2000–2009
Samansöfnun tvístraðs Ísraels
Október 2006


Samansöfnun tvístraðs Ísraels

Við hjálpum við samansöfnun hinna kjörnu Drottins, beggja vegna hulunnar.

Kæru bræður mínir og systur, þakka ykkur fyrir trú ykkar, hollustu ykkar og ást. Við deilum gríðarlega mikilli ábyrgð að vera það sem Drottinn vill að við séum og gera það sem hann vill að við gerum. Við erum hluti af mikilli hreyfingu – samansöfnun tvístraðs Ísraels. Ég tala um þessa kenningu í dag vegna sérstæðs mikilvægis hennar í eilífðaráætlun Guðs.

Abrahamssáttmálinn

Til forna blessaði Drottinn föður Abraham með loforði um að gera niðja hans að mikilli þjóð.1 Tilvísanir í þann sáttmála er að finna víða í ritningunum. Innifalið var loforð um að sonur Guðs mundi koma í gegnum ætt Abrahams, að sérstök lönd mundu erfast, að þjóðir og ættir jarðar mundu verða blessaðar með niðjum hans, og fleira.2 Þótt sumt af þeim sáttmála hafi þegar verið uppfyllt, kennir Mormónsbók að þessi Abrahamssáttmáli muni aðeins uppfyllast á þessum síðari dögum!3 Hún leggur einnig áherslu á að við séum meðal sáttmálsþjóðar Drottins.4 Það eru forréttindi okkar að taka persónulega þátt í uppfyllingu þessara loforða. Hversu spennandi tíminn er sem við lifum á!

Ísrael var tvístrað

Sem niðjar Abrahams, höfðu ættkvíslir Ísraels til forna aðgang að prestdæmisvaldi og blessunum fagnaðarerindisins, en að lokum gerði fólkið uppreisn. Það drap spámennina og því var refsað af Drottni. Tíu ættkvíslir voru herleiddar til Assýríu. Þaðan í frá eru þær týndar í heimildum mannkynsins. (Augljóslega eru ættkvíslirnar tíu ekki týndar fyrir Drottni.) Tvær ættkvíslir sem eftir stóðu voru við lýði um skamma hríð, en vegna uppreisnar þeirra, voru þær herleiddar til Babýloníu.5 Þegar þær komu til baka, nutu þær náðar Drottins, en á nýjan leik, heiðruðu þær hann ekki. Þær höfnuðu honum og löstuðu hann. Elskandi en sorgmæddur faðir hét því að, „yður vil ég tvístra meðal þjóðanna,“6 og það gerði hann – til allra þjóða.

Ísrael skal safnað saman

Loforð Guðs um samansöfnun tvístraðs Ísraels er jafn ákveðið.7 Til dæmis sá Jesaja fyrir að á síðari dögum mundi Drottinn senda „hraða sendiboða“ til þessa fólks sem var svo „tvístrað og skrælt.“8

Þetta loforð um samansöfnunina, sem er svo samofið ritningunum, mun verða eins örugglega uppfyllt eins og spádómarnir um tvístrun Ísraels.9

Kirkja Jesú Krists á hádegisbaugi tímans og fráhvarfið

Áður en hann var krossfestur, hafði Drottinn Jesús Kristur stofnað kirkju sína. Í henni voru postular, spámenn, hinir sjötíu, kennarar, og svo framvegis.10 Og meistarinn sendi lærisveina sína út um heiminn til að boða fagnaðarerindi sitt.11

Eftir nokkurn tíma, féll kirkjan eins og hún var stofnsett af Drottni í andlega spillingu. Kenningum hans var breytt; helgiathafnir hans breyttust. Hið mikla fráhvarf kom eins og Páll hafði sagt fyrir um, en hann vissi að Drottinn mundi ekki koma aftur „nema fráhvarfið komi fyrst.“12

Þetta mikla fráhvarf gerðist með sama hætti og þau sem endað höfðu alla fyrri ráðstöfunartíma. Sá allra fyrsti var tími Adams. Síðan komu ráðstöfunartímar Enoks, Nóa, Abrahams, Móse, og annarra. Hver spámaður hafði guðlegt hlutverk að kenna um guðdóm og kenningar Drottins Jesú Krists. Á öllum tímum, áttu þessar kenningar að hjálpa fólki. En óhlýðni þess leiddi til fráhvarfs. Þannig voru allir fyrri ráðstöfunartímar takmarkaðir í tíma og staðsetningu. Þeir voru takmarkaðir í tíma vegna þess að hver þeirra endaði með fráhvarfi. Þeir voru takmarkaðir í staðsetningu við tiltölulega lítinn hluta plánetunnar jarðar.

