2005
Yfirvegað líf
Apríl 2005


Yfirvegað líf

Eitt mesta viðfangsefni jarðlífsins er að koma jafnvægi á verkefni daglegs lífs.

Fyrir nokkrum árum, er ég og fjölskylda mín vorum í sumarfríi, bilaði bíllinn. Okkur létti heilmikið þegar bifvélavirkinn sagði okkur að bilunin væri ekki alvarleg, aðeins þyrfi að stilla blöndunginn til að ná fram réttu hlutfalli eldsneytis og súrefnis.

Í áranna rás hefur mér oft lærst mikilvægi þess að rétt hlutfall sé haft á öllu í lífinu, líkt og við á um bílvélina, til að jafnvægis gæti í lífi okkar. Séu viðfangsefni okkar forgangsröðuð reglulega og mat lagt á stefnu og takmark lífsins, getur það komið í veg fyrir tilfinningalega og andlega niðursveiflu.

Eitt mesta viðfangsefni jarðlífsins er að koma jafnvægi á verkefni daglegs lífs. Öllum finnst okkur einhvern tíma eins og við vitum ekki í hvorn fótinn á að stíga. Við getum jafnvel farið yfir mörkin í viðleitni okkar við að lifa staðfastlega eftir reglum fagnaðarerindisins og komið ójafnvægi á eigið líf með því að raska eigin ró og gera fjölskylduna ósamstíga.

Eiginkona mín, Wendy, þurfti að glíma við slíkar erfiðar aðstæður. Í fjögur ár gekk hún hreinlega fram af sjálfri sér við að vera fullkomin eiginkona og húsmóðir, óaðfinnanlegur kirkjuþegn, nágranni og samfélagsþegn. Hún upplifði aðeins þreytu og vonbrigði í stað gleði og ánægju. Það jók aðeins á vonbrigði hennar þegar leiðtogar og vinir, sem af góðum ásetningi, sögðu að hún gæti leyst öll verkefni sín af hendi, ef hún ætti aðeins næga trú. Hún skildi ekki ástæðu eigin þjáninga og vanlíðunar til hlítar, fyrr en hún hafði háð innri baráttu og tekist á við áhyggjur og þunglyndi. Það var erfiður tími, ekki aðeins fyrir hana heldur alla í fjölskyldunni. Við erum nú samhentari og höfum lært marga lexíuna af þessu. En við hefðum líklega ekki þurft að þola jafn mikla erfiðleika og raun bar vitni, ef við hefðum gert okkur betur grein fyrir nauðsyn þess að koma á stundlegu og andlegu jafnvægi.

Ég komst að því, er ég var biskup, að fleiri en eiginkona mín áttu við sama að stríða. Öldungur Dean L. Larsen, sem látið hefur af störfum sem einn hinna sjötíu, sagði: „Ég virðist æ oftar reka mig á það í samskiptum mínum við kirkjuþegna, sem einlæglega reyna að sporna gegn synd og gera sitt besta, að eigin skilningi, við að lifa eftir reglum fagnaðarerindisins, að þeir séu gleðisnauðir, vansælir og tilfinnanlega vonsviknir.“1

Benjamín konungur varaði þjóð sína við ofurkappi, jafnvel í því að gera gott: „Sjáið um, að allt þetta sé gjört með visku og reglu, því að ekki er ætlast til að maðurinn hlaupi hraðar en styrkur hans leyfir“ (Mósía 4:27).

Viðhalda stundlegu jafnvægi

Ójafnvægi hins stundlega og andlega er aldagamall vandi, sem virðist fara vaxandi nú á tíma mikillar veraldarhyggju. Öldungur M. Russell Ballard, í Tólfpostulasveitinni, sagði: „Hugsanlega þurfa þeir sem stöðugt viða að sér „því sem heimsins er,“ mest á því að halda að koma jafnvægi á eigið líf.“2 Auk þess gefur fjöldi góðra og gildra málstaða vísbendingu um hverju menn helga krafta sína á okkar tíma. Við getum, hvort heldur af eigingirni eða óeigingirni, aflað og eytt, grætt og greitt, vonað og veitt, aðeins til að fullnægja þeirri hjartans þrá að njóta þess sem lítið gefur af sér að öllu yfirstöðnu og upp renni ljós um síðir að við höfum vanrækt tilfinningar og anda. Spámaðurinn Jakob í Mormónsbók umorðaði orð Jesaja og sagði: „Eyðið ekki silfri fyrir það, sem er einskis virði, né erfiðið fyrir það, sem enga saðningu veitir“ (2 Ne 9:51; sjá Jes 55:2).

