Líahóna
Umhyggja: Alþjóðlegt framtak til að bæta velferð kvenna og barna
Júlí 2025


„Umhyggja: Alþjóðlegt framtak til að bæta velferð kvenna og barna,“ Líahóna, ágúst 2025.

Sáttmálskonur

Umhyggja: Alþjóðlegt framtak til að bæta velferð kvenna og barna

Við færum öllum heiminum kærleika og líkn Jesú Krists þegar við önnumst fólk á heimilum okkar, í hverfum og samfélögum.

Hið innblásna starf Líknarfélagsins á sér djúpar rætur í hjálparstarfi og umönnun nauðstaddra, allt frá guðlegu upphafi þess árið 1842. Á 20. öldinni sendu Líknarfélagssystur korn sem þær höfðu geymt til að metta þá sem höfðu orðið illa úti í náttúruhamförum og hungursneyð. Þær stofnuðu sjúkrahús, hjálpuðu konum að sækja læknanám og þjálfuðu konur í hjúkrun og ljósmóðurfræðum og bættu dánartíðni mæðra og nýbura til muna. Þær efldu einnig menntun með því að koma á fót skólum og læsisáætlunum.

Í dag eru nærri átta milljónir Líknarfélagssystra um heim allan enn skuldbundnar því að annast hina þurfandi. Líknarfélagið styrkir upplifanir fyrir konur við að gefa og taka á móti líkn frelsarans – stundlegri og andlegri – fyrir öll börn Guðs. Þegar systur gefa og taka á móti líkn frelsarans, verða þær líkari honum, skynja elsku hans og þrá dýpra sáttmálssamband við hann.

Hið heimslæga framtak kirkjunnar til að bæta velferð kvenna og barna er upplifun – tækifæri til að veita öllum börnum Guðs stundlega og andlega líkn. Það gerum við með anda hans, úthlutuðu prestdæmisvaldi hans og krafti hans, sem við hljótum með því að halda sáttmála okkar við hann.

kona heldur á smábarni

Með þessu framtaki reynum við að blessa líf kvenna og barna á sem mestan hátt með þessum fjórum áhersluatriðum:

  • Næring barna

  • Mæðra- og nýburavernd

  • Bólusetningar

  • Fræðsla

Hvers vegna beinum við kröftum okkar, hjarta og úrræðum að alþjóðlegu framtaki til að bæta velferð kvenna og barna? Vegna þess að við trúum því að framfarir á heimsvísu hefjist með konum og börnum. Johnson forseti kennir: „Þegar þið blessið konu, þá blessið þið fjölskyldu, samfélag, þjóð. Þegar þið blessið barn, fjárfestið þið í framtíðinni.“

Sem hluta af þessu heimslæga framtaki, samþykkti Æðsta forsætisráðið 55,8 milljón dala framtak undir forystu kirkjunnar til að hraða umbótum í næringu og heilsugæslu í 12 löndum, þar sem er mikil þörf. Í samstarfi við átta sjálfstæð lykilsamtök, studdi kirkjan verkefni sem höfðu jákvæð áhrif á heilsu og velferð meira en 14 milljóna barna og nýrra og verðandi mæðra árið 2024.

Camille N. Johnson forseti spjallar við konu í Kosta Ríka

Camille N. Johnson forseti spjallar við þriggja barna móður á matargjafaviðburði í Kosta Ríka. „Hún var svo þakklát fyrir máltíð fyrir svöng börnin sín,“ sagði Johnson forseti. „Ég sagði henni að ég elskaði hana og, það sem mikilvægara var, að Guð elskaði hana.“

Hluti af mikilvægum málstað

Þegar ég (Johnson forseti) ferðaðist til Kosta Ríka á síðasta ári, átti ég kost á að aðstoða við matargjafaviðburð. Það snerti mig að hitta margar konur og börn sem komu til að fá holla máltíð. Ég fékk það skýrt á tilfinninguna að við værum einmitt að gera það sem frelsarinn myndi vilja að við gerðum. Ég hitti Yumana og fallegu börnin hennar þrjú. Þessi einlæga kona var að selja borðarósir sem hún hafði búið til, til að sjá fyrir fjölskyldu sinni. Hún var svo þakklát fyrir að fá að mat fyrir svöng börnin sín. Ég sagði henni að ég elskaði hana og, það sem mikilvægara var, að Guð elskaði hana. Yumana hlaut stundlega líkn og andlega líkn er hún fann og bar kennsl á elsku Guðs.

Við lítum á þetta heimslæga framtak sem hluta af starfi sáluhjálpar og upphafningar. Þegar fólk hlýtur stundlega líkn, vonum við og væntum þess að það finni elsku Drottins til þess og þrái að ganga inn í eða dýpka sáttmálssambandið við hann.

Viðleitni til að bæta heilsu og velferð kvenna og barna uppfyllir þá guðlegu ábyrgð að annast hina þurfandi. Þetta framtak blessar þó fólk á fleiri vegu:

  • Það eykur vitsmunalega og líkamlega getu hinnar upprennandi kynslóðar og hjálpar henni einnig að ná sínum andlegu möguleikum.

  • Það stuðlar að því að hjálpa nágrönnum okkar og vinum, sem margir hverjir vilja líka læra að hjálpa sínum eigin börnum.

  • Það býður upp á trúarmiðaðan málstað, sem hvetur til innihaldsríkrar þjónustu og tækifæra til þjónustu, einkum fyrir ungar fullorðnar konur.

Núverandi kynslóð ungs fullorðins fólks vill taka þátt í mikilvægum málstað, málstað sem hefur raunveruleg áhrif og skiptir máli í heiminum. Við vonumst til þess að þetta alþjóðlega framtak muni hjálpa systrum okkar að skilja að þær tilheyri nú þegar einum dásamlegasta málstað jarðar: Hinu guðlega félagi Drottins fyrir konur í endurreistri kirkju hans, Líknarfélaginu.

Við trúum að þetta alþjóðlega framtak muni hvetja meðlimi okkar og vini til að þjóna í samfélögum sínum. Við vonum að þau sjái að:

  • Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er að forgangsraða málefnum sem hafa áhrif á konur og börn og tileinka úrræði til að bæta heilsu þeirra og vellíðan.

  • Kirkjan og Líknarfélag hennar eru leiðandi á heimsvísu í mannúðarmálum.

  • Líknarfélagið er leitt af og samansett af konum sem vinna að því að bæta líf einstaklinga, fjölskyldna og samfélaga.

Þetta er bara byrjunin á einhverju einstöku sem mun blessa líf svo margra sem munu gefa og taka á móti líkn frelsarans í dag og á komandi árum, eftir því sem þessu heimslæga framtaki miðar áfram.

heilbrigðisstarfsmaður skoðar barn á Filippseyjum

Heilbrigðisstarfsmaður skoðar barn á Filippseyjum. Næring barna er eitt af fjórum áherslusviðum í hinu heimslæga framtaki kirkjunnar til að bæta velferð kvenna og barna.

Innan okkar áhrifasviðs

Heimskirkjan er fulltrúi okkar allra sem meðlima um heim allan í því að leiða saman samtök sem eru sérfræðingar í að takast á við stór málefni á fjarlægum stöðum. Samt sem áður er besta hjálparstarfið kannski gert nærri heimilum ykkar, er þið teygið ykkur yfir girðinguna eða yfir götuna. Þið lifið eftir sáttmálum ykkar og takið þátt í heimslægum málstað okkar þegar þið breytið af kristilegri samkennd og annist þá af alúð sem eru í fjölskyldum ykkar, hverfum og samfélögum.

Þið getið ef til vill ekki gert við þak nágrannans eða ferðast til annars lands til að hreinsa heimili fólks eftir hörmulegan fellibyl, en gætuð þið lesið fyrir barn, hlustað á vin sem á í erfiðleikum eða gefið föstufórn? Öll viðleitni er dýrmæt og mikilvæg í þessu verki, að annast hina þurfandi. Þakka ykkur fyrir að vera farvegur fyrir aðra til að taka á móti líkn frelsarans, með því að vera ljúfar hendur hans, liprir fætur, eyru hans sem hlusta, gæskuríkar varir hans.

Þegar kirkjan leiðir samtök saman til að starfa saman að heilsu og velferð kvenna og barna í hinum ýmsu löndum, leiða Líknarfélagssystur fólk saman til að takast á við áskoranir í eigin samfélögum. Konur í Líknarfélaginu þekkja þarfir, safna úrræðum og hjálpa til við að takast á við áskoranir. Það gerum við með hjálp andans, er við færum öllum börnum Guðs kærleika og líkn Jesú Krists.

Líknarfélagssystur sáu neyð innflytjenda í Mílanó á Ítalíu og skipulögðu þjónustutækifæri þar sem þær sáu þeim fyrir fatnaði og heimilismunum. Sumar systurnar gáfu lítið notaða hluti á meðan aðrar skipulögðu og þrifu framlögin. Framlag hverrar systur var mikilvægt. Líknarfélagssysturnar hjálpuðu gestum að skynja kærleika Jesú Krists þegar þeir komu í gjafamiðstöðina. Monia, Líknarfélagssystir á svæðinu, sagði: „Af hinu smáa kemur hið stóra. Við getum bæði blessað fólk innan og utan kirkjunnar. Það er fagnaðarerindið í verki.“

Spámaðurinn Joseph Smith talaði við hið nýstofnaða Líknarfélag og sagði við systurnar: „Ykkur veitast nú þær aðstæður að geta starfað samkvæmt þeirri samkennd sem Guð hefur blásið ykkur í brjóst.“

Meðan hún var í Guadalajara, Mexíkó, lærði systir Yee um og sá svo mörg ótrúleg dæmi um systur sem breyttu samkvæmt þessari samkennd, er þær reyndu að uppfylla staðbundna neyð.

Ein slík systir var systir Pulido, sem sá þörf á sjúkrahúsi á staðnum til að hjálpa fjölskyldum og einstaklingum sem komu langt að og þörfnuðust matar og fatnaðar meðan þau biðu meðferðar. Hún safnaði saman 120 Líknarfélagssystrum, nokkrum trúboðum og öðrum í samfélaginu til að finna matargjafir, vatn, ábreiður og fatnað. Um 1.500 manns gáfu vörur og systurnar og fleiri útbjuggu nesti og mat fyrir tæplega 1.200 manns. Vörurnar voru gefnar þeim sem biðu þess að röðin kæmi að sér til meðferðar á sjúkrahúsinu.

Þessi systir sagðist vera að gera þetta vegna þess að hún hafði samúð með þessu fólki. Hún útskýrði auðmjúklega með tárin í augunum að hún hefði verið einn af þessum einstaklingum sem biðu á sjúkrahúsinu þegar eiginmaður hennar kom og fór í krabbameinsmeðferð. Hún sagði mestu blessun sín og þrá vera að þjóna eins og frelsarinn myndi gera.

Jesús Kristur situr með tvö lítil börn

Veita líkn frelsarans

Systur, okkur hefur verið treyst fyrir því helga verki að færa öllum heiminum líkn frelsarans – stundlega og andlega. Það getum við gert með því að annast þá sem eru innan okkar áhrifasvæðis. Hvílík gjöf og blessun. Þátttaka í hinu alþjóðlega framtaki til að bæta velferð kvenna og barna er ein margra upplifana sem færir okkur nær frelsaranum. Við finnum elsku hans, ef við gerum eins og hann myndi gera; og þrá okkar fyrir og skuldbinding okkar til sáttmálssambands við hann vex stöðugt.

Þakkir til ykkar fyrir að hjálpa okkur við að færa systrum okkar og bræðrum hvarvetna kærleika og líkn Jesú Krists.

Þegar við reynum að líkja eftir Jesú Kristi, er mikilvægasta skilyrðið fyrir okkur, sem lærisveinar hans, að við skynjum þarfir hvers og eins í umhverfinu og bregðumst við af þolinmæði og kærleika.

Russell M. Nelson forseti sagði við okkur á heimslægri trúarsamkomu Líknarfélagsins 2024: „Ég blessa ykkur til að skilja að guðlegar gjafir ykkar, sem dóttir Guðs, veita ykkur ekki aðeins kraft til að breyta lífi, heldur til að breyta heiminum!“

„Þetta er okkar stórkostlega verkefni!.

Það er dásamlegur tími til að vera sáttmálskonur og meðlimir samfélags sem færir systrum okkar og bræðrum um allan heim líkn frelsarans – stundlega og andlega. Loka markmiðið með því að veita líkn og sjálfsbjörg, er að greiða systrum okkar og bræðrum leið til að þrá og meðtaka þann kærleika og miskunn sem stendur þeim til boða sem gera og halda sáttmála við Guð.

Við tjáum vitnisburð okkar um að Jesús Kristur sé líkn og að líknin sem hann býður sé eilíf.