2010–2019
Flóðgáttir himins
Október 2013


Flóðgáttir himins

Við hljótum andlegar og stundlegar blessanir er við lifum eftir tíundarlögmálinu.

Mig langar til að greina frá tveimur mikilvægum lexíum sem ég hef lært um tíundarlögmálið. Fyrri lexían snýst um þær blessanir sem einstaklingum og fjölskyldum auðnast er þær staðfastlega fylgja þessu boðorði. Áherslan í síðari lexíunni er á hinn mikilvæga þátt tíundar í vexti Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu um heim allan. Ég bið þess að heilagur andi muni staðfesta fyrir sérhverjum okkar sannleiksgildi þeirra reglna sem ég mun ræða um.

Lexía nr. 1 ‒ Markverðar en óljósar blessanir

Móðir systur Bednar er trúföst kona og innblásin húsmóðir. Hún hefur haldið vandlega utan um fjárhag heimilisins allt frá fyrstu dögum hjónabands síns. Í áratugi hefur hún samviskusamlega haldið utan um tekjur og gjöld fjölskyldunnar með því að nota einfalda höfuðbók. Upplýsingarnar sem hún hefur safnað í gegnum árin eru yfirgripsmiklar og fræðandi.

Þegar systir Bednar var ung kona notaði móðir hennar gögnin í höfuðbókinni til að undirstrika grunnreglur hagsýni og útsjónarsemi í heimilishaldi. Dag einn er þær voru að fara yfir hina ýmsu útgjaldaliði tók móðir hennar eftir áhugaverðu mynstri. Kostnaður læknisheimsókna og lyfja fyrir fjölskyldu þeirra var langt undir þeim kostnaði sem þær áttu von á. Hún tengdi síðan þessa uppgvötun við fagnaðarerindi Jesú Krists og útskýrði fyrir dóttur sinni kröftugan sannleik: Þegar við lifum eftir tíundarlögmálinu hljótum við oft markverðar en óljósar blessanir, sem ekki eru alltaf það sem við búumst við og auðvelt er að líta framhjá. Fjölskyldan hafði ekki fengið neina óvænta eða augljósa viðbót við heimilistekjurnar. Í staðinn hafði ástríkur himneskur faðir veitt einfaldar blessanir, að því er virtist á venjulegan hátt. Systir Bednar hefur ætíð munað eftir þessari mikilvægu lexíu frá móður sinni um þá aðstoð sem berst okkur frá flóðgáttum himins, eins og Malakí lofaði í Gamla testamentinu (sjá Mal 3:10).

Þegar við kennum og vitnum um tíundarlögmálið leggjum við oft áherslu á þær tafarlausu, tilþrifamiklu og augljósu stundlegu blessanir sem við hljótum. Vissulega berast slíkar blessanir. Hins vegar eru sumar af þeim fjölbreyttu blessunum sem við hljótum með því að lifa samkvæmt tíundarlögmálinu markverðar en þó óljósar. Slíkar blessanir er einungis hægt að bera kennsl á, ef við erum bæði andlega eftirtekarsöm og athugul (sjá 1 Kor 2:14).

Myndmál „flóðgátta“ himins, sem Malakí notar, er mjög lýsandi. Gáttir eða gluggar hleypa náttúrlegu ljósi inn í byggingu. Á sama hátt er andlegri birtu og sýn úthellt um flóðgáttir himins og inn í líf okkar, er við heiðrum tíundarlögmálið.

Þakklætið er til dæmis ein af gjöfum andans, óljós en markverð blessun, því þakklæti okkar fyrir það sem við eigum og höfum gerir okkur mögulegt að hafa hemil á löngunum okkar. Þakklát manneskja er rík af gleði. Vanþakklát manneskja þjáist í fátækt óendanlegrar óhamingju (sjá Lúk 12:15).

