Kom, fylg mér 2024
27. maí–2. júní: „Þeir nefndust Guðs lýður.“ Mósía 25–28


„27. maí–2. júní: ‚Þeir nefndust Guðs lýður.‘ Mósía 25–28,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Mormónsbók 2024 (2024)

„27. maí–2. júní. Mósía 25–28,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2024 (2024)

Ljósmynd
Engill birtist Alma og sonum Mósía.

Trúskipti Alma yngri, eftir Gary L. Kapp

27. maí–2. júní: „Þeir nefndust Guðs lýður“

Mósía 25–28

Eftir nálega þriggja kynslóða aðskilnað í landinu, urðu Nefítar ein þjóð á ný. Fólk Limís, fólk Alma og fólk Mósía – jafnvel fólk Sarahemla, sem ekki voru afkomendur Nefís – var nú allt „talið til Nefíta“ (Mósía 25:13). Margir þeirra óskuðu líka eftir því að verða meðlimir kirkju Drottins, eins og fólk Alma hafði gert. Þannig að „hver sá, sem hafði hug á að taka á sig nafn Krists“ var skírður „og þeir nefndust Guðs lýður“ (Mósía 25:23–24). Eftir áralanga misklíð og ánauð virtist sem Nefítar gætu loks notið tímabils friðar.

Áður en langt um leið hófu trúlausir menn þó að ofsækja hina heilögu. Það sem gerði þetta svo átakanlegt var, að margir hinna trúlausu voru börn hinna trúuðu – hin „upprennandi kynslóð“ (Mósía 26:1), þar á meðal synir Mósía og einn sona Alma. Frásögnin er um undursamlega vitjun engils. En hið sanna kraftaverk þessarar frásagnar er ekki bara um birtingu engils til villuráfandi sonar. Trúarumbreyting er kraftaverk sem þarf að gerast hjá okkur öllum á einn eða annan hátt.

Hugmyndir fyrir nám á heimili eða í kirkju

Mósía 26:1–6

Ég get hjálpað öðrum að koma til Jesú Krists.

Trúarumbreyting er persónuleg – hana er ekki mögulegt að yfirfæra eins og arf til barna sinna. Þegar þið lesið Mósía 26:1–26, íhugið þá mögulegar ástæður fyrir því að hin „upprennandi kynslóð“ varð fráhverf og takið eftir afleiðingum vantrúar þeirra. Þið gætuð líka hugsað til þeirra sem þið vilduð geta leitt til Krists. Í öllu námi ykkar í Mósía 25–28, gæti andinn hvíslað að ykkur því sem þið getið gert til að hjálpa þeim að þróa trú á Jesú Krist.

Mósía 26:6–39

Trúir þjónar Guðs leitast við að gera vilja hans.

Stundum gætum við talið að kirkjuleiðtogar eins og Alma viti ávallt nákvæmlega hvað gera skal. Í Mósía 26 lesum við um vandamál í kirkjunni sem Alma hafði aldrei áður tekist á við. Hvað gerði Alma í þessum aðstæðum? (sjá Mósía 26:13–14, 33–34, 38–39). Hvað kennir reynsla Alma um hvernig þið gætuð tekist á við erfið vandamál í fjölskyldu ykkar eða í þjónustu í kirkjunni?

Hvað kenndi Drottinn Alma í Mósía 26:15–32? Gætið að því að eitthvað af svörum Drottins tengdust ekki beint fyrirspurn Alma. Hvað segir þetta um bæn og að hljóta persónulega opinberun?

Reglur eru eilífar. Hugleiðið hvernig sögur og kenningar ritninganna eiga við um líf ykkar sjálfra. Þið gætuð t.d. spurt ykkur sjálf: „Hvað hef ég upplifað sem er eins og Alma upplifði?“ eða „Hvaða sannleikur sem Alma kenndi getur hjálpað mér?“

Mósía 26:15–31

Guð fyrirgefur mér fúslega þegar ég iðrast og fyrirgef öðrum.

Iðrun og fyrirgefning eru endurtekið efni í Mósía 26–27. Gætið að orðum og orðtökum sem kenna um iðrun og fyrirgefningu í Mósía 26:22–24, 29–31; 27:23–37.

Sumir gætu velt fyrir sér hvort Guð hafi í raun fyrirgefið þeim. Hvernig haldið þið að öldungurinn Alma hefði ráðlagt meðlimum kirkjunnar í Sarahemla sem hefðu slíkar áhyggjur? Hvað lærði Alma af Drottni í Mósía 26:15–31 sem gæti hjálpað slíkum kirkjumeðlim? (sjá einnig Moróní 6:8; Kenning og sáttmálar 19:16–18; 58:42–43).

Mósía 27:8–37; 28:1–4

Ljósmynd
trúarskólatákn
Ég get breyst til hins betra með hjálp Jesú Krists.

Augljóst var að Alma yngri þurfti andlega endurfæðingu. Hann og synir Mósía voru „hinir svívirðilegustu meðal syndara“ (Mósía 28:4). Skömmu eftir trúskipti sín vitnaði Alma um að trúskipti væru öllum nauðsynleg: „Undrast ekki,“ sagði hann, „að allt mannkyn … þurfi að endurfæðast“ (Mósía 27:25; skáletrað hér).

