2018
Hljóta skilning á Íslam
April 2018


Hljóta skilning á Íslam

Ljósmynd
mosaic of kaaba in mecca

Ljósmynd frá Getty Images

Átjándualdar mósaíkmynd sem sýnir Kaaba í Mekka, fæðingarstað Múhammeðs og helgustu borg hins íslamska heims.

Varla líður sá dagur að Íslam eða múslimar séu ekki í fréttum, hvort heldur að góðu eða slæmu. Skiljanlegt er að margir sem ekki eru múslimar – þar með talið Síðari daga heilagir – séu forvitnir um þessi mál og jafnvel áhyggjufullir. Eigum við eitthvað sameiginlegt með okkar múslimsku nágrönnum? Getum við búið og starfað saman?

Til að byrja með, þá getur verið gagnlegt að kynna sér aðeins hinn sögulega bakgrunn:

Árið 610 e.Kr. kleif miðaldra arabískur kaupmaður að nafni Múhammeð upp á fjall eitt ofan við fæðingarstað sinn, Mekka, til að ígrunda og biðjast fyrir varðandi hinn trúarlega glundroða sem ríkti umhverfis hann. Að því loknu, sagði hann frá því að hann hefði hlotið sýn þar sem hann var kallaður sem spámaður fyrir fólk sitt. Þessi viðburður markar upphaf trúarbragða sem eru kunn sem Íslam (iss-LAAM), hugtak sem merkir „undirgefni“ (fyrir Guði). Hinn trúaði í Íslam nefnist múslimi (MUSS-lim), sem merkir „undirgefinn.”

Eftir það sagðist Múhammeð hafa hlotið margar opinberanir, allt fram að dauða sínum um 25 árum síðar. Hann sagði fyrst íbúum heimaborgar sinnar frá þeim, varaði við guðlegum dómum; hvatti hlustendur sína til að iðrast og huga betur að ekkjum, munaðarlausum og fátækum; og boðaði algilda upprisu hinna dánu og lokadóm Guðs.

Háðungin og ofsóknirnar sem hann og fylgjendur hans urðu fyrir, urðu svo ofsafengnar að þeir neyddust til að flýja til borgarinnar Medína, en þangað er um fjögurra daga reið á úlfalda í norðurátt.

Þar breyttist staða Múhammeðs algjörlega.1 Áður hafði hann aðeins verið prédikari og aðvarandi, en nú varð hann löggjafi, dómari og stjórnmálaleiðtogi mikilvægrar arabískrar borgar og með tímanum alls Arabíuskagans. Þessi uppbygging samfélags trúaðra skapaði Íslam trúarlegt auðkenni sem grundvallaðist af lögum og réttlæti sem hefur haldið áfram að vera eitt af mest áberandi og markverðustu einkennum þess.

Tvær trúarfylkingar urðu til eftir dauða Múhammeðs, árið 632 e.Kr., og megin ástæða þess klofnings var ágreiningur um hver skildi taka við af honum sem leiðtogi hins íslamska samfélags.2 Stærri fylkingin hefur fengið nafnið Súnnítar (hún kveðst fylgja súnní-reglu, eða hinum hefðbundna boðskap Múhammeðs og er tiltölulega sveigjanleg varðandi erfðarétt). Hin fylkingin, sem varð til í kringum tengdason Múhammeðs, ‘Ali, var nefnd shi‘at ‘Ali (dregið af ‘Ali) og er nú almennt kunn sem Shítar. Ólíkt Súnnítum þá trúðu Shítar (kunnir sem Shi‘ite eða Shi‘i múslimar) því að rétturinn til að taka við leiðtogastöðu Múhammeðs ætti að falla á það karlkyns ættmenni sem næst stóð spámanninum Múhammeð, sem var ‘Ali, og erfingja hans.

Þrátt fyrir þennan ágreining, þá hefur hinn íslamski heimur verið samheldnari, í trúarlegri merkingu, heldur en hinn kristni heimur. Einnig má nefna að nokkrum öldum eftir um 800 e.Kr. var hinn íslamski heimur að öllum líkindum kominn lengst á leið í vísindum, læknisfræði, stærðfræði og heimspeki.

