Kom, fylg mér 2024
14.–20. október: „Þér eruð börn sáttmálans.“ 3. Nefí 20–26


„14.–20. október: ‚Þér eruð börn sáttmálans.‘ 3. Nefí 20–26,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Mormónsbók 2024 (2023)

„14.–20. október. 3. Nefí 20–26,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2024 (2023)

Ljósmynd
Kristur birtist Nefítunum

Teikning af Kristi birtast Nefítunum, eftir Andrew Bosley

14.–20. október: „Þér eruð börn sáttmálans“

3. Nefí 20–26

Þegar þið heyrið fólk nota hugtök eins og Ísraelsætt, finnst ykkur þá að það sé að tala um ykkur? Nefítarnir og Lamanítarnir voru Ísraelsættar, „grein af meiði Ísraels,“ en fannst þó að þeir hefðu „horfið … af stofninum“ (Alma 26:36; sjá einnig 1. Nefí 15:12). Frelsarinn vildi þó að þeir vissu að þeir væru honum ekki týndir. Hann sagði: „Þér eruð … af húsi Ísraels, og þér tilheyrið sáttmálanum“ (3. Nefí 20:25). Hann gæti sagt eitthvað álíka við ykkur í dag, því sérhver sem lætur skírast og gerir sáttmála við hann, er líka af Ísraelsætt, „af … sáttmálanum.“ Með öðrum orðum, þegar Jesús ræðir um Ísraelsætt, þá er hann að vísa til ykkar. Boðið um að blessa „allar ættkvíslir jarðar,“ er ætlað ykkur (3. Nefí 20:27). Boðið „vakna þú, íklæð þig styrkleik þínum,“ er ætlað ykkur (3. Nefí 20:36). Hans dýrmæta loforð: „Gæska mín mun eigi hverfa þér, né heldur mun friðarsáttmála mínum raskað,“ er líka ykkur ætlað (3. Nefí 22:10).

Hugmyndir fyrir nám á heimili eða í kirkju

3. Nefí 20–22

Á síðari dögum mun Guð koma dásemdarverki til leiðar.

Í 3. Nefí 20–22 spáði frelsarinn varðandi framtíð sáttmálslýðs síns (sjá einkum 3. Nefí 20:30–32, 39–41; 21:9–11, 22–29). Þegar þið lesið þessi vers, hafið þá hugfast það sem Russell M. Nelson forseti hefur sagt: „Við teljumst til sáttmálslýðs Drottins. Það eru forréttindi okkar að taka persónulega þátt í uppfyllingu þessara loforða. Hve spennandi tíminn er sem við lifum á!“ („Samansöfnun tvístraðs Ísraels,“ aðalráðstefna, október 2006). Hverjir þessara spádóma finnst ykkur einkar hrífandi? Hvað getið þið gert til að hjálpa við að uppfylla þá?

Gætið að innblásnum orðum og orðtökum. Þið gætuð fundið að ákveðin orð og orðtök í ritningunum vekja áhuga ykkar, eins og þau væru rituð sérstaklega fyrir ykkur. Íhugið að merkja við þau í ritningum ykkar eða skrá þau í minnisbók.

3. Nefí 2224

Guð er þeim miskunnsamur sem koma aftur til hans.

Í 3. Nefí 22 og 24 vitnar frelsarinn í orð Jesaja og Malakís, sem eru fyllt lifandi lýsingum og samlíkingum – kolaeldi, hreinsuðu silfri, gáttum himins (sjá einkum 3. Nefí 22:7–8, 10–17; 24:10–12, 17–18). Hvað kennir þessi samanburður ykkur um samband Guðs við fólk sitt – og samband hans við ykkur? Hvernig hafa loforðin í þessum kapítulum uppfyllst í lífi ykkar eða fjölskyldu ykkar?

Sjá einnig „The Refiner’s Fire“ (myndband), Gospel Library.

3. Nefí 23:6–13

Að skrá andlegar upplifanir getur blessað fjölskyldu mína.

Hvað vekur áhuga ykkar varðandi samskipti frelsarans við Nefí í 3. Nefí 23:6–13? Að hverju myndi frelsarinn spyrja ykkur, ef hann ætti að meta heimildirnar sem þið hafið haldið? Hvaða mikilvæga atburði eða andlegar upplifanir ættuð þið að skrá? Af hverju er mikilvægt að gera það? (sjá 3. Nefí 26:2).

3. Nefí 23; 26:1–12

Frelsarinn vill að ég kanni ritningarnar.

Þegar þið lesið 3. Nefí 20:10–12; 23; 26:1–12, hugleiðið þá hvað frelsaranum finnst um ritningarnar. Hver er munurinn á því að kanna ritningarnar og einfaldlega lesa þær? (sjá 3. Nefí 23:1).

3. Nefí 24:7–12

Ljósmynd
trúarskólatákn
Greiðsla tíundar lýkur upp gáttum himins.

Fólki Guðs hefur alltaf verið boðið að greiða tíund (sjá 1. Mósebók 14:17–20; Malakí 3:7–11). Þegar þið lærið 3. Nefí 24:7–12, íhugið þá ástæður þess að Guð býður fólki sínu að greiða tíund. Þessar spurningar geta hjálpað við námið:

  • Hvað er tíundarlögmálið? (Sjá Kenning og sáttmálar 119. „Ábati“ í þessari opinberun merkir tekjur. Allir meðlimir sem hafa tekjur ættu að greiða tíund.) Hvernig er tíund öðruvísi en önnur peningaframlög?

