Trúarskóli eldri og yngri deildar
Kenna kenninguna


„Kenna kenninguna,“ Kenna að hætti frelsarans: Fyrir alla sem kenna á heimilinu og í kirkjunni (2022)

„Kenna kenninguna,“ Kenna að hætti frelsarans

Ljósmynd
Jesús Kristur að kenna í musterinu þegar hann var 12 ára gamall

Kristur í musterinu, eftir Heinrich Hofmann

Kenna kenninguna

Þó að Jesús hafi vaxið að visku og þekkingu allt sitt líf, þá hlaut hann ekki formlega menntun eins og aðrir trúarleiðtogar á hans tíma. Fólkið var samt forviða þegar hann kenndi og sagði: „Hvernig getur þessi maður verið svona lærður? Hann hefur ekki notið fræðslu.“ Hvers vegna var kennsla hans svo áhrifarík? Frelsarinn útskýrði og sagði: „Kenning mín er ekki mín heldur hans er sendi mig“ (Jóhannes 7:16–16). Kenning er eilífur sannleikur – sem finna má í ritningunum og orðum síðari daga spámanna – sem sýnir okkur leiðina til að verða eins og faðir okkar á himnum og snúa aftur til hans. Sama hve reynd þið eruð sem kennarar, þá getið þið kennt með krafti eins og frelsarinn gerði, er þið kennið kenningu föðurins. Þið og þau sem þið kennið munu undrast þær blessanir sem Guð sendir ykkur þegar kennsla ykkar og nám er grundvallað á orði hans.

Til að kenna kenninguna

  • Lærið kenningu Jesú Krists sjálf.

  • Kennið frá ritningunum og orðum síðari daga spámanna.

  • Hjálpið nemendum að leita, bera kennsl á og skilja sannleika í ritningunum.

  • Leggið áherslu á sannleika sem leiðir til trúarumbreytingar og að byggja upp trú á Jesú Krist.

  • Hjálpið nemendum að finna persónulega tengingu í kenningu Jesú Krists.

Frelsarinn lærði kenninguna

Það virðist nokkuð skýrt að frelsarinn lærði úr ritningunum í æsku sinni er hann óx að „visku … og náð hjá Guði“ (Lúkas 2:52). Djúpur skilningur hans á kenningu föðurins var augljós þegar foreldrar hans fundu hann í musterinu á unga aldri að kenna kennurum Gyðinga og svarandi spurningum þeirra (sjá Þýðing Joseph Smith, Lúkas 2:46Lúkas 2:46 neðanmálstilvísun c]) Síðar, þegar Satan lagði gríðarlega freistingu fyrir hann í óbyggðunum, hjálpaði þekking Jesú á ritningunum honum að standast freistinguna (sjá Lúkas 4:3–12).

Þið getið einnig leitast við að læra sanna kenningu enn frekar áður en þið kennið hana. Þegar þið búið ykkur undir að kenna og læra með öðrum, kannið þá vel það sem Drottinn hefur sagt um þann sannleika sem þið eruð að kenna. Leitið í ritningunum og orðum lifandi spámanna að útskýringum og leiðsögn. Það að lifa og heimfæra sannleikann sem þið lærið, mun bjóða andanum að kenna ykkur kenninguna á enn djúpstæðari máta og staðfesta sannleika kenningarinnar í hjörtum þeirra sem þið kennið.

Spurningar til að hugleiða: Hvers vegna er það mikilvægt að læra sjálf að skilja sannleika fagnaðarerindisins? Hvernig hafið þið öðlast dýpri skilning á sannleika fagnaðarerindisins? Hvað finnst ykkur þið hvött til að gera til að bæta nám ykkar á ritningunum og orðum lifandi spámanna?

