2005
Tákn trúar okkar
Apríl 2005


BOÐSKAPUR ÆÐSTA FORSÆTISRÁÐSINS

Tákn trúar okkar

Eftir endurnýjun Mesa-musterisins í Arisóna fyrir nokkrum árum, var prestum annarra trúarbragða boðið að koma á fyrsta degi opins húss. Hundruð þeirra komu. Ég sagðist glaður skyldi svara hverri spurningu sem þeir hefðu fram að færa. Meðal þeirra var ein frá mótmælendapresti.

Hann sagði: „Ég hef gengið um alla þessa byggingu, þetta musteri sem hefur nafn Jesú Krists yfir framdyrum sínum, en ég hef hvergi séð merki krossins, tákn kristindómsins. Ég hef tekið eftir bygginum ykkar annarsstaðar og einnig þar er hvergi krossinn að finna. Hvers vegna ekki, úr því að þið segist trúa á Jesú Krist?“

Ég svaraði: „Ég vil ekki móðga neinn af kristnum samferðamönnum mínum, sem nota krossinn á turnspírum kirkna sinna og við altarið í kapellum sínum, sem nota hann á helgibúningum sínum og prenta á bækur sínar og önnur rit. En í huga okkar er krossinn tákn hins deyjandi Krists, en boðskapur okkar er yfirlýsing um hinn lifandi Krist.“

Hann spurði þá: „Ef þið notið ekki krossinn, hvert er þá tákn trúar ykkar?“

Ég svaraði því til að líf kirkjuþegna sjálfra yrði að vera þýðingarmesta trúarjátning okkar og það væri því í raun tilbeiðslutákn okkar.

Ég vona að honum hafi ekki fundist ég vera sjálfumglaður eða drjúgur með mig. Svo kann að virðast við fyrstu athugun að yfirlýsingin um að Jesú Kristur sé kjarni trúar okkar sé mótsagnakennd. Opinbert nafn kirkjunnar er Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Við tilbiðjum Jesú Krist sem Drottin og frelsara. Biblían er heilög ritning okkar. Við trúum að spámenn Gamla testamentisins, sem sögðu fyrir um komu Messíasar, hafi talað með guðlegum innblæstri. Við hrífumst af frásögnum Matteusar, Markúsar, Lúkasar og Jóhannesar af fæðingu, þjónustu, dauða og upprisu Guðssonarins, eingetnum í holdinu af föðurnum. Líkt og Páll til forna „fyrirverðum við okkur ekki fyrir fagnaðarerindið. Það er kraftur Guðs til hjálpræðis“ (Róm 1:16). Og líkt og Pétur staðfestum við að Jesús Kristur er eina nafnið „gefið um víða veröld, sem getur frelsað okkur“ (Post 4:12).

Í Mormónsbók, sem við lítum á sem testamenti Nýja heimsins, eru settar fram kenningar spámannanna sem lifðu til forna í Vesturálfu og hún vitnar um hann, sem fæddist í Betlehem í Júdeu og dó á Golgata. Mormónsbók ber hikandi og flöktandi heimi í trúmálum öflugt vitni um guðdómleika Drottins. Sjálfur formáli hennar, ritaður af spámanni sem lifði í Ameríku fyrir 1500 árum, segir okkur að bókin sé skrifuð „til að sannfæra Gyðinga og Þjóðirnar, að Jesús er Kristur, hinn eilífi Guð, er opinberar sig öllum þjóðum.“

Og í bók okkar með nútíma opinberunum, Kenningu og sáttmálum, kynnir Jesús sig sjálfur með þessum orðum: „Ég er Alfa og Ómega, Kristur Drottinn. Já, ég er einmitt hann, upphafið og endirinn, lausnari heimsins“ (K&S 19:1).

