Kom, fylg mér 2024
18.–24. mars: „Þetta er vegurinn.“ 2. Nefí 31–33


„18.–24. mars: ‚Þetta er vegurinn.‘ 2. Nefí 31–33,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Mormónsbók 2024 (2024)

„18.–24. mars. 2. Nefí 31–33,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2024 (2024)

Ljósmynd
Jesús kennir lærisveinum sínum

Kristur kennir lærisveinum sínum, eftir Justin Kunz

18.–24. mars: „Þetta er vegurinn“

2. Nefí 31–33

Meðal þess síðasta sem Nefí skráði, er þessi yfirlýsing: „Því að svo hefur Drottinn boðið mér, og mitt er að hlýða“ (2. Nefí 33:15). Þetta er góð samantekt á lífi Nefís. Hann reyndi að skilja vilja Drottins og hlýddi honum af hugdirfsku – hvort heldur það fólst í því að hætta eigin lífi til að ná látúnstöflunum af Laban, smíða skip til að sigla yfir hafið eða kenna kenningu Krists af trúmennsku, skýrleika og krafti. Nefí gat talað af sannfæringu um að „sækja fram, [af staðfestu] í Kristi,“ með því að fylgja „hinum krappa og þrönga vegi, sem liggur til eilífs lífs“ (2. Nefí 31:20, 18), af því að það var sá vegur sem hann fylgdi. Hann vissi af eigin reynslu að þessi vegur væri gleðivegur, þótt erfiður væri á köflum, og að „enginn annar vegur [væri] til og ekkert annað nafn gefið undir himninum, sem frelsað [gæti] manninn í Guðs ríki“ (2. Nefí 31:21).

Hugmyndir fyrir nám á heimili eða í kirkju

2 Nefí 31

Eina leiðin til eilífs lífs er Jesús Kristur og kenning hans.

Hvernig mynduð þið skilgreina veg eilífs lífs, ef þið þyrftuð að gera það með fáeinum orðum? Gætið að því hvernig Nefí lýsti honum í 2. Nefí 31. Íhugið að teikna veg og skrifa við hlið hans nokkrar af reglunum eða skrefunum sem þið finnið í þessum kapítulum. Þið gætuð bætt við teikninguna ykkar eigin samantekt á því sem Nefí kenndi um hverja reglu.

Þegar þið lesið 2. Nefí 31:18–20, leggið þá mat á eigin viðleitni til að „sækja fram“ á vegi fagnaðarerindisins.

Sjá einnig „Fylkjum liði,“ Sálmar, nr. 93.

Ljósmynd
fjölskylda biður saman

Að fylgja kenningum Jesú Krists, leiðir okkur til eilífs lífs.

2. Nefí 31:4–13

Jesús Kristur sýndi fullkomið fordæmi um hlýðni með því að láta skírast.

Hvort sem þið skírðust í gær eða fyrir 80 árum, þá var sá atburður mikilvægur. Þið gerðuð eilífan sáttmála um að fylgja Jesú Kristi. Hugsið um skírn ykkar sjálfra er þið lesið um skírn frelsarans í 2. Nefí 31:4–13. Það gæti hjálpað að svara spurningum sem þessum:

  • Af hverju var Kristur skírður? Af hverju valdi ég að skírast?

  • Hvaða loforð gaf ég við skírn mína? Hverju lofar Drottinn á móti? (sjá vers 12–13; sjá einnig Mósía 18:10, 13).

  • Hvernig get ég sýnt að ég er enn staðráðin/n í því að fylgja Jesú Kristi?

2. Nefí 31:15–20

„Sá, sem stöðugur stendur allt til enda, mun frelsast.“

Þegar þið lesið 2. Nefí 31:15–20, spyrjið ykkur sjálf þá: „Hvernig veit ég að ég er að standast allt til enda?“ Hvað lærið þið af Nefí sem getur hjálpað ykkur að svara þessari spurningu?

Öldungur Dale G. Renlund kenndi: „Að standast allt til enda, er ekki aðgreint skref í kenningu Krists – eins og að ljúka fyrstu fjórum skrefunum og hníga síðan niður, gnístandi tönnum og bíða þess að deyja. Nei, að standast allt til enda, er að endurtaka skrefin fúslega og meðvitað“ („Lifelong Conversion“ [trúarsamkoma í Brigham Young-háskóla, 14. september 2021], 2, speeches.byu.edu). Hvernig getið þið endurtekið skrefin í kenningu Krists (trú, iðrun, skírn og viðtöku heilags anda)?

2. Nefí 32; 33:2

Ljósmynd
trúarskólatákn
Guð mun sýna mér hvað mér ber að gera með orðum Krists og heilögum anda.

Hafið þið einhvern tíma verið óviss um næstu skref lífs ykkar? Fólk Nefís hafði álíka áhyggjur (sjá 2. Nefí 32:1). Gætið að svörum Nefís í 2. Nefí 32:2–9. Hvernig mynduð þið segja með eigin orðum það sem Nefí kenndi? Hvaða upplifanir hafa kennt ykkur að orð Nefís eru sönn?

Íhugið að skrá þær ákvarðanir eða aðstæður (nú og í framtíð) þar sem þið þarfnist leiðsagnar Guðs. Hvað getið þið lært af 2. Nefí 32 sem mun hjálpa ykkur að hljóta innblástur frá honum? Hvað gæti fengið fólk til að „herða hjörtu sín gegn hinum heilaga anda“? (2. Nefí 33:2).

