Kom, fylg mér 2024
15.–21. júlí: „Kraftur Guðs orðs.“ Alma 30–31


„15.–21. júlí: ‚Kraftur Guðs orðs.‘ Alma 30–31,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Mormónsbók 2024 (2023)

„15.–21. júlí. Alma 30–31,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2024 (2023)

Ljósmynd
Alma kennir Kóríhor

Allt ber vott um að til sé Guð (Alma og Kóríhor), eftir Walter Rane

15.–21. júlí: „Kraftur Guðs orðs“

Alma 30–31

Frásögnin í Alma 30–31 sýnir glögglega kraft orðsins – til góðs og ills. „Fjálgleg“ orð „fagurgala,“ hins falska kennara Kóríhors, voru ógn við að „leiða margar sálir til tortímingar“ (Alma 30:31, 47). Kenningar nefísks andófsmanns að nafni Sóram, urðu á líkan hátt til þess að fjöldi fólks lenti „í mikilli villu“ og „rangsnéri vegum Drottins“ (Alma 31:9, 11).

Alma hafði aftur á móti óbilandi trú á að orð Guðs myndi hafa „kröftugri áhrif á huga fólks en sverðið eða nokkuð annað“ (Alma 31:5). Orð Alma fólu í sér eilífan sannleika og vöktu kraft himins til að þagga niður í Kóríhor (sjá Alma 30:39–50) og blessanir himins yfir þá sem fóru með honum til að færa Sóramítunum aftur sannleikann (sjá Alma 31:31–38). Þetta eru dýrmæt fordæmi fyrir fylgjendur Krists á okkar tíma þegar falskur boðskapur er svo algengur. Við getum þó fundið sannleikann með því að treysta á „kraft Guðs orðs,“ líkt og Alma gerði (Alma 31:5).

Hugmyndir fyrir nám á heimili eða í kirkju

Alma 30:6–31

Ljósmynd
trúarskólatákn
Óvinurinn reynir að blekkja mig með falskenningum.

Í Alma 30 er Kóríhor sagður vera „andkristur“ (vers 6). Andkristur er einhver eða eitthvað sem er opinberlega eða leynilega í andstöðu við Jesú Krist og fagnaðarerindi hans. Hvaða vers í Alma 30:6–31 sýna að Kóríhor samsvarar þessari lýsingu? Að læra falskenningar Kóríhors getur hjálpað ykkur að bera kennsl á álíka kenningar og hafna þeim. Eftirfarandi verkefni gætu hjálpað ykkur við námið:

  • Hvaða sýnikennslu gætuð þið haft til að auka skilning á muninum á milli kenninga frelsarans og falskra eftirlíkinga Satans? Dæmi um það eru tálbeitur sem notaðar eru til fiskveiða, gervipeningar og auglýsingar sem gefa rangar upplýsingar. Hvernig getið þið vitað ef eitthvað er falskt? Hvernig getið þið þekkt sannleikann?

  • Íhugið að búa til lista yfir falskenningarnar sem Kóríhor kenndi í Alma 30:6–31. Hverjar kenninga hans gætu verið aðlaðandi fyrir fólk á okkar tíma? (sjá Alma 30:12–18, 23–28). Hvaða skaði getur hlotist af því að meðtaka slíkar hugmyndir? Hvaða falskan boðskap notar óvinurinn á okkar tíma til að reyna að blekkja okkur?

  • Hvað gerði Alma til að takast á við kenningar Kóríhor með sannleika? (sjá Alma 30:31–54). Hvernig getið þið notað þessar sömu reglur í lífi ykkar?

Spámenn og postular okkar tíma hjálpa okkur að skilja muninn á sannleikanum og lygum Satans, líkt og Alma gerði. Hvaða leiðsögn finnið þið í þessum boðskap: Gary E. Stevenson, „Ekki skaltu blekkja mig“ (aðalráðstefna, október 2019); Dallin H. Oaks, „Látið ekki blekkjast“ (aðalráðstefna, október 2004).

Sjá einnig Gospel Topics, „Seek Truth and Avoid Deception,“ Gospel Library; „Ó, segðu oss frá því hvað sannleikur er,“ Sálmar, nr. 99.

Ljósmynd
Kóríhor ræðir við Alma

Kóríhor tekst á við Alma, eftir Robert T. Barrett

Alma 30:39–46

Allt vitnar um Guð.

Margir á okkar tíma trúa að enginn Guð sé til. Hvað finnið þið í Alma 30:39–46 sem hjálpar ykkur að vita að Guð er raunverulegur? Hvað kemur í veg fyrir að við þekkjum hann? Hvaða fleiri vitnisburði hefur Guð veitt ykkur um að hann lifir?

Alma 30:56–60

Óvinurinn styður ekki fylgjendur sína.

Hvað lærum við af Alma 30:56–60 um það hvernig djöfullinn kemur fram við fylgjendur sína? Hvað getið þið gert til að vernda heimili ykkar gegn áhrifum hans?

Sjá einnig Alma 36:3.

Alma 31

Guðs orð hefur kraft til að leiða fólk til réttlætis.

