnaðarerindisins sem gæti blessað líf þeirra.
-
Leitið að tækifærum fyrir barnið ykkar til að læra um aðra menningu og trú. Hjálpið þeim að viðurkenna og virða hinar góðu og sönnu reglur í trú annarra.
Meðtaka helgiathöfn innsiglunar
Í musterinu geta eiginmaður og eiginkona verið eilíflega gift. Það á sér stað í helgiathöfn sem kallast „innsiglun.“ Þótt mörg ár geti enn verið í þessa helgiathöfn hjá dóttur ykkar eða syni, þá geta litlu, einföldu, stöðugu hlutirnir sem þið gerið saman á þeim árum hjálpað þeim að búa sig undir þessa dásamlegu blessun.
-
Lesið saman „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ Gospel Library. Hvað kennir þessi yfirlýsing um hamingju í fjölskyldulífi og um farsæl hjónabönd? Veljið með barninu ykkar eina af reglunum sem taldar eru upp í yfirlýsingunni til að læra um. Þið gætuð flett upp á ritningarversum sem tengjast þeirri reglu í Leiðarvísi að ritningunum. Þið gætuð líka sett ykkur markmið að tileinka ykkur þessa reglu betur í fjölskyldu ykkar. Þegar þið vinnið að markmiðum ykkar, skulið þið ræða saman um hvaða áhrif það hefur á fjölskyldulífið að lifa eftir þeirri reglu.
-
Lesið boðskap Dieters F. Uchtdorf forseta, „Til vegsemdar þeim sem bjarga,“ með barninu ykkar (aðalráðstefna, apríl 2016). Þegar þið komið að kafla sem heitir „Einnota samfélag,“ gætuð þið gætt að hlutum á heimili ykkar sem mega missa sín og öðrum sem mega það ekki. Ræðið um það hvernig þið meðhöndlið hluti á ólíkan hátt þegar þið viljið að þeir endist í langan tíma. Hvað gefur þetta til kynna um hvernig okkur ber að breyta í hjónabandi og fjölskyldusamböndum? Hvað annað lærum við af boðskap Uchtdorf forseta um hvernig frelsarinn getur hjálpað okkur að byggja upp sterk hjónabönd og fjölskyldur?
-
Verið opin gagnvarp barni ykkar um þá hluti sem þið og maki ykkar eruð að læra varðandi það að eiga kristsmiðað eilíft hjónaband og hvernig þið eruð að reyna að bæta ykkur á ýmsa vegu. Ef þið og maki ykkar hafið verið innsigluð í musterinu, sýnið þá barni ykkar með fordæmi hvernig þið kappkostið að halda sáttmála ykkar við Drottin. Segið barni ykkar hvernig þið kappkostið að gera himneskan föður og frelsarann að miðpunkti sambands ykkar og hvernig þeir eru að hjálpa ykkur (sjá einnig Ulisses Soares, „Í samstarfi með Drottin,“ aðalráðstefna, okt. 2022).
-
Þegar taka þarf fjölskylduákvarðanir, haldið þá fjölskyldufundi og hafið umræður. Gangið úr skugga um að skoðanir allra fjölskyldumeðlima séu heyrðar og metnar. Notið þessar umræður sem tækifæri til að setja fordæmi um heilbrigð samskipti og góðvild í fjölskyldusamböndum, jafnvel þótt allir sjái ekki hlutina eins. (Sjá M. Russell Ballard, „Fjölskyldufundir,“ aðalráðstefna, apríl 2016.)
-
Þegar ágreiningur eða átök eru í fjölskyldunni, sýnið þá þolinmæði og samúð. Hjálpið barni ykkar að sjá hvernig kristileg nálgun átaka getur hjálpað því að búa sig undir farsælt hjónaband. Lesið saman Kenningu og sáttmála 121:41–42 og ræðið um það hvernig reglurnar í þessum versum geta átt við um hjónabandið.