Nýja testamentið 2023
21.–27. ágúst: 1. Korintubréf 1–7: „Verið … samlynd og einhuga“


„21.–27. ágúst. 1. Korintubréf 1–7: ‚Verið … samlynd og einhuga,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Nýja testamentið 2023 (2022)

„21.– 27. ágúst: 1. Korintubréf 1–7,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2023

Ljósmynd
hin forna Korinta

Korinta, Suður-Grikkland, torgið og borgarmiðjan, málverk eftir Balage Balogh/www.ArchaeologyIllustrated.com

21.–27. ágúst

1. Korintubréf 1–7

„Verið … samlynd og einhuga“

Skráið hughrif ykkar við lestur 1. Korintubréfs 1–7. Slík hughrif gætu falið í sér hvatningu til að læra betur hugmynd, miðla öðrum því sem þið lærðuð eða að gera breytingar á lífi ykkar.

Skráið hughrif ykkar

Á þeim mánuðum sem Páll varði í Korintu, voru „margir Korintumenn, sem heyrðu Pál tala, [er] tóku trú og létu skírast“ (Postulasagan 18:8). Það hlýtur því að hafa verið reiðarslag fyrir Pál að fá þau tíðindi, aðeins nokkrum árum síðar, að það væru „flokkadrættir“ og „þrætur“ meðal hinna heilögu í Korintu og í fjarveru hans hefðu þeir gefið sig að „[visku] þessa heims“ (1. Korintubréf 1:10–11, 20). Viðbrögð Páls voru að rita bréfið sem við nú köllum 1. Korintubréf. Það hefur að geyma margar djúpar kenningar og jafnframt vonbrigði Páls yfir að hinir heilögu væru ekki tilbúnir að taka á móti kenningunni sem hann vildi færa þeim. „Ég gat ekki, systkin, talað við ykkur eins og við andlega menn,“ harmaði hann, „því að enn þá lifið þið í sjálfshyggju“ (1. Korintubréf 3:1–3). Þegar við búum okkur undir að lesa orð Páls, getur verið gagnlegt að meta eigin fúsleika til að taka á móti sannleika – þar með talið fúsleika ykkar til að hlíta andanum og keppa að einingu í fjölskyldum okkar, við hina heilögu meðal okkar og Guð.

Ljósmynd
táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

1. Korintubréf 1:10–17; 3:1–11

Meðlimir kirkju Krists keppa að einingu.

Okkur er ekki kunnugt um allt það sem kom í veg fyrir að eining ríkti meðal hinna heilögu í Korintu, en okkur er kunnugt hvað það er sem kemur í veg fyrir einingu í okkar eigin samböndum. Hugsið um samband í lífi ykkar sjálfra sem hægt væri að bæta með aukinni einingu; gætið síðan að því sem Páll kennir í 1. Korintubréfi 1:10–17; 3:1–11 um vöntun á einingu meðal hinna heilögu í Korintu. Hvaða skilning hljótið þið um hvernig þróa mætti meiri einingu við aðra?

Sjá einnig Mósía 18:21; 4. Nefí 1:15–17; Kenning og sáttmálar 38:23–27; 105:1–5; Leiðarvísir að ritningunum, „Eining,“ KirkjaJesuKrists.is Ritningar/Námshjálp.

1. Korintubréf 1:17–312

Ég þarf visku Guðs til að vinna verk Guðs.

Þótt gott sé – og jafnvel æskilegt – að leita visku hvar sem hana er að finna (sjá 2. Nefí 9:29; Kenning og sáttmálar 88:118), þá setti Páll fram nokkrar áhersluríkar aðvaranir um hina svikulu visku manna, sem hann kallaði „[speki] þessa heims.“ Þegar þið lesið 1. Korintubréf 1:17–25, íhugið þá hugsanlega merkingu þessa orðtaks. Hvað haldið þið að Páll hafi átt við með „speki Guðs“? Af hverju þurfum við visku Guðs til að vinna verk Guðs?

Hafið þið einhvern tíma fundið fyrir „ótta og mikilli angist“ við að framfylgja ábyrgð ykkar í verki Guðs, eins og Páll fann fyrir þegar hann kenndi hinum heilögu í Korintu? (1. Korintubréf 2:3). Hvað finnið þið í 1. Korintubréfi 27:2, 1–5 sem veitir ykkur hugrekki? Íhugið hvernig þið gætuð sýnt að þið treystið „krafti Guðs“ meira en „mannlegum vísdóm.“

Sjá einnig Kenning og sáttmálar 1:17–28.

1. Korintubréf 2:9–16

Ég þarf heilagan anda til að geta skilið það sem Guðs er.

