Nýja testamentið 2023
28. ágúst–3. september: 1. Korintubréf 8–13: „Þið eruð líkami Krists“


„28. ágúst–3. september: 1. Korintubréf 8–13: ‚Þið eruð líkami Krists,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Nýja testamentið 2023 (2022)

„28. ágúst–3. september: 1. Korintubréf 8–13,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2023

Ljósmynd
sakramentissamkoma

28. ágúst–3. september

1. Korintubréf 8–13

„Þið eruð líkami Krists“

Þegar þið lesið 1. Korintubréf 8–13 af kostgæfni, gæti heilagur andi talað hljóðlega til ykkar (sjá 1. Konungabók 19:11–12). Að skrá þessi hughrif, mun hjálpa ykkur að rifja upp tilfinningar og hugsanir sem vöknuðu í náminu.

Skráið hughrif ykkar

Á tíma Páls var Korinta auðug viðskiptaborg með íbúa frá öllu hinu rómverska heimsveldi. Þar sem svo margir menningarheimar og trúarbrögð voru í borginni, áttu kirkjumeðlimir í Korintu erfitt með að viðhalda einingu, svo Páll reyndi að hjálpa þeim að keppa að einingu í trú þeirra á Krist. Eining átti að vera meira en aðeins friðsöm sambúð; Páll var ekki einungis að biðja þá að umbera fjölbreytileika hver annars. Hann var öllu heldur að kenna að þegar við göngum í kirkju Jesú Krists, erum „við öll skírð til að vera einn líkami“ og að þörf sé fyrir alla limi líkamans (1. Korintubréf 12:13). Þegar einn meðlim vantar, sé það eins og að glata lim og líkaminn veikist fyrir vikið. Þegar einn meðlimur þjáist, ættum við öll að finna það og gera það sem við getum til að líkna honum. Í þessari einingu er fjölbreytni ekki bara viðurkennd, heldur tekin opnum örmum, því án meðlima margbreytilegra gjafa og hæfileika væri líkaminn takmarkaður. Svo hvort sem ykkur líður eins og heima hjá ykkur í kirkju eða þið veltið fyrir ykkur hvort þið í raun tilheyrið, þá eru skilaboð Páls til ykkar þau að eining er ekki einsleitni. Þið þarfnist ykkar samheilögu og ykkar samheilögu þarfnast ykkar.

Ljósmynd
táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

1. Korintubréf 10:1–13

Guð sér okkur fyrir leið til að forðast freistingar.

Andlegar upplifanir, jafnvel kraftaverk, útiloka ekki að við verðum fyrir freistingum sem „menn geta þolað“ (1. Korintubréf 10:13). Það gæti verið ein ástæða þess að Páll ritaði um hversu erfitt Ísraelsmenn á tíma Móse áttu með að standast freistingar, jafnvel þótt þeir yrðu vitni að máttugum kraftaverkum (sjá 2. Mósebók 13:21; 14:13–31). Hvaða aðvaranir tengdar upplifun Ísraelsmanna virðast eiga við um ykkur, samkvæmt efninu sem þið lesið í 1. Korintubréfi 10:1–13? Hvernig hefur himneskur faðir séð til þess að „þið fáið staðist“ freistingar? (sjá einnig Alma 13:27–30; 3. Nefí 18:18–19).

1. Korintubréf 10:16–17; 11:16–30

Sakramentið sameinar okkur sem meðlimi kirkju Krists.

Þótt sakramentið feli í sér persónulega skuldbindingu á milli ykkar og Drottins, er það líka upplifun sem miðla má öðrum. Við meðtökum næstum alltaf sakramentið í sameiningu, sem líkami heilagra. Lesið það sem Páll kenndi um sakramentið og íhugið hvernig þessi helgiathöfn getur hjálpað „mörgum“ að verða „eitt“ í Kristi (sjá 1. Korintubréf 10:17). Hvernig gerir móttaka sakramentis ykkur mögulegt að komast nær Kristi og öðrum trúuðum? Hvernig hafa þessi vers áhrif á tilfinningar ykkar til sakramentisins og hvernig þið búið ykkur undir það?

1. Korintubréf 11:11

Í áætlun Guðs þarfnast karlar og konur hvers annars.

Í 1. Korintubréfi 11:4–15 vísar Páll til menningarhefða sem ekki gilda á okkar tíma. Páll kenndi þó líka mikilvægan sannleika sem á eilíflega við, sem finna má í versi 11. Hverja teljið þið vera merkingu þessa vers og af hverju er hún mikilvæg? Öldungur David A. Bednar kenndi: „Karlinum og konunni er ætlað að læra af hvort öðru, efla, blessa og fullkomna hvort annað“ („Vér trúum, að vér eigum að vera skírlíf,“ aðalráðstefna, apríl 2013). Hver ættu áhrif þessa sannleika að vera á hjónabandið? Hver ættu áhrif hans að vera á þjónustu okkar í kirkjunni?

