Nýja testamentið 2023
17.–23. apríl. Matteus 18; Lúkas 10: „Hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“


„17.–23. apríl. Matteus 18; Lúkas 10: ‚Hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Nýja testamentið 2023 (2022)

„17.–23. apríl. Matteus 18; Lúkas 10,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2023

Ljósmynd
Miskunnsami Samverjinn

Miskunnsami Samverjinn, eftir Dan Burr

17.–23. apríl

Matteus 18; Lúkas 10

„Hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“

Þegar þið lesið og hugleiðið Matteus 18 og Lúkas 10, verið þá opin fyrir hljóðum hughrifum heilags anda. Hann mun segja ykkur hvernig þessar kenningar og frásagnir eiga við um ykkur. Skráið hughrifin sem ykkur berast.

Skráið hughrif ykkar

Þegar þið spyrjið Drottin spurningar, gætuð þið fengið svar sem þið áttuð ekki von á. Hver er náungi minn? Sérhver sá sem þarf á liðsinni ykkar og elsku að halda. Hver er mestur í himnaríki? Barn. Nægir að fyrirgefa þeim sem misbýður ykkur sjö sinnum? Nei, ykkur ber að fyrirgefa sjötíu sinnum sjö. (Sjá Lúkas 10:29–37; Matteus 18:4, 21–22.) Óvænt svar frá Drottni getur boðið okkur að breyta hugsunum okkar, tilfinningum og breytni. Ef þið leitið Drottins vegna þess að þið viljið raunverulega læra af honum, mun hann kenna ykkur hvernig lifa á til að það leiði til eilífs lífs með honum.

Ljósmynd
táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

Matteus 18:21–35

Ég verð að fyrirgefa öðrum ef ég hyggst hljóta fyrirgefningu frá Drottni.

Pétur benti á að ef hann gæti fyrirgefið einhverjum sjö sinnum, þá virtist honum það göfuglyndi, en Jesús kenndi æðra lögmál. Er Jesús svaraði: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö“ (vers 22), var hann ekki að kenna ákveðinn tölufjölda, heldur mikilvægi þess að tileinka sér hinn kristilega eiginleika að vera fús að fyrirgefa. Þegar þið lesið frásögnina um hinn vægðarlausa þjón, íhugið þá hvenær þið hafið notið miskunnar og samúðar Guðs. Þarfnast einhver þess að finna miskunn og samúð hjá ykkur?

Öldungur David E. Sorensen setti fram þessa mikilvægu aðvörun: „Þó að við verðum að fyrirgefa nágranna sem veldur okkur skaða, ættum við stöðugt að leitast við að forðast að það gerist aftur. … Fyrirgefningin krefst þess ekki af okkur að við sættum okkur við eða umberum hið illa. … En þegar við berjumst gegn syndinni, megum við ekki leyfa hatri eða reiði að stjórna hugsunum okkar eða verkum“ („Fyrirgefning breytir biturleika í kærleika,“ aðalráðstefna, apríl 2003).

Lúkas 10:1–20

Hverjir eru hinir Sjötíu?

Að fyrirmynd sem finna má í Gamla testamentinu (sjá 2. Mósebók 24:1; 4. Mósebók 11:16), þá „kvaddi [Jesús Kristur] til aðra, sjötíu,“ auk postulanna tólf, til að bera vitni um sig, prédika fagnaðarerindið og aðstoða sig við verkið. Þessari fyrirmynd er viðhaldið í hinni endurreistu kirkju. Hinir Sjötíu eru kallaðir til að aðstoða hina Tólf í hlutverki þeirra sem sérstök vitni Jesú Krists fyrir heiminn.

Sjá einnig Kenningu og sáttmála 107:25–26, 33–34, 97.

Lúkas 10:25–37

Ég þarf að elska Guð og elska náungann eins og sjálfan mig, til að öðlast eilíft líf.

Gagnlegt getur verið að hafa í huga að dæmisagan um miskunnsama Samverjann var aðferð Jesú til að svara tveimur spurningum: „Hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“ og „hver er náungi minn?“ (Lúkas 10:25, 29). Hafið þessar spurningar í huga við lestur dæmisögunnar. Hvaða svör finnið þið?

Á tíma Jesú hafði óvildin á milli Gyðinga og Samverja verið ríkjandi um aldir. Samverjar voru afkomendur Gyðinga sem bjuggu í Samaríu og höfðu gifst innbyrðis fólki frá Þjóðunum. Gyðingum fannst Samverjar hafa spillst, orðið fráhverfir með því að eiga samskipti við Þjóðirnar. Gyðingar tóku á sig margra mílna sveig til að komast hjá því að fara um Samaríu. (Sjá einnig Lúkas 9:52–54; 17:11–18; Jóhannes 4:9; 8:48.)

