Nýja testamentið 2023
25. september–1. október. Galatabréfið: „Lifið í andanum“


„25. september–1. október. Galatabréfið: ‚Lifið í andanum,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Gamla testamentið 2023 (2022)

„25. september–1. október. Galatabréfið,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2023

Ljósmynd
Kristur birtist Páli í fangelsi

Hinn upprisni frelsari vitjaði Páls í fangelsi (sjá Postulasagan 23:11). Jesús Kristur getur frelsað okkur frá „ánauðaroki“ (Galatabréfið 5:1).

25. september–1. október

Galatabréfið

„Lifið í andanum“

Skráið hughrif sem berast við lestur Galatabréfsins. Það mun auðvelda ykkur að muna eftir og hugleiða þau í framtíðinni.

Skráið hughrif ykkar

Fagnaðarerindi Jesú Krists býður frelsi frá andlegri ánauð. Sumir sem hafa upplifað frelsi fagnaðarerindisins, snúa frá því og fara „aftur til hinna veiku og fátæklegu vætta“ (Galatabréfið 4:9). Þetta var sumt af því sem hinir heilögu meðal Galatamanna voru að gera – að snúa frá því frelsi sem Kristur hafði boðið þeim (sjá Galatabréfið 1:6). Á þessum tíma var bréf Páls til Galatamanna brýnt boð um að koma aftur „[til þess frelsis sem Kristur frelsaði okkur með]“ (Galatabréfið 5:1). Þetta boð er eitt af því sem við þurfum að heyra og hlíta, því þótt aðstæður kunni að breytast, þá er baráttan stöðug á milli frelsis og ánauðar. Eins og Páll kenndi, þá nægir ekki að vera „kölluð til að vera frjáls“ (Galatabréfið 5:13); við verðum líka að „standa stöðug“ í frelsinu (Galatabréfið 5:1) með því að reiða okkur á Krist.

Ljósmynd
táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

Galatabréfið 1–5

Lögmál Krists veitir mér frelsi.

Páll ritaði til hinna heilögu meðal Galatamanna þegar hann frétti að falskenningar hefðu leitt þá afvega (sjá Galatabréfið 1:6–9). Ein þessara kenninga var sú að til þess að verða hólpinn, þurfu þeir sem voru af Þjóðunum að umskerast og halda aðra trúarsiði Móselögmálsins (sjá Galatabréfið 2). Páll kallaði þessa trúarsiði „ánauðarok“ (Galatabréfið 5:1). Þegar þið lesið leiðsögn Páls til Galatamanna, gætið þá að reglum sem geta aukið skilning ykkar á því hvað felst í raunverulegu frelsi. Þið gætuð líka íhugað hvaða falssiðir eða annað ánauðarok gæti átt við um líf ykkar. Er eitthvað sem kemur í veg fyrir að þið upplifið frelsið sem felst í fagnaðarerindinu? Hvernig hefur Kristur og fagnaðarerindi hans „[gert ykkur frjáls]“? (Galatabréfið 5:1).

Sjá einnig 2. Nefí 2:27; 9:10–12.

Galatabréfið 3

Ég er erfingi þeirra blessana sem lofaðar voru Abraham.

Sumir hinna heilögu meðal Galatamanna höfðu áhyggjur af því að þeir myndu ekki hljóta blessanirnar sem lofaðar voru Abraham, þar á meðal upphafningu, þar sem þeir voru ekki beinir afkomendur („niðjar“) Abrahams. Hvað gerir menn hæfa til að vera „niðjar Abrahams,“ samkvæmt Galatabréfinu 3:7–9, 13–14, 27–29?

Til að læra um blessanirnar sem lofaðar voru Abraham og blessanirnar sem við getum erft sem afkomendur hans, sjá þá Leiðarvísi að ritningunum, „Sáttmáli Abrahams,“ KirkjaJesuKrists.is, Ritningar/Námshjálp. Af hverju eru blessanirnar sem lofaðar voru Abraham ykkur mikilvægar?

Galatabréfið 3:6–25

Abraham hafði fagnaðarerindi Jesú Krists.

Spámaðurinn Joseph Smith útskýrði: „Við getum ekki trúað að hinir fornu allra alda hafi verið jafn fáfróðir um himininn og margir vilja af láta, því allir sem einhvern tíma voru hólpnir, voru hólpnir fyrir kraft þessarar miklu endurlausnaráætlunar, jafnt fyrir sem eftir komu Krists. … Abraham færði fórn og meira en það, fagnaðarerindið var prédikað yfir honum“ („The Elders of the Church in Kirtland to Their Brethren Abroad,“ The Evening and the Morning Star, mars 1834, 143, JosephSmithPapers.org). Af hverju haldið þið að mikilvægt hafi verið fyrir hina heilögu á tíma Páls að vita að Abraham og fleiri fornir spámenn hafi haft fagnaðarerindi Jesú Krists? Af hverju er ykkur mikilvægt að vita það? (Sjá Helaman 8:13–20; HDP Móse 5:58–59; 6:50–66.)

