2010–2019
Leiddir öruggir heim
október 2014


Leiddir öruggir heim

Við lítum til himins, eftir hinni óbrigðulu leiðsögn, til að marka rétta og skynsamlega stefnu og fylgja henni.

Bræður, við erum hér saman komnir sem máttugt samfélag prestdæmisins, bæði hér í Ráðstefnuhöllinni og á mörgum stöðum um heiminn. Af heiðri og auðmýkt axla ég þá ábyrgð að færa ykkur fáeinar ábendingar. Ég bið þess að andi Drottins verði með mér við það.

Fyrir sjötíu og fimm árum, hinn 14. febrúar, árið 1939, var almennur hátíðisdagur í Hamburg, Þýskalandi. Ákafar ræður voru fluttar yfir fagnandi mannfjöldanum og föðurlandssöngvar voru leiknir, er hinu nýja orrustuskip Bismarck var hleypt af stokkunum ofan í Elbe-fljótið. Þetta öflugasta orrustuskip flotans, var hrífandi sjónarspil, vopna og vélbúnaðar. Smíðin krafðist yfir 57.000 teikninga fyrir hinar 380 millimetra,, ratsjárstýrðu, tvíhlaupa fallbyssur. Í skipinu voru 45.000 km af rafleiðslum. Þyngd þess var yfir 35.000 tonn, og brynvörnin margföld. Tignarlegt í sjón, tröllvaxið að stærð, ógnvekjandi að vopnaburði, var hið öfluga skipsferlíkið talið ósökkvandi.

Stefnumót Bismarcks við eigin örlög átti sér stað rúmum tveimur árum síðar, 24. maí 1941, er tvö öflugustu orrustuskip breska hersins, Prince of Wales og Hood, háðu orrustu við Bismarck og þýska beitiskipið, Prinz Eugen. Innan fimm mínútna hafði Bismarck sökkt Hood í djúpt Atlantshafið, ásamt allri áhöfn, 1.400 manns, nema þremur þeirra. Hitt breska orrustuskipið, Prince of Wales, hafði skaðast alvarlega og snúið frá.

Næstu þrjá daga var Bismarck ítrekað í eldlínunni og háði síendurteknar orrustur við bresk orrustuskip. Allt í allt notuðu Bretar 5 orrustuskip, 2 flugmóðuskip, 11 beitiskip og 21 tundurspilli, til að finna og sökkva hinum öfluga Bismarck.

Í þessum orrustum olli stöðugt sprengikúluregn aðeins minniháttar skemmdum á Bismarck. Var það þá í raun ósökkvanlegt? Þá var tundurskeyti skotið og fyrir heppni hitti það stýrisblað Bismarcks. Tilraun til viðgerðar var árangurslaus. Þótt fallbyssur væru í skotstöðu og áhöfn viðbúin, gat Bismarck aðeins siglt í hringi á hægri ferð. Hinn ölfugi þýski flugher var rétt utan seilingar. Skipið Bismarck náði ekki að sigla öruggt í heimahöfn. Hvorugt gagnaði Bismarck til að komast skjól, því það gat ekki lengur markað eigin stefnu. Ekkert stýri, engin hjálp, engin höfn. Endirinn var nærri. Breskar fallbyssur gullu við, þýska áhöfnin opnaði botnventlana, og sökktu hinu, að því er hafði virst, ósigrandi skipi.. Öldubrimið frussaði um hliðar skipsins og hungrað Atlantshafið gleypti stolt þýska sjóhersins. Bismarck var ei lengur meðal vor.1

Líkt og Bismarck, þá er hvert okkar verkfræðiundur. Sköpun okkar takmarkaðist þó ekki við gáfur mannsins. Maðurinn getur búið til flóknustu vélar, en ekki glætt þær lífi eða veitt þeim rökhugsum og dómgreind. Það eru guðlegar gjafir, sem aðeins Guð fær gefið.

