Nýja testamentið 2023
6.–12. febrúar. Jóhannes 2–4: „Ykkur ber að fæðast að nýju“


„6.–12. febrúar. Jóhannes 2–4: ‚Ykkur ber að fæðast að nýju,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Nýja testamentið 2023 (2022)

„6.–12. febrúar. Jóhannes 2–4,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2023

Ljósmynd
Jesús talar við Nikódemus

6.–12. febrúar

Jóhannes 2–4

„Ykkur ber að fæðast að nýju“

Þegar þið lesið Jóhannes 2–4, mun andinn kenna ykkur ýmislegt um eigin trúarumbreytingu. Gætið að hughrifum hans. Þið gætuð hlotið aukinn andlegan skilning með námshugmyndunum í þessum lexíudrögum.

Skráið hughrif ykkar

Í brúðkaupi í Kana breytti Kristur vatni í vín – atburður sem Jóhannes kallaði hið „fyrsta tákn“ (Jóhannes 2:11). Það er satt í meira en einum skilningi. Þótt þetta væri fyrsta opinbera kraftaverk Jesú, getur það líka verið táknrænt fyrir annað undursamlegt upphaf – breytingu hjartans, er við verðum líkari frelsara okkar. Það ævilanga kraftaverk hefst á ákvörðun um að fylgja Jesú Kristi, að breytast og lifa betra lífi með honum. Það kraftaverk getur verið svo lífsbreytandi að orðin „fæðast að nýju“ er ein besta leiðin til að lýsa því (Jóhannes 3:7). Endurfæðing er þó aðeins fyrsta skrefið á vegi lærisveinsins. Orð Krists til samversku konunnar við brunninn minna okkur á að ef við höldum áfram á þessum vegi, mun fagnaðarerindið að lokum verða að „lind“ hið innra, sem „streymir fram til eilífs lífs“ (Jóhannes 4:14).

Ljósmynd
táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

Jóhannes 2:1–11

Kraftaverk Jesú Krists „[opinberuðu dýrð hans].“

Þegar þið lesið um frelsarann breyta vatni í vín í Jóhannes 2:1–11, gætuð þið hlotið aukinn skilning með því að íhuga lífssýn hinna ólíku einstaklinga sem þar eru, svo sem Maríu, lærisveinanna og annarra. Hvað hefði ykkur fundist um Jesú, ef þið hefðuð orðið vitni að framvindunni sem hér er lýst? Hvað kenna þessi kraftaverk ykkur um hann?

Jóhannes 3:1–21

Ég verð að endurfæðast til að komast aftur inn í Guðs ríki.

Þegar Nikódemus kom til að finna Jesú í einrúmi, hafði hann fylgst með af aðgætni. Hann kom þó Jesú opinberlega til varnar síðar (sjá Jóhannes 7:45–52) og var meðal hinna trúuðu við greftrun frelsarans (sjá Jóhannes 19:38–40). Hvaða kenningar finnið þið í Jóhannes 3:1–21 sem gætu hafa innblásið Nikódemus til að fylgja Jesú og endurfæðast?

Spámaðurinn Joseph Smith kenndi: „Endurfæðing hlýst með anda Guðs með helgiathöfnum“ (Teachings of Presidents of the Church: Joseph Smith [2007], 95). Hvaða hlutverki gegndu skírn og staðfesting ykkar – að „[fæðast] af vatni og anda“ (Jóhannes 3:5) í endurfæðingu ykkar? Hvað gerið þið til að viðhalda þessu breytingarferli? (sjá Alma 5:11–14).

Sjá einnig Mósía 5:7; 27:25–26; David A. Bednar, „Við verðum að endurfæðast,“ aðalráðstefna, apríl 2007.

Jóh 3:16–17

Himneskur faðir sýnir elsku sína til mín með Jesú Kristi.

Öldungur Jeffrey R. Holland kenndi: „Æðsti sannleikur allrar eilífðar, er þó sá að Guð elskar okkur af öllu sínu hjarta, mætti, huga og styrk“ („Á morgun mun Drottinn gjöra undursamlega hluti meðal yðar,“ aðalráðstefna, apríl 2016). Hvernig hafið þið fundið elsku Guðs fyrir tilverknað gjafar sonar hans?

Sakramentið er tími til að hugleiða elsku Guðs og gjöf sonar hans. Hvaða sakramentissálmar hjálpa ykkur að finna elsku hans? Hvað gætuð þið gert til að sakramentið yrði ykkur innihaldsríkara?