Í ljósi slíkra yfirlýsinga og slíks vitnisburðar kunna margir að spyrja, eins og vinur minn, presturinn í Arisóna: „Ef þið játið trú á Krist, hvers vegna notið þið ekki táknið um dauða hans, krossinn á Golgata?“

Því er fyrst til að svara að enginn þegn þessarar kirkju má nokkru sinni gleyma því hörmulega gjaldi sem lausnarinn greiddi, þegar hann gaf líf sitt svo að allir menn mættu lifa – kvölinni í Getsemane, háðung réttarhaldanna, hinni grimmilegu þyrnikórónu sem tætti hold hans, múgnum sem heimtaði blóð hans frammi fyrir Pílatusi, einmanalegri göngunni með þungan krossinn að Golgata, hræðilegum sársaukanum þegar stórir naglarnir stungust gegnum hendur hans og fætur, nístandi kvölunum þegar hann hékk á krossinum þennan hörmungardag, sonur Guðs sem hrópaði: „Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra“ (Lúk 23:34).

Þetta var krossinn, hið hræðilega píningartól sem tortíma skyldi Friðarhöfðingjanum, hin grimmilega umbun fyrir undursamlegar lækningar hans, því hann gaf blindum sýn, reisti menn upp frá dauðum. Þetta var krossinn sem hann hékk á og dó á, einn og yfirgefinn.

Við getum ekki gleymt því. Við megum aldrei gleyma því, vegna þess að þar fórnaði frelsari okkar og lausnari, sonur Guðs, sjálfum sér sem fórn fyrir okkur öll. En dimma þessa myrka kvölds fyrir hvíldardag Gyðinga, þegar líflaus líkami hans var tekinn niður af krossinum og lagður í flýti í gröf sem fengin var að láni, svipti jafnvel dyggustu lærisveina hans voninni. Þeir syrgðu og skildu ekki það sem hann hafði áður sagt þeim. Sá Messías sem þeir trúðu á var dáinn. Horfinn var meistari þeirra, sem þeir höfðu bundið alla þrá sína, trú og von við. Hann hafði talað um ævarandi líf, hann hafði reist Lasarus upp frá dauðum, en nú var hann dainn, rétt eins og allir menn á undan honum höfðu dáið. Stuttu og harmþrungnu lífi hans var lokið. Jesaja hafði lýst því lífi mörgum árum áður: „Hann var „fyrirlitinn, og menn forðuðust hann, harmkvælamaður og kunnugur þjáningum. … Hann var særður vegna vorra synda og kraminn vegna vorra misgjörða. Hegningin, sem vér höfðum til unnið, kom niður á honum“ (Jesaja 53:3, 5). Nú var hann horfinn.

Við getum aðeins gert okkur í hugarlund tilfinningar þeirra sem unnu honum, þegar þeir hugleiddu dauða hans hinar löngu stundir hvíldardags Gyðinga, sem er laugardagur á okkar dagatali.

Þá dagaði á fyrsta degi vikunnar, hvíldardegi Drottins eins og við þekkjum hann. Við þá sem komu til grafarinnar, fullir sorgar, sagði engillinn: „Hví leitið þér hins lifanda meðal dauðra?“ (Lúk 24:5).

„ Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði“ (Matt 28:6).

Þarna gerðist mesta kraftaverk mannkynssögunnar. Áður hafði hann sagt þeim: „Ég er upprisan og lífið“ (Jóh 11:25). En þeir höfðu ekki skilið. Nú vissu þeir. Hann hafði dáið einn í eymd og kvöl. Nú, á þriðja degi, reis hann í veldi og dýrð til lífsins, frumgróði allra sem sofið höfðu og færði öllum mönnum þá fullvissu „að eins og allir deyja fyrir samband sitt við Adam, svo munu allir lífgaðir verða fyrir samfélag sitt við Krist“ (1 Kor 15:22).

Á Golgata var hann hinn deyjandi Jesús. Úr gröfinni kom hann sem hinn lifandi Kristur. Krossinn var bitur afleiðing svika Júdasar, lokin á afneitun Péturs. Tóm gröfin varð vitnisburður um guðdómleika hans, fullvissan um eilíft líf, svarið við spurningu Jobs: „Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur?“ (Job 14:14).