Þegar þið lesið um reynslu Alma í Mósía 27:8–37, íhugið þá að setja ykkur sjálf í sögu hans. Getið þið hugsað um eitthvað í ykkar fari sem þarf að breyta? Hver gæti verið að biðja fyrir ykkur „í mikilli trú,“ líkt og faðir Alma gerði? Hvað hafið þið upplifað sem „[sannfærir] ykkur um kraft og vald Guðs“? (Mósía 27:14). Hve „mikið“ hefur Drottinn gert fyrir ykkur eða fjölskyldu ykkar sem þið ættuð að „[minnast]“? (Mósía 27:16). Hvað lærið þið af orðum Alma yngri og viðbrögðum hans um merkingu þess að endurfæðast? Hvaða dæmi hafið þið séð um þetta?

Gefið ykkur stutta stund til að skrá nokkrar af þeim leiðum frelsarans til að hjálpa ykkur að breytast – eða endurfæðast – jafnvel þótt upplifun ykkar sé ekki jafn stórbrotin eða skyndileg og hjá Alma. Er einhver sálmur sem þið gætuð sungið eða hlustað á sem tjáir tilfinningar ykkar, svo sem „Um Jesú ég hugsa“? (Sálmar, nr. 65). Hverjum gæti gagnast að hlusta á upplifanir ykkar?

Öldungur David A. Bednar líkti því ferli að endurfæðast við að sýra gúrkur (sjá „Ykkur ber að fæðast að nýju,“ aðalráðstefna, apríl 2007). Hvað kennir þessi samlíking ykkur um trúarumbreytingu?

Sjá einnig Gospel Topics, „Become like Jesus Christ,“ Gospel Library; „Alma Testifies He Has Been Born of God“ (myndband), Gospel Library.

Mósía 27:8–24

Guð heyrir bænir mínar og mun svara þeim að eigin vilja og tíma.

Þið hafið kannski verið í aðstæðum Alma eldri með fjölskyldumeðlim sem tekur skaðlegar ákvarðanir. Hvað finnið þið í Mósía 27:8–24 sem veitir ykkur von? Hvaða áhrif gætu þessi vers haft á bænir ykkar í þágu annarra?

Sjá útgáfur þessa mánaðar af tímaritunum Líahóna og Til styrktar ungmennum til að fá fleiri hugmyndir.

Hugmyndir fyrir kennslu barna

Mósía 26:30–31

Drottin vill að ég fyrirgefi.

  • Til að hjálpa börnum ykkar að komast að því sem Drottinn kenndi Alma um fyrirgefningu, gætuð þið boðið þeim að lesa Mósía 26:29–31 og talið upp hversu oft orðið „fyrirgefa“ birtist í einhverri mynd. Hvað kenna þessi vers um að fyrirgefa öðrum? (Sjá einnig „Hjálpa mér, faðir,“ Barnasöngbókin, 52.)

  • Til að leggja áherslu á fordæmi frelsarans um að fyrirgefa, gætuð þið sýnt mynd af honum á krossinum og lesið saman Lúkas 23:33–34. Hvað bað Jesús himneskan föður að gera fyrir fólkið sem setti hann á krossinn? Eftir þessa umræðu, gætu börnin ykkar leikið hlutverk þar sem þau fyrirgefa hvert öðru.

  • Stundum er erfitt að fyrirgefa sjálfum okkur þegar við gerum mistök. Hvernig geta orð Guðs til Alma hjálpað? Börn ykkar gætu látið eins og þau séu að tala við einhvern sem heldur að Guð muni aldrei fyrirgefa þeim. Bjóðið börnum ykkar að finna eitthvað í Mósía 26:22–23, 29–30 sem gæti hjálpað viðkomandi.

Mósía 27:8–37

Jesús Kristur hjálpar mér að verða líkari sér.

  • Trúarumbreyting Alma yngri og sona Mósía gæti sýnt börnum ykkar að allir geti breyst fyrir kraft frelsarans. Þið og börn ykkar gætuð notað málverkin í þessum lexíudrögum, verkefnasíðu þessarar viku og nokkur lykilvers í Mósía 27:8–37 til að segja söguna (sjá einnig „kafla 18: Alma yngri iðrast,“ í Sögur úr Mormónsbók, 49–52). Leggið sérstaka áherslu á vers 24 til að kenna að Alma iðraðist og Jesús Kristur hjálpaði honum að breytast. Látið börn ykkar leika söguna ef þau vilja það.

Ljósmynd
Alma yngri borinn inn í hús föður síns

Faðir hans fagnaði, eftir Walter Rane

Mósía 27:8–24

Ég get beðist fyrir og fastað til að blessa fólkið sem ég elska.

  • Lesið saman Mósía 27:8–24 og biðjið börn ykkar að bera kennsl á það sem Alma og fólk hans gerði til að hjálpa Alma yngri. Hafið þið einhvern tíma fastað og beðið fyrir einhverjum? Miðlið börnum ykkar upplifun ykkar og látið þau miðla sínum.

  • Þekkið þið eða börn ykkar einhvern sem þarfnast hjálpar Guðs? Þið gætuð ef til vill fylgt fordæmi Alma með því að biðja saman fyrir þeim einstaklingi og ef börn ykkar geta, þá fastað líka fyrir honum.

Sjá útgáfu þessa mánaðar af tímaritinu Barnavinur til að fá fleiri hugmyndir.

Ljósmynd
engill birtist Alma yngri

Myndskreyting af engli sem birtist Alma yngri, eftir Kevin Keele