2016
Áfall, sorg og áætlun Guðs
April 2016


Áfall, sorg og áætlun Guðs

Höfundur býr í Albaníu.

Þegar ég lít nú til baka á erfiðustu reynslu lífs míns, veit ég að himneskur faðir var alltaf með mér á öllu mínu ferðalagi.

Ljósmynd
illustration like a stained-glass window

Teikning eftir David Curtis

Það var árla morguns árið 2008, þegar móðir mín vakti mig til að fara í skólann. Ég var mjög hamingjusöm í morgunsárið og vissi ekki að dagurinn ætti eftir að verða versti dagur lífs míns og síðasti dagurinn okkar saman. Ég lauk ekki skóladeginum, því fjölskylduvinur þurfti að ná í mig og tilkynna mér að móðir mín hefði fyrirfarið sér. Ég var aðeins 12 ára.

Ég hugsaði: „Hvernig get ég lifað án móður minnar?“ Hún var minn besti vinur.

Ég grét mánuðum saman. Mig langaði ekki að fara í skólann, því skólafélagar mínir komu öðruvísi fram við mig og kenndu í brjósti um mig. Ég hafði ekki hugmynd um hvað gera skyldi, aðeins að ég yrði að vera sterk fyrir alla aðra.

Dag nokkurn, fimm eða sex mánuðum eftir lát móður minnar, var ég ein við gluggann í herberginu mínu, grátandi og að reyna að skilja hver tilgangur minn hér væri. Skyndilega heyrði ég rödd hið innra: „Þú ert dóttir mín. Ég mun ekki leyfa að þú þjáist.“ Ég vissi að þetta var Guð. Þetta kom mér á óvart, því ég trúði ekki lengur á hann, einkum þar sem ég taldi Guð hafa tekið móður mína frá mér. Þótt ég áttaði mig ekki á merkingu þessara orða, þá fann ég til öryggis.

Þremur árum síðar fór ég til Rómar á Ítalíu, til að heimsækja frænda minn. Hann sagði mér stöðugt frá kirkjunni sem hann sótti. Sunnudag nokkurn tók hann mig með sér. Ég gleymi aldrei þegar ég í fyrsta sinn gekk að kirkjudyrunum og upplifði elsku himnesks föður þegar inn var komið. Mér fannst ég vera komin heim.

Ég fór í kirkju alla sunnudaga og á alla vikulega viðburði. Ég hafði unun af því að vera með æskufólki kirkjunnar. Þau veittu mér gleði. Þau hugsuðu og trúðu líkt og ég gerði. Að þremur mánuðum liðnum, lauk sumarleyfinu og ég varð að fara aftur til Albaníu.

Þegar ég kom heim, sagði ég föður mínum frá því hve vel mér hafði liðið og hve glöð ég hafði verið allan þann tíma. Honum líkaði það ekki. Hann sagðist ekki leyfa mér að halda áfram að fara í kirkju né að læra meira um hana. Ég þyrfti því að sýna biðlund næstu þrjú árin, þar til ég yrði 18 ára gömul. Ég gæti þá sjálf tekið ákvörðun og látið skírast.

Á þeim tíma naut ég þeirrar blessunar að margir sögðu mér frá því sem þeir lærðu hvern sunnudag í kirkjunni. Einn af þeim var Stephanie. Hún hafði búið á Ítalíu þegar frændi minn gekk í kirkjuna, en hafði farið aftur heim til Bandaríkjanna. Frændi minn taldi gott að við skrifuðumst á, svo ég bætti henni í vinahópinn minn á Facebook.

Þótt við hefðum aldrei hist í eigin persónu, þá verð ég henni ætíð þakklát fyrir að hjálpa mér að efla trú mína og læra meira um fagnaðarerindi Jesú Krists. Hún skrifaði mér næstum alla sunnudaga og sagði mér frá öllu sem hún hafði lært í kirkju og svaraði síðan spurningum mínum. Hún var mér afar góður vinur.

Loks, eftir áralanga biðlund, lét ég skírast tveimur dögum eftir 18 ára afmælisdaginn minn. Bráðum mun ég líka deila með móður minni þeirri gleði sem ég upplifði þann dag, því ég mun láta skírast fyrir hana. Ég veit að hún verður ánægð með þá lífsstefnu sem ég hef kosið mér.

Mér finnst ég blessuð af himneskum föður, því hann var á svo margan hátt með mér í öllu mínu ferðalagi. Ég varð bara að sýna biðlund og þolinmæði, því hann hafði áætlun fyrir mig. Hann veitir mér styrk til að takast á við allar áskoranir lífs míns. Hann var alltaf til staðar fyrir mig, til að hjálpa mér að verða hamingjusamari.