Af hverju haldið þið að frelsarinn hafi valið Samverja, einhvern sem hataður var af Gyðingum, sem dæmi um að sýna náunganum samúð og elsku? Hvað hvetur þessi dæmisaga ykkur til að gera?

Sjá einnig Mósía 2:17; „Parable of the Good Samaritan [Dæmisagan um miskunnsama Samverjann]“ og „A Good Samaritan [Miskunnsami Samverjinn]“ (myndbönd), ChurchofJesusChrist.org.

Lúkas 10:38–42

Við veljum „góða hlutskiptið“ með daglegu vali sem leiðir til eilífs lífs.

Í Lúkas 10:38–42 bauð Jesús Maríu ljúflega að íhuga hvernig hún gæti varið tíma sínum öðruvísi. Eftir að hafa vitnað í þessi vers, kenndi systir Carol F. McConkie: „Ef við viljum verða heilagar, verðum við að læra að sitja við fætur hins heilaga Ísraels og verja tíma til heilagleika. Leggjum við frá okkur símann, hinn endalausa verkefnalista og veraldaráhyggjur? Bæn, nám og hlýðni við orð Guðs, vekja hans hreinsandi og græðandi elsku í sál okkar. Gefið ykkur tíma til að vera heilagar, svo þið fyllist hans helga, hreinsandi anda“ („Fegurð heilagleika,“ aðalráðstefna, apríl 2017). Þið gætuð viljað ígrunda hvernig þið verjið tíma ykkar – jafnvel við að gera það sem gott er. Er eitthvað sem er meira „nauðsynlegt“ (vers 42) sem er verðugt þess að þið hugið betur að?

Ljósmynd
táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

Matteus 18:1–11.Af hverju vill Jesús að við verðum sem lítið barn? Hvaða eiginleika hafa börn sem við getum tileinkað okkur til að verða kristilegri? (sjá Mósía 3:19).

Ljósmynd
Jesús með börnum

Jesús vill að lærisveinar sínir verði sem lítil börn.

Matteus 18:15.Hvernig getum við heimfært leiðsögnina í Matteus 18:15 upp á fjölskyldusamskipti okkar? Hvernig myndi það blessa fjölskyldu okkar að gera það?

Matteus 18:21–35.Hvað kennir þessi dæmisaga okkur um Jesú Krist? Hvað kennir hún okkur um það hvernig við eigum að koma fram við aðra?

Lúkas 10:25–37.Fjölskyldumeðlimir gætu haft gaman af því að klæðast búningum og leika þessa dæmisögu. Hvernig erum við stundum eins og hinir ólíku einstaklingar í dæmisögunni? Hvernig er frelsarinn eins og miskunnsami Samverjinn? Hvernig getum við verið eins og miskunnsami Samverjinn?

Þið gætuð íhugað að syngja saman sálm eða barnasöng sem styður sannleikann í þessari dæmisögu. Dæmi um söng gæti verið „Ó, faðir, gjör mig lítið ljós“ (Sálmar, nr. 48), en það eru margir fleiri til. Fjölskyldumeðlimir gætu notið þess að finna sálm eða söng og útskýra hvernig hann tengist dæmisögunni.

Lúkas 10:38–42.Er stundum erfitt að koma andlegum hlutum fyrir í dagskrá fjölskyldunnar? Frásögnin um Mörtu og Maríu gæti hvatt til fjölskyldufundar eða fjölskyldukvölds til að ræða hvernig bæta mætti úr því. Sem fjölskylda gætuð þið skráð það sem væri að velja „góða hlutskiptið“ (Lúkas 10:42).

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Tillaga að söng: „Elskið alla, Jesús bauð.“ Barnasöngbókin, 39.

Bæta kennslu okkar

Rækta kærleiksríkt andrúmsloft. Viðmót og framkoma fjölskyldumeðlima gagnvart hver öðrum getur haft djúpstæð áhrif á andann á heimili ykkar. Hjálpið öllum fjölskyldumeðlimum að leggja sitt af mörkum við að rækta kærleiksríkt, virðingarfullt heimili, svo öllum finnist óhætt að miðla upplifunum, spurningum og vitnisburðum. (Sjá Teaching in the Savior’s Way [Kenna að hætti frelsarans]15.)

Ljósmynd
Kristur með Mörtu og Maríu

Kristur á heimili Mörtu og Maríu, eftir Walter Rane