Vera má að við þurfum og biðjum um aðstoð til að finna viðeigandi starf. Við þörfnumst hins vegar augu og eyru trúar (sjá Et 12:19) til að bera kennsl á hina andlegu gjöf aukinnar dómgreindar, sem getur veitt okkur kraftinn til að greina atvinnutækifæri sem mörgum öðrum gæti yfirsést ‒ eða þá blessun æðri staðfestu, að leita betur og lengur að starfi en annað fólk getur eða er tilbúið að gera. Við viljum kannski og búumst við að verða boðið starf, en blessunin sem berst okkur í gegnum flóðgáttir himins getur verið aukin geta til að bregðast við og breyta okkar eigin aðstæðum, frekar en að búast við að einhver eða eitthvað breyti þeim.

Við þráum ef til vill og leggjum að okkur til að fá launahækkun í starfi, svo við getum betur séð fyrir lífsnauðsynjum. Við þörfnumst hins vegar augu og eyru trúar til að sjá aukna andlega og stundlega getu okkar (sjá Lúk 2:52) til að gera meira úr litlu, skarpari getu til að forgangsraða og einfalda og næmari getu til að annast á réttan hátt þær eigur sem nú þegar eru okkar. Við viljum kannski og búumst við hærri launaseðli, en blessunin sem kemur til okkar í gegnum flóðgáttir himins getur verið aukin geta til að breyta eigin aðstæðum, frekar en að búast við að einhver eða eitthvað breyti aðstæðum okkar.

Ungliðarnir í Mormónsbók (sjá Alma 53; 56–58) báðu einlæglega þess að Guð myndi styrkja þá og bjarga þeim úr höndum óvina sinna. Það er áhugavert að svörin við þessum bænum komu ekki í formi fleiri vopna eða fleiri hermanna. Þess í stað veitti Guð þessum trúföstu hermönnum fullvissu um að hann myndi bjarga þeim, og sálum þeirra frið, og mikla trú og von á að hann og björgun hans (sjá Alma 58:11). Því gerðust synir Helamans hugrakkir, voru ákveðnir í að sigra og héldu fram á móti Lamanítunum af öllum sínum krafti (sjá Alma 58:12–13). Fullvissa, friður, trú og von eru kannski ekki við fyrstu sýn blessanir sem hermenn í orrustu gætu vænst, en þetta voru nákvæmlega þær blessanir sem þessir fræknu ungu menn þurftu á að halda til að sækja fram og sigra líkamlega sem andlega.

Stundum biðjum við Guð um árangur og hann veitir okkur líkamlegan og huglægan þrótt. Við sárbiðjum kannski um velgengni, en hljótum betri yfirsýn og aukna þolinmæði, eða við biðjum um vöxt og erum blessuð með gjöf náðar. Hann veitir okkur ef til vill sannfæringu og sjálfstraust er við kappkostum að ná verðugum markmiðum okkar. Og þegar við sárbiðjum um lausn frá líkamlegum, sálrænum eða andlegum erfiðleikum, eykur hann kannski staðfestu okkar og seiglu.

Ég lofa að þegar við tileinkum okkur og höldum tíundarlögmálið, munu flóðgáttir himins sannlega opnast og andlegum og stundlegum blessunum mun úthellt í yfirgnæfandi mæli (Mal 3:10). Við munum einnig minnast yfirlýsingar Drottins:

„Já, mínar hugsanir eru ekki yðar hugsanir, og yðar vegir ekki mínir vegir segir Drottinn.

Heldur svo miklu sem himinninn er hærri en jörðin, svo miklu hærri eru mínir vegir yðar vegum og mínar hugsanir yðar hugsunum“ (Jes 55:8–9).

Ég vitna um að þegar við erum andlega eftirtektarsöm og athugul, verðum við blessuð með augum sem sjá betur og eyrum sem heyra ávallt og hjarta sem skilur á fyllri hátt markverða og óljósa vegi hans, hugsanir hans og blessanir hans í lífi okkar.