Sjá einnig Jean B. Bingham, „Sameinuð í að framkvæma verk Guðs,” aðalráðstefna, apríl 2020.

1. Korintubréf 12–13.

Andlegar gjafir eru gefnar öllum börnum himnesks föður til gagns.

Upptalning andlegra gjafa í 1. Korintubréfi 12–13 er ekki tæmandi. Það er samt gott að byrja þar, er þið berið kennsl á og ígrundið þær andlegu gjafir sem himneskur faðir hefur gefið ykkur. Greinin „Andlegar gjafir“ í Sannir í trúnni (churchofjesuschrist.org/bc/content/shared/content/icelandic/pdf/language-materials/36863_isl.pdf) gæti verið gagnleg til að skilja betur þessar gjafir. Þegar þið lesið gjafaupptalningu Páls, gætuð þið bætt við einhverjum sem þið hafið borið kennsl á hjá öðrum, ykkur sjálfum eða fólki í ritningunum. Ef þið hafið fengið patríarkablessun ykkar, þá gætu einhverjar andlegar gjafir verið tilgreindar þar. Hvernig hjálpa þessar gjafir ykkur að blessa aðra? Íhugið hvernig þið gætuð sóst eftir „náðargáfunum, þeim hinum meiri“ (1. Korintubréf 12:31).

Sjá einnig 1. Korintubréf 14; Moróní 10:8–21, 30; Kenning og sáttmálar 46:8–26; Trúaratriðin 1:7.

Ljósmynd
táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

1. Korintubréf 9:24–27Þar sem Páll líkti því við kapphlaup að lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists, gætuð þið haft fjölskyldukapphlaup til að útskýra þennan þátt. Verðlaunið alla með kórónu sem ljúka keppninni og ræðið hvernig allir sem fylgja Jesú Kristi af kostgæfni í þessu lífi, munu hljóta „óforgengilegan“ sigursveig (1. Korintubréf 9:25; sjá einnig 2. Tímóteusarbréf 4:7–8). Hvað gerir keppandi til að búa sig undir kapphlaup? Hvað getum við gert til að búa okkur undir að snúa aftur til himnesks föður?

Ljósmynd
hlaupari á braut

Páll líkti því við kapphlaup að lifa eftir fagnaðarerindinu.

1. Korintubréf 12:1–11.Eftir að hafa lesið þessi vers saman, íhugið þá að láta alla fá blað með nafni annars fjölskyldumeðlims efst á blaðinu. Biðjið alla að skrá þær andlegu gjafir sem þeir hafa veitt athygli hjá viðkomandi einstaklingi. Þið gætuð síðan látið blöðin ganga á milli, þar til allir hafa fengið tækifæri til að skrifa gjafir hvers fjölskyldumeðlims.

1. Korintubréf 12:3.Af hverju er heilagur andi nauðsynlegur til að öðlast vitnisburð um Jesú Krist? Hvað getum við gert til að bjóða heilögum anda að styrkja vitnisburð okkar um hann?

1. Korintubréf 12:12–27.Líkamssamlíking Páls getur verið minnisstæð leið til að ræða fjölskyldueiningu. Fjölskyldumeðlimir gætu t.d. reynt að teikna líkama sem aðeins hefur augu og eyru (sjá vers 17). Hvað segja þessi vers um það hvernig okkur ber að koma fram við hvert annað sem fjölskyldumeðlimi?

1. Korintubréf 13:4–8.Skilgreining Páls á kærleika gæti verið fjölskyldu ykkar innblásin kjörorð. Þið gætuð falið hverjum fjölskyldumeðlim að læra orðtak í versum 4–8 og kenna hinum í fjölskyldunni hvað í því felst að nota skilgreiningar, dæmi og persónulegar upplifanir. Hvernig er frelsarinn dæmi um þessa eiginleika? Þið gætuð líka búið til veggspjöld saman með því að nota hvert þessara orðtaka og haft þau til sýnis víða á heimili ykkar. Verið skapandi!

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Tillaga að söng: „Elskið alla, Jesú bauð,“ Barnasöngbókin, nr. 39.

Bæta kennslu okkar

Sýnið ritningarvers. Veljið vers sem ykkur finnst mikilvægt og staðsetjið það þar sem fjölskyldumeðlimir sjá það oft. Biðjið aðra í fjölskyldunni að skiptast á um að velja ritningarvers til að hafa á áberandi stað.

Ljósmynd
sakramentissamkoma

„Og brauðið sem vér brjótum, er það ekki samfélag um líkama Krists? Af því að brauðið er eitt, erum vér hin mörgu einn líkami“ (1. Korinubréf 10:16–17).