Uppruni kenninga og trúariðkana múslíma

Opinberanirnar sem Múhammeð sagðist hafa hlotið voru teknar saman í eina bók sem nefnd var Kóraninn (Qur’an, dregið af arabísku sögninni qara’a, „að lesa“ eða „að þylja“), innan eins áratugs eða tveggja eftir dauða hans. Kóraninn, sem hefur að geyma 114 kapítula, er ekki frásögn um Múhammeð. Kóraninn er ekki ósvipaður Kenningum og sáttmálum hvað þetta varðar, því þar finnast engar frásagnir; múslimar líta á Kóraninn sem orð (og öll orð) Guðs, gefið milliliðalaust til Múhammeðs.3

Ljósmynd
reading the quran

Ef kristnir lesa hana, þá uppgötva þeir kunnuglegt efni. Þar er til að mynda sagt frá heimssköpun Guðs á sjö dögum, komu Adams og Evu í aldingarðinn Eden, freistingu þeirra af hendi djöfulsins, fallinu og köllunum spámanna hver á eftir öðrum (sem flestir eru líka í Biblíunni). Í Kóraninum er spámönnunum lýst sem múslimum, sem eru undirgefnir vilja Guðs.

Abraham, sem lýst er sem vini Guðs, er áberandi oft nefndur í textanum.4 (Meðal annars er því trúað að hann hafi hlotið opinberanir sem hann hafi ritað, en þær síðan týnst.5) Þar er líka sagt frá Móse, faraó og brottför Ísraels.

Eftirtektarvert er að María, móðir Jesú, er nefnd 34 sinnum í Kóraninum, en aðeins 19 sinnum í Nýja testamentinu. (Hún er í reynd eina konan sem tilgreind er í Kóraninum.)

Eitt af því sem stöðugt er kveðið á um í Kóraninum er kenningin um tawhid (taw-HEED), hugtak sem felur í sér „eingyðistrú“ eða því sem næst í eiginlegri merkingu að „gera einn.“ Hugtakið vísar til einnar megin trúarreglu Íslams: Að Guð sé aðeins einn og óskiptanlegur. „Hann hvorki getur af sér afkvæmi, né er sjálfur getinn,“ segir í Kóraninum, „og hann á sér engan líka.“6 Það sem af þessu má draga er vissulega þar sem mest greinir á milli Íslams og kristindóms: Múslimar trúa ekki á guðleika Jesú Krists og heilags anda. Í Kóraninum segir líka að þótt allir menn séu skapaðir jafnir af Guði, þá teljumst við ekki vera hans börn, samkvæmt hinni íslömsku kenningu.

Múslimar trúa þó að Jesús hafi verið syndlaus spámaður Guðs, fæddur af meyju og ætlað að skipa mikilvægt hlutverk í atburðum efstu daga. Um hann er oft ritað í Kóraninum og af virðingu.

Grundvallarkenningar og trúariðkanir múslima

Hinir svonefndu „Fimm stólpar Íslams“ – sem ekki er greint frá í Kóraninum, heldur í yfirlýsingu sem eignuð hefur verið Múhammeð – þar sem fram koma nokkrar grunnkenninga Íslams:

1. Trúarjátning

Ef Íslam hefur altæka trúarjátningu, þá væri hún shahada (sha-HAD-ah), „trúarjátningin,“ eða „vitnisburðurinn.“ Hugtakið vísar til arabískrar forskriftar, sem gæti hljómað svo í þýðingu: „Ég vitna að enginn er guð nema Guð [Allah] og Múhammeð er sendiboði Guðs.“ Shahada er hliðið að Íslam. Við það að þylja upp orðin af einlægri trú verður maður múslimi.

Hin arabíska hliðstæða orðsins Guð er Allah. Stytting orðanna al- (ákveðinn greinir) og ilah („guð“), er ekki eiginlegt nafn, heldur titill og er nátengt hebreska orðinu Elohim.

Þar sem ekkert prestdæmi er í Íslam, þá eru helgiathafnir prestdæmis ekki fyrir hendi. Í Íslam er heldur enga „kirkju“ að finna. Með því að játa shahada er í raun jafngildi skírnar í Íslam. Þar sem heimslægt sameinandi stjórnkerfi er ekki fyrir hendi eins og er, þá hefur það sýna annmarka. Það er til að mynda enginn aðalleiðtogi múslima um heim allan, enginn sem mælir fyrir allt samfélagið. (Almennt er Múhammeð álitinn vera síðasti spámaðurinn.) Það hefur svo í för með sér að ekki er hægt að vísa hryðjuverkamönnum eða „trúvillingum“ úr einhverri kirkju, því það er engin.

