2016
Þýðing ritninganna: Á mál hjartans
April 2016


Þýðing ritninganna: Á eigið mál hjartans

Ótal upplifanir sýna að Drottinn hefur hönd í bagga í þýðingarverki ritninga sinna.

Ljósmynd
scriptures and woman

Ljósmynd af síðum Mormónsbókar á japönsku, portúgölsku og þýsku, tekin af Lauru Seitz, Deseret News

Þeir sem hafa tekið þátt í þýðingu ritninganna frá ensku yfir á eitthvað annað tungumál, eru kunnugir slíkum upplifunum. Þær eiga sér sífellt stað:

Ungur Armeni hélt á eintaki af Mormónsbók, sem nýlega hafði verið þýdd á tungumálið hans, og sagði við einn þeirra sem þátt tóku í þýðingunni: „Þakka þér fyrir,“ sagði hann. Ég hef lesið Mormónsbók á ensku. Ég hef lesið Mormónsbók á rússnesku. Ég hef lesið hana á úkraínsku. Það var ekki fyrr en ég las hana á armensku að ég skildi hana fyllilega. Þegar ég las hana á armensku, þá skildi ég allt miklu betur. Það var eins og ég væri kominn heim.“

Heimkoma

Ef fagnaðarerindi Jesú Krists er okkar andlega heimili þá er það eðlilegt að það sé okkur auðskilið og kunnugt. Við hvílumst þegar við erum heima. Við nærum okkur. Við ræðum við þá sem við elskum á okkar eigin móðurmáli. Þetta er eigið mál hjartans og þar sem fagnaðarerindið þarf að ná til hjartans, þá er okkur nauðsynlegt að geta lesið ritningarnar á eigin máli hjartans.

Í Kenningu og sáttmálum er gerð krafa um það. Drottinn opinberar að með lyklum prestdæmisins, sem Æðsta forsætisráðið hefur, mun „armur Drottins … opinberast í veldi og sannfæra þjóðirnar … um fagnaðarerindi sáluhjálpar þeirra.

Því að svo ber við þann dag, að sérhver maður mun heyra fyllingu fagnaðarerindisins á sinni eigin tungu og á sínu eigin máli, frá þeim sem vígðir eru þessu valdi, fyrir tilverknað huggarans, sem úthellt mun yfir þá til opinberunar á Jesú Kristi“ (K&S 90:10–11).

Jim Jewell, sem starfaði í þýðingarhópi ritninganna í höfuðstöðvum kirkjunnar, sagði frá því hve ritningarnar geta orðið okkur hjartfólgnar, þegar þær eru þýddar yfir á eigið mál hjartans:

„Þegar þýða átti Mormónsbók yfir á sesotoísku, tungumál sem afríska þjóðarbrotið Lesotho talaði, þurftum við að finna einhvern til að hjálpa okkur að meta starf þýðingarhópsins. Verkefnastjórinn, Larry Foley, benti á meðlim kirkjunnar frá Lesotho, sem var nemandi í mastersnámi við Utah State háskólann. Í Lesotho fer kennsla fram á ensku, svo þessi kona og börnin hennar höfðu lært á ensku frá fyrsta bekk grunnskóla, en töluðu samt saman á sesotoísku heimavið.

„Hún samþykkti að vinna við þýðinguna. Starf hennar við þá kapítula sem við sendum henni kom vissulega að miklu gagni. Við sendum henni reglubundið ákveðnar spurningar um málfarsreglur og notkun, og hún kom með góðar ábendingar. Við sáum þó að hún hafði auðkennt mörg ritningarvers með gulu, sem voru óviðkomandi spurningum okkar. Þegar við spurðum hana um auðkenndu versin, sagði hún: „Ó, þetta eru vers sem höfðu mikil áhrif á mig og ég hafi ekki skilið fyllilega á ensku. Ég auðkenndi þau, svo ég gæti miðlað þeim börnunum mínum.“

Fyrirmynd að þýðingum ritninganna

Þýðingarsaga Biblíunnar er löng og heillandi, en hún hófst á því að hluti Gamla testamentisins var þýddur frá hebresku yfir á grísku. Síðar var Biblían þýdd frá grísku yfir á latínu og frá latínu, hebresku og grísku yfir á ótal önnur tungumál.1 Þar af leiðandi, þá þýðir Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu Biblíuna ekki yfir á önnur tungumál, heldur notar útgáfur sem þegar eru viðurkenndar meðal kristinna sem tala þau tungumál.2

Ljósmynd
men at work translating

Þýðingarstarf kirkjunnar snýst því að mestu um Mormónsbók (sem kemur fyrst til þýðingar), Kenningu og sáttmála og Hina dýrmætu perlu. Þessar bækur eru þýddar frá ensku, sem er tungumálið sem spámaðurinn Joseph Smith fékk þær opinberaðar á, hans hjartans mál. Þeir sem lært hafa sögu kirkjunnar, ættu að þekkja þýðingarferli ritninganna yfir á önnur tungumál en ensku. Það er að miklu leiti sama aðferðin og spámaðurinn notaði við að þýða Mormónsbók yfir á ensku.