Hann hefði getað fallið í gleymsku eftir andlát sitt, eða að hans hefði í besta falli verið getið sem eins af lærifeðrunum miklu sem sagt er frá í nokkrum línum í sagnfræðibókum.

En nú, eftir að hann var upprisinn, varð hann herra lífsins. Nú gátu lærisveinar hans, sannfærðir, tekið undir orð Jesaja: „Nafn hans skal kallað Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi“ (Jes 9:6).

Nú höfðu eftirvæntingarfull orð Jobs ræst: „Ég veit, að lausnari minn lifir, og hann mun síðastur ganga fram á foldu.

Og eftir að þessi húð mín er sundurtætt og allt hold er af mér, mun ég líta Guð.

Ég mun líta hann mér til góðs, já, augu mín sjá hann, og það eigi sem andstæðing, hjartað brennur af þrá í brjósti mér!“ (Job 19:25–27).

María hafði vissulega ástæðu til að hrópa: „Rabbúní! (Rabbúní þýðir meistari)“ (Jóh 20:16) þegar hún fyrst sá Drottin upp risinn, því að nú var hann vissulega meistarinn, herrann, ekki aðeins herra lífsins heldur einnig dauðans. Broddur dauðans var horfinn, sigur grafarinnar að engu gerður.

Hinn óttafulli Pétur var umbreyttur. Jafnvel Tómas, hinn efagjarni, sagði fullur alvöru, lotningar og fullvissu: „Drottinn minn og Guð minn!“ (Jóh 20:28). „Vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður“ (Jóh 20:27) voru ógleymanleg orð Drottins við þann undursamlega atburð.

Eftir þetta birtist hann mörgum, þar á meðal „meira en fimm hundruð bræðrum í einu,“ eins og Páll sagði“ (1 Kor 15:6).

Og í Vesturálfu voru þeir „aðrir sauðir“ sem hann hafði áður talað um. Og fólk þar heyrði rödd, „sem virtist koma af himni … en hún sagði við þau:

… Sjá minn elskaða son, sem ég hef velþóknun á. Í honum hef ég gjört nafn mitt dýrðlegt – hlýðið á hann.

… Og sjá. Þau sáu mann stíga niður af himni, og var hann klæddur hvítum kyrtli, og hann sté niður og stóð mitt á meðal þeirra.

… Og svo bar við, að hann rétti fram hönd sína, ávarpaði lýðinn og sagði:

Sjá, ég er Jesús Kristur, sem spámennirnir vitnuðu um, að koma mundi í heiminn. …

Rísið á fætur og komið til mín“ (3 Ne 11:3, 6–10, 14).

Síðan kemur hin fagra frásögn af þjónustu hins upprisna Drottins meðal íbúa Ameríku til forna.

Og að lokum eru það nútíma vitni, því að hann kom á ný til að hefja þessa ráðstöfun, ráðstöfunina í fyllingu tímanna sem spáð hafði verið fyrir um. Í dýrðlegri sýn birtust þeir – hinn upprisni, lifandi Drottinn og faðir hans, Guð himnanna – drengnum og spámanninum sem hefja átti endurreisn hins forna sannleika. Á eftir fylgdi „fjöldi votta“ (Hebr 12:1) og sá sem tók á móti Fyrstu sýninni – Joseph Smith, nútíma spámaður – segir af fullri alvöru:

„Og nú, eftir þá mörgu vitnisburði, sem gefnir hafa verið um hann, er þetta vitnisburðurinn síðastur allra, sem við gefum um hann: Að hann lifir!

Því að við sáum hann, já, Guði til hægri handar, og við heyrðum röddina, sem bar vitni um, að hann er hinn eingetni föðurins –

Að með honum, fyrir hann, og af honum eru og voru heimarnir skapaðir, og íbúar þeirra eru getnir synir og dætur Guðs“ (K&S 76:22–24).

Við þetta má bæta vitnisburðum milljóna annarra, sem fyrir kraft heilags anda hafa borið hátíðlega vitni um að hann lifir í raun. Sá vitnisburður hefur veitt þeim huggun og styrk.

Mér verður til að mynda hugsað til vinar er ég kynntist í Víetnam á hörmungartímum í landi hans. Hann var gæddur hógværð og einstakri trú á Guð, okkar eilífa föður, og á son hans, hinn lifandi Krist. Ég minnst þess glögglega er hann söng af djúpri sannfæringu:

Er á straumþungu vötnin ég kalla þig á,

ei öldurót sorgar mun sigrað þig fá.

Ég verð þér þar nærri, þitt erfiði blessa,

og þér tilreikna allt böl þitt til þessa.

(„Vor Guð hefur spámönnum gefið sitt mál,“ Sálmar , nr. 21)

Frelsarinn lifir og því notum við ekki táknið um dauða hans sem tákn trúar okkar. En hvað eigum við þá að nota? Ekkert tákn, ekkert listaverk, engin formsköpun nægir til að lýsa dýrð og undri hins lifandi Krists. Hann lét okkur vita hvert táknið ætti að vera þegar hann sagði: „Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín“ (Jóh 14:15).

Sem fylgjendur hans getum við ekkert gert sem sóðalegt er eða vanþakklátt án þess að flekka ímynd hans. Eins getum við ekki heldur gert neitt sem gott er, göfugt og rausnarlegt án þess að varpa meiri ljóma á tákn hans, hvers nafn við höfum tekið á okkur. Líf okkar verður að vera táknið og trúarjátningin, táknrænt fyrir yfirlýsingu okkar og vitnisburð um lifandi Krist, hinn eilífa son hins lifanda Guðs.

Svo einfalt er það, bræður mínir og systur. Svo þýðingarmikið er það, gleymum því aldrei.

Ég veit minn ljúfur lausnarinn,

með lífi’ og dauða sigur vann,

hann sigri hrósar, sonur Guðs,

Já, sonur heilags Guðs er hann.

Hann lifir, eina lífs míns trú,

hann lifir mannsins eina von,

mitt ljós á vegi lifir enn,

hann lifir Guðs eingetni son.

Mér anda þínum blás í brjóst,

mér blíðan gefðu friðinn þinn,

minn fót svo styð um farinn veg

að finni’ ég leið í himininn.

(Gordon B. Hinckley, „Lausnari minn lifir,“ Sálmar, nr. 35)

FYRIR HEIMILISKENNARA

Þegar þið hafið í bænaranda undirbúið ykkur, skuluð þið miðla af boðskap þessum þannig að þeir sem þið kennið séu þátttakendur með ykkur. Nokkur dæmi fara hér á eftir:

  1. Biðjið fjölskylduna að segja frá hvernig hún myndi svara eftirtöldum spurningum: Hvers vegna eru engir krossar í kirkjubyggingum okkar? Hvert er tákn trúar okkar? Lesið svör Hinkleys forseta við þessum spurningum (sjá fyrstu fimm málsgreinarnar). Hvaða ritningargrein skýrir frá tákni trúar okkar? (sjá síðustu fjórar málsgreinarnar). Hvað getum við gert til að tákn trúar okkar ljómi bjartar til annarra?

  2. Biðjið fjölskylduna að skýra frá því hvernig þau telja að sá sem er „kjarni“ lífs þeirra ætti að haga sér eða hvernig hann ætti að vera. Lesið og ræðið texta greinarinnar þar sem fram kemur að Jesús Kristur er kjarni trúar okkar.

  3. Biðjið fjölskylduna að miðla eftirlætis frásögn sinni um Jesú. Lesið upphátt eina frásögn eða tvær í greininni um hann. Berið vitni um endurreisnina og endurleysandi fórn Jesú Krists.