Frá ritningunum: Orðskviðirnir 7:1–3; 2. Nefí 4:15–16; Kenning og sáttmálar 11:21; 88:118

Frelsarinn kenndi úr ritningunum

Eftir dauða frelsarans, voru tveir lærisveinar hans að ganga og ræða saman með blöndu af sorg og furðu í hjörtum sér. Hvernig gátu þeir skilið það sem hafði nýskeð? Jesús frá Nasaret, maðurinn sem þeir treystu að væri lausnari þeirra, hafði nú verið látinn í þrjá daga. Svo höfðu þeir frétt að gröf hans væri tóm og að englar væru að lýsa því yfir að hann væri lifandi! Á þessari mikilvægu stundu í trú lærisveinanna, slóst ókunnur maður í för með þeim. Hann huggaði þá og „útlagði fyrir þeim það sem um [frelsarann] er ritað í öllum ritningunum.“ Um síð gerðu mennirnir sér grein fyrir því að kennari þeirra væri Jesús Kristur sjálfur og að hann væri vissulega upprisinn. Hvernig þekktu þeir hann? „Brann ekki hjartað í okkur,“ sögðu þeir síðar, „meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum?“ (Lúkas 24:27, 32).

Öldungur D. Todd Christofferson kenndi: „Aðal tilgangur allra ritninga er að fylla sálir okkar af trú á Guð föðurinn og son hans Jesú Krist“ („Blessanir ritninganna,“ aðalráðstefna, apríl 2010). Jesús notaði ritningarnar í allri þjónustu sinni, til að kenna, leiðrétta og innblása aðra. Verið viss um að kennsla ykkar leiti ekki burt frá ritningunum og orðum spámanna. Þegar þið byggið á orði Guðs í kennslu ykkar, getið þið gert fyrir aðra það sem frelsarinn gerði. Þið getið hjálpað þeim að þekkja hann, því við þörfnumst þess öll reglulega að styrkja trú okkar á frelsarann. Elska ykkar á ritningunum verður augljós þeim sem þið kennið og kennsla ykkar mun bjóða andanum að láta hjörtu þeirra brenna af vitnisburði á föðurnum og syninum.

Spurningar til að hugleiða: Hvernig hafið þið orðið fyrir áhrifum af kennara sem notaði ritningarnar til að hjálpa ykkar að kynnast frelsaranum betur? Hvað gætuð þið gert til að treysta betur á ritningarnar og orð spámannanna þegar þið kennið? Hvernig getið þið hjálpað þeim sem þið kennið að þekkja og elska orð Guðs?

Frá ritningunum: Lúkas 4:14–21; Alma 31:5; Helaman 3:29–30;3. Nefí 23

Frelsarinn hjálpaði fólki að leita, bera kennsl á og skilja sannleika

Lögvitringur spurði Jesú eitt sinn: „Meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“ Í svari sínu leiddi frelsarinn spyrjandann að ritningunum: „Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?“ Þetta leiddi manninn ekki einungis að svarinu – „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn … og náunga þinn“ – heldur einnig að spurningu í framhaldi: „Hver er þá náungi minn?“ Frelsarinn svaraði þessu með dæmisögu um þrjá menn sem sáu samferðamann í þörf. Einungis einn hinna þriggja, Samverji, sem var hataður af Gyðingum af því einungis hvaðan hann kom, nam staðar til að hjálpa. Jesús bauð því næst lögvitringnum að svara eigin spurningu: „Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi [hans]?“ (sjá Lúkas 10:25–37).

Af hverju haldið þið að frelsarinn hafi kennt á þennan máta – að svara spurningum með boði um að leita, hugleiða og uppgötva? Hluti svarsins er að Drottinn metur mikils erfiðið við leit sannleikans. „Biðjið og yður mun gefast,“ hefur hann boðið aftur og aftur (sjá til dæmis, Matteus 7:7; Lúkas 11:9; Kenning og sáttmálar 4:7). Hann verðlaunar trúarverk og þolinmæði leitandans

Á sama hátt og frelsarinn, getið þið hjálpað þeim sem þið kennið að bera kennsl á og skilja sannleikann. Til dæmis eru ritningarnar fylltar sannleika fagnaðarerindisins, en stundum þarf meðvitað erfiði til að finna hann. Þegar þið eruð að læra saman úr ritningunum, staldrið þá við og spyrjið þá sem þið kennið hvaða sannleikur fagnaðarerindisins veki athygli þeirra. Hjálpið þeim að sjá hvernig þessi sannleikur tengist sáluhjálparáætlun himnesks föður. Stundum er eilífur sannleikur settur fram í ritningunum og stundum er hann sýndur í sögunum og í lífi fólksins sem við lesum um. Það getur einnig verið hjálplegt að kanna sögulegan bakgrunn versanna sem þið eruð að lesa, ásamt merkingu versanna og hvernig þau tengjast okkur í dag.