Joseph Smith var auðmjúkur og að mestu ómenntaður bóndadrengur. Hann bjó hins vegar yfir þeim eiginleikum sem Drottinn þurfti á að halda til að láta fullvinna verkið. Joseph og fjölskylda hans voru vissulega útvalin og undir það búin að vinna einmitt þetta starf.3

Joseph fékk líka hjálp — bæði himneska og jarðneska — við að þýða heimildir Nefís. Engillinn Moróní vitjaði Josephs á hverju ári í fjögur ár, áður en honum var heimilt að fá heimildirnar í hendur. Við þekkjum ekki allt sem Moróní kenndi spámanninum, en þau samskipi voru augljóslega til að búa hann bæði andlega og huglega undir fyrirliggjandi verkefni.4

Drottinn hafði líka undirbúið „túlka“ fyrir tilsettan tíma, til að auðvelda þýðingu forns tungumáls. Þeim er lýst sem tveimur steinum í málmumgjörð og þetta, og annað álíka verkfæri sem var kallað sjáandasteinn, auðveldaði spámanninum að þýða heimildir Nefís yfir á ensku. Spámaðurinn greindi ekki nákvæmlega frá ferlinu. Hann bar einungis vitni um að hann hefði þýtt Mormónsbók með „gjöf og krafti Guðs.“5

Auk þeirrar himnesku hjálpar sem Joseph veittist, hlaut hann líka jarðneska hjálp frá riturum, sem framleiddu ritað handrit svo aðrir gætu unnið það til prentunar, greitt fyrir það og loks dreift því um heiminn.

Þeir, sem nú hafa það verkefni að þýða ritningarnar, eru undirbúnir af Drottni, ekki ólíkt og Joseph, og njóta liðsinnis við verkið — bæði himnesks og jarðnesks.

Verk opinberunar

Ljósmynd
local reviewers reading

Hið stranga þýðingarferli er innblásið andlegum krafti, sem best er lýst sem „opinberun með samráði.“ Þeir tveir eða þrír sem valdir eru sem þýðendur koma saman, ásamt öðrum, til að vinna að verkinu. Sér til aðstoðar hafa þeir umsjónarmenn frá höfuðstöðvum kirkjunnar, yfirlesara svæðis, orðasafn fyrir tilvísanir,6 þýðingarleiðarvísa, tölvuforrit og kirkjulega hjálp sem nær alla leið til Æðsta forsætisráðsins. (Sjá meðfylgjandi skrá.) Þegar Æðsta forsætisráðið veitir endanlegt samþykki fyrir þýðingu, þá er verkið sett í letur, prentað og því dreift. Þar sem þetta er unnið á rafrænu formi, er það uppfært á vefinn LDS.org og Gospel Library appið.

Þetta sameiginlega ferli er bæði krefjandi og innblásið. Gæta þarf vandlega að gæðum efnisins og útlitslegri hönnun þess. Þýðingar eru endurskoðaðar á hinum ýmsu stigum, einkum á kenningarlegu stigi, sem þarfnast samþykkis Drottins. Aðeins þegar slíkt samþykki liggur fyrir, er hægt að halda áfram með verkið. Þótt opinberun hafi ekki borist nákvæmlega á sama hátt og þegar Joseph Smith vann að þýðingu Mormónsbókar, þá er ferlið án nokkurs vafa undir handleiðslu Drottins — með gjöfum og krafti hans.

Þetta þýðir ekki að þýðingin sé fullkomin þegar henni er fyrst lokið. Oft er bætt úr eftir einhvern tíma og frekari skoðanir og eftir því sem fólk lærir ritningarnar og leggur fram ábendingar um málfræði og orðalag eða finnur stafsetningarvillur. Breytingar eru afar sjaldan gerðar á útlistun kenningar. Eigi slíkt sér stað, er það gert undir leiðsögn Æðsta forsætisráðsins.

Drottinn liðsinnir

Drottinn styður líka við þýðingarstarfið á aðra vegu. Oft segir þýðingarhópurinn í höfuðstöðvum kirkjunnar frá því að Drottinn hafi liðsinnt þegar þörf er á.

Eitt af mörgum slíkum dæmum, var þegar þörf var á þýðanda til að þýða og skrá kirkjuefni á mamísku (borið fram „mum,“ er komið af mayanísku, töluð í Guatemala). Meðal fyrstu trúboðanna sem komu til Guatemala, var öldungur sem átti afa sem hafði talað mamísku. Trúboðinn hafði alist upp í borg og talaði aðeins spænsku. Á næturna kom afi hans til hans í draumi til að kenna honum mamísku. Þessi ungi trúboði varð aðalþýðandi mamísku í kirkjunni.

