2016
Spádómur og persónuleg opinberun
April 2016


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins

Spádómur og persónuleg opinberun

Ljósmynd
youth and children first presidency message sidebars
Ljósmynd
family watching general conference

Hin sanna kirkja Jesú Krists hefur verið endurreist og er á jörðu á okkar tímum. Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu hefur ætíð verið leidd af lifandi spámönnum og postulum, sem hljóta stöðugt leiðsögn frá himnum.

Sú guðlega fyrirmynd var líka fyrir hendi til forna. Í Biblíunni lærum við: „Drottinn Guð gjörir ekkert án þess að hann hafi opinberað þjónum sínum, spámönnunum, ráðsályktun sína“ (Amos 3:7).

Guð hefur aftur hafið upp rödd sína á okkar tímum, með spámanninum Joseph Smith. Fyrir tilverknað spámannsins Josephs Smith opinberaði hann fagnaðarerindi Jesú Krists í fyllingu þess. Hann endurreisti sitt heilaga prestdæmi, með lyklum og öllum réttindum, krafti og virkni þess.

Á okkar tímum hafa lifandi spámenn og postular heimild til að mæla, kenna og leiðbeina með valdi frá Guði föðurnum og Drottni Jesú Kristi. Frelsarinn sagði við spámanninn: „Það sem ég, Drottinn, hef talað, hef ég talað, og ég afsaka mig ekki. Og þótt himinn og jörð líði undir lok, mun orð mitt ekki líða undir lok, heldur allt uppfyllast, hvort sem það er sagt með minni eigin rödd eða með rödd þjóna minna, það gildir einu“ (K&S 1:38).

Tvisvar á ári á aðalráðstefnum njótum við þeirrar blessunar að geta hlýtt á orð Drottins til okkar með þjónum hans. Það eru ómæld forréttindi. Gildi þess tækifæris er háð því að við meðtökum orð þeirra með sama anda og þau voru meðtekin af þessum þjónum Guðs (sjá K&S 50:19–22). Við verðum líka, á sama hátt og þeir, að fá leiðsögn frá himnum. Það krefst sömu andlegu viðleitni af okkur.

„Vinnið heimavinnu ykkar“

Fyrir mörgum árum bað einn meðlimur Tólfpostulasveitarinnar mig að lesa yfir ræðu sem hann var að undirbúa fyrir aðalráðstefnu. Ég var þá einn af yngri meðlimum sveitarinnar. Ég naut þess heiðurs að hann treysti mér til að hjálpa sér við að leita þeirra orða sem Drottinn vildi að hann mælti fram. Hann sagði brosandi við mig: „Ó, þetta er 22. uppkast ræðunnar.“

Ég minnist leiðsagnar sem hinn ljúfi og elskulegi Harold B. Lee forseti (1899–1973) hafði veitt mér áður, með mikilli áherslu: „Hal, ef þú sækist eftir opinberun, þarftu að vinna heimavinnuna.“

Ég las 22. uppkast þessarar ræðu, baðst fyrir og ígrundaði efnið. Ég lærði eins og mér var framast unnt með hjálp heilags anda. Þegar að því kom að þessi sveitarmeðlimur flutti ræðuna sína, hafði ég unnið heimavinnuna mína. Ég veit ekki hvort ég hafði komið að liði, en ég veit að ræðan hafði mótandi áhrif á mig þegar hún var flutt. Sá boðskapur sem mér barst náði miklu lengra en aðeins að bókstafnum sem ég hafði lesið eða hann mælti fram. Orðin tóku á sig dýpri merkingu en þegar ég las þau í uppkastinu. Auk þess virtist boðskapurinn ætlaður mér, því hann féll að mínum þörfum.

Þjónar Guð fasta og biðja til að taka á móti þeim boðskap sem hann vill að þeir flytji þeim sem þarfnast opinberunar og innblásturs. Það sem ég lærði af þessari upplifun, og mörgum öðrum álíka henni, er að við verðum sjálf að gera það sem þarf til að hljóta opinberun, ef við viljum njóta hins mikla ávinnings af því að hlýða á lifandi spámenn og postula.

Drottinn elskar sérhvern þann einstakling sem hlýtt gæti á boðskap hans og þekkir hjörtu og aðstæður allra. Hann veit hvaða leiðrétting, hvatning og sannleikur falla best að hverjum einstaklingi, honum til hjálpar á vegi eilífs lífs.

Við, sem hlustum og horfum á boðskap aðalráðstefnu, hugsum stundum eftir á: „Hvað er mér minnistæðast?“ Drottinn vonar að svar okkar allra verði: „Ég mun aldrei gleyma þeim stundum er ég upplifði rödd andans í hug mínum og hjarta, segja hvað ég gæti gert til að þóknast himneskum föður og frelsaranum.“

Við getum hlotið slíka persónulega opinberun, er við hlýðum á orð spámanna og postula og vinnum í trú að því að hljóta hana, rétt eins og Lee forseti sagði að við gætum gert. Af eigin reynslu, og fyrir vitni andans, veit ég að það er sannleikur.