„10.–16. febrúar: ‚Að þú megir verða sigurvegari‘: Kenning og sáttmálar 10–11,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Kenning og sáttmálar 2025 (2025)
„Kenning og sáttmálar 10–11,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2025
Eftirmynd af upprunalegu handriti Mormónsbókar
10.–16. febrúar: „Að þú megir verða sigurvegari“
Kenning og sáttmálar 10–11
Eftir því sem þýðingu Mormónsbókar miðaði áfram, vaknaði spurning: Hvað áttu Joseph Smith og Oliver Cowdery að gera varðandi glötuðu þýðingarsíðurnar? Rökréttast gat verið að byrja aftur og endurþýða þann hluta, en Drottinn sá nokkuð sem þeir sáu ekki: Óvinir þeirra ráðgerðu að breyta orðunum á þeim síðum, til að varpa rýrð á hið innblásna verk Josephs. Guð hafði áætlun um að forðast þetta vandamál og halda verkinu áfram. Þúsundir ára áður innblés Guð Nefí til að skrifa aðra heimild sem fjallaði um sama tímabil „í hans viturlega tilgangi“ (1. Nefí 9:5).
„Viska mín,“ sagði Drottinn við Joseph, „er meiri en slægð djöfulsins“ (Kenning og sáttmálar 10:43). Það er hughreystandi boðskapur á tímum sem okkar, þegar tilraunir andstæðingsins til að veikja trú okkar verða ofsafengnari. Við getum, líkt og Joseph, verið „[trú] og [haldið] áfram“ í því verki sem Guð hefur kallað okkur til (vers 3). Við munum þá finna að hann hefur þegar fyrirbúið leið, svo að „hlið heljar munu eigi á [okkur] sigrast“ (vers 69).
Sjá Heilagir, 1:51–61.
Hugmyndir fyrir nám á heimili eða í kirkju
Guð „[leyfir] ekki, að Satan komi sínum illu fyrirætlunum fram.“
Satan vill helst að við gleymum tilveru hans – eða hið minnsta að við fáum ekki greint tilraunir hans til að hafa áhrif á okkur (sjá 2. Nefí 28:22–23). Orð Drottins í Kenningu og sáttmálum 10 staðfesta þó að Satan sé raunverulegur – og sé með virkum hætti í andstöðu við verk Guðs. Berið kennsl á hvað Guð vissi um fyrirætlanir Satans í versum 1–33 (sjá einnig vers 62–63). Þið gætuð líka beðið Drottin um að hjálpa ykkur að skilja hvernig Satan reynir að freista ykkar. Þegar þið lesið kafla 10, íhugið þá hvernig frelsarinn getur hjálpað ykkur að standast fyrirætlanir Satans.
„Viska [Drottins] er meiri en slægð djöfulsins.“
Nefí vissi ekki af hverju hann var innblásinn til að búa til tvo töfluhluta um fólk sitt. Mormón vissi heldur ekki af hverju hann var innblásinn til að hafa hinn hlutann með gulltöflunum. Báðir þessir spámenn treystu að Guð gerði þetta „í viturlegum tilgangi“ (1. Nefí 9:5; Orð Mormóns 1:7). Í dag vitum við hið minnsta hluta af þeim tilgangi: Til að koma í stað hinna glötuðu síðna Mormónsbókar. Hvað finnst ykkur að Drottinn vilji að þið lærið af þessu öllu? Ígrundið þessa spurningu við lestur Kenningar og sáttmála 10:34–52. Þið gætuð líka skráð þau sannindi sem þið lærið um Drottinn í þessum versum. Hvernig hafa þessi sannindi áhrif á samband ykkar við hann? Hvað hrífur ykkur varðandi visku og fyrirsjá Drottins við að búa sig undir glötun síðnanna 116?
Þið gætuð líka fundið ykkur hvött til að gæta að staðfestingum um þessa visku og forsjá í lífi ykkar sjálfra. Lesið frásagnirnar í boðskap öldungs Ronalds A. Rasband „Að guðlegri skipan“ – þær gætu kallað fram dæmi í huga ykkar (aðalráðstefna, október 2017). Íhugið að skrá þær eins og þær berast ykkur. Hvernig hefur Drottinn verið að vinna í lífi ykkar? Hvaða „tilviljanir“ hefur hann til að mynda undirbúið? Hvaða grunn hefur hann lagt að blessunum ykkar? Hvenær hefur hann leitt ykkur til að þjóna einhverjum í neyð?
Sjá einnig Rómverjabréfið 8:28; Kenning og sáttmálar 90:24; Topics and Questions, „Plan of Salvation,“ Gospel Library.