Þegar þið lesið áfram um kennslu og þjónustu frelsarans, spyrjið ykkur þá sjálf hvernig efnið hjálpi ykkur að skilja og finna elsku Guðs.

Jóhannes 4:24

Er Guð andi?

Sumum gæti fundist yfirlýsing Jesú villandi um að Guð sé andi. Þýðing Josephs Smith á þessum versum veitir mikilvægar útskýringar: „Því að slíkum hefur Guð heitið anda sínum“ (í Jóhannes 4:24, neðanmálstilvísun a). Nútíma opinberun kennir líka að Guð hafi líkama af holdi og beinum (sjá Kenning og sáttmálar 130:22–23; sjá einnig 1. Mósebók 5:1–3; Hebreabréfið 1:1–3).

Jóhannes 4:5–26

Kristur býður mér sitt lifandi vatn.

Hvað gæti Jesús hafa verið að segja þegar hann sagði við samversku konuna að hver sá sem drykki af vatni hans, myndi aldrei þyrsta? Hvernig er fagnaðarerindið eins og lifandi vatn?

Ljósmynd
streymandi vatn

Fagnaðarerindi Krists er hið lifandi vatn sem endurnærir sál okkar.

Einn boðskapur frelsarans til samversku konunnar, var að hvernig við tilbiðjum, væri mikilvægara en hvar við tilbiðjum (sjá Jóhannes 4:21–24). Hvað gerið þið til að „tilbiðja föðurinn í anda og sannleika“? (Jóhannes 4:23).

Sjá einnig Leiðarvísi að ritningunum, „Tilbeiðsla,“ KirkjaJesuKrists.is, Ritningar/Námshjálp; Dean M. Davies, „Blessanir tilbeiðslu,“ aðalráðstefna, október 2016.

Ljósmynd
táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

Jóhannes 2–4.Þegar fjölskylda ykkar les þessa kapítula í vikunni, gætið þá sérstaklega að því hvernig frelsarinn notaði hversdagslega hluti – fæðingu, vind, vatn og mat – til að kenna andlegan sannleika. Hvaða hluti á heimili ykkar væri hægt að nota til að kenna andlegan sannleika?

Þegar þið lærið þessa kapítula, íhugið þá að horfa saman á myndbönd um þessa atburði: „Jesus Turns Water into Wine [Jesús breytir vatni í vín],“ „Jesus Cleanses the Temple [Jesús hreinsar musterið],“ „Jesus Teaches of Being Born Again [Jesús kennir um endurfæðingu]“ og „Jesus Teaches a Samaritan Woman [Jesús kennir samverskri konu]“ (ChurchofJesusChrist.org).

Jóhannes 2:13–17.Hvaða slæmu áhrifum þarf fjölskylda ykkar að halda utan heimilis ykkar, svo það verði helgur staður – eins og musterið? Hvað gerið þið til að halda því fjarri?

Jóhannes 3:1–6.Ræðið við fjölskyldu ykkar um kraftaverk barnsburðar og fæðingar – sköpunarferli lifandi vitsmunaveru. Jesús kenndi að við verðum að endurfæðast áður en við göngum inn í Guðs ríki. Af hverju er endurfæðing tilvalin samlíking um þá breytingu sem af okkur er krafist áður en við göngum inn í Guðs ríki? Hvernig getum við upplifað endurfæðingarferlið?

Jóhannes 3:16–17.Biðjið fjölskyldumeðlimi að segja frá efni þessara versa, eins og þeir væru að útskýra það fyrir vini. Hvernig hefur Jesús Kristur hjálpað okkur að finna elsku Guðs?

Jóhannes 4:5–15.Hvað var frelsarinn að kenna okkur þegar hann líkti fagnaðarerindinu við lifandi vatn? Ef til vill gæti fjölskylda ykkar horft á rennandi vatn og lýst eiginleikum vatnsins. Af hverju þurfum við að drekka vatn daglega? Á hvaða hátt er fagnaðarerindi Jesú Krists eins og „lind sem streymir fram til eilífs lífs“? (Jóhannes 4:14).

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Tillaga að söng: „Himnafaðir elskar mig,“ Barnasöngbókin, 16.

Bæta persónulegt nám

Leitið að táknum. Í ritningunum eru hlutir, atburðir eða athafnir oft notaðir til að tákna andlegan sannleika. Þessi tákn geta bætt skilning ykkar á kenningu. Frelsarinn tengdi t.d. trúarumbreytingu við endurfæðingu.

Ljósmynd
Jesús og samverska konan við brunninn

Lifandi vatn, eftir Simon Dewey