Lexía nr. 2 ‒ Einfaldleiki leiðar Drottins

Áður en ég var kallaður til að þjóna í Tólfpostulasveitinni hafði ég oft lesið í Kenningu og sáttmálum um ráðið sem skipað er til hafa umsjón með og úthluta helgum tíundarsjóðum. Ráðinu um meðferð tíundargreiðslna var komið á fót með opinberun og í því eru Æðsta forsætisráðið, Tólfpostulasveitin og Yfirbiskupsráðið (sjá K&S 120). Ég bjóst spenntur við mjög sérstöku lærdómstækifæri er ég bjó mig í desember 2004 undir að sækja minn fyrsta fund í þessu ráði.

Ég man ennþá eftir því sem ég upplifði og hvernig mér leið er ég tók þátt í þessu ráði. Þakklæti mitt jókst og einnig lotning mín fyrir lögmáli Drottins um fjármál fyrir einstaklinga, fjölskyldur og kirkju hans. Grundvallarkerfi fjármála Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu - bæði fyrir tekjur og útgjöld - er skilgreint í köflum 119 og 120 í Kenningu og sáttmálum. Tvær staðhæfingar, sem er að finna í þessum opinberunum, veita grunninn að fjármálum kirkjunnar.

Kafli 119 segir einfaldlega að allir þegnar skuli „greiða einn tíunda hluta alls ábata síns árlega, og þetta skal vera þeim gildandi lögmál að eilífu … segir Drottinn.“ (vers 4).

Um samþykkta úthlutun tíundar segir Drottinn síðan: „Úthlutun hennar skal annast ráð, sem æðsta forsætisráð kirkju minnar og biskupinn og ráð hans skipa, og háráðið og rödd mín til þeirra, segir Drottinn.“ (K&S 120:1). „Biskupinn og ráð hans“ og „háráðið“ sem nefnt er í opinberun þessari eru í dag þekkt annars vegar sem Yfirbiskupsráðið og hins vegar Tólfpostulasveitin. Þessir helgu sjóðir eru notaðir í hraðvaxandi kirkjunni til að blessa andlega einstaklinga og fjölskyldur með byggingu og viðhaldi mustera og samkomuhúsa, stuðningi við trúboðsstarfið, þýðingu og útgáfu ritninga, hlúa að ættfræðirannsóknum, fjármagna skóla og trúarkennslu og ná öðrum kirkjulegum tilgangi eins og vígðir þjónar Drottins segja til um.

Ég dáist að hve skýrar og hnitmiðaðar þessar tvær opinberanir eru í samanburði við flóknar fjármálaleiðbeiningar og stjórnunaraðferðir sem tíðkast í svo mörgum almennum og opinberum stofnunum um heim allan. Hvernig er mögulega hægt að stýra stundlegum málefnum jafn stórrar skipulagsheildar og kirkju Jesú Krists, sem nær út um allan heim, með svo gagnorðum leiðbeiningum Fyrir mér er svarið vafningslaust: Þetta er verk Drottins, hann er fær um að leysa verk sitt af hendi (sjá 2 Ne 27:20) og frelsarinn innblæs og leiðbeinir þjónum sínum er þeir fara eftir leiðbeiningum hans og starfa á hans vegum.

Ég varð heillaður á þessum fyrsta ráðsfundi af einfaldleika þeirra reglna sem stjórnuðu umræðu okkar og ákvörðunum. Farið er eftir tveimur ákveðnum grundvallaratriðum við stjórn fjármála í kirkjunni. Í fyrsta lagi eyðir kirkjan ekki um efni fram. Í öðru lagi er hluti af árlegum tekjum lagður til hliðar sem varasjóður fyrir óvissu og óvæntum þörfum. Í áratugi hefur kirkjan kennt þegnum sínum regluna um að eiga matarforða, eldsneyti og peninga til að nota á mögulegum neyðarstundum. Kirkjan, sem stofnun, fylgir einfaldlega sömu reglum og þegnum hennar er sífellt kennt.

