Kom, fylg mér 2024
9.–15. september: „Mikil tíðindi fagnaðar og gleði.“ Helaman 13–16


9.–15. september: ‚Mikil tíðindi fagnaðar og gleði.‘ Helaman 13–16,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Mormónsbók 2024 (2023)

„9.–15. september. Helaman 13–16,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2024 (2023)

Ljósmynd
Samúel Lamaníti kennir á múrnum

Samúel Lamaníti á múrnum, eftir Arnold Friberg

9.–15. september: „Mikil tíðindi fagnaðar og gleði“

Helaman 13–16

Í fyrra sinnið er Samúel Lamaníti reyndi að boða „gleðitíðindi“ í Sarahemla (Helaman 13:7), var honum hafnað og hann rekinn burt af forhertum Nefítum. Segja mætti að það var eins og þeir hefðu reist óvinnandi múra í kringum hjörtu sín sem komu í veg fyrir að þeir meðtækju boðskap Samúels. Samúel skildi mikilvægi boðskaparins sem hann flutti og sýndi trú með því að fylgja boði Guðs með því „að snúa til baka og spá fyrir fólkinu“ (Helaman 13:3). Rétt eins og Samúel, stöndum við öll frammi fyrir múrum er við „[greiðum] Drottni veg“ (Helaman 14:9) og keppumst við að fylgja spámönnum hans. Rétt eins og Samúel, þá berum við líka vitni um Jesú Krist, „sem vissulega mun koma“ og bjóða öllum að „[trúa] á nafn hans“ (Helaman 13:6; 14:13). Ekki munu allir hlýða á og sumir munu jafnvel snúast gegn okkur. En þeir sem trúa þessum boðskap í trú á Krist, komast að því að þetta eru „mikil tíðindi fagnaðar og gleði“ (Helaman 16:14).

Hugmyndir fyrir nám á heimili eða í kirkju

Helaman 13

Drottinn veitir aðvaranir fyrir tilstilli spámanna sinna.

Í ritningunum er spámönnum oft líkt við varðmenn á múr eða í turni, sem vara við hættum (sjá Jesaja 62:6; Esekíel 33:1–7). Þegar þið lærið orð Samúels í Helaman 13, hugleiðið þá hvernig hann er eins varðmaður fyrir ykkur. Hvað sagði hann sem virðist eiga við um okkar tíma? (sjá einkum vers 8, 21–22, 26–29, 31 og 38). Dæmi: Hvað kenndi Samúel um iðrun? Um auðmýkt og auðæfi? Um hamingjuleit „í misgjörðum“?

Þið gætuð líka leitað í boðskap nýlegrar aðalráðstefnu að álíka aðvörunum sem Drottinn hefur gefið með nútíma spámönnum. Hvað finnst ykkur þið hvött til að gera varðandi þessar aðvaranir?

Leitið að forskrift. Forskrift er áætlun eða líkan sem hægt er að nota til að ljúka verkefni. Í ritningunum finnum við forskrift sem sýnir hvernig Drottinn framkvæmir verk sitt, t.d. með því að senda þjóna sína til að aðvara fólkið.

Ljósmynd
fjölskylda horfir á aðalráðstefnu

Þegar við hlustum á spámenn, mun þeir vísa okkur til Jesú Krists

Helaman 13–15

Ljósmynd
seminary icon
Guð býður mér að iðrast.

Aðvaranir Samúels varðandi dóma Guðs, fólu alltaf í sér náðarboð um að iðrast. Leitið að þessum boðum í Helaman 13–15 (sjá einkum Helaman 13:6–11; 14:15–19; 15:7–8). Hvað lærið þið í þessum versum um iðrun? Sumir líta á iðrun sem alvarlega refsingu – nokkuð sem forðast ætti. Hvernig vildi Samúel að Nefítarnir skildu iðrun, að ykkar mati?

Til að auka skilning ykkar á þessu, gætuð þið lesið boðskap Russells M. Nelson forseta, „Við getum gert betur og verið betri“ (aðalráðstefna, apríl 2019). Hvernig skilgreinir hann iðrun? Hvaða blessun einlægrar iðrunar finnið þið í boðskap hans? Þið gætuð líka leitað að ákveðnum hlutum sem spámaðurinn bauð okkur að breyta. Hverju er heilagur andi að segja að þið þurfið að breyta? Skoðið það að skrá þá persónulegu opinberun sem þið hljótið.

Hvernig er iðrun öðruvísi en einungis hegðunarbreyting? Af hverju er mikilvægt að taka á móti boði Guðs um að iðrast? Þegar þið veltið þessu fyrir ykkur, skulið þið íhuga að syngja eða hlusta á sálm sem tilgreinir þetta boð, svo sem „Hve blíð eru boðorð Guðs“ (Sálmar, nr. 18).

Sjá einnig „Jesús Kristur mun hjálpa þér,“ Til styrktar ungmennum: Leiðarvísir að ákvarðanatökum, 6–9; „Repentance: A Joyful Choice,“ „Principles of Peace: Repentance“ (myndbönd), Gospel Library; Leiðarvísir að ritningunum „Iðrun,“ Gospel Library.

Helaman 14; 16:13–23

Guð sendi tákn og undur til að vitna um fæðingu og dauða frelsarans.

