2023
Fylgja fordæmi Krists: Annast hina nauðstöddu
Mars 2023


„Fylgja fordæmi Krists: Annast hina nauðstöddu,“ Líahóna, mars 2023.

Fylgja fordæmi Krists: Annast hina nauðstöddu

Við getum sýnt náunga okkar kærleika á marga vegu, allt frá matvælaframleiðslu til neyðarviðbragða og hirðisþjónustu.

Ljósmynd
Jesús læknar blindan mann

Ég mun trúa, eftir Liz Lemon Swindle, óheimilt að afrita

Sem fylgjendur Jesú Krists, leitast meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu við að lifa eftir æðstu boðorðunum tveimur: að elska Guð og að elska náungann (sjá Matteus 22:37–39). Að fylgja þessum tveimur æðstu boðorðum og fordæmi Jesú Krists, er það sem knýr kirkjuna og meðlimi hennar áfram til að annast hina nauðstöddu.

Hvernig hjálpar kirkjan við að sjá um þá sem búa við neyð? Hvernig geta meðlimir hennar tekið þátt í því mikla starfi?

Hjálparaðferðir

Sem kirkjumeðlimir, reynum við að finna þá sem búa við neyð og veita öllum börnum Guðs hjálp, burt séð frá kynþætti, þjóðerni eða trú.

Við önnumst um þá sem búa við neyð á marga vegu, þar á meðal með:

  • Föstu og notkun föstufórna.

  • Hirðisþjónustu.

  • Sjálfsbjargaráætlunum.

  • Matvælum, menntun, hreinu vatni og heilsugæsluáætlunum um heim allan.

  • Neyðarviðbrögðum.

  • Sjálfboðaliðaverkefnum í samfélaginu.

Þótt sumt mannúðarstarf kirkjunnar sé umfangsmikið, geta jafnvel smæstu framlög haft mikil áhrif þegar þau safnast saman. Hér eru nokkur dæmi um það hvernig meðlimir kirkjunnar hjálpa þeim sem búa við neyð.

Ljósmynd
fólk að spila borðspil saman

Frá og með febrúar 2022 hjálpuðu Síðari daga heilagir í Póllandi flóttamönnum með flutninga, matvæli og húsaskjól.

Hirðisþjónusta mitt í stríðsátökum

RaeAnn og Sterling Jarvis – kirkjumeðlimir í Varsjá í Póllandi – vissu ekki á hverju þau áttu von þegar þau ákváðu að hýsa flóttamenn á heimili sínu. Þau voru samt tilbúin að hjálpa á allan þann hátt sem þau gátu.

Fljótlega eftir að átök hófust í Evrópu, kom úkraínsk fimm manna fjölskylda að dyrum þeirra klukkan eitt eftir miðnætti. Þau höfðu ferðast næstum 800 km til að finna öryggi. Jarvis-hjónin tóku á móti Marynu og Serhii Bovt ásamt þremur börnum þeirra inn á heimili sitt. Með tímanum þróaðist með þeim raunveruleg elska og væntumþykja til Bovt-fjölskyldunnar. „Þegar þú miðlar kærleika, þá eykst hann,“ sagði Maryna um Jarvis-hjónin. „Hann gerir okkur nánari hvert öðru og Drottni.“

Sem kirkjumeðlimir, keppum við að því að fylgja fordæmi frelsarans með því að þjóna þeim sem eru umhverfis. Fólk þarf ekki að vera að flýja stríð eða ofsóknir til að þurfa hjálp. Sérhver sýnd góðvild af okkar hálfu – sama hversu lítið hún lætur yfir sér – getur haft áhrif á líf einhvers til góðs.

Samfélag sem deilir

Á ræktunarbýlinu Laie á Havaí, sem eru í eigu kirkjunnar, rækta yfir 310 fjölskyldur matvæli til að sjá sér farborða. Á sínum hálfs hektara lóðum, rækta þessar fjölskyldur taro-jurtir, tapíóka, sætar kartöflur, brauðávexti, gúava og aðrar eyjaplöntur.

Býlinu er stjórnað af trúboðshjónum og nýtur stuðnings frá öðrum trúboðum og meðlimum. Þessir sjálfboðaliðar hjálpa við að ryðja land, undirbúa jarðveg fyrir gróðursetningu og kenna grunnbúskap.

Vegna þessara trúboða, meðlima og sjálfboðaliða, eru margir á Havaí sem þurfa mat betur í stakk búnir til að framfleyta sér þegar störf eru af skornum skammti. Samfélagið er sterkara þegar fólk vinnur saman að því að sjá um búskapinn og deila því sem það ræktar.