Ég fór að óska þess, er líða tók á fundinn, að allir þegnar kirkjunnar gætu séð einfaldleikann, skýrleikann, regluna, kærleikann og kraftinn í hætti Drottins (K&S 104:16), við stjórn á stundlegum málefnum kirkju hans. Ég hef nú tekið þátt í ráðinu um notkun tíundargreiðslna í mörg ár. Þakklæti mitt og lotning fyrir hætti Drottins hefur vaxið á hverju ári og lexíurnar sem ég hef lært hafa orðið enn djúpstæðari.

Hjarta mitt þenst út af kærleika og aðdáun vegna hinna trúföstu og hlýðnu þegna þessarar kirkju með sérhverri þjóð, kynkvísl, tungu og lýð. Ég kynnist vonum ykkar og draumum, mismunandi lífsskilyrðum, aðstæðum og baráttu er ég ferðast um heiminn. Ég hef sótt kirkjufundi með ykkur og heimsótt sum heimili ykkar. Trú ykkar styrkir trú mína. Hollusta ykkar gerir mig hollari. Góðmennska ykkar og fús hlýðni við tíundarlögmálið hjálpar mér að verða betri maður, eiginmaður, faðir og leiðtogi kirkjunnar. Ég minnist ykkar og hugsa um ykkur í hvert sinn sem ég tek þátt í ráðinu um notkun tíundargreiðslna. Ég þakka ykkur fyrir góðmennsku ykkar og trúfesti er þið heiðrið sáttmála ykkar.

Leiðtogar hinnar endurreistu kirkju Drottins eru meðvitaðir um þá feikilega miklu ábyrgð, að annast á viðeigandi hátt helgar fórnir þegna kirkjunnar. Við erum afar meðvitaðir um heilagt eðli eyris ekkjunnar.

„Jesús settist gengt fjárhirslunni og horfði á fólkið leggja peninga í hana. Margir auðmenn lögðu þar mikið.

Þá kom ekkja ein fátæk og lét þar tvo smápeninga, eins eyris virði.

Og hann kallaði til sín lærisveina sína og sagði við þá: ‚Sannlega segi ég yður, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir, er lögðu í fjárhirsluna.

Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína“ (Mark 12:41–44).

Ég veit af eigin reynslu að ráðið um notkun tíundargreiðslna er vart um sig er það annast eyri ekkjunnar. Ég tjái þakklæti mitt til Thomas S. Monson forseta og ráðgjafa hans fyrir áhrifaríka forystu þeirra við að sinna þessari helgu ráðsmennsku. Og ég viðurkenni rödd (sjá K&S 120:1) og hönd Drottins sem styður vígða þjóna sína við að uppfylla skyldur sínar sem fulltrúar hans.

Boð og vitnisburður

Heiðarleg greiðsla tíundar er miklu meira en skylda, það er mikilvægt skref í ferli persónulegrar helgunar. Ég hrósa ykkur sem greiðið tíund ykkar.

Þau ykkar sem ekki lifa eftir tíundarlögmálinu í dag býð ég að íhuga hætti ykkar og iðrast. Ég vitna fyrir ykkur, að með hlýðni ykkar við þetta lögmál Drottins munu flóðgáttir himins opnast ykkur. Vinsamlega skjótið ekki degi iðrunar ykkar á frest.

Ég vitna um að andlegar og stundlegar blessanir munu berast okkur er við lifum eftir tíundarlögmálinu. Ég ber þess vitni, að oft á tíðum eru slíkar blessanir markverðar en óljósar. Ég lýsi einnig yfir einfaldleika leiðar Drottins sem er svo augljós í stundlegum málefnum kirkju hans og veitir okkur forskrift og leiðbeiningar sem einstaklingum og fjölskyldum. Ég bið þess að sérhvert okkar megi læra og hljóta ávinning af þessum mikilvægum lexíum, í helgu nafni Drottins Jesú Krists, amen.