Nýja testamentið 2023
27. mars–2. apríl. Matteus 14; Markús 6; Jóhannes 5–6: „Verið óhræddir“


„27. mars–2. apríl. Matteus 14; Markús 6; Jóhannes 5–6: ‚Verið óhræddir,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Nýja testamentið 2023 (2022)

„27. mars–2. apríl. Matteus 14; Markús 6; Jóhannes 5–6,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2023

Ljósmynd
Jesús á gangi með lærisveinum sem halda á körfum með brauði

27. mars–2. apríl

Matteus 14; Markús 6; Jóhannes 5–6

„Verið óhræddir“

Þegar þið lesið Matteus 14; Markús 6; og Jóhannes 5–6, gætið þá að sannleika sem ykkur er mikilvægur. Þið gætuð spurt ykkur spurninga líkt og: „Hvernig eiga frásagnir þessara kapítula við um mig?“ „Hvaða boðskap finn ég fyrir eigið líf?“ eða „hverju vil ég miðla fjölskyldu minni og öðrum?“

Skráið hughrif ykkar

Hvað hefði getað innblásið Pétur til að fara úr öryggi bátsins út á miðju Galíleuvatni í miklum stormi? Hvað fékk hann til að trúa því að hann gæti líka gengið á vatni eins og Jesús gerði? Við vitum það ekki fyrir víst, en ef til vill skildi Pétur að sonur Guðs kom ekki aðeins sjálfur til að gera dásamlega hluti fyrir fólkið, heldur veitti hann líka mönnum eins og Pétri kraft til að gera dásamlega hluti. Boð Jesú var jú, hvað sem öllu líður: „Kom,fylg mér“ (sjá Lúkas 18:22). Pétur hafði gengist við boði hans einu sinni og var fús til að gera það aftur, jafnvel þótt hann yrði að horfast í augu við ótta sinn og gera nokkuð sem virtist ómögulegt. Ef til vill mun Drottinn ekki biðja okkur um að stíga út úr báti í miðjum stormi eða leggja til fáein brauð til að metta þúsundir, en hann kann að biðja okkur að taka á móti leiðsögn, jafnvel þótt við skiljum hana ekki til fulls. Hver sem boð hans til okkar kunna að vera, þá virðast þau stundum koma á óvart eða jafnvel vera ógnvekjandi. Kraftaverk geta þó gerst, ef við, líkt og Pétur, munum láta af ótta okkar, efa okkar, sætta okkur við takmarkaðan skilning og fylgja honum í trú.

Ljósmynd
táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

Jóhannes 5:16–47

Jesús Kristur heiðrar föður sinn.

Sambandi himnesks föður við hvert barna sinna er ætlað að vera heilagt. Í þessum versum sá Jesús Kristur okkur fyrir innblásnu fordæmi sem við getum farið eftir í sambandi okkar við himneskan föður. Lesið Jóhannes 5:16–47 og merkið við eða skráið hvert skipti sem orðið faðir kemur fyrir. Hvernig heiðrar sonurinn föðurinn og hvernig getið þið fylgt fordæmi hans? Hvað lærið þið um það hvað föðurnum finnst um soninn? Hvað eruð þið hvött til að gera til að styrkja samband ykkar við himneskan föður?

Sjá einnig Jóhannes 17; Jeffrey R. Holland, „Göfgi Guðs,“ aðalráðstefna, október 2003.

Ljósmynd
brauð og fiskar

Jesús mettaði fimm þúsundir á undraverðan hátt, með fimm brauðum og tveimur fiskum.

Matteus 14:15–21; Markús 6:33–44; Jóhannes 6:5–14

Frelsarinn getur eflt mínar auðmjúku fórnir til að ná fram tilgangi sínum.

Hafið þið einhvern tíma fundið til vanmáttar yfir að uppfylla allt sem þarf umhverfis ykkur – á heimili ykkar, í samböndum ykkar eða í samfélaginu? Lærisveinar Jesú hljóta að hafa fundið til vanmáttar þegar Jesús bauð þeim að metta fimm þúsund svanga munna með aðeins fimm brauðum og tveimur fiskum, sem var tiltækt. Þegar þið lesið um kraftaverkið sem gerðist næst, íhugið þá hvernig Guð gæti notað ykkar auðmjúka þjónustuframlag til að blessa þá sem umhverfis eru. Hvernig hefur hann eflt framlag ykkar þegar þið hafið þjónað honum? íhugið þessi orð systur Michelle D. Craig: „Við getum gefið Kristi það sem við höfum og hann mun margfalda framlag okkar. Það sem þið hafið fram að færa er meira en nóg – jafnvel með mannlega breyskleika ykkar – ef þið treystið á náð Guðs“ („Guðlegt ósætti,“ aðalráðstefna, október 2018).