2. Bæn

Ljósmynd
ritual prayer

Margir þekkja hinar hefðbundnu múslimsku bænir sem nefnast salat (sa-LAAT), og fela í sér ákveðin fjölda af legu á grúfu, fimm sinnum á dag. Við þá iðju eru þulin upp vers úr Kóraninum og jörðin er snert með enninu, til tákns um auðmýkt og hlýðni við Guð. Líka má flytja óformlegri bænir sem nefnast du‘a, en þær má flytja hvenær sem er án þess að leggjast á grúfu.

Síðdegis á föstudögum er múslimskum körlum gert að biðjast fyrir í mosku og konur eru hvattar til þess (á arabísku er það masjid, eða „bænarstaður“). Þar eru kynin aðskilin og biðjast fyrir í röðum, undir stjórn imam prests moskunnar, (ee-MAAM, á arabísku er það amama, sem merkir „fyrir framan“) og hlusta á stutta prédikun. Föstudagarnir leggjast þó ekki að jöfnu við hvíldardaginn; þótt „helgin“ í flestum múslimalöndum sé helguð yawm al-jum‘a („degi samansöfnunar“) eða föstudegi, þá telst það ekki til syndar að vinna á þeim degi.

3. Ölmusugjafir

Zakat (za-KAAT, merkir „það sem hreinsar“) er að gefa ölmusugjafir til hinna fátæku, sem og gjafir í þágu moska og íslamskra verkefna. Almennt eru þær taldar eiga að vera um 2.5 prósent af heildareigum umfram ákveðna lágmarksupphæð. Í sumum múslimalöndum er sú upphæð innheimt af opinberum stofnunum Í öðrum löndum er það valfrjálst.

4. Fasta

Á hverju ári neyta sanntrúaðir múslimar sér um mat, drykk og kynlíf, frá sólarupprás til sólseturs, allan tunglmánuð Ramadan. Almennt helga þeir sig líka sérstökum kærleiksverkum í þágu fátækra og lestri í Kóraninum í þessum mánuði.7

5. Pílagrímsför

Ljósmynd
Mecca

Þeir múslimar sem hafa heilsu og fjárhag til þess, er boðið að fara pílagrímsför til Mekka, hið minnsta einu sinni á ævi sinni. (Heimsóknar til Medina, sem er önnur helgasta borg Íslams, er almennt krafist, en þó ekki skylda.) Hinum trúfasta múslima finnst sú gjörð vera afar hjartnæmur andlegur viðburður, eitthvað álíka og að fara á aðalráðstefnu í eigin persónu eða til musterisins í fyrsta sinn.

Nokkur málefni sem eru á oddi.

Þrjú áhyggjumál þeirra sem ekki eru múslimar, varðandi Íslam eru ofbeldi af trúarlegum rótum; íslömsk lög eða sharíalög; og meðferð á konum í Íslam.

Sumir öfgamenn hafa notað orðið jihad með einhliða tilvísun í „heilagt stríð,“ en orðið merkir í raun „hagnýt verk,“ í staðinn fyrir „eingöngu“ bæn og ritningarnám.

Lögspekingar og fræðimenn múslima hefur greint á í skilningi á jihad. Stöðluð lögrit segja til að mynda að ásættanlegt jihad til stríðs verður að vera í varnarlegum tilgangi og að aðvara þurfi óvininn fyrirfram og honum gefinn kostur á að koma í veg fyrir átök. Sumir fræðimenn og aðrir múslimskir hugsuðir á okkar tíma segja aftur á móti að jihad geti verið hvaða hagnýta aðgerð sem er til framdráttar Íslam eða til almennrar farsældar fyrir heiminn. Múhammeð er sagður hafa gert greinarmun á milli „æðra jihad“ og „óæðra jihad.“ Hið síðara sagði hann vera stríð. Æðra jihad er þó að vinna bug á ranglæti og sigra sjálfan sig til að lifa réttlátlega.