Endurreisn allra hluta

Þannig þurfti fullkomin endurreisn að eiga sér stað. Guð faðirinn og Jesús Kristur kölluðu spámanninn Joseph Smith til að verða spámaður þessa ráðstöfunartíma. Alla guðlega krafta fyrri ráðstöfunartíma átti að endurreisa með honum.13 Þannig yrði ráðstöfunin í fyllingu tímanna ekki takmörkuð í tíma eða staðsetningu. Hún mundi ekki enda í fráhvarfi og hún mundi fylla jarðarkringluna.14

Samansöfnun Ísraels – óaðskiljanlegur hluti endurreisnar allra hluta

Eins og spáð var af Pétri og Páli, eiga allir hlutir að vera endurreistir á þessum ráðstöfunartíma. Þess vegna, hlýtur að koma, sem hluti af þeirri endurreisn, hin langþráða samansöfnun tvístraðs Ísraels.15 Það er nauðsynlegur undirbúningur að síðari komu Drottins.16

Þessi kenning um samansöfnunina er ein af mikilvægari kenningum Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Drottinn hefur lýst yfir: „Ég gef yður tákn, … ég mun safna saman þjóð minni eftir langæja tvístrun, ó Ísraelsætt og mun aftur stofnsetja mína Síon meðal þeirra.“17 Framkoma Mormónsbókar er tákn til alls heimsins að Drottinn hefur hafið samansöfnun Ísraels og er að uppfylla sáttmála sem hann gerði við Abraham, Ísak, og Jakob.18 Við kennum ekki aðeins þessa kenningu, heldur tökum við þátt í henni. Það gerum við þegar við hjálpum til við að safna hinum kjörnu Drottins beggja vegna hulunnar.

Mormónsbók er kjarninn í þessu verki Hún setur fram kenninguna um samansöfnunina.19 Hún kemur fólki til að læra um Jesú Krist, til að trúa fagnaðarerindi hans, og til að ganga í kirkju hans. Staðreyndin er sú að væri engin Mormónsbók, mundi hin lofaða samansöfnun Ísraels ekki eiga sér stað.20

Fyrir okkur, er hið heiðraða nafn Abraham mikilvægt Það er nefnt í fleiri versum ritninga endurreisnarinnar en í öllum versum Biblíunnar.21 Abraham tengist öllum þegnum Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.22 Drottinn endurstaðfesti Abrahamssáttmálann á okkar dögum með spámanninum Joseph Smith.23 Í musterinu, tökum við á móti æðstu blessun, sem niðjar Abrahams, Ísaks og Jakobs.24

Ráðstöfunin í fyllingu tímanna

Þessi ráðstöfun í fyllingu tímanna var séð fyrir af Guði sem tíminn til að safna saman, bæði á himni og jörðu. Pétur vissi að, eftir tímabil fráhvarfs, mundi endurreisnin koma. Hann, sem verið hafði með Drottni á ummyndunarfjallinu, lýsti yfir:

„Gjörið því iðrun og snúið yður, að syndir yðar verði afmáðar. Þá munu koma endurlífgunartímar frá augliti Drottins. …

Hann mun vera í himninum allt til þess tíma, þegar Guð endurreisir alla hluti, eins og hann hefur sagt fyrir munn sinna heilögu spámanna frá alda öðli.“25

Á nútíma voru postularnir Pétur, Jakob, og Jóhannes sendir af Drottni með „lykla ríkis [hans], og ráðstöfun fagnaðarerindisins fyrir síðustu tímana, og fyrir fyllingu tímanna,“ en á þeim mundi hann „safna öllu saman í eitt, bæði því sem er á himni og á jörðu.“26

Á árinu 1830, lærði spámaðurinn Joseph Smith um himneskan sendiboða að nafni Elías, sem hafði lyklana til að koma til leiðar „endurreisn allra hluta.“27

Sex árum síðar var Kirtland musterið vígt. Eftir að Drottinn hafði tekið við því húsi, komu himneskir sendiboðar með prestdæmislykla. Móse birtist28 „og fól okkur … lyklana að samansöfnun Ísraels frá hinum fjórum heimshlutum og að leiða ættkvíslirnar tíu úr landinu í norðri.