Auðvelt er að telja sér trú um að stöðug þjónusta, leiðtogastarf og ráðgjöf efli kallanir. Betra gæti hugsanlega verið að við inntum af hendi þýðingarmeiri þjónustu og leggðum rækt við aukið andríki á kostnað fundarhalda og verkefna. Spencer W. Kimball forseti (1895–1985) hvatti hina heilögu til að ástunda það sem hann nefndi „yfirvegað og heilnæmt líferni,“3 Styttra er síðan öldungur Richard G. Scott, í Tólfpostulasveitinni, sagði þessi orð: „Hafið í huga að yfirhlaða ekki dagskrána, hafið hana einfalda.“4 Við setjum líf okkar í ójafnvægi ef innri góðleiki fær ekki að njóta sín sökum ytri annríkis.

Oft neyðumst við til að taka erfiðar ákvarðanir í vali okkar á milli góðra og gildra hluta er við skerum niður stundleg verkefni. Gildi menntunar og menningar er mikilsvirði fyrir börnin til þroska og ræktunar hæfileika. Þjónusta í kirkju og samfélagi getur auðgað og verið gefandi. En jafnvel þegar við tökum til hugleiðingar slíka góða og gilda hluti verðum við, líkt og öldungur Ballard ráðlagði að „hafa í huga að of mikið af einhverju sem lífið hefur að bjóða getur komið ójafnvægi á hlutina og of lítið af því sem mikilvægt er getur haft sömu áhrif.“5 Það kann að vera eitt það versta sem við gerum fyrir börnin okkar að gefa þeim kost á að vera mikið í íþróttum, tónlistartímum eða öðru því sem krefst fjárútláts og viðveru frá fjölskyldunni. Eitt það mikilvægasta sem við kunnum að gera fyrir börn okkar á þessum tíma æðis og ólgu er að kenna þeim að tileinka sér „yfirvegað og heilnæmt líferni.“

Stundum fáum við ekki staðist margar þær kröfur sem gerðar eru til tíma okkar vegna þess að við kunnum að óttast að slíkt sé álitið sjálfselska. Samt dró frelsarinn sjálfur sig stundum í hlé frá krefjandi mannfjöldanum (sjá t.d. Lúk 5:16). Vissulega hefur það gert honum kleift að endurnýja þrótt sinn til að þjóna öðrum.

Til að viðhalda stundlegu jafnvægi getum við þurft að afþakka þau verkefni sem við ekki getum sinnt sökum tímaleysis, fjárútláts eða úthalds. Við þurfum ekki að fá sektarkennd eða telja okkur eigingjörn, ef við þurfum að safna kröftum að nýju, því við hljótum styrk af því að eiga einhverjar viðverustundir með ástvinum.

Viðhalda andlegu jafnvægi

Andlegt ójafnvægi getur haft skaðleg áhrif á öll svið lífsins, líkt og stundlegt ójafnvægi getur haft áhrif á tilfinningalega og andlega rósemi. Við þurfum að hafa í huga, er við viðhöldum andlegu jafnvægi, að Drottinn væntir þess ekki að við náum fullkomnun í jarðlífinu. Sú óraunhæfa krafa um að okkur beri að vera fullkomin í öllu nú þegar gengur þvert á sanna tileinkun fagnaðarerindisins og kemur í veg fyrir andríki. Þegar okkur tekst ekki að tileinka okkur hugmyndina um fullkomnun, hneigjumst við til ósanngjarnrar sjálfsgagnrýni og sektarkenndar eða að ganga fram af okkur sjálfum er við leggjum kapp á að fullkomnast.

Benjamín konungur ráðlagði að við hlypum ekki hraðar en styrkur okkar leyfði og á það ekki síður við um hið andlega en það stundlega, ef eitthvað þá enn frekar. Lykilhugtak í ráðgjöf Benjamíns konungs er „að starfa af kappi“ (sjá Mósía 4:27). Við þurfum að hafa í huga að andlegur vöxtur gerist að öllu jöfnu ekki í einu vetfangi, heldur á nokkrum tíma og með reynslu. Hinn góði boðskapur fagnaðarerindisins er sá að Guð ætlast sjaldnast til þess að við gerum eitthvað tilkomumikið eða óvenjulegt, heldur að við bætum okkur aðeins dag frá degi. Hann þekkir þrá okkar, staðfastan ásetning, stefnu okkar og verk.