Þegar þið íhugið leiðsögn Nefís, hugsið þá um það hvernig þið lærið orð frelsarans. Mynduð þið lýsa því sem smábita eða veisluborði? Hver er munurinn, að ykkar mati? Íhugið hvernig þið getið gert upplifun ykkar af orðum frelsarans meira eins og um veislu væri að ræða. Þið gætuð ef til vill fengið hugmyndir frá vini eða fjölskyldumeðlim.

Endurnærast af orði Krists. Það eru margar leiðir til að endurnærast á orðum Krists, svo sem að biðja um innblástur, spyrja spurninga fyrir og meðan á námi stendur, skilgreina orð, íhuga, skrá millivísanir, skrá minnispunkta, leita að sannleika fagnaðarerindisins og tileinka sér ritningarnar í lífi ykkar (sjá 1. Nefí 19:23).

Hvernig bjóðið þið heilögum anda að vera ykkur stöðugur förunautur í lífinu, fremur en að hafa hann sem gest sem staldrar endrum og eins við? Lesið þrjár tillögur öldungs Davids A. Bednar til að gera samfélag heilags anda að „varanlegum raunveruleika“ í „Meðtak hinn heilaga anda“ (aðalráðstefna, október 2010). Hvernig munið þið tileinka ykkur þessa leiðsögn?

Sjá einnig Gospel Topics, „Revelation,“ Gospel Library; „Daily Bread: Pattern“ (myndband), Gospel Library.

2. Nefí 33

Mormónsbók sannfærir okkur öll um að trúa á Krist.

Í 2. Nefí 33, sem eru lokaorð Nefís, greinir hann frá hinum raunverulegu ástæðum að baki ritverks síns. Hvaða ástæður finnið þið í þessum kapítula? Ígrundið sögurnar og kenningarnar sem þið hafið lesið fram til þessa í 1. Nefí og 2. Nefí. Hvað hefur haft mesta áhrif á trú ykkar á Krist?

Sjá einnig „Nephi Records His Final Testimony“ (myndband), Gospel Library.

Sjá útgáfur þessa mánaðar af tímaritunum Líahóna og Til styrktar ungmennum til að fá fleiri hugmyndir.

Hugmyndir fyrir kennslu barna

2. Nefí 31:4–13

Þegar ég skírist, er ég að fylgja Jesú Kristi.

  • Aftast í þessum lexíudrögum er mynd af Jesú að láta skírast. Börn ykkar gætu ef til vill notað hana til að segja ykkur hvað þau vita um þennan atburð (sjá einnig Matteus 3:13–17). Af hverju vill Jesús að við skírumst eins og hann gerði? Börn ykkar gætu hlustað eftir ástæðum er þið lesið saman hluta af 2. Nefí 31:4–13. Það gæti verið gagnlegt ef einhver sem nýlega var skírður myndi segja frá þeirri upplifun sinni.

2 Nefí 31

Jesús Kristur kenndi mér hvernig snúa á aftur til himnesks föður.

  • Til að hjálpa börnum ykkar að raungera kenningarnar í 2. Nefí 31, gætu þau teiknað mynd af vegi með Jesú Krist við enda hans. Þið gætuð hjálpað þeim að finna eða teikna myndir af því sem táknar skrefin á þeim vegi, svo sem trú á Krist, iðrun, skírn, gjöf heilags anda og að standast allt til enda. Þau gætu bent á myndirnar þegar þið lesið saman 2. Nefí 31:17–20.

2. Nefí 32:3–5

Ég get endurnærst af orðum Krists.

  • Til að kenna um að „endurnærast“ af orðum Krists, gætuð þið beðið börn ykkar að leika hvernig þau myndu gæða sér á sínum eftirlætis rétti. Hverju sagði Nefí í 2. Nefí 32:3 að við ættum að endurnæra okkur á? Hvernig er það öðruvísi að endurnærast af orði Guð í stað þess að lesa það aðeins? Börn ykkar gætu ef til vill leikið hvernig það er öðruvísi. Segið þeim frá blessununum sem þið hafið hlotið við að endurnærast af ritningunum.

2. Nefí 32:8–9

Himneskur faðir vill að ég biðjist fyrir án afláts.

  • Eftir að hafa lesið 2. Nefí 32:8–9, ræðið þá við börn ykkar um ástæðu þess að Satan vill ekki að við biðjumst fyrir. Af hverju vill Guð að við „biðjum án afláts“? Börn ykkar gætu skráð eða teiknað myndir af aðstæðum þar sem þau gætu beðist fyrir. Þið gætuð síðan sungið söng sem kennir um bænina, til að mynda „Hóf þín dagsins hugsun fyrsta?“ (Sálmar, nr. 47). Þið gætuð skipt út einhverjum orðum í texta sálmsins fyrir orðin sem þau skráðu. Hvernig blessar Guð okkur þegar við biðjum án afláts?

Sjá útgáfu þessa mánaðar af tímaritinu Barnavinur til að fá fleiri hugmyndir.

Ljósmynd
Jóhannes skírari skírir Jesú

Til að fullnægja öllu réttlæti, eftir Liz Lemon Swindle