„24. febrúar–2. mars: ‚Verðmæti sálna er mikið‘: Kenning og sáttmálar 18,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Kenning og sáttmálar 2025 (2025)
„Kenning og sáttmálar 18,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2025
24. febrúar–2. mars: „Verðmæti sálna er mikið“
Kenning og sáttmálar 18
Verðmæti einstaklings er hægt að mæla á marga vegu. Hæfileikar, menntun, auður og líkamlegt atgervi getur allt haft áhrif á það hvernig við metum aðra – og okkur sjálf. Í augum Guðs er verðmæti okkar þó miklu einfaldara mál og það kemur skýrt fram í Kenningu og sáttmálum 18: „Hafið hugfast að verðmæti sálna er mikið í augum Guðs“ (vers 10). Þessi einfaldi sannleikur útskýrir svo margt af því sem Guð gerir og hvers vegna hann gerir það. Hvers vegna bauð hann Joseph Smith og Oliver Cowdery að stofna kirkju Jesú Krists á okkar tíma? (sjá vers 1–5). Vegna þess að verðmæti sálna er mikið. Af hverju „[býður hann] öllum mönnum, alls staðar að iðrast“ og sendir postula til að boða iðrun? (vers 9). Vegna þess að verðmæti sálna er mikið. Af hverju leið Jesús Kristur „píslardauða í holdinu“ og „kvalir allra manna“? (vers 11). Vegna þess að verðmæti sálna er mikið. Ef aðeins ein þessara sálna velur að taka á móti gjöf frelsarans gleðst hann, því „mikil er gleði hans yfir þeirri sál sem iðrast“ (vers 13).
Hugmyndir fyrir nám á heimili eða í kirkju
„Byggja upp kirkju mína.“
Í kafla 18 veitti Drottinn Oliver Cowdery leiðsögn til hjálpar við að leggja grundvöll að kirkju Jesú Krists. Hvað vekur athygli ykkar varðandi leiðsögnina sem hann gaf – einkum í versum 1–5? Þið gætuð íhugað hvernig þessi sama leiðsögn á við um ykkur við að „byggja upp“ trú ykkar á Krist. Dæmi:
-
Hvað hafið þið „æskt að fá að vita“ frá Drottni? (vers 1).
-
Hvaða merkir það fyrir ykkur að „treysta því sem ritað er“? (vers 3). Hvernig hefur andinn „gjört [ykkur] kunnugt“ að þetta sé sannleikur? (vers 2; sjá einnig Kenning og sáttmálar 6:22–24).
-
Hvernig byggið þið líf ykkar á „grundvelli fagnaðarerindis [frelsarans] og á bjargi [hans]“? (vers 5).
Spyrjið spurninga. Kenning og sáttmálar staðfestir að spurningar leiða til opinberunar. Skráið spurningar sem koma upp í ritningarnáminu. Ígrundið og biðjið síðan til að leita svara.
Kenning og sáttmálar 18:10–13.
„Verðmæti sálna er mikið í augum Guðs.“
Hvernig ákveðum við verðmæti einhvers? Af hverju er t.d. einn hlutur á markaði verðmætari en annar? Þegar þið lesið kafla 18 í þessari viku, einkum vers 10–13, gætuð þið gert samanburð á því hvernig fólk metur oft verðmæti og hvað það er sem gerir sál verðmæta í augum Guðs. Íhugið að setja nafn ykkar í stað orðanna „sálna,“ „þeirri sál,“ „allra manna“ og „allir menn.“ Hvernig gætu þessi vers hjálpað einhverjum sem efast um eigið verðmæti?
Hér eru nokkrir fleiri ritningarhlutar sem kenna um verðmæti sálar: Lúkas 15:1–10; Jóhannes 3:16–17; 2. Nefí 26:24–28; HDP Móse 1:39. Hvernig mynduð þið gera samantekt á því hvað Guði finnst um ykkur, byggt á þessum ritningarhlutum? Þið gætuð líka kannað boðskap Dieters F. Uchtdorf forseta „Þið skiptið hann máli“ (aðalráðstefna, október 2011) til að finna orð og orðtök til að hjálpa ykkur að skilja verðmæti ykkar í augum Guðs.
Hvernig sýnir Guð ykkur að þið eruð honum mikils virði? Hvaða áhrif hefur þetta á það hvað ykkur finnst um ykkur sjálf og aðra?
Sjá einnig Joy D. Jones, „Ómetanlegt gildi,” aðalráðstefna, október 2017; Topics and Questions, „Children of God,“ Gospel Library.
Drottinn gleðst þegar ég iðrast.