Ef þið viljið læra meira um eitthvað eins og vélfræði eða byggingarlist miðalda, hvernig mynduð þið bera ykkur að við það? Hvernig er öðruvísi að læra um það „sem er frá Guði“ en „mannlegan vísdóm,“ samkvæmt 1. Korintubréfi 2:9–16? Af hverju verðum við að hafa heilagan anda til að geta skilið það sem er frá Guði? Hvað finnst ykkur þið þurfa að gera til að skilja betur hið andlega, eftir lestur þessara versa? Hvernig gætu orð Páls hjálpað einhverjum sem á í erfiðleikum með eigin vitnisburð?

1. Korintubréf 6:13–20

Líkami minn er heilagur.

Flestum Korintubúum fannst kynferðisleg ósiðsemi ásættanleg og að líkami þeirra væri aðallega skapaður til ánægjunota. Með öðrum orðum, þá var Korinta ekki svo frábrugðin okkar heimi í dag. Hvað kenndi Páll í 1. Korintubréfi 6:13–20 sem gæti hjálpað ykkur að útskýra fyrir öðrum ástæðu þess að þið viljið lifa hreinlífi?

Eins og Páll, þá hvetur systir Wendy W. Nelson hina heilögu til að vera hreinlífa; sjá boðskap hennar „Love and Marriage [Ást og hjónaband]“ (heimslæg trúarsamkoma fyrir ungt fólk, 8. jan. 2017, broadcasts.ChurchofJesusChrist.org). Hvaða blessanir hljótast af því að lifa eftir stöðlum Drottins varðandi elsku og ástarhót, samkvæmt systur Nelson?

1. Korintubréf 7:29–33

Kenndi Páll að betra væri að vera ógiftur en giftur?

Í nokkrum vers í 1. Korintubréfi 7 er gefið í skyn að þótt hjónaband sé ásættanlegt, þá sé æskilegra að vera einhleypur og eiga í alls engum kynferðissamböndum. Í Þýðingu Josephs Smith, 1. Korintubréfi 7:29–33 (í Þýðing Josephs Smith Viðauki) er sá skilningur þó settur fram að Páll hafi verið að vísa til þeirra sem kallaðir höfðu verið sem fastatrúboðar, að þeir gætu þjónað Guði betur ef þeir væru einhleypir meðan á trúboði þeirra stæði. Drottinn hefur kennt fyrir milligöngu þjóna sinna, einnig Páls, að hjónabandið sé hluti af eilífri áætlun hans og nauðsynlegt til upphafningar (sjá 1. Korintubréf 11:11; Kenning og sáttmálar 131:1–4).

Ljósmynd
táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

1. Korintubréf 1:10–17; 3:1–11.Þegar fjölskyldumeðlimir ykkar lesa þessi vers, skuluð þið biðja þá að leita skilnings sem getur stuðlað að meiri einingu meðal þeirra.

1. Korintubréf 3:1–2.Ef til vill gætuð þið lesið þessi vers meðan þið drekkið mjólk og borðið kjöt. Þið gætuð líkt andlegum vexti við uppvexti barns til fullorðinsára.

1. Korintubréf 3:4–9Páll líkti trúboðsstarfi sínu við gróðursetningu sáðkorns. Hvað kennir þessi samlíking okkur um að miðla fagnaðarerindinu?

1. Korintubréf 6:19–20Að líkja líkama okkar við musteri, getur verið áhrifarík leið til að kenna um helgi líkama okkar. Ef til vill gætuð þið sýnt myndir af musterum, t.d. þeim sem eru viðföst þessum lexíudrögum. Af hverju eru musteri heilög? Hvernig er líkami okkar eins og musteri? Hvað getum við gert til að hirða um líkama okkar eins og musteri? (Sjá einnig sérstaka útgáfu í ágúst af Líahóna um kynferði.)

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Tillaga að söng: „Ég lifi í því húsi,“ Barnasöngbókin, 73.

Bæta persónulegt nám

Hafið þolinmæði með ykkur sjálfum. Páll kenndi að mjólk kæmi á undan kjöti er við lærum fagnaðarerindið (sjá 1. Korintubréf 3:1–2). Ef ykkur finnst erfitt að skilja ákveðnar kenningar núna, sýnið þá þolinmæði. Treystið því að svör muni berast er þið sýnið trú og kostgæfni við námið.

Ljósmynd
fjögur musteri

Páll líkti líkama okkar við heilagleika musteris. Efri frá vinstri til hægri: Tijuana-musterið í Mexíkó, Taipei-musterið í Tævan, Tegucigalpa-musterið í Hondúras, Houston-musterið í Texas.