Mannúðarverkefni kirkjunnar hjálpa til við að sjá milljónum manna um heim allan fyrir fæðuöryggi, menntun, hreinu vatni og heilbrigðisþjónustu. Kirkjan býður einnig upp á mörg úrræði til að stuðla að sjálfsbjargarviðleitni, þar á meðal forðabúr biskups, atvinnumiðstöðvar, Deseret Industries verslanir, fjölskylduþjónusturáðgjöf, sjálfsbjargarnámskeið og býli og aldingarða í eigu kirkjunnar, eins og ræktunarbýlið Laie á Havaí. Þessi verkefni eru oft studd af meðlimum og trúboðum, sem af óeigingirni gefa af tíma sínum, hæfileikum og eigum, og það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir þá sem búa við neyð.

Vináttuvottur

Árið 2021 svöruðu um 200 kirkjumeðlimir beiðni um hjálp. Þeir fóru til miðstöðva í Þýskalandi, Bandaríkjunum og á öðrum stöðum, til að aðstoða um 55.000 flóttamenn frá Afganistan.

Margir sjálfboðaliðar þjónuðu á þessum stöðvum í tvær eða þrjár vikur og sumir dvöldu enn lengur. Kirkjumeðlimir mættu brýnum þörfum þeirra sem leituðu sér skjóls með því að útvega mat, fatnað og aðrar vistir.

Líknarfélagssystur í Þýskalandi tóku eftir að margar konur frá Afganistan notuðu skyrtur eiginmanna sinna til að hylja höfuð sín, vegna þess að hefðbundinn höfuðbúnaður þeirra hafði verið rifinn af þeim í óðagotinu á flugvellinum. Þessar Líknarfélagssystur komu saman til að sauma hefðbundinn múslimskan fatnað fyrir þessar nauðstöddu konur – sýndu þeim góðvild og virðingu og leiddu hjá sér allan skoðanamun.

Systir Sharon Eubank, framkvæmdastjóri Hjálparstofnunar Síðari daga heilagra, sagði: „Einstaklingsframtak okkar þarf ekki endilega að krefjast peninga eða fjarlægra staðsetninga; það þarf hins vegar leiðsögn heilags anda og viljugt hjarta til að segja við Drottinn: ,Hér er ég, send þú mig‘ [Jesaja 6:8].“1

Löngunin til að þjóna þegar hamfarir dynja yfir er ástæða þess að kirkjan er oft einn af fyrstu hópunum til að bregðast við – bæði með skammtíma- og langtímahjálp. Starf kirkjumeðlima og trúboða hjálpar þeim sem búa við neyð að finna öryggi, njóta líkamlegrar og andlegrar umönnunar og finna kærleika Guðs í gegnum góðvild annarra.

Ljósmynd
Kristur með læknuðum holdsveikum

Hvar eru hinir níu?, eftir Liz Lemon Swindle, óheimilt að afrita

Kölluð til verksins 

Kenning og sáttmálar 4:3 segir: „Ef þér þráið þess vegna að þjóna Guði, eruð þér kallaðir til verksins.“ Með öllu því sem kirkjan gerir, eru margar leiðir til að þjóna.

Margt skipulagt starf kirkjunnar til að hjálpa þeim sem búa við neyð, er aðeins mögulegt með þjónustu trúboða og meðlima. Ekki eru allir færir um að taka á móti flóttafjölskyldu, sjá fyrir líkamlegum þörfum annarra eða láta af öllu til að hjálpa í hamförum. Hver einstaklingur gegnir þó hlutverki og framlag hvers og eins er virt og metið.

Föstufórnir og mannúðarframlög eru eitt af því mikilvægasta sem meðlimir gera til að leggja þessu starfi lið. Þessi helgu framlög eru notuð til að hjálpa þeim sem eru í mestri neyð og hafa djúpstæð áhrif á líf þeirra sem hjálpað er. Kirkjumeðlimir geta þjónað í mannúðartrúboðum, sótt sjálfsbjargarnámskeið og verið sjálfboðaliðar í forðabúri biskups og í verslunum Deseret Industries. Þið getið líka annast hina þurfandi með þjónustu á svæði ykkar, blóðgjöfum, þjónustuverkefnum, bænum og fleiru.

Við erum öll kölluð til verksins. Við erum kölluð til að fylgja fordæmi Jesú Krists og að elska Guð og elska náunga okkar. Allt sem við þurfum er að vera fús í hjarta.