  • Í hvað er tíund notuð? Þið getið fundið takmarkaðan lista með nokkru af því í Gospel Topics, „Tithing“ (Gospel Library). Á hvaða hátt hafið þið verið blessuð af því að meðlimir kirkjunnar greiða tíund?

  • Hvaða blessanir hljóta þeir sem lifa eftir tíundarlögmálinu? (Sjá 3. Nefí 24:7–12). Þið getið fundið nokkrar þeirra tilgreindar í boðskap öldungs Davids A. Bednar, „Gáttir himins“ (aðalráðstefna, október 2013). Gætið einkum að blessunum sem eru ekki endilega fjárhagslegar. Hafið þið séð þessar blessanir í lífi ykkar?

Þið gætuð líka viljað horfa á myndbandið „Jesus Teaches about the Widow’s Mite“ (Gospel Library) eða lesa Markús 12:41–44. Hvaða lærdóm dragið þið af þessari sögu?

3. Nefí 25:5–6

Drottinn sendi Elía til að snúa hjarta mínu til áa minna.

Á okkar tíma „[snúa hjörtu okkar að feðrunum]“ fyrir tilstuðlan musteris- og ættarsögustarfs. Hvernig hefur þetta gerst hjá ykkur? Þegar þið lesið 3. Nefí 25:5–6 og Kenningu og sáttmála 110:13–16, hugleiðið þá ástæður þess að þetta er svo mikilvægur þáttur í áætlun Guðs.

Sjá einnig „Fjölskyldur geta átt eilífð saman,“ Barnasöngbókin, 98.

Sjá útgáfur þessa mánaðar af tímaritunum Líahóna og Til styrktar ungmennum til að fá fleiri hugmyndir.

Hugmyndir fyrir kennslu barna

3. Nefí 23:1, 5

Ég get kannað ritningarnar af kostgæfni.

  • Leiðbeiningar frelsarans í 3. Nefí 23 sýna hversu mikilvægar ritningarnar eru honum. Til að hjálpa börnum ykkar að uppgötva þetta, gætuð þið lesið upphátt 3. Nefí 23:1, 5 og beðið þau að hlusta eftir orði sem þrisvar er endurtekið. Hvernig er könnun frábrugðin því að lesa einungis?

  • Þið og börn ykkar gætuð ef til vill skrifað niður eftirlætis ritningarvers og falið það. Þið gætuð síðan skipst á við að finna falin ritningarvers hvers annars, lesið þau saman og rætt af hverju þessi vers hafa djúpa merkingu.

3. Nefí 24:8–12

Greiðsla tíundar lýkur upp gáttum himins.

  • Hjálpið börnum ykkar að kanna 3. Nefí 24:8–12 og finna hvernig ljúka mætti setningunni: Ef ég greiði tíund, mun Drottinn … . Þið gætuð líka sagt frá upplifun þar sem þið voruð blessuð af því að greiða tíund. Ef það er gagnlegt, íhugið þá að skrifa nokkrar peningaupphæðir og hjálpa börnum ykkar að reikna úr hversu mikla tíund (10 prósent) greiða á af hverri upphæð.

  • Verkefnasíða þessarar viku getur hjálpað börnum ykkar að ræða hvernig Drottinn notar tíundina til að blessa meðlimi kirkju sinnar. Þau gætu ef til vill teiknað myndir (eða fundið myndir í kirkjutímaritum) af því hvernig tíund blessar þau.

3. Nefí 25:5–6

Himneskur faðir vill að ég læri um áa mína.

  • Hvernig munið þið hvetja börn ykkar til að leita að og fræðast um áa sína? Hvernig getið þið hvatt börn ykkar til að vinna helgiathafnir fyrir áa sína þegar þau eru eldri? Íhugið að hjálpa þeim að kanna 3. Nefí 25:5–6 til að finna eitthvað sem átti að gerast á síðari dögum. Yngri börn gætu lagt hönd á hjartað í hvert sinn sem þau heyra orðið „hjarta“ þegar þið lesið þessi vers. Þið gætuð líka lesið um það hvernig þessi spádómur uppfylltist í Kenningu og sáttmálum 110:13–16 (sjá einnig Trúarmyndabók, nr. 95). Segið börnum ykkar hvernig hjörtu ykkar hafa snúist til áa ykkar. Þið gætuð til dæmis sagt frá reynslu er þið lærðuð um áa ykkar og unnuð musterishelgiathafnir fyrir þá.

  • Hjálpið börnum ykkar að fylla út í ættartré með nöfnum foreldra sinna og afa og ömmu. Hvaða sögur gætuð þið sagt um einn áa ykkar? Sýnið myndir ef hægt er. Þið gætuð líka sungið saman „Fjölskyldur geta átt eilífð saman“ (Barnasöngbókin, 98) og rætt við börn ykkar um ástæður þess að fjölskyldur eru mikilvægar í áætlun himnesks föður.

Sjá útgáfu þessa mánaðar af tímaritinu Barnavinur til að fá fleiri hugmyndir.

Ljósmynd
Jesús les heimildir Nefíta með Nefí

Koma fram með heimildina, eftir Gary L. Kapp