Hryðjuverkamenn á okkar tíma staðhæfa trúarlegar ástæður fyrir gjörðum sínum, en líklega eru áhrifaþættir félagsleg, stjórnmálaleg og efnahagsleg óvild, sem í sjálfu sér hefur lítið að gera með trúarbrögð.8 Það sem meira er, þá er mikilvægt að átta sig á að meirihluti múslima í heiminum hefur ekki gengið í lið með hryðjuverkamönnum í ofbeldi þeirra.9

Sharía er annað atriði sem veldur sumum áhyggjum sem ekki eru múslimar. Í Kóraninum og í hadith– sem er stutt greinargerð um það sem Múhammeð og hans nánustu samstarfsmenn sögðu og gerðu, er fyrirmynd að breytni múslima, sem og stuðningsrit til útskýringar á greinum í Kóraninum – er að finna löggjöf um hegðun múslíma.10 Reglur sem kveða á um klæðnað bæði karla og kvenna (líkt og hijab, eða blæju) má finna í Sharía; þótt þær séu þvingaðar fram í sumum múslimalöndum, þá eru þær háðar einstaklingsbundnu vali í öðrum löndum. Sharía segir líka til um það sem tengist persónulegu hreinlæti; tímasetningar og efni bæna; og reglur um hjónaband, skilnað og erfðarétt. Þegar múslimar láta því skoðun sína í ljós í könnunum um að þeir vilji láta stjórnast af Sharíalögum, er ekki víst að um stjórnmálalega afstöðu sé að ræða. Þeir gætu einfaldlega verið að láta í ljós þá ósk að gera lifað af kostgæfni eftir trú sinni.

Ljósmynd
woman wearing the hijab

Margir sem ekki eru múslimar hugsa þegar í stað um fjölkvæni og blæjur, þegar þeir hugsa um meðferð Íslams á konum. Hinn menningarlegi raunveruleiki er mun flóknari. Margar greinar í Kóraninum undirstrika að konur séu jafningjar karla, en aðrar virðast setja þær í óæðri hlutverk. Vissulega er til atferli í mörgum íslömskum löndum – sem oft á rætur í gömlum íslömskum hefðum og venjum – sem viðheldur undirgefni kvenna. Á hvaða hátt múslimar líta hlutverk kenna, er mismunandi eftir löndum og jafnvel innan hvers lands.

Skoðanir Síðari daga heilagra á Íslam

Hvernig geta Síðari daga heilagir myndað samband við múslima, þrátt fyrir trúarlegan ágreining?

Í fyrsta lagi, þá ber okkur að viðurkenna rétt múslima til „að tilbiðja, hvernig, hvar eða hvað, sem þeim þóknast“ (Trúaratriðin 1:11). Árið 1841 samþykktu Síðari daga heilagir í borgarráði Nauvoo reglugerð um trúfrelsi sem tryggði „umburðarlyndi og jafnan rétt“ fyrir Kaþólska, Öldungakirkju, Meþódista, Baptista, Síðari daga heilaga, Kvekara, Biskupakirkju, Algildisista, Únítarista og fylgjendur Múhammeðs [múslima] og alla aðra trúarsöfnuði og trúarhópa hvarvetna.“11

Við ættum líka að minnast þess að kirkjuleiðtogar okkar hafa almennt verið afar jákvæðir í orðum sínum um upphafsmann Íslams. Þegar t.d. margir kristnir fordæmdu Múhammeð sem andkrist, þá fluttu öldungarnir George A. Smith (1817–75) og Parley P. Pratt (1807–57), í Tólfpostulasveitinni, langar ræður sem staðfestu ekki aðeins yfirgripsmikla þekkingu og góðan skilning á sögu Íslams, heldur rómuðu þeir líka Múhammeð sjálfan. Öldungur Smith benti á að Múhammeð „hefði án efa verið vakinn upp af Guð í þeim tilgangi“ að prédika gegn skurðgoðadýrkun og lét í ljós hluttekningu gagnvart múslimum, sem líkt og hinir Síðari daga heilögu, reynist erfitt að fá „sanngjarna umfjöllun“ um eigin sögu. Öldungur Pratt talaði strax á eftir honum og lét í ljós aðdáun á kenningum Múhammeðs og siðferði og atferli hins múslimska samfélags.12

Nýlegri opinber yfirlýsing var sett fram árið 1978 af Æðsta forsætisráðinu. Í henni var þess sérstaklega getið að Múhammeð væri meðal „mestu trúarleiðtoga heimsins,“ og ennfremur, líkt og þeir sjálfir, þá hefði hann „tekið á móti hluta af ljósi Guðs. Siðferðislegur sannleikur var veittur [þessum leiðtogum] af Guði,“ skrifuðu forsetarnir Spencer W. Kimball, N. Eldon Tanner og Marion G. Romney, „til að upplýsa margar þjóðir og leiða einstaklinga til æðri skilnings.“13

Byggja á sameiginlegum grunni

Þótt Síðari daga heilögum og múslimum greini augljóslega á í veigamiklum atriðum – svo sem um guðleika Jesú Krists, hlutverki hans sem frelsara og köllun nútíma spámanna – þá eigum við margt sameiginlegt. Við eigum t.d. það sameiginlegt að trúa því að við séum siðferðilega ábyrg frammi fyrir Guði, að við sækjumst eftir bæði persónulegu réttlæti og góðu og réttlátu samfélagi og að við verðum reist upp og færð fram fyrir Guð til dóms.