Sjá einnig Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 45–56.

Galatabréfið 5:13–26; 6:7–10

Ef ég „lifi í andanum,“ mun ég hljóta „ávöxt andans.“

Að læra þessi vers, getur hjálpað ykkur að meta hversu fyllilega þið lifið í andanum. Eruð þið að upplifa ávöxt andans sem sagt er frá í versum 22–23? Hvaða öðrum ávexti, eða árangri, andlegs lífernis hafið þið veitt athygli? Íhugið hvað þið þurfið að gera til að leggja meiri rækt við þennan ávöxt? Hvernig gæti það bætt mikilvæg sambönd í lífi ykkar að leggja rækt við þennan ávöxt?

Ljósmynd
epli á tré

Ég þarf að leita „ávaxtar andans“ í lífi mínu.

Ef þið reynið að lifa í andanum, en viðleitni ykkar virðist ekki leiða af sér hinn lofaða ávöxt, lesið þá Galatabréfið 6:7–10. Hvaða boðskap haldið þið að Drottinn ætli ykkur í þessum versum?

Sjá einnig Alma 32:28, 41–43; Kenning og sáttmálar 64:32–34.

Ljósmynd
táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

Galatabréfið 3:11.Hver er merking þess að „lifa fyrir trú“? Hvernig getum við lifað fyrir trú sem fjölskylda?

Galatabréfið 4:1–7.Þið gætuð kynnt Galatabréfið 4 með því að ræða muninn á þrælum og börnum konungs. Hvaða tækifæra eða möguleika nýtur barn konungs sem þræll gerir ekki? Íhugið þetta er þið lesið saman vers 1–7. Hvað kenna þessi vers um samband okkar við himneskan föður?

Galatabréfið 5:16–26.Íhugið að ræða muninn á milli „holdsins verk“ og „ávaxtar andans.“ Til að gera umræðuna skemmtilegri, gætuð þið merkt ólíka ávexti með orðunum sem Páll notar til að lýsa ávexti andans. Hver fjölskyldumeðlimur gæti síðan valið einn, skilgreint hann og rætt um einhvern sem er lýsandi fyrir þann ávöxt. Það gæti leitt til umræðu um hvernig fjölskylda ykkar gæti boðið andanum á heimili ykkar og lagt rækt við þennan ávöxt. Eftir umræðuna, gætuð þið notið þess að borða saman ávaxtasalat.

Galatabréfið 6:1–2.Þeir tímar gætu komið að einhver í fjölskyldu ykkar verði „staðinn að misgjörð.“ Hvaða leiðsögn finnið þið í Galatabréfinu 6:1–2 um hvað gera skuli í slíkum aðstæðum?

Galatabréfið 6:7–10.Ef fjölskylda ykkar hefur einhvern tíma gróðursett eitthvað saman, þá gætuð þið notað þá reynslu til að útskýra regluna: „Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera“ (vers 7). Þið gætuð líka þess í stað beðið fjölskyldumeðlimi að greina frá eftirlætis ávöxtum eða grænmeti sínu og rætt hvað þarf til að planta vaxi og framleiði slík matvæli. (Sjá mynd aftast í þessum lexíudrögum.) Þið gætuð rætt um blessanirnar sem fjölskylda ykkar vonast eftir að hljóta og hvernig „uppskera“ á þær blessanir.

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Tillaga að söng: „Kenn mér hans ljósið,“ Barnasöngbókin, 70.

Bæta kennslu okkar

Hjálpið fjölskyldu ykkar að tileinka sér ritningarnar. Nefí sagði: „Ég tileinkaði okkur allar ritningargreinarnar, svo að þær [yrðu okkur til gagns og fróðleiks“ (1. Nefí 19:23). Til að hjálpa fjölskyldu ykkar að gera þetta, gætuð þið boðið þeim að íhuga hvenær þau hafa upplifað ávöxt andans sem sagt er frá í Galatabréfinu 5:22–23. (Sjá Teaching in the Savior’s Way [Kenna að hætti frelsarans], 21.)

Ljósmynd
perur á tré

Páll kenndi að þegar við lifum í andanum, munum við upplifa „ávöxt andans“ í lífi okkar.