Matteus 14:22–33; Markús 6:45–52; Jóhannes 6:15–21

Jesús Kristur býður mér að láta af ótta og efa og iðka trú á sig.

Sjáið fyrir ykkur í huganum sviðsmyndina sem lýst er í Matteus 14:22–33; Markús 6:45–52; og Jóhannes 6:15–21. Ímyndið ykkur hvernig Pétri og hinum lærisveinunum gæti hafa liðið. Hvað lærið þið um lærisveinshollustu af orðum frelsarans í þessum versum? Hvað lærið þið af orðum og verkum Péturs? (Sjá einnig 1. Nefí 3:7.) Hvað er Drottinn að bjóða ykkur að gera, sem gæti verið eins og að stíga út fyrir borðstokkinn? Hvað finnið þið í þessum versum sem veitir ykkur hugrekki til að iðka trú á Jesú Krist?

Jóhannes 6:22–71

Sem lærisveinn Jesú Krists, verð ég að vera fús til að trúa og meðtaka sannleikann, jafnvel þótt erfitt sé.

Þegar Jesús sagði sig sjálfan vera „brauð lífsins“ (Jóhannes 6:48), fannst mörgum það vera „þung ræða“ (Jóhannes 6:60). Hvernig geta orð Péturs í Jóhannes 6:68–69 hjálpað þegar ykkur finnst erfitt að meðtaka kenningu frelsarans eða lifa eftir henni? Hvað vekur áhuga ykkar varðandi vitnisburð Péturs? Hver eru sum „orð eilífs lífs“ (Jóhannes 6:68) sem geta eflt staðfestu ykkar við að fylgja frelsaranum?

Sjá einnig M. Russell Ballard, „Til hvers ættum vér að fara?,“ aðalráðstefna, október 2016.

Ljósmynd
táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

Matteus 14:15–21.Íhugið hvernig þið gætuð hjálpað fjölskyldu ykkar að ímynda sér hvað þyrfti mikið af brauðum og fiskum til að metta fimm þúsund manns. Hvað kennir kraftaverkið í Matteus 14:15–21 okkur um frelsarann? Íhugið að segja frá reynslu þar sem ykkur fannst þið ekki hafa nóg að bjóða og frelsarinn margfaldaði framlag ykkar.

Matteus 14:22–33.Fjölskylda ykkar gæti notið þess að leika frásögnina í þessum versum. Af hverju myndu lærisveinarnir hafa verið óttaslegnir? Af hverju tókst Pétri að sigrast á ótta sínum og fara úr bátnum? Hvernig sýndi hann trú, jafnvel þegar hann tók að sökkva? Hvernig erum við stundum eins og Pétur?

Jóhannes 5:1–16.Biðjið fjölskyldumeðlimi að gæta að orðtakinu „varð heill“ í þessum versum? Á hvaða hátt getur Jesús Kristur gert fólk heilt? Hvenær og hvernig hefur hann gert ykkur heil?

Jóhannes 6:28–58.Fáið hverjum fjölskyldumeðlim brauðbita til að borða og ræðið hvernig brauð og annar hollur matur er okkur gagnlegur. Kannið síðan þessi vers saman og gætið að ástæðu þess að Jesús Kristur kallar sig sjálfan „brauð lífsins“ (Jóhannes 6:35). Hver er merking þess að „eta“ brauð lífsins? (sjá D. Todd Christofferson, „Brauðið sem niður steig af himni,“ aðalráðstefna, október 2017).

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Tillaga að söng: „Þá ást og visku veitti hann,“ Sálmar , nr. 69.

Bæta persónulegt nám

Leitið eigin andlegs skilnings. Einskorðið ykkur ekki eingöngu við ritningarvers þessara lexíudraga þegar þið lærið sjálf eða með fjölskyldu ykkar. Drottinn hefur líklega boðskap fyrir ykkur í þessum kapítulum, sem hér er ekki lögð áhersla á. Leitið hans af kostgæfni.

Ljósmynd
Jesús lyftir Pétri upp úr vatninu

Á móti vindinum, eftir Liz Lemon Swindle