Í Helaman 14 útskýrir Samúel að Drottinn gaf tákn um fæðingu og dauða frelsarans, svo fólkið „[megi] vita um komu [hans]“ og „trúa á nafn hans“ (Helaman 14:12). Þegar þið lesið Helaman 14, skráið þá niður táknin um fæðingu frelsarans í versum 1–8 og táknin um dauða hans í versum 20–28. Hvers vegna haldið þið að þessi tákn séu áhrifarík leið til að vísa á fæðingu og dauða Jesú Krists?

Önnur persónulegri og síður stórfengleg tákn geta hjálpað ykkur að „trúa á nafn [frelsarans].“ Hvað hefur hann gert til að styrkja trú ykkar á sig?

Hvaða aðvörun er gefin varðandi tákn í Helaman 16:13–23? Hvernig getið þið forðast hugarfar fólksins sem lýst er í þessum versum?

Sjá einnig Alma 30:43–52; Ronald A. Rasband, „Að guðlegri skipan,“ aðalráðstefna, október 2017.

Helaman 15:3

Tyftun Drottins er tákn um kærleika hans.

Orð Samúels hafa að geyma margs konar ávítur, en Helaman 15:3 gefur okkur sjónarhorn á tyftun Drottins. Hvernig getur tyftun Drottins verið tákn um kærleika hans? Hvaða staðfestingar sjáið þið um elsku og miskunn Drottins í spádómum og aðvörunum Samúels?

Íhugið að læra boðskap öldungs D. Todds Christofferson, „Alla þá, sem ég elska, tyfta ég og aga” (aðalráðstefna, apríl 2011), og leita þriggja atriða er varða guðlega tyftun. Hvenær hafið þið séð Guð vinna á þennan hátt í ykkar lífi?

Helaman 16

Spámenn vísa mér á Jesú Krist.

Hvað lærið þið í Helaman 16 um þá sem meðtóku kenningar Samúels? Hvað lærið þið um þá sem höfnuðu honum? Hugleiðið hvernig það hefur hjálpað ykkur að komast nær Jesú Kristi að fylgja lifandi spámönnum?

Sjá útgáfur þessa mánaðar af tímaritunum Líahóna og Til styrktar ungmennum til að fá fleiri hugmyndir.

Hugmyndir fyrir kennslu barna

Helaman 13:2–5

Guð getur talað til mín í hjarta mínu.

  • Hvernig getið þið kennt börnum ykkar að Guð geti talað til hjartna okkar, eins og hann gerði við Samúel? Þið gætuð ef til vill beðið þau að sýna þér mismunandi leiðir til að eiga samskipti án orða (svo sem með bendingum eða svipbrigðum). Þetta gæti leitt til umræðu um það hvernig himneskur faðir hefur samskipti við okkur á mismunandi hátt. Sem hluta af þessari umræðu, gætuð þið og börn ykkar horft á mynd af Lamanítanum Samúel (í þessum lexíudrögum eru tvær) og lesið Helaman 13:2–5 og látið börn ykkar hlusta eftir því hvernig Guð sagði Samúel hvað hann ætti að segja.

  • Mörg okkar – einkum börnin – þurfum hjálp við að læra að þekkja hvernig og hvenær Guð talar til okkar. Þið gætuð sagt börnum ykkar frá því þegar heilagur andi hjálpaði ykkur að vita í hjartanu hvað Guð vildi að þið mynduð gera eða segja. Útskýrið hvernig þið vissuð að Guð var að tala til ykkar. Börn ykkar gætu ef til vill líka sagt frá álíka reynslu sem þau hafa upplifað.

Helaman 14:2–7, 20–25

Spámenn kenna um Jesú Krist.

  • Að syngja saman „Samúel segir frá Jesúbarninu“ (Barnastjarnan, des. 1992) gæti verið góður kostur til að kenna börnum ykkar um það sem Samúel kennir um Jesú Krist. Annar kostur er að miðla „kafla 40: Lamanítinn Samúel segir frá Jesú Kristi“ (Sögur úr Mormónsbók, 111–13). Hvað kenndi Samúel um frelsarann? Þið gætuð ef til vill líka sagt frá því sem nútíma spámenn kenna um hann. Hvernig styrkja orð þeirra trú ykkar á hann?

Helaman 16:1–6

Ég hlýt blessanir þegar ég fylgi spámanninum.

  • Þið getið byggt upp traust barna ykkar á spámanninum með því að sýna þeim dæmi um fólk sem var trúfast. Sum þeirra má finna í Helaman 16:1, 5. Þegar þið lesið, gætu börn ykkar staðið upp þegar þau heyra eitthvað sem fólkið gerði þegar það trúði orðum Samúels. Þegar þið síðan lesið vers 2 og 6, gætu börn ykkar sest niður þegar þau heyra eitthvað sem fólkið gerði þegar það trúði ekki. Hvernig getum við sýnt að við trúum orðum hins lifandi spámanns? Segið börnum ykkar frá því hvernig þið eruð blessuð þegar þið fylgið leiðsögn Drottins gefinni með spámönnum hans.

Sjá útgáfu þessa mánaðar af tímaritinu Barnavinur til að fá fleiri hugmyndir.

Ljósmynd
Lamanítinn Samúel

Samúel Lamaníti, eftir Lester Yocum.