2022
Púðinn á gólfinu
Janúar/Febrúar 2022


Frá Síðari daga heilögum

Púðinn á gólfinu

Ég hafði ekkert á móti því að hjálpa móður minni við húsverkin, en af hverju kom ég alltaf að púða á gólfinu?

Ljósmynd
cushion

Ég hef í mörg ár heimsótt móður mína á heimili sínu til að aðstoða hana við húsverkin. Hún er 80 ára og trúfastur meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

Móðir mín hefur búið ein síðan faðir minn lést. Hún hefur mesta ánægju af því að heimsækja börnin sín þrjú, verja tíma með þeim og barnabörnunum og elda mat sem vermir hjartað.

Í hvert skipti sem ég kom á heimili móður minnar til að þrífa og sjá til þess að allt væri í lagi, fann ég gamlan púða á gólfinu. Ég tók hann aftur og aftur upp og setti hann á hægindastólinn og möglaði með sjálfri mér yfir hirðuleysi móður minnar.

Næst þegar ég sneri aftur til að heimsækja móður mína og aðstoða hana, fann ég púðann enn á ný á gólfinu. Ég sagði aldrei neitt um púðann við móður mína, en einn morgun komst ég loks að því hvers vegna hann var alltaf á gólfinu.

Móðir mín þurfti mjúkan flöt til að krjúpa og biðja á. Hún var gömul kona, en óhagganleg trú hennar hvatti hana dag hvern niður á hnén í bæn. Hún bað fyrir börnum sínum og barnabörnum. Hún bað fyrir vinum sínum. Hún bað fyrir hinum þurfandi. Hún bað líka fyrir þeim sem hún hafði alltaf elskað og bar jafnvel enn umhyggju fyrir á sínum efri árum.

Nú mögla ég ekki lengur þegar ég sé púðann á gólfinu. Stundum krýp ég jafnvel sjálf á mjúkt yfirborðið til að biðja til himnesks föður og þakka fyrir trú og fordæmi móður minnar.