2022
Guð getur hjálpað okkur á erfiðum tímum
Mars 2022


„Guð getur hjálpað okkur á erfiðum tímum,“ Til styrktar ungmennum, mars 2022.

Guð getur hjálpað okkur á erfiðum tímum

Jesús Kristur veit hvernig liðsinna á hverju okkar, hverjar sem raunir okkar eru.

Ljósmynd
Jesús Kristur

Frelsarinn gekk á vatni, eftir Walter Rane

Ég man eftir því hvernig mér leið sem unglingi, að takast á við það sem mér virtust erfiðir tímar. Það geisaði heimsstríð. Ungir menn, lítið eldri en ég sjálfur, létu lífið í stríði. Óaldarflokkar börðust í nálægum hverfum. Heimslægri efnahagskreppu hafði enn ekki lokið og margir voru fátækir. Ég og fjölskylda mín vorum einu Síðari daga heilagir í bænum þar sem við bjuggum.

Samt var ég glaðvær og bjartsýnn. Mér hafði verið kennt, eins og ykkur, að erfiðleikar væru mögulegar blessanir, ef við snúum okkur til himnesks föður og frelsarans eftir liðsinni.

Af hverju erfiðleikar?

Erfiðleikar veita okkur það gullna tækifæri að velja að iðka trú. Við getum beðist fyrir um hjálp frá Jesú Kristi, sem veit hvernig á að liðsinna okkur. Hann upplifði alla þá erfiðleika sem við munum nokkru sinni upplifa. Hann veit nákvæmlega hvernig liðsinna á hverju okkar. Hann elskar okkur.

Tilgangur áskorana í lífinu er að sýna hvernig við bregðumst við og veljum. Munum við iðka trú til að halda boðorðin sem hann hefur gefið okkur, sama hver áskorunin er? Kærleiksríkur Guð gerir alltaf það sem okkur er fyrir bestu. Hann getur fjarlægt eða létt prófraun okkar, ef það styrkir trú okkar. Á öðrum stundum gerir hann það ekki.

Þegar þið lærið um yngra æviskeið spámanna í Gamla testamentinu, þá sjáið þið hvernig Drottinn hjálpar okkur skref fyrir skref að rísa ofar erfiðleikum. Af því hvernig Drottinn hjálpaði t.d. Jósef og Móse, lærði ég hvernig á að biðja um og hljóta hjálp á erfiðum stundum.

Prófraunir Jósefs

Jósef, hinum ástkæra syni Jakobs, var varpað í gryfjuna af bræðrum sínum og hann síðan seldur í ánauð til Egyptalands. Föður hans var sagt af bræðrum hans að hann hefði verið drepinn. Meðan Jósef þjónaði sem þræll, veitti Drottinn honum mátt til að túlka drauma Faraós. Hann sýndi Jósef hvernig Egyptaland gæti tekist á við aðsteðjandi hungursneið. Hann veitti Jósef siðferðisstyrk til að standast freistingu, sá til þess að hann var leystur úr fangelsi og að honum var veitt háverðug staða af Faraó þegar hann var 32 ára gamall. Faraó sagði við Jósef: „Munum vér finna slíkan mann sem þennan, er Guðs andi býr í?“1

Sú lexía sem ég lærði af því hvernig Drottinn hjálpaði Jósef tengist því hvernig hann hjálpar okkur á erfiðum tímum. Eftir því sem Jósef valdi rétt, efldi Drottinn hann, veiti honum andlegan kraft og mildaði hjarta þeirra sem umhverfis hann voru.

Ljósmynd
Drottinn birtist Móse

Móse sér Jehóva, eftir Joseph Brickey

Prófraunir Móse

Drottinn hjálpaði Móse á svipaðan hátt og hann hafði hjálpað Jósef. Prófraunir Móse hófust einnig á unglingsárum hans. Móse var aðskilinn frá foreldrum sínum. Fyrsta prófraun hans var að alast upp hjá dóttur Faraós. Hann kom Ísraelsmanni til varnar með því að drepa Egypta og þurfti að flýja út í óbyggðina.

Drottinn birtist Móse og kallaði hann til að leysa Ísraelsmenn úr ánauð Egypta. Það, að því er virtist ómögulegt verkefni, var prófraun sem Móse fannst hann ekki ráða við. Erfiðustu prófraunir lífs ykkar geta hlotist þegar Drottinn felur ykkur verkefni sem virðist svo erfitt að ykkur finnst þið þurfa liðsinni Guðs.

Drottinn byrjaði á því að sjá Móse fyrir þeirri hjálp sem þið þurfið. Hann sagði Móse að hann myndi styrkja hann til að takast á við væntanlegar prófraunir.

„Ég er sá, sem ég er. Og … svo skalt þú segja Ísraelsmönnum: ,Ég er‘ sendi mig til ykkar.“2 Með þessa fullvissu hlaut Móse trú og styrk fyrir hinar mörgu prófraunir sem fyrir honum lágu í því verkefni sem honum var falið. Drottinn hafði ekki aðeins kallað hann, heldur fór hann fyrir honum á undraverðan hátt.

Ljósmynd
Jesús Kristur

Ljós heimsins, by Walter Rane

Prófraunir ykkar

Þeir erfiðu tímar sem þið og ég munum takast á við munu verða einstakir. Engir tveir menn eiga nákvæmlega sama líf. Prófraunir eru sniðnar að hverju okkar af kærleiksríkum himneskum föður og hans elskaða syni, Jesú Kristi. Þeir veita okkur hvaðeina það sem er best fyrir okkur þegar þeir svara bænum okkar um liðsinni. Hjá sumum gæti það verið aukinn styrkur og hjá öðrum gæti það verið gleði er við erfiðum í trú.

Sú hjálp sem við öll þörfnumst mest í prófraun okkar, hver sem hún er og hversu lengi sem hún varir, er lifandi trú á Jesú Krist. Það var sú trú sem gerði Jósef kleift að túlka draumana í Egyptalandi. Það var sterk trú á Jesú Krist sem hvatti og styrkti Móse í hans erfiða verkefni að hjálpa Drottni að leysa fólk hans úr ánauð.

Þið hafið þegar verið reynd á unglingsárum ykkar með erfiðleikum, eins og ég sjálfur var. Ykkur hefur, eins og mér, verið kennt að setja traust ykkar á Jesú Krist. Mér er nú ljós ástæða þess að ég var svo bjartsýnn og jafnvel glaðvær á yngri árum. Það var ekki af því að ég vænti betri eða þægilegri tíðar. Það var vegna þess að ég var viss um að ef ég treysti og þjónaði honum, þá myndi allt einhvern veginn fara vel.

Amma bað föður minn að syngja með sér á leiðinni heim eftir að henni hafði verið sagt að hún myndi brátt deyja af krabbameini: „Ef deyjum vér, en leið ei lokið er, … allt fer vel, allt fer vel.”3 Ég ber vitni um að hinn upprisni Jesús Kristur veit hvernig liðsinna á hverju okkar, hverjar sem raunir okkar eru. Við þurfum aðeins að biðja í trú á hann.

Jesús Kristur elskar ykkur og mun liðsinna ykkur, öllum stundum, og veita það sem ykkur er fyrir bestu. Ég ber þessu vitni, af elsku til ykkar og hans, í nafni Jesú Krists, amen.

Prenta