Sumir gætu hafa talið að sá vandi að Sóramítarnir skildu sig frá Nefítunum krefðist stjórnmálalegrar eða hernaðarlegrar lausnar (sjá Alma 31:1–4). Alma hafði hins vegar lært að treysta á „kraft Guðs orðs“ (Alma 31:5). Hvað lærið þið af Alma 31:5 um kraft orðs Guðs? (sjá einnig Hebreabréfið 4:12; 1. Nefí 15:23–24; 2. Nefí 31:20; Jakob 2:8; Helaman 3:29–30).

Hvaða annan trúarsannleika getið þið fundið sem á við um ykkar lífsreynslu þegar þið lærið Alma 31? Dæmi:

  • Hvernig hafið þið séð Guðs orð leiða fólk til að gera það sem gott er? (sjá vers 5).

  • Gerið samanburð á viðhorfi, tilfinningum og breytni Alma gagnvart öðrum (sjá vers 34–35) og Sóramítanna (sjá vers 17–28). Hvernig getið þið verið líkari Alma?

  • Hvað finnið þið í Alma 31:30–38 sem getur hjálpað þeim sem hryggjast yfir syndum annarra?

Alma 31:5–6

Vegna Jesú Krists, geta allir breyst.

Veitið athygli þeim hópi fólks sem Alma tók með sér til að kenna Sóramítum fagnaðarerindið (sjá Alma 31:6). Hvað lærið þið um líf þessa fólks í Mósía 27:8–37; 28:4; Alma 10:1–6; 11:21–25; 15:3–12? Hvaða boðskap gætuð þið lært af upplifunum þeirra?

Sjá útgáfur þessa mánaðar af tímaritunum Líahóna og Til styrktar ungmennum til að fá fleiri hugmyndir.

Hugmyndir fyrir kennslu barna

Alma 30

Mormónsbók varar mig við falskenningum.

  • Íhugið að sýna nokkra hluti (svo sem peninga eða matvæli) og eftirmyndir úr leikföngum af þessum hlutum. Þetta gæti leitt til umræðu um það hvernig hægt er að greina á milli þess sem er raunverulegt og falsað. Þið gætuð síðan hjálpað börnum ykkar að bera kennsl á lygina eða falskenningarnar í Alma 30:12–18 sem Kóríhor kenndi um Guð. Hvernig svaraði Alma þessum lygum í Alma 30:32–35? Hvað lærum við af þessu fordæmi?

Alma 30:44

Allt vitnar um Guð.

  • Alma sagði frá því hvernig allt á himni og jörðu vitnaði um að Guð lifði. Ef mögulegt er, farið þá í göngutúr með börnum ykkar eða standið við glugga er þið lesið Alma 30:44. Biðjið þau að benda á hluti sem þau sjá sem gerir þeim mögulegt að vita að Guð sé raunverulegur og að hann elski þau. Þau gætu líka teiknað myndir af hlutum sem þau uppgötva (sjá verkefnasíða þessarar viku).

  • Meðan þið og börn ykkar syngið „Himnafaðir elskar mig“ (Barnasöngbókin, 16), látið þá bolta eða annan hlut ganga á milli ykkar. Stöðvið tónlistina endrum og eins og biðjið barnið sem heldur á boltanum eða hlutnum að segja frá einu sem himneskur faðir skapaði, sem það er þakklátt fyrir.

Börn læra með sýnikennslu. Sýnikennsla mun hjálpa börnum ykkar að skilja betur og muna lengur það sem þeim hefur verið kennt. Flest verkefnin fyrir börn í þessum lexíudrögum fela í sér sýnikennslu. Íhugið að hafa sömu sýnikennslu aftur í framtíðinni til að hjálpa börnum ykkar að muna eftir því sem þau lærðu.

Alma 31:5

Orð Guðs er kröftugt.

  • Hvernig getið þið hjálpað börnum ykkar að skilja að orð Guð er kröftugra en „nokkuð annað“? (Alma 31:5). Íhugið að spyrja þau um eitthvað eða einhvern kröftugan eða sýna myndir af einhverju sem er kröftugt. Hvað gerir þetta kröftugt? Lesið saman Alma 31:5 og spyrjið börn ykkar að því hvað þeim finnst þetta vers merkja. Segið þeim frá upplifun þar sem orð Guðs hafði kröftug áhrif á ykkur.

Alma 31:8–35

Himneskur faðir heyrir bænir mínar.

  • Gerið stutta samantekt á frásögninni um Alma og Sóramítana með því að nota vers í Alma 31:8–35 (sjá einnig „kafla 28: Sóramítarnir og Rameumptom,“ Sögur úr Mormónsbók, 78–80). Hjálpið börnum ykkar að bera kennsl á það sem Sóramítarnir sögðu í bæn sinni (sjá Alma 31:15–18) er þau hjálpa ykkur að byggja Rameumptom-turn úr kubbum eða steinum. Útskýrið að þetta sé ekki bænaháttur okkar. Þegar þið og börn ykkar ræðið hvernig okkur ber að biðjast fyrir, látið þau þá fjarlægja einn kubb eða stein í einu. Þau gætu ef til vill geymt einn stein við rúmið sitt til að minna þau á að biðja alltaf á morgnana og kvöldin. Þau gætu líka haft gaman af því að skreyta steininn sinn.

Sjá útgáfu þessa mánaðar af tímaritinu Barnavinur til að fá fleiri hugmyndir.

Ljósmynd
Sóramíti biðst fyrir á Rameumptom

Sóramítarnir „hreyktu sér upp í hjörtum sínum með sjálfshóli og drambi“ (Alma 31:25).