Líkt og mikilvægi skipstýrisins, bræður, þá hefur okkur verið séð fyrir leið til að marka stefnu okkar. Viti Drottins lýsir öllum á leið um lífsins sjó. Hlutverk okkar er að sigla rétta stefnu mót okkar þráða marki – já, himneska ríki Guðs. Maður án tilgangs er líkur stýrislausu skipi, sem varla nær heimahöfn. Boðið berst okkur: Markið stefnu, hífið seglin, festið stýrið og haldið áfram.

Líkt og hinn öflugi Bismarck, svo er líka maðurinn. Afl vélar og skrúfu er gagnslaust nema hið algjörlega nauðsynlega stýriblað, sem hulið er augum og lætur lítið yfir sér, nái að beisla þá orku, svo hægt sé að marka stefnuna.

Faðir okkar skapaði sólina, tunglið og stjörnurnar – hina himnesku vetrarbraut, til að leiða sjófarendur sem sigla um höfin breið. Okkur, sem förum lífsins veg, hefur hann séð fyrir skýrum vegvísi sem leiðir okkur að þráðum ákvörðunarstað. Hann aðvarar: Varist hjáleiðirnar, pyttina, gildrurnar. Við megum ekki láta blekkjast af þeim sem leiða okkur afvega, hinum slægu, litríku flautuleikurum syndar, er benda sjá hér og sjá þar. Þessi í stað gerum við hlé til að biðja og hlustum eftir hinni kyrrlátu, hljóðu rödd sem mælir úr djúpi sálar okkar, hið ljúfa boð meistarans: „Fylg mér.“2

Þeir eru þó til sem ekki vilja heyra, sem ekki vilja hlýða, sem heldur vilja fara sinn eigin veg. Of oft láta þeir undan freistingunum, sem umlykja okkur öll og eru svo lokkandi.

Við komum til jarðar, sem prestdæmishafar, á ófriðartímum. Við lifum í flóknum heimi og hvarvetna má sjá átök og árekstra. Pólitískt ráðabrugg eykur óstöðugleika þjóða, einræðisherrar hrifsa til sín völd og samfélög virðast ævarandi undirokuð, rúin tækifærum og álitin mislukkuð. Speki manna klingir í eyrum og syndin umlykur.

Við berum ábyrgð á að vera verðugir allra hinna dýrðlegu blessana, sem faðir okkar á himnum geymir okkur. Prestdæmið er með okkur hvert sem við förum. Stöndum við á helgum stöðum? Áður en þið stofnið ykkur sjálfum og prestdæmi ykkar í hættu, með því að fara á staði eða taka þátt í breytni sem ekki samræmist ykkur eða prestdæminu, staldrið þá við og hugsið um afleiðingar þess.

Við sem höfum verið vígðir prestdæmi Guðs, getum skipt sköpum. Þegar við varðveitum hreinleika okkar og heiðrum prestdæmið, erum við réttlátar fyrirmyndir sem aðrir geta tileinkað sér. Páll postuli áminnti: „Ver fyrirmynd trúaðra, í orði, í hegðun, í kærleika, í trú, í hreinleika.“3 Hann sagði líka að fylgjendum Krists bæri að vera „eins og ljós í heiminum.“4 Þegar við erum fyrirmyndir réttlætis, lýsum við upp sífellt myrkari heim.

Mörg okkar muna eftir N. Eldon Tanner forseta, sem var ráðgjafi fjögurra forseta kirkjunnar. Hann sýndi óhagganlegt fordæmi um réttlæti, á atvinnuferli sínum, þegar hann starfaði í ríkisstjórn Kanada og var postuli Jesú Krists. Hann veitti okkur þessa innblásnu leiðsögn: „Ekkert veitir meiri gleði og velgengni, en að lifa eftir kenningum fagnaðarerindisins. Verið fyrirmynd, hafið áhrif til góðs.“