Spurningar til að hugleiða: Hvernig berið þið kennsl á eilífan sannleika í ritningunum eða í orðum spámanna? Hvernig blessar þessi sannleikur líf ykkar? Hvernig getið þið hjálpað nemendunum að þekkja og skilja sannleika sem verður þeim þýðingarmikill og færir þá nær Guði?

Frá ritningunum: Jóhannes 5:39; 1. Nefí 15:14; Kenning og sáttmálar 42:12

Ljósmynd
nemendur að læra

Við getum hjálpað þeim sem við kennum að finna og þekkja sannleika sjálfir.

Frelsarinn kenndi sannleika sem leiðir til trúarumbreytingar og uppbyggingu trúar

Hvíldardag nokkurn gengu frelsarinn og lærisveinar hans fram hjá akri, voru hungraðir og tóku að borða kornið. Farísearnir, sem voru alltaf ákafir í að leggja áherslu á smáatriðin í Móselögmálinu, bentu á að það að safna korni væri tæknilega vinna, sem var bönnuð á hvíldardeginum (sjá Markús 2:23–24). Til að nota hendingu Jakobs spámanns úr Mormónsbók, þá voru Farísearnir að „horfa yfir markið“ (Jakob 4:14). Með öðrum orðum, þá voru þeir svo fastir í hefðbundinni túlkun boðorðanna að þeir misstu af guðlegum tilgangi þeirra boðorða – að færa okkur nær Guði. Í raun gerðu Farísearnir sér ekki grein fyrir því að sá sem gaf þeim boðorðið að halda hvíldardaginn heilagan stóð frammi fyrir þeim.

Frelsarinn notaði tækifærið til að bera vitni um guðlegt auðkenni hans og til að kenna ástæðu þess að hvíldardagurinn er mikilvægur. Hann var skapaður fyrir okkur sem dagur tilbeiðslu á Drottni hvíldardagsins, Jesús Kristi sjálfum (sjá Markús 2:27–28). Slíkur sannleikur hjálpar okkur að skilja að boðorð Guðs snúast um meira en bara hegðun okkar út á við. Þeim er ætlað að hjálpa okkur að breyta hjörtum okkar og valda okkur frekari trúarumbreytingu.

Hugleiðið kenninguna og lögmálin sem þið ákveðið að leggja áherslu á. Þó það sé mikill sannleikur í ritningunum sem hægt er að ræða, þá er best að leggja áherslu á þann sannleika fagnaðarerindisins sem leiðir að trúarumbreytingu og uppbyggingu trúar á Jesú Krist. Hinn einfaldi grunnsannleikur sem frelsarinn kenndi og sýndi okkur með fordæmi, hefur mesta kraftinn til að breyta lífi okkar – sannleikurinn um friðþægingu hans, sáluhjálparáætlunin, boðorðið um að elska Guð og náunga okkar, og svo framvegis. Bjóðið andanum að bera vitni um þennan sannleika, svo að hann geti snert hjörtu þeirra sem þið kennið á djúpstæðan hátt.

Spurningar til að hugleiða: Hvaða hlutar sannleiks fagnaðarerindisins hefur hjálpað ykkur við frekari trúarumbreytingu til Jesú Krists og sterkari trú á hann? Hvernig hefur kennari hjálpað ykkur að einblína á mikilvægasta sannleika fagnaðarerindisins? Hvað getið þið kennt sem mun hjálpa öðrum að snúast enn frekar til trúar á Jesú Krist?

Frá ritningunum: 2. Nefí 25:26; 3. Nefí 11:34–41; Kenning og sáttmálar 19:31–32; 68:25–28; 133:57; HDP Móse 6:57–62

Frelsarinn hjálpaði fólki að finna persónulega tengingu í kenningu hans

„Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim,“ kvörtuðu Farísearnir um Jesú – og gáfu í skyn að þetta væri ekki ásættanleg hegðun hjá andlegum kennara (Lúkas 15:2). Jesús sá þetta sem tækifæri til að kenna þeim djúpstæðan sannleika um fagnaðarerindið. Hvernig myndi hann gera það? Hvernig myndi hann hjálpa Faríseunum að sjá að það væru þeirra hjörtu – ekki hans – sem væru óhrein og hefðu þörf fyrir lækningu? Hvernig myndi hann nota kenningu sína til að sýna þeim fram á að hugarfar þeirra og hegðun þyrftu að breytast?