Við þurfum stöðugt að meta andlega framþróun okkar til að viðhalda andlegu jafnvægi. Heiðarlegt mat á hjartans þrá okkar og lífsstefnu getur hjálpað okkur að sigrast á vanmáttarkennd. Öldungur Neal A. Maxwell (1926–2004), í Tólfpostulasveitinni, veitti þessa innblásnu leiðsögn:

„Við getum greint betur á milli guðlegrar óánægjutilfinningu og þeirrar tilfinningar sem djöfullinn læðir að, á milli sjálfsóánægju og sjálfsvanvirðingar. Við þurfum á þeirri fyrrnefndu að halda en verðum að sniðganga hina síðarnefndu, og hafa í huga að þegar samviskan talar er hún ekki aðeins að vanda um, heldur einnig að leiðbeina.

… Við getum ígrundað hversu langt við erum komin á leið á veginum til fullkomnunar, og það er yfirleitt lengra en við sjálf teljum…

… Við getum heiðarlega metið styrk okkar í einrúmi … Flest erum við líkt og óheiðarlegir bókarar sem þurfa á að halda „óháðum endurskoðanda.“ Sá sem vísað var burt á fyrsta stigi sínu, nýtur þess að við vanvirðum okkur sjálf. Sjálfsfyrirlitning er frá Satan, hún fyrirfinnst ekki á himnum. Við ættum vitanlega að læra af eigin mistökum og horfa til þess sem við höfum áður lært í stað þess að einblína á líðandi stund.“6

Eitt það sem kemur í veg fyrir andlegt jafnvægi er „falskt sjálfstraust.“ Robert L. Millet greindi frá hættunni sem felst í því að reiða sig algjörlega á sjálfan sig. Hann sagði suma kirkjuþegna, sem ekki ná eðlilegri framþróun og eru þjakaðir af sektarkennd, „leitast við að tvöfalda vinnuframlag sitt – yfirkeyra sig. Takist þeim ekki að sigrast á vandanum með núverandi framlagi, einsetja þeir sér að leggja harðar að sér. Of oft verður niðurstaðan sú að einkenni minnkandi andríkis gera vart við sig – örmögnun og stöðug vonbrigði. Öll vandamál verða ekki leyst með því að leggja harðar að sér, einkum í ljósi andlegra mála. Lausnin felst iðulega í því að þekkja eigin takmörk, gera allt sem við getum og snúa sér til Drottins til að hljóta hans hjálp.“7

Amúlek ber vitni um friðþæginguna.

Þegar eiginkona mín reyndi að rjúfa vítahring vonbrigða og ergelsis vinnuskyldunnar, sagði hin hljóða rödd anda Drottins að það sem hún gerði væri ekki þóknanlegt Drottni vegna þess að hún kæmi í veg fyrir fulla virkni friðþægingarinnar í lífi hennar. Það er ekki veikleikamerki að nýta sér friðþæginguna. Það sýnir öllu heldur hugrekki, trú og þakklæti. Friðþægingin gerir okkur ekki aðeins kleift að iðrast synda okkar, heldur einnig að njóta í ríkum mæli náðar frelsarans, sem eflir okkur og styrkir þegar við höfum einfaldlega ekki getu til að sigrast á mannlegum veikleikum okkar. Hún gerir okkur kleift að deila byrði okkar með frelsaranum og bæta upp hina mörgu misbresti okkar (sjá Matt 11:28–30; Eter 12:27).

Þeir sem ekki búa að stundlegu og andlegu jafnvægi geta ekki notið friðar. Þeir láta hrekjast og berast fram og aftur af hverjum vindi vonbrigða og ergelsis. En á líkan hátt og frelsarinn lægði vinda Galíleuvatns (sjá Matt 8:26), getur hann með áhrifum sínum komið rósemi á líf okkar og veitt okkur huggun og leiðsögn, ef við bara hægjum aðeins á og hlaupum ekki hraðar en eigin styrkur leyfir, en munum þó „sækja fram, staðfastir í Kristi“ (2 Ne 31:20).

Brent L. Top þjónar sem forseti Peoria-trúboðsins í Illinois.

HEIMILDIR

  1. “My Peace I Give unto You,” AMCAP Journal, 1986, 12–13.

  2. “Keeping Life’s Demands in Balance,” Ensign, maí 1987, 14.

  3. “Glimpses of Heaven,” Ensign, des. 1971, 39.

  4. „Kenningargrunnur aðildarfélaganna,“ alheimsþjálfunarfundur leiðtoga, 10. janúar 2004, 8.

  5. Ensign, maí 1987, 16.

  6. “Notwithstanding My Weakness,” Ensign, nóv. 1976, 14.

  7. Life in Christ (1990), 47–48.