Eftir það birtist Elías og fól okkur ráðstöfun fagnaðarboðskapar Abrahams, sagði að með okkur og niðjum okkar verði allar kynslóðir eftir okkur blessaðar.“29

Síðan kom spámaðurinn Elía og lýsti yfir: Sjá, sá tími er nú að fullu kominn, sem talað var um fyrir munn Malakís – er vitnaði að hann [Elía] yrði sendur, áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kæmi – Til að snúa hjörtum feðranna til barnanna og barnanna til feðranna, til þess að öll jörðin verði ekki lostin banni.“30

Þessir atburðir gerðust 3. apríl, 1836,31 og uppfylltu þannig spádóm Malakís.32 Helgir lyklar þessa ráðstöfunartíma voru endurreistir.33

Samansöfnun sálna handan hulunnar

Náðarsamlega, nær boðið um að „koma til Krists“34 einnig til þeirra sem dóu án þekkingar á fagnaðarerindinu.35 Hluti af undirbúningi þeirra byggist á jarðnesku starfi annarra. Við tökum saman ættartölur, búum til fjölskylduskrár, og vinnum musterisverk sem staðgenglar til að safna saman einstaklingum til Drottins og inn í fjölskyldur sínar.36

Taka þátt í samansöfnuninni: Skuldbinding með sáttmála

Hér á jörðu er trúboðsverk úrslitaatriði við samansöfnun Ísraels. Fagnaðarerindið átti fyrst að fara með til „týndra sauða af Ísraelsætt.“37 Þar af leiðandi hafa þjónar Drottins gengið fram og boðað endurreisnina. Meðal margra þjóða hafa trúboðar okkar leitað að þeim sem eru af hinum tvístraða Ísrael; þeir hafa leitað að þeim „í bergskorunum“; og þeir hafa fiskað eftir þeim eins og til forna.38

Valið að koma til Krists snýst ekki um ákveðna staðsetningu, það er spurning um einstaklingsbundna skuldbindingu. Fólk getur verið „leitt til þekkingar á Drottni,“39 án þess að það yfirgefi heimaland sitt. Satt er það, á fyrstu tíð kirkjunnar, þýddu trúskipti oft brotthvarf úr landi samhliða. En núna á samansöfnunin sér stað meðal allra þjóða. Drottinn hefur lýst yfir stofnun Síonar40 á hverju því svæði sem hann hefur gefið hinum heilögu sem fæðingar- og þjóðernisaðsetur. Ritningarnar segja fyrir um að fólki „verður safnað heim til erfðalanda sinna og þeir hafa komið sér fyrir í sínum fyrirheitnu löndum.“41 „Hver þjóð er samansöfnunarstaður fyrir sitt eigið fólk.“42 Staðurinn til samansöfnunar brasilískra heilagra er Brasilía; samansöfnunarstaður nígerískra heilagra er Nígería; samansöfnunarstaður kóreskra heilagra er Kórea, og svo framvegis. Síon er „hinir hjartahreinu.“43 Síon er hvar sem réttlátir heilagir eru. Útgáfur, samskipti, og söfnuðir eru nú þannig að næstum því allir kirkjuþegnar hafa aðgang að kenningum, lyklum, helgiathöfnum, og blessunum fagnaðarerindisins, hver sem staðsetning þeirra er.

Andlegt öryggi mun alltaf byggjast á hvernig maður lifir, ekki hvar maður lifir. Hinir heilögu í öllum löndum eiga jafnan rétt til blessana Drottins.

Þetta verk almáttugs Guðs er rétt. Hann lifir. Jesús er Kristur. Þetta er hans kirkja, endurreist til að uppfylla sín guðlegu örlög, þar á meðal hina lofuðu samansöfnun Ísraels. Gordon B. Hinckley forseti er spámaður Guðs í dag, um það vitna ég í nafni Jesú Krists, amen.