Hann gerði það með því að tala við þá um sauð sem hefði vafrað frá hjörð sinni og um smápening sem tapaðist. Hann talaði um uppreisnargjarnan son sem leitaði fyrirgefningar og eldri bróður sem neitaði að taka á móti honum og snæða með honum. Hver þessara dæmisagna innihéldu sannleika sem tengdist því hvernig Farísearnir sáu aðra, kennandi þeim að hver sál hefur mikið gildi (sjá Lúkas 15). Frelsarinn sagði Faríseunum ekki – eða neinu okkar – hvern tengja á við í dæmisögum hans. Stundum erum við hinn áhyggjufulli faðir. Stundum erum við hinn afbrýðisami bróðir. Oft erum við týndir sauðir eða heimskulegi sonurinn. Sama hverjar aðstæðurnar eru, þá býður frelsarinn okkur, með dæmisögum sínum, að finna tengingu í kenningum sínum – að uppgötva hvað hann vill að við lærum og hverju við gætum þurft að breyta hvað varðar hugarfar okkar og hegðun.

Þið gætuð tekið eftir því að sumir nemendur sjá ekki hvers vegna einhver sannleikur skiptir þá máli. Þegar þið íhugið þarfir þeirra sem þið kennið, hugsið þá um það hvernig sannleikurinn í ritningunum gæti verið þýðingarmikill og gagnlegur í aðstæðum þeirra. Ein leið sem þið getið hjálpað nemendum að sjá tenginguna við þann sannleika sem þeir eru að uppgötva, er með því að spyrja spurninga eins og: „Hvernig gæti þetta hjálpað ykkur með eitthvað sem þið eruð að ganga í gegnum núna?“ „Af hverju er mikilvægt fyrir ykkur að vita þetta?“ „Hverju gæti þetta breytt fyrir líf ykkar? Hlustið á þá sem þið kennið. Leyfið þeim að spyrja spurninga. Hvetjið þá til að tengja á milli kenninga frelsarans og þeirra eigin lífs. Þið gætuð einnig miðlað því hvernig þið hafið fundið tengingu við ykkar eigið líf í því efni sem þið kennið. Er þið gerið þetta, getur það boðið andanum að kenna nemendum á einstaklingsgrunni, hvernig kenningin geti skipt máli í lífi þeirra.

Spurningar til að hugleiða: Hvað er það sem gerir sannleika fagnaðarerindisins þýðingarmikinn og gagnlegan fyrir ykkur? Hvað hjálpar ykkur að finna persónulega tengingu er þið lærið fagnaðarerindið? Hvað gerið þið til að einblína á sannleika sem skiptir máli fyrir þá sem þið kennið?

Frá ritningunum: 1. Nefí 19:23; 2. Nefí 32:3; Kenning og sáttmálar 43:7–9

Nokkrar leiðir til að tileinka sér það sem þið kennið

  • Metið það sem þið kennið til að vera viss um að þið séuð að kenna sanna kenningu. Þessar spurningar gætu hjálpað:

    • Er það sem ég ætla að kenna byggt á ritningunum og orðum síðari daga spámanna?

    • Hafa nokkrir spámenn kennt þetta? Hvað eru núverandi leiðtogar kirkjunnar að kenna varðandi þetta?

    • Hvernig mun þetta hjálpa öðrum að byggja trú á Jesú Krist, iðrast og færast áfram á sáttmálsveginum?

    • Er þetta í samræmi við hvatningu heilags anda eða vekur þetta mér andlegan óróleika?

  • Lærið orð Guðs daglega til að læra sanna kenningu fyrir ykkur sjálf.

  • Biðjið nemendur að lesa ritningarnar og orð nútíma spámanna er þið kennið.

  • Kennið nemendum að nota neðanmálsgreinar, Leiðarvísi að ritningunum, og aðrar heimildir, er þeir læra ritningarnar.

  • Bjóðið nemendum að finna sannleika í ritningargreinum eða sögu.

  • Gefið vitnisburð ykkar um það hvernig þið hafið komist að sannleika fagnaðarerindisins.

  • Notið sögur eða myndlýsingar til að hjálpa nemendum að öðlast djúpstæðari skilning á sannleika fagnaðarerindisins.