Oft er þýðingarstarfið gert við miklar fórnir. Sumir þýðendur gefa þjónustu sína og öðrum er greitt fyrir, allt eftir fjárhagsstöðu, svo þeir geti helgað sig þýðingunni.

Einn af þeim sem varð þýðandi úrdúísku, snérist til trúar á kirkjuna í Pakistan, meðan hann starfaði sem kennari. Trúskipti hans leiddu til þess að hann missti atvinnu sína, húsið, sem skólinn sá honum fyrir, og börnum hans var ekki lengur heimilt að sækja skólann. Yfirmaður frá þýðingarþjónustu kirkjunnar kom að máli við hann og bauð honum þýðingarstarf og hófsöm laun. Eftir að hann hafði starfað sem þýðandi í fáeina mánuði, heimsótti maðurinn yfirmanninn og bað hann óframfærinn um að kaupa fyrir sig nýjan kúlupenna. Sá sem hann hafði notað fram að þessu, hafði orðið bleklaus. Það var ekki fyrr en þá sem yfirmaðurinn uppgötvaði og lagaði skráningarvillu sem gerði það að verkum að þýðandinn fékk aðeins tíu prósent greitt af því sem hann hefði átt að fá.

Á sama hátt og Drottinn blessaði Joseph Smith, sem gerði honum kleift að ljúka verki sínu, þá blessar Drottinn þýðendur sína. Þýðandi lettnesku ritninganna var t.d. lögfræðingur, sem hafði numið lög í Rússlandi, þar sem hann hafði snúist til trúar á hið endurreista fagnaðarerindi. Þegar hann kom aftur til Lettlands, var hann að setja upp lögfræðistofuna sína. Hann þjónaði líka sem greinarforseti. Hann gat vart verið önnum kafnari, en kirkjan þarfnaðist hans og enskukunnáttu hans.

Hann bað um tíma til að biðja vegna beiðninnar, því ef hann tæki þetta að sér, þá, eins og hann orðaði það við fulltrúa kirkjunnar, „yrði það til þess að matur yrði minni á borði barna hans.“ Eftir að hann hafði beðist fyrir, ákvað hann að taka verkið að sér, og bað Drottin um að blessa sig með hæfni til að takast á við hið erfiða, krefjandi og tímafreka verk.

Hann fór einni klukkustund fyrr á lögfræðiskrifstofu sína dag hvern og nýtti þann tíma til að þýða Mormónsbók. Hann lauk verkinu vel innan þess árafjölda sem verkið yfirleitt tekur. Í raun tók þýðing hans skemmri tíma en aðrar þýðingar, allt frá því að Joseph Smith þýddi Mormónsbók á 60 dögum.

Hægt væri að segja frá ótal fleiri upplifunum sem sýna að Drottinn hefur hönd í bagga í þýðingarverki ritninga sinna. Allar sýna þær glöggt að þetta er verk hans og að það er honum afar mikilvægt. Hann býr fólk undir að vinna verk sitt. Hann gerir verkfærin tiltæk sem þarf að nota til að hraða verkinu. Hann innblæs og blessar fólkið í þýðingarferlinu.

Árangurinn er sá að heimurinn er auðugri af orði Guðs, sem gefið er börnum hans á eigin máli hjartans.

Ljósmynd
family reading the scriptures

Heimildir

  1. Sjá átta-hluta ritröðina, „How the Bible Came to Be,“ eftir Lenet H. Read, birt í Ensign frá janúar til september 1982.

  2. Sjá t.d. „Church Edition of Spanish Bible Now Published,“ mormonnewsroom.org.

  3. Sjá Matthew S. Holland, „The Path to Palmyra,“ Liahona, júní 2015, 14–19.

  4. Sjá Kent P. Jackson, „Moroni’s Message to Joseph Smith,“ Ensign, ágúst 1990, 12–16.

  5. Joseph Smith, í formála Mormónsbókar. Sjá yfirgripsmeiri frásögn um þýðingu Josephs Smith á Mormónsbók á Gospel Topics, „Book of Mormon Translation,“ topics.lds.org.

  6. Orðasafnið skilgreinir öll orðin í ensku ritningunum, svo þýðendur fái betri skilning á merkingu þeirra. Oft búa orð yfir fleiri en einni merkingu og því þurfa þýðendur að reiða sig á samhengið, innblástur og hópvinnu, til að koma fram með réttar lausnir. Endrum og eins verða vafaatriði um merkingar aðeins leyst af Æðsta forsætisráðinu.