Hluti af Mormón gerir útdrátt af töflunum, eftir Tom Lovell
„Setjið traust ykkar á anda [Drottins].“
Hyrum, eldri bróðir Josephs, vildi áfjáður vita vilja Drottins varðandi sig, svo hann bað Joseph að leita opinberunar fyrir sig sjálfan. Spámaðurinn var fús til að gera það, en hið minnsta ein skilaboð í þeirri opinberun (Kenning og sáttmálar 11) eru að Hyrum gat líka leitast eftir opinberun fyrir sig sjálfan. Og þetta getur náð „til allra, sem þrá hið góða og hafa beitt sigð sinni til uppskeru“ (vers 27). Hvað finnst ykkur Drottinn vera að kenna ykkur um persónulega opinberun við lestur kafla 11? Hvernig tengist þetta því sem hann kenndi Oliver Cowdery í köflum 6–9? Hver er annar boðskapur hans til ykkar?
Sjá einnig „Heilagur andi,“ Barnasöngbókin, nr. 56.
Bjóðið þeim sem læra að spyrja spurninga. Spurningar leiða oft til opinberunar. Ef þið kennið fjölskyldu ykkar eða námsbekk í kirkju, hvetjið þau þá til að spyrja spurninga og hjálpið þeim að finna svörin í ritningunum. Ef þau hafa til að mynda spurningar um persónulega opinberun, leitið þá saman að svörum í Kenningu og sáttmálum 11:12–14.
Þegar ég reyni að „öðlast orð [Guðs],“ mun ég hafa anda og kraft hans.
Hyrum Smith vildi óþreyjufullur hjálpa við starf endurreisnarinnar, jafnvel áður en Mormónsbók hafði verið þýdd. Þegar þið lesið svar Drottins við þrá hans, ígrundið þá merkingu þess að „öðlast orð [Guðs]“ (vers 21). Hvernig gagnast það ykkur að öðlast orð Guðs til að þjóna honum með krafti?
Sjá útgáfur þessa mánaðar af tímaritunum Líahóna og Til styrktar ungmennum til að fá fleiri hugmyndir.
Hugmyndir fyrir kennslu barna
Ég hlýt styrk frá Guði þegar ég bið án afláts.
-
Til að kynna þessi vers fyrir börnum ykkar, gætuð þið spurt þau um eitthvað sem þau gera „alltaf.“ Hvað segir Drottinn að við þurfum alltaf að gera í Kenningu og sáttmálum 10:5? Af hverju vill hann að við gerum það?
-
Hvernig getið þið hjálpað börnum ykkar að biðja án afláts? Þau gætu ef til vill fundið nokkra litla og slétta steina og málað á þá „Kenningu og sáttmála 10:5“ eða „Biðja án afláts.“ Þau gætu sett steinana á hina ýmsu staði þar sem þau vilja vera minnt á að biðja, eins og við rúmið þeirra, hjá skólabókunum eða þar sem þau neyta matar. Hvernig blessar Guð okkur þegar við biðjumst fyrir, samkvæmt Kenningu og sáttmála 10:5? Börn ykkar gætu fundið fleiri svör í söng eins og „Bæn barns“ (Barnasöngbókin, 6).
Heilagur andi leiðir mig til góðra verka.
-
Börn geta lært að bera kennsl á andann tala til þeirra. Til að hjálpa þeim, gætuð þið falið ljósaperu eða vasaljós og mynd af broskarli einhversstaðar í herberginu; biðjið síðan börn ykkar að finna þessa hluti. Lesið Kenningu og sáttmála 11:13 og hjálpið börnum ykkar að bera kennsl á orð sem tengjast hlutunum sem þau fundu. Hvað kenna þessi orð um það hvernig heilagur andi hjálpar okkur?
-
Að deila eigin andlegu upplifunum getur hjálpað börnum ykkar að bera kennsl á áhrif heilags anda í lífi þeirra. Biðjið þau að segja líka frá eigin upplifunum þegar þið miðlið. Þið gætuð líka lesið saman Kenningu og sáttmála 11:12–13 og gætt að því hvernig við getum borið kennsl á það þegar heilagur andi leiðir okkur. Berið vitni um að himneskur faðir vilji leiða okkur með heilögum anda.
Kenning og sáttmálar 11:21, 26
Ég þarf að þekkja fagnaðarerindið til að geta hjálpað öðrum að finna sannleikann.
-
Á sama hátt og Hyrum Smith, munu börn ykkar líklega fá fjölmörg tækifæri til að miðla öðrum fagnaðarerindinu. Þið gætuð lesið saman Kenningu og sáttmála 11:21, 26 og beðið börn ykkar að finna það sem Drottinn sagði að Hyrum þyrfti að gera til að geta kennt fagnaðarerindið. Hvað felst í því að „öðlast“ orð Guðs? Hvernig getum við gert það? Hvernig getum við „varðveitt“ orði Guðs í hjörtum okkar? Börn ykkar gætu ef til vill farið í hlutverkaleik við að miðla öðrum einhverju um Jesú Krist eða Mormónsbók.
Sjá útgáfu tímaritsins Barnavinar fyrir þennan mánuð til að fá fleiri hugmyndir.