Ljósmynd
family

Bæði múslimar og Síðari daga heilagir hafa trú á mikilvægi sterkra fjölskyldna og hinu guðlega boði um að liðsinna fátækum og þurfandi og að við sýnum trú okkar með því sem við gerum sem lærisveinar. Engin ástæða ætti að vera fyrir því að Síðari daga heilagir og múslimar gætu ekki sinnt þessu hlutverki samhliða hver öðrum og jafnvel, er tækifæri gefast, starfað saman í samfélögum, þar sem stöðugt fleiri af báðum trúarbrögðum verða nágrannar í guðlausum heimi. Saman getum við sýnt að trúarbrögð geta verið áhrifaríkt afl til góðs, en ekki aðeins ástæða átaka og jafnvel ofbeldis, líkt og sumir gagnrýnendur segja.

Kóraninn sjálfur bendir á leið til að búa saman friðsamlega þrátt fyrir skoðanamuninn: „Ef Guð hefði kært sig um, þá hefði hann getað búið ykkur eitt samfélag. Hann vill hins vegar prófa ykkur í því sem hann hefur gefið ykkur. Keppið því hver sín á milli að góðum verkum. Þið munið öll snúa aftur til Guðs og hann mun upplýsa ykkur í því sem á milli greindi.“14

Heimildir

  1. Í raun þá er árið 622 e.Kr. – sem auðkennt er við Hijra Múhameðs eða flutnings hans til Medina – grunnárið í múslimska (Hijri) almanakinu og opinberanirnar eru auðkenndar sem annaðhvort Mekka eða Medinan.

  2. Í gegnum aldir hafa þessar tvær fylkingar vaxið frá hvor annarri vegna annarra ágreiningsmála.

  3. Þótt heimilt hafði verið að þýða Kóraninn yfir á önnur tungumál, þá er aðeins litið á hið upprunalega arabíska ritmál sem hinn sanna og andríka Kóran.

  4. Sjá Qur’an 4:125.

  5. Sjá Qur’an 53:36-62; 87:9-19; sjá einnig Daniel C. Peterson, „News from Antiquity,“ Ensign, jan. 1994, 16–21.

  6. Qur’an 112:3-4. Þýðingar Kóransins eru eftir Daniel C. Peterson.

  7. Staðlaðar útgáfur af Kóraninum skiptast í 30 jafn stóra hluta í nákvæmlega þeim tilgangi.

  8. Sjá t.d. Robert A. Pape, Dying to Win: The Strategic Logic of Suicide Terrorism (2005); Graham E. Fuller, A World without Islam (2010); Robert A. Pape og James K. Feldman, Cutting the Fuse: The Explosion of Global Suicide Terrorism and How to Stop It (2010).

  9. Sjá Charles Kurzman, The Missing Martyrs: Why There Are So Few Muslim Terrorists (2011); sjá einnig John L. Esposito og Dalia Mogahed, Who Speaks for Islam? What a Billion Muslims Really Think (2008); James Zogby, Arab Voices: What They Are Saying to Us, and Why It Matters (2010).

  10. Þau eru í raun svipuð og rabbíalögin í gyðingadómnum.

  11. Ordinance in Relation to Religious Societies, City of Nauvoo, [Illinois] höfuðstöðvar Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, 1. mars 1841.

  12. Sjá Journal of Discourses, 3:28–42.

  13. Yfirlýsing frá Æðsta forsætisráðinu, 15. febr. 1978. Í endurskoðun sinni á Introduction to the Qur’an (1970) eftir Richard Bell, W. Montgomery Watt, þá benti einn þekktur Íslams-fræðimaður og prestur í Biskupakirkjunni á eina mögulega leið fyrir kristna að skoða Kóraninn sem innblásið rit.

  14. Qur’an 5:48; berið saman 2:48.