Gætið að því hversu oft orðin iðrist og iðrun koma fyrir í Kenningu og sáttmálum 18. Hugleiðið það sem þið lærið af þessum orðum í hvert sinn sem þau koma fyrir. Hugleiðið einkum vers 11–16. Hvaða tilfinningar vekja þessi vers varðandi iðrun – iðrun ykkar sjálfra og þeirri ábyrgð að hvetja aðra til að iðrast og bæta sig? Hér er ein leið til að skrá það sem þið lærið: Skráið hvernig þið gætuð lokið við setninguna: „Iðrun er .“
Sjá einnig Alma 36:18–21; Leiðarvísir að ritningunum, „Iðrun,“ Gospel Library; Dale G. Renlund, „Iðrun: Gleðilegur kostur,“ aðalráðstefna, október 2016.
Hluti af Glataði sonurinn, eftir Clark Kelley Price
Gleði hlýst af því að hjálpa öðrum að koma til Krists.
Þegar þið lesið vers 14–16, hugleiðið þá merkingu þess að „boða iðrun“ – og af hverju hún veitir slíka gleði. Hvaða leiðir hafið þið uppgötvað til að hjálpa öðrum að koma til frelsarans og hljóta fyrirgefningu? Hvernig hafa aðrir gert þetta fyrir ykkur?
Sjá einnig Craig C. Christensen, „Ekkert getur verið jafn óviðjafnanlegt og ljúft og gleði mín var,“ aðalráðstefna, apríl 2023.
Ég get hlýtt á rödd Drottins í ritningunum.
Hvert væri svar ykkar, ef þið væruð spurð að því hvernig rödd Drottins væri? Ígrundið þessa spurningu við lestur Kenningar og sáttmála 18:34–36. Hvað hafið þið lært af lestri Kenningar og sáttmála um rödd Drottins? Hvað getið þið gert til að heyra betur rödd hans?
Sjá einnig „Er í lífsins orðum leita,“ Sálmar, nr. 106
Sjá útgáfur þessa mánaðar af tímaritunum Líahóna og Til styrktar ungmennum til að fá fleiri hugmyndir.
Hugmyndir fyrir kennslu barna
Kenning og sáttmálar 18:10–13.
Hvert okkar er mikils virði í augum Guðs.
-
Þegar þið og börn ykkar lesið Kenningu og sáttmála 18:10–13, íhugið þá að setja nafn hvers annars í stað orðanna „sálna,“ „þeirri sál,“ „allra manna“ og „alla menn.“ Þið gætuð síðan rætt hvernig þessi vers hjálpa okkur að skilja hvað himneskum föður finnst um hvert okkar.
-
Þið gætuð líka spurt börn ykkar um hluti sem fólk telur verðmæta. Þið gætuð líka þess í stað sýnt þeim eitthvað sem ykkur finnst verðmætt. Hvernig göngum við um hluti sem okkur finnast verðmætir? Látið þau síðan skiptast á við að horfa í spegil. Þegar þau gera það, segið þá hverju barni að það sé barn Guðs og að það sé mikils virði. Hvernig getum við látið aðra finna að „verðmæti sálna [þeirra] er mikið“ í augum okkar?
-
Til að undirstrika að allir menn séu mikils virði í augum himnesks föður, gætu börn ykkar virt fyrir sér myndina aftast í þessum lexíudrögum meðan þið lesið Kenningu og sáttmála 18:10–13. Að syngja saman söng eins og „Every Star Is Different“ (Children’s Songbook, 142–43) gæti hjálpað við að efla þetta í vitund barna ykkar.
Hluti af Verðmæti sálar, eftir Liz Lemon Swindle
Það vekur gleði að miðla fagnaðarerindinu.
-
Til að hvetja börn ykkar til að miðla fagnaðarerindi Jesú Krists, gætuð þið rætt saman um upplifun þegar þið funduð eitthvað sem ykkur langaði að miðla vinum ykkar eða fjölskyldu. Af hverju vilduð þið miðla því og hvernig fannst ykkur að miðla því? Þið gætuð síðan lesið Kenningu og sáttmála 18:13, 16. Hvað vekur Drottni gleði? Hvað segir hann að muni vekja okkur gleði? Þið og börn ykkar gætuð rætt einhverjar upplifanir ykkar við að miðla gleði fagnaðarerindis frelsarans.
-
Söngur um trúboðsstarf, eins og „Ég feginn fara vil í trúboð“ (Barnasöngbókin, 91) gæti vakið börnum ykkar hugmyndir um hvernig miðla mætti fagnaðarerindinu.
Ég get hlýtt á rödd Drottins í ritningunum.
-
Börn ykkar gætu haft gaman af leik þar sem þau reyna að bera kennsl á raddir ýmissa einstaklinga, svo sem fjölskyldumeðlima, vina eða kirkjuleiðtoga. Hvernig þekkjum við raddir hvers annars? Hvernig þekkjum við rödd Drottins? Þið gætuð lesið saman Kenningu og sáttmála 18:34–36 til að ræða þessa spurningu. Þið gætuð líka miðlað hvert öðru hvernig þið hafið heyrt rödd Drottins í ritningunum.
Sjá útgáfu þessa mánaðar af tímaritinu Barnavinur til að fá fleiri hugmyndir.