Líahóna
Finnið gleði í vegferð ykkar í fagnaðarerindinu
Júlí 2025


„Finnið gleði í vegferð ykkar í fagnaðarerindinu,“ Líahóna, júlí 2025.

Finnið gleði í vegferð ykkar í fagnaðarerindinu

Endanleg niðurstaða þess að sýna Drottni elsku okkar, með því að halda boðorð hans, eru blessanir sem færa hamingju og gleði.

brosandi kirkjumeðlimir í Taílandi

Ljósmynd af glöðum kirkjumeðlimum í Taílandi: Christina Smith

Þegar ég þjónaði sem trúboðsleiðtogi í Japan fyrir nokkrum árum, sótti ég helgarráðstefnu í dreifbýlisborg í útjaðri trúboðs okkar. Umdæmisforsetinn hafði skipulagt fyrir mig að taka viðtal við mann sem hafði gengið í kirkjuna ári áður og var að leitast eftir því að fá musterismeðmæli. Hann vonaðist til að fá eigin musterisgjöf á eða nálægt eins árs skírnarafmæli sínu.

Í samtali okkar lýsti þessi nýi meðlimur því hve innilega þakklátur hann væri fyrir þær ríkulegu blessanir sem hann hafði hlotið árið frá því að hann var skírður. Hann naut þess að sækja vikulegar sakramentissamkomur og aðra fundi. Hann varð mjög virkur í starfinu í grein sinni. Gagnvart mér geislaði hann af sáttmálsfullvissu, vegna skilnings síns á tilgangi fagnaðarerindisins, sem nú var óaðskiljanlegur hluti af honum. Hann var lærisveinn Krists sem hafði upplifað gjörbreytingu í hjarta sínu (sjá Mósía 5:2).

Það sem eftir lifði af samtali okkar lofaði góðu. Við ræddum helgiathafnirnar og sáttmálana sem yrðu hluti af musterisupplifun hans. Hann svaraði játandi öllum stöðluðum spurningum sem tengjast því að hljóta musterismeðmæli.

Eftir viðtalið minnist ég þess að hafa tjáð umdæmisforsetanum hve þakklátur ég væri fyrir að hitta þennan framúrskarandi mann. Ég sagði honum hve hrifinn ég væri af því að trúboðarnir og meðlimirnir hefðu fundið og nært andlega einhvern af slíkum gæðaflokki og lofaði svo góðu.

Ég varð steinhissa þegar umdæmisforsetinn sagði frá því að þegar þessi maður tók að taka á móti kennslu frá trúboðunum og sækja kirkju rúmu ári áður, þá hefði hann verið heimilislaus og búið við afar erfiðar – næstum vonlausar – aðstæður. Umdæmisforsetinn lýsti því svo hvernig nám þessa bróður á fagnaðarerindinu og trúarumbreyting hans á nokkurra mánaða tímabili, hefði leitt til undursamlegrar breytingar hans, sem gerði hann bæði andlega og stundlega sjálfbjarga og veitti honum tilgang og gleði.

Fagnaðarerindið gaf honum skýra sýn á tilgang lífs hans. Einfaldur og dýrmætur sannleikur fagnaðarerindisins veitti svör við mikilvægum spurningum jarðlífsins, fyrst með vitneskjunni um að „Guð er faðir okkar á himnum og við erum börn hans. … Guð þekkir okkur persónulega og elskar okkur.“ Í áætlun sinni „hefur himneskur faðir … [gefið] margar gjafir og leiðarvísa til að hjálpa okkur að snúa aftur í návist sína.“

Slík var blessunin fyrir þennan mann, sem stendur öllum börnum Guðs jafnt til boða fyrir tilstuðlan fagnaðarerindis Jesú Krists.

Tilgangur lífsins

Af því að Jesús Kristur endurreisti fagnaðarerindi sitt fyrir tilstilli spámannsins Joseph Smith, „höfum við skilning á tilgangi lífsins, á því hver við erum,“ sagði M. Russell Ballard forseti (1928–2023). Í lokavitnisburði sínum til kirkjunnar, sagði Ballard forseti, þá starfandi forseti Tólfpostulasveitarinnar:

„Við vitum hver Guð er, við vitum hver frelsarinn er, vegna þess að við höfum Joseph sem fór í trjálundinn sem drengur til að hljóta fyrirgefningu synda sinna.

Ég undrast, og ég er viss um að þið gerið það líka, hve blessuð við erum að vita það sem við vitum um tilgang lífsins, hvers vegna við erum hér, hvað það er sem við ættum að vera að reyna að gera og áorka í okkar daglega lífi.

Fyrir meðlimi Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, felur þessi þekking í sér skilning á hinni „fullkomnu áætlun“ Guðs um sáluhjálp. Hún er líka þekkt sem „hin mikla sæluáætlun,“ „endurlausnaráætlunin“ og „miskunnaráætlunin“ (Alma 42:8, 11, 15), og hún „fjarlægir leyndardóma lífsins og eyðir óvissunni um framtíð okkar.“ Kjarni þeirrar áætlunar er „kenning Krists,“ sem er kjarni tilgangs lífsins.