Hann hélt áfram: „Sérhvert okkar hefur verið forvígt til einhvers verks, sem kjörnir þjónar [Guðs], sem hann hefur séð sér fært að veita prestdæmið og valdið til að starfa í hans nafni. Hafið ætíð í huga að fólk lítur til ykkar eftir leiðsögn, og að þið hafið áhrif á aðra, annaðhvort til góðs eða ills, og sú áhrif munu vara um komandi kynslóðir.“5

Við eflumst af þeim sannleika að sterkasta aflið í heiminum í dag er kraftur Guðs, eins og hann birtist í verkum manna. Við þörfnumst leiðsagnar hins eilífa stýrimans, til að sigla örugg um sjóa jarðlífsins – já, hins mikla Jehóva. Við þjónum út á við, lítum upp á við, og njótum himins hjálpar.

Vel þekkt dæmi um þann sem ekki leit upp á við, er Kain, sonur Adams og Evu. Mikið átti fyrir Kain að liggja, en hann var veikgeðja og með ágirnd, öfund, óhlýðni og jafnvel morði, skaðaði hann sitt eigið stýrisblað, sem hefði leitt hann til velferðar og upphafningar. Kain féll, því hann leit ekki upp á við, heldur niður á við.

Á öðrum tíma var þjónn Guðs reyndur af ranglátum konungi. Daníel túlkaði letrið sem ritað var á vegginn fyrir Belsasar konung, gæddur innblæstri himins. Þrátt fyrir launin sem honum voru boðin – um að klæðast purpura, fá gullfesti um háls og verða yfirhöfðingi – sagði Daníel: „Haltu sjálfur gáfum þínum og gef einhverjum öðrum gjafir þínar.“6 Daníel hafði verið boðið völd og mikið ríkidæmi, laun sem voru heimsins en ekki Guðs. Daníel stóðst og var áfram trúfastur.

Síðar, þegar Daníel lofaði Guð, gegn tilskipun um bann við slíku, var honum varpað í ljónagryfju. Frásögn Biblíunnar segir að daginn eftir hefði „Daníel [verið] dreginn upp úr gryfjunni, og fannst ekki að honum hefði neitt að skaða orðið, því að hann hafði treyst Guði.“7 Á neyðarstundu ákvað Daníel að halda fastri stefnu, sem veitti guðlega vernd og örugga leiðsögn. Við getum líka notið öryggis og verndar, ef við höldum stefnu okkar stöðugri móts við okkar eilífu heimkynna.

Klukka sögunnar, líkt og sandur stundaglassins, markar tímann. Nýr leikhópur er nú á sviði lífsins. Vandamál okkar daga blasa óhugnanleg við okkur. Í gegnum sögu heimsins hefur Satan óþreytandi reynt að skaða fylgjendur frelsarans. Ef við látum undan umtölum hans, munum við – líkt og hinn öflugi Bismarck – verða án virkni stýrisblaðsins, til að komast í örugga höfn. Þess í stað, mitt í lífshætti heimsins, lítum við til himins, eftir hinni óbrigðulu leiðsögn, til að marka rétta og skynsamlega stefnu og fylgja henni. Himneskur faðir okkar mun ekki láta einlægri beiðni okkar ósvarað. Þegar við leitum himneskrar hjálpar, mun stýrisblað okkar, ólíkt því sem gerðist með Bismarck, ekki bregðast.

Þegar við höldum á vit okkar eigin ferðar, skulum við sigla af öryggi um lífsins sjóa. Við skulum hafa hugrekki Daníels, svo við getum verið trúföst, þrátt fyrir syndir og freistingar hvarvetna umhverfis. Megi vitnisburður okkar vera jafn innilegur og sterkur og Jakobs, bróður Nefís, sem sagði, þegar honum var ógnað af einum sem reyndi allt hvað hann gat til að tortíma trú hans: „Mér [varð] ekki haggað.“8

Bræður, sé stýri trúar beitt í langferð okkar, munum við líka komast öruggir heim – heim til Guðs, til eilífrar dvalar hjá honum. Bæn mín er sú, að slíkt bíði okkar allra, í nafni Jesú Krists, frelsara okkar og lausnara, amen.