Vegna þess að við höfum fagnaðarerindið, vitum við að við erum börn Guðs, send til jarðar til að verða reynd, fáguð og undir það búin að „[verða] leidd fram með upprisu dauðra, fyrir sigur og dýrð lambsins“ (Kenning og sáttmálar 76:39). Við þekkjum boðorðin og erum uppfrædd „nægilega … til að þekkja gott frá illu“ (2. Nefí 2:5). Við vitum að við erum á jörðu til að elska og þjóna. Við vitum líka að frelsarinn hefur kallað okkur til að sigrast á heiminum og til að hjálpa öðrum að gera slíkt hið sama (sjá Jóhannes 16:33; Kenning og sáttmálar 64:2) til undirbúnings fyrir síðari komu hans.

Þegar við einblínum á hann, mun það sem Joseph Smith kallaði „[gleðihljóm] fagnaðarerindis Drottins okkar, Jesú Krists“ styrkja okkur á erfiðum dögum og gefa lífi okkar og annarra merkingu og tilgang.

Jesús Kristur

Hvert kné skal beygja sig, eftir Dan Wilson, óheimilt að afrita

Hlýðni, blessanir, gleði

Guð hefur gefið okkur siðferðilegt sjálfræði, svo við getum verið ábyrg fyrir ákvarðanir okkar (sjá Kenning og sáttmálar 101:78; 2. Nefí 2:16). Sem hluta af „andstæður … í öllu“ (2. Nefí 2:11), er Satan leyft að freista okkar til að misnota sjálfræðið.

Drottinn Jesús Kristur, sem „[þekkti] þær hörmungar er koma [mundu] yfir íbúa jarðar,“ á okkar dögum, kallaði spámanninn Joseph Smith, „talaði til hans frá himni og gaf honum fyrirmæli“ (Kenning og sáttmálar 1:17). Sú aðferð Drottins við að opinbera spámönnum sínum boðorð sín og vilja er enn til staðar á okkar tíma með Russell M. Nelson forseta – og af sömu ástæðu. Guð þráir að leiða okkur til hamingju í þessu lífi og himneskrar dýrðar í næsta lífi.

Hlýðni við boðorð Guðs ætti að byggjast á hollustu okkar við hann og elsku til hans. Drottinn Jesús Kristur lýsti sjálfur yfir að hið „æðsta og fremsta boðorð“ væri að elska Guð (sjá Matteus 22:37–38). Hann veitti frekari innsýn þegar hann lýsti yfir: „Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín“ (Jóhannes 14:15).

Það eru laun fyrir að elska Drottin og halda boðorð hans. Á þessum ráðstöfunartíma sagði hann að hið „óafturkallanlega lögmál gildir á himni, … , sem öll blessun er bundin við –

„Að þegar við öðlumst einhverja blessun frá Guði, þá er það fyrir hlýðni við það lögmál, sem sú blessun er bundin“ (Kenning og sáttmálar 130:20–21).

Því er endanleg niðurstaða þess að sýna Drottni elsku okkar með því að halda boðorð hans, blessanir sem færa hamingju og gleði.

Það veitir okkur skýrleika að horfa á lífið í gegnum sjóngler hins endurreista fagnaðarerindis og nútíma opinberana. Við vitum, að „það sem mun gera jarðlíf [okkar] eins og það best getur orðið, er einmitt það sama og mun gera líf [okkar] um alla eilífðina eins og það best getur orðið!“

Lokaorð

Ég lýk þar sem ég hóf máls á því að rifja upp reynslu mína í Japan fyrir mörgum árum með nýlegum trúskiptingi. Fyrir kostgæfni sína og kostgæfni trúboða og meðlima, fann hann hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists. Með því að finna fagnaðarerindið, uppgötvaði hann líka tilgang sinn, sem jók við sýn hans. Hann fann líka hina miklu sæluáætlun. Hlýðni við sáttmála fagnaðarerindisins færði honum blessanir og gleði og lyfti honum stundlega og andlega.

Vegferð hans sem leiddi til aðildar að kirkju Jesú Krists, gerði honum kleift að verða vitni um Jesú Krist. Öldungur Patrick Kearon í Tólfpostulasveitinni hefur lýst gleðinni sem þessu fylgir:

„Vegna kærleiksríkrar áætlunar himnesks föður fyrir hvert barna sinna og vegna endurleysandi lífs og hlutverks frelsara okkar, Jesú Krists, getum við – og ættum – að vera hamingjusamasta fólkið á jörðu! … Jafnvel þegar stormar lífsins bylja á okkur, í heimi sem oft er erfiður, getum við ræktað með okkur vaxandi og varanlega gleði og innri frið, sökum vonar okkar á Krist og skilnings okkar á okkar eigin stöðu í hinni dásamlegu sæluáætlun.“

Ég er þakklátur fyrir, og ber vitni um, hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists, þar á meðal hina miklu sæluáætlun, sem er svo samofin því. Ég býð ykkur að neyta ávaxta fagnaðarerindisins og finna aukna gleði í þessu